Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Stuðlagil
Stuðlagil er einstök náttúruperla í Efri-Jökuldal á Fljótsdalshéraði sem á undanförnum árum hefur fest sig í sessi sem inn af áhugaverðustu áfangastöðum Austurlands.  Gilið var lengi lítt þekkt enda kom það ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og Hálslón var myndað en við það minnkaði vatnsmagnið í Jökulsá á Dal (Jöklu) til muna. Jökla er ein af lengstu jökulám landsins og teygir sig um 150 km leið frá Vatnajökli að sjó. Áin getur verið mjög straumhörð, jafnvel þótt ekki séu sýnilegir vatnavextir í henni. Að gefnu tilefni biðjum við alla sem heimsækja Stuðlagil að sýna varkárni og muna að þeir eru á eigin ábyrgð á svæðinu.  Stuðlagil státar af einni stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á landinu og er einstaklega myndrænt, sérstaklega þegar áin er tær. Blágræni liturinn á vatninu sem kallast á við litskrúðugt stuðlabergið gerir gesti agndofa. Þar sem um jökulvatn er ræða tekur áin breytingum milli árstíða svo í leysingum á vorin og þegar yfirfall er í Hálslóni fær hún á sig grábrúnan lit. Algengast er að yfirfall sé frá ágústbyrjun og fram í október en getur þó verið á öðrum tímum. Hægt er að fylgjast með vatnshæð lónsins hér. Gilið og áin eru þó alltaf mikilfengleg á að líta og ættu ferðamenn ekki að láta þennan einstaka stað fram hjá sér fara á ferðalagi um Austurland.  Að Stuðlagili erum 60 mín. akstur (52 km) frá Egilsstöðum og um 90 mín. akstur (112 km) frá Mývatni. Þegar beygt er af hringveginum tekur við akstur á malarvegi en hann er fær öllum bílum. Vegurinn er opinn allt árið en hafa ber í huga að akstursaðstæður geta breyst hratt yfir vetrartímann.  Hægt er að nálgast gilið úr tveimur áttum:  Útsýnispallur við Grund Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund sem stendur norðan megin við gilið. Þar eru bílastæði, salerni og örugg aðkoma að gilinu með stigum og pöllum en það tekur einungis um 5 mínútur að ganga niður á útsýnispallinn. Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því og fjölbreytt stuðlabergið nýtur sín. Athugið að ef ætlunin er að fara ofan í gilið þarf að ganga frá bílastæði í landi Klaustursels sem er sunnan megin við gilið.  Gönguleið frá Klausturseli Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Beygt er í átt að bænum Klausturseli og þar er að finna bílastæði á tveimur stöðum, annars vegar við brúna yfir Jöklu (um 10 km ganga báðar leiðir) og hins vegar við Stuðlafoss (um 5 km ganga báðar leiðir). Stuðlafoss er tignarlegur þar sem hann fellur fram af þverhníptu stuðlabergi og er þess virði að skoða á leiðinni niður í gilið. Það er síðan mögnuð upplifun að standa ofan í gilinu og upplifa ægifegurð íslenskrar náttúru. Hafa verður í huga að klettar og steinar geta verið blautir og þar af leiðandi sleipir svo fara þarf að öllu með gát ofan í gilinu.  Náttúran umhverfis Stuðlagil er ríkuleg en viðkvæm og eru gestir sérstaklega hvattir til að sýna svæðinu, dýralífi og náttúru virðingu og ganga snyrtilega um. Á tímabilinu 1. maí til 10. júní verpa fjölmargar heiðargæsir á svæðinu og þá er sérstaklega mikilvægt að halda sig innan merktra gönguleiða til að styggja ekki fuglana. Efri-Jökuldalur er landbúnaðarsvæði og á haustin reka bændur fé sitt ofan af fjalli og er það áhrifamikil sjón.   Yfir sumartímann er hægt aka áfram eftir vegi nr. 923 inn á hálendi Austurlands. Þar er hægt að fylgja ferðaleiðinni Um öræfi og dali sem liggur m.a. að Kárahnjúkum, Laugafelli og niður í Fljótsdal. Hluti leiðarinnar er aðeins fær vel búnum, fjórhjóladrifnum bílum.  Frekari upplýsingar um Stuðlagil og þjónustu í nágrenni þess má finna á heimasíðu Stuðlagils.  
Regnbogagatan á Seyðisfirði
Regnbogagatan á Seyðisfirði er sennilega eitt þekktasta kennileiti Austurlands og sagan að baki því hvernig hún varð til er ekki síður skemmtileg. Á sólríkum degi sumarið 2016 varð eitt fallegasta samfélagsverkefni sem við vitum um að veruleika, Regnbogagatan á Seyðisfirði. Íbúar voru farnir að bíða óþreyjufullir eftir að Norðurgata, sem segja má að sé Laugavegur þeirra Seyðfirðinga, yrði löguð og hresst við. Aðdragandinn var ekki langur því sama dag og hugmyndin fæddist komu bæjarbúar og bæjarstarfsmenn saman og máluðu hellulagða hluta götunnar í litum regnbogans og sköpuðu með því, óafvitandi, eitt mest heimsótta kennileiti á Austurlandi – Regnbogagötuna. Árið um kring heimsækja gestir alls staðar að úr heiminum Regnbogagötuna með það að markmiði að taka af sér „sjálfur“ í þessu skemmtilega umhverfi regnbogastrætisins og sögulegu aldamótahúsanna sem við hana standa. Við enda regnbogans trónir svo Seyðisfjarðarkirkja, sem er einnig gjarnan kölluð Bláa kirkjan. Íbúar koma reglulega saman yfir sumartímann til að endurmála regnbogann og er það gert í góðu samstarfi við sveitarfélagið. Öllum er velkomið að taka þátt í málningarvinnunni. Regnbogagatan er staðsett í miðbæ Seyðisfjarðar og mælum við eindregið með því að gestir heimsæki veitingahús, bari og verslanir sem staðsett eru við götuna. Má þar nefna hönnunarverslunina Blóðberg og Handverksmarkaðinn þar sem hægt er að kaupa seyðfirskt handverk. NorðAustur, einn vinsælasti sushi veitingastaður landsins er staðsettur á annarri hæð Hótel Öldunnar og á jarðhæðinni er veitingastaður hótelsins, sem framreiðir dýrindis mat og drykki. Handan götunnar er Café Lára , fullkominn staður ef þú ert í stuði fyrir „juicy“ borgara, steik eða fisk dagsins og mögulega einn eða tvo kalda með. Á hverju sumri fer fram Tónleikaröð Bláu kirkjunnar, sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austurlands. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem gefst færi á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarflytjendum landsins. Seyðisfjörður er hluti af ferðaleiðinni Flakkað um firði. Ef þú ert á ferðalagi um Austurland eða að skipuleggja næstu ferð mælum við hiklaust með því að þú kynnir þér sérsniðnar ferðaleiðir okkar um landshlutann. Góða ferð!
Hafnarhólmi
Í Hafnarhólma, sem stendur við bátahöfnina á Borgarfirði eystri , er afar gott fuglaskoðunarsvæði en hvergi á Íslandi er jafn auðvelt að komast í návígi við lunda. Lundinn est upp í hólmann um miðjan apríl ár hvert og elur þar unga sína fram í ágúst, þegar hann heldur út á haf aftur fyrir veturinn. Í Hafnarhólma er einnig allstórt æðarvarp auk þess sem þar má sjá ritu og fýl og aðrar fuglategundir sem halda til í og við hólmann. Borgfirðingar hafa undanfarin ár byggt upp góða aðstöðu fyrir fuglaáhuga- og útivistarfólk í kringum bátahöfnina. Fróðleikur um höfnina, fugla og náttúrufar eru til reiðu fyrir gesti og upp í hólmann liggja góðir göngupallar. Árið 2020 opnaði Hafnarhúsið þar sem meðal annars eru haldnar listasýningar og gestir geta sest inn á kaffihús og notið þess að fylgjast með hafnarstarfseminni og lífinu í Hafnarhólma.
Stórurð
Stórurð er ein mesta náttúruperla Íslands og nýtur vaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjalla í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má enn sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Í urðinni er einstök náttúra; sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, blágrænar tjarnir og sérstakur gróður. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn. Fimm merktar gönguleiðir liggja að Stórurð. Sú mest gengna er frá Vatnsskarði en einnig liggur leið frá Héraði, úr Njarðvík og tvær frá Borgarfirði eystri. Ekki er ráðlegt að ganga í Stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr en orðið er snjólétt. Gera þarf ráð fyrir í það minnsta sex klukkustundum í ferðina.   Powered by Wikiloc
Hafrahvammagljúfur
Hafrahvammagljúfur á Austurlandi er með stærstu og stórfenglegustu gljúfrum landsins. Þar sem gljúfrið er dýst eru um 200 metrar frá botni að brún og gljúfrið er um 8 kílómetrar að lengd. Merkt gönguleið er með fram gljúfrinu og niður að Magnahelli. Það þarf fjórhjóladrifsbíl til að keyra að upphafspunkti gönguleiðarinnar en hægt er að sjá hluta gljúfursins frá Kárahjúkum og þangað má komast á venjulegum fólksbíl.
Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík. Powered by Wikiloc
Stapinn í Stapavík
Í Stapavík, á milli Álftafjarðar og Hafnar, rís um 20 metra úr sjó tignarlegur stapi. Hann er landfastur og stendur rétt örlítið frá bjarginu. Þykir mörgum gaman að koma þarna að og er mál manna að stapinn og ströndin sunnan Álftafjarðar séu einstakar náttúruperlur og því ómissandi viðkomustaðir þegar farið er um svæðið.
Teigarhorn
Teigarhorn við Berufjörð er þekkt annars vegar fyrir merkilegar jarðmyndanir og hins vegar atvinnu- og menningarsögu. Jörðin öll var friðlýst sem fólkvangur árið 2013 og var þá friðlýst náttúruvætti innan fólkvangsins einnig stækkað. Á Teigarhorni er heilsárslandvarsla og unnið er að uppbyggingu sem raskar ekki svæðinu. Við Teigarhorn er einn merkasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heiminum og tengist myndun þeirra miklu berggangakerfi frá Álftafjarðareldstöðinni. Af geislasteinum sem þar finnast má nefna skólesít, stilbít, epistilbít, mordenít, laumontít og heulandít. Þar finnast auk þess aðrar steindir, s.s. seladónít, ópall, kalsedón, bergkristall, kalsít og silfurberg. Geislasteinar frá Teigarhorni hafa verið notaðir í ýmsar rannsóknir í meira en 200 ár. Þar á meðal eru lýsingar á kristalformum, efnasamsetningu, innri byggingu kristalla og ljósfræði, og eru sumar þeirra meðal fyrstu lýsinga á viðkomandi steindum. Sýni frá Teigarhorni voru seld til safna víða um heim á seinni hluta 18. aldar, en síðan 1976 hafa helstu fundarstaðir verið friðlýstir sem náttúruvætti. Á Teigarhorni stendur Weywadthús sem byggt var af Níels P.E. Weywadt á árunum 1880-1882, en hann var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Weywadthús hefur frá 1992 verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem hefur annast endurgerð þess. Dóttir Níels, Nicoline Weywadt, var fyrst íslenskra kvenna til að nema ljósmyndun og starfrækti ljósmyndastofu á Teigarhorni. Nicoline er auk þess talin hafa átt fyrstu saumavél á Austurlandi.
Tvísöngur
Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne og er hluti af listaverkaröð sem fjallar um form tónlistar. Verkið er staðsett í Þófunum ofan við Seyðisfjarðarkaupstað og var formlega opnað almenningi 5. september 2012. Verkið samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2. Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Myndlist Lukasar Kühne snýst um samspil rýmis og tíðni. Hann býr í Berlín og Montevideo, Uruguay, þar sem hann stjórnar deildinni “Form og hljóð” í myndlistarhluta Ríkisháskólans. Verkið á Seyðisfirði tengist verki hans “Cromatico” sem er útilistaverk í Tallinn í Eistlandi, byggt árið 2011. Sjá nánar: www.lukaskuehne.com Til að skoða og upplifa Tvísöng þurfa gestir að ganga upp malarveg, í 15-20 mín, sem er staðsettur beint á móti Brimberg fiskvinnslu.
Eggin í Gleðivík
Eggin í Gleðivík er útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson (f. 1942). Þetta eru 34 eftirmyndir eggja varpfugla sem verpa í nágrenni Djúpavogs. Verkið er sérstaklega gert fyrir staðinn og standa eggin á steyptum stöplum sem áður héldu uppi löndunarröri á milli bryggju og bræðslu. Mikið fuglalíf er á svæðinu og endurspegla eggin þá seterku tengingu sem Djúpivogur hefur við náttúruna.  Eggin í Gleðivík eru vinsæll áningarstaður ferðamanna og eru orðin eitt af kennileitum Djúpavogs.
Álftafjörður
Álftafjörður er nokkurs konar sjávarlón en Starmýrarfjörur, sem eru ekki breiðari en svo að stórbrim ganga yfir þær, skilja á milli lóns og hafs. Fjörðurinn er allmikill um sig, en tiltölulega grunnur og þorna stór svæði hans á fjöru. Nokkrar eyjar eru í honum og er Brimilsnes þeirra stærst. Fyrir sunnan fjörðinn rís Krossanesfjall, rúmlega 700 m hátt beint upp úr sjó en þar fyrir norðan er Mælifell og Sellönd. Þegar þessu sleppir taka við fjórir dalir sem ganga upp af Álftafirði, til vesturs. Þeirra syðstur er Starmýrardalur. Mynni dalsins er þröngt, en þegar innar kemur opnast hann lítillega en há fjöllm, Flötufjöll og Miðfell að sunnan og Selfjall að norðan, rísa hratt upp. Um dalinn liggur Selá og á hún upptök sín efst í Starmýrardal. Í dalsmynninu fellur áin um Sjónarhraun og þaðan í sveig til norðvesturst yfir Stekkjartún þar sem hún sameinast Starmýrará, sem á upptök sín í Hæðum. Þaðan fellur Selá í Krossavík við sunnanveðan Álftafjörð. Norðan Selfjalls liggur Flugustaðadalur, um 14 km. langur. Líkt og Starmýrardalur er hann þröngur og undirlendi lítið. Til austurs um dalinn fellur Suðurá / Flugustaðaá, sem á upptök sín í Bláskriðum í botni dalsins, undir Tungutindum og Flugustaðatindum. Undir Tungutindum við Tungusporð sameinast áin Hofsá, sem kemur ofan úr Hofsvötnum austan Hofsjökuls og saman falla þær til austurs um Hofshólma í vestanverðan Álftafjörð. Mynni Flugustaðadals er sunnanvert við árnar en mynni Hofsdals að norðanverðu, helst skipting þannig uns Tungutindar taka við og skilja dalina að, þannig að Flugustaðadalur teygir sig áfram í vestur en Hofsdalur sveigir sig til norðvesturs. Báðir dalirnir eru nokkuð vel grónir og er þar talsvert birkikjarr. Þegar upp dalina er komið blasa Jökulsgilsgrindur, Grísatungur og Hofsjökull (1280 m). Við norðanverðan Hofsdal taka við snarbrattar fjallshlíðar og er Selfjall (950 m) hæst tinda og handan fjallgarðsins er Geithelladalur, um 18 km langur. Há fjöll eru bejja vegna dalsins allt vestur fyrir Þrándarjökul (1248 m) að sunnanverðu, en þegar í dalbotninn er komið rís land hratt og hásléttan norðaustur af Vatnajökli, svokölluð Hraun, blasa við. Dalurinn er grösugur og töluverður skógur er þar. Um dalinn rennur Geithellaá, sem er talsvert vatnsfall og hefur meginupptök sín í stóru vatni inn á hrauni.. Fellur hún um Geithelladal í fossum og gljúfrum uns niður á láglendi er komið. Þaðan rennur hún um malareyrar og fellur í kvíslum í vestanverðan Álftafjörð. Mælt er með því að taka góðan tíma á ferð um Álftafjörð og Hamarsfjörð, til þess að njóta alls sem svæðið hefur upp á að bjóða. 
Blábjörg í Berufirði
Norðan megin í Berufirði er áhugavert náttúrufyrirbæri í fjöruborðinu. Skammt austan við bæinn Fagrahvamm, rís sérkennilegur klettahamar sem er ólíkur öllu öðru bergi þar um slóðir, bæði að lit og áferð. Klettahamarinn nefnist Blábjörg enda er á honum blá slikja. Hér er um að ræða flikruberg, um það bil 9 milljón ára gamalt. Klettahamarinn er vitnisburður um stórkostlegan atburð í jarðsögu Íslands en flikruberg myndast við gjóskuhlaup í miklum sprengigosum. Þegar gosmökkurinn verður þyngri en andrúmsloftið fellur hann saman svo úr verður gjóskuhlaup þar sem brennheit gjóskan þeytist á ógnarhraða niður hlíðar eldfjalla. Er hraðinn slíkur að ekki er á færi nokkurs manns að forða sér undan slíku. 
Búlandstindur
Búlandstindur er 1069 metra hátt basaltfjall í Djúpavogshreppi og er talinn vera um 8 milljón ára gamall. Búlandstindur er tákn Djúpavogs enda þykir fjallið almennt vera í hópi formfegurstu fjalla á Íslandi. Í austur af Búlandstindi gengur fjallsraninn Goðaborg sem er um 700 m yfir sjávarmáli og er sagt að þangað upp hafi menn burðast með goð sín strax eftir kristnitökuna til þess að steypa þeim fram af fjallsgnípunni. Aðrar heimildir segja Goðaborg sé hamrastallur hátt uppi í Búlandstindi, breiður og sléttur að ofan. Bratt og harðsótt er þar upp en sumir segja að í vatni sem er þar uppi hafi verið þvegin innylfi þeirra dýra sem þar var fórnað goðunum til árs og friðar.  Fjöldi fólks leggur leið sína á tindinn á hverju ári. Best er að fara eftir vegarslóða sem liggur meðfram Búlandsá sunnanverðri og alveg inn að stíflu sem er innarlega á dalnum. Þaðan er gengið beint upp grasi grónar brekkur og skriður innan við Stóruskriðugil í stefnu á skarð fyrir innan Búlandstind. Þar á eftir rekur leiðin sig sjálf þar til efsta tindi er náð. skoða má loftmynd með af stikaðri leið upp aá tindinn á heimasíðu Teigarhorns . Hátindurinn er mjór og brattur klettarimi og þar er útsýni feyki gott. Mjög mikilvægt er að gæta þess að ganga ekki of langt til austurs ef eitthvað er að skyggni eða ef hált er, því að austurhlíð fjallsins er þverhnípt og hömrótt. Gott GSM samband er á tindinum.
Djáknadys
Djáknadys er laus grafhýsi (dys) norðan megin við Hamarsfjörð. Sagan segir að á þessum stað hafi presturinn á Hálsi og djákninn á Hamri hist og þeir barist til dauða. Voru þeir báðir dysjaðir á staðnum og er nafn Djáknadysjar þannig tilkomið. Sagt er að sú kvöð hvíli á vegfarendum sem fara fram hjá dysinni í fyrsta sinn að þeir verði að kasta steinvölu í dysina, einni fyrir sig og einnig einni fyrir hvorn, hund og hest, ef með eru, annars muni þeir lenda í ógöngum. Aðrar sögur segja að leggja skuli þrjá steina í dysina. Um þetta er gamla vísan: Að flýta sér að fara af baki og fleygja steini yfir djákna aldurhniginn er það gæfa á ferðastiginn. Það skal tekið fram að í dag er dysin friðuð svo það er bæði bannað að bæta steinum við dysina og taka steina úr henni. 
Hamarsfjörður
Hamarsfjörður, sem liggur á milli Berufjarðar og Álftafjarðar, er algjör náttúruparadís. Fjörðurinn er einstaklega fallegur og býður upp á marga möguleika til útvistar. Melrakkanes skilur á milli Álftafjarðar og Hamarfjarðar og út af því er Melrakkanesós sem er þröngt sund á milli Stapaeyjar á Starmýrarfjörum og Þvottáreyja sem eru í mynni Hamarsfjarðar, en um ósinn falla firðirnir til hafs. Annað þröngt sund, Holusund, er austan megin Þvottáreyja og liggur þar að Búlandsnesinu. Við norðanverðan Hamarfjörð er Hálsfjall, en upp af firðinum til vestur gengur Hamarsdalur og eru efstu drög hans við rætur Þrándarjökuls. Í dalnum er að finna grösuga staði en þó er hann víða nokkuð uppblásinn. Um dalinn fellur Hamarsá, sem hefur meginupptök uppi á Hraunum og Hamarsdalsdrögum. Í hana blandast jökulvatn frá Þrándarjökli og getur hún oft verið æði vatnsmikil. Áin rennur fram af mörgum klettabríkum á leið sinni niður framdalinn og myndar fallega fossa. Þegar í dalbotninn er komið fer áin um eyrar, þar til hún rennur til sjávar í botni Hamarsfjarðar. Úti fyrir Hamarsfirði og Búlandsnesi á Papagrunni er stærsta eyja Austfjarða, Papey, um 2 ferkílómetrar að stærð. Á Búlandsnesi við sunnanverðan Berufjörð er kauptúnið Djúpivogur. Mælt er með því að taka góðan tíma á ferð um Hamarsfjörð og Álftafjörð, til þess að njóta alls sem svæðið hefur upp á að bjóða. 
Hálsaskógur
Hálsaskógur er á Búlandsnesi, skammt vestan við Djúpavog. Skógurinn er afar skemmtilegur en hann hefur verið grisjaður og þar settar upp trjátegundamerkingar og upplýsingaskilti, borð og bekkir. Í skógræktinni eru kurli lagðir göngustígar og svæðið hentar því einkar vel fyrir þá sem kjósa léttar gönguferðir.
Svörtu sandarnir við Djúpavog
Svæðið á Búlandsnesinu utan við byggðina á Djúpavogi er kjörið til gönguferða, til að upplifa fegurð og ævintýri, leika sér, fræðast og njóta fjarri erli hversdagsins í anda hæglætisstefnunnar cittaslow. Þar er einstaklega fallegt og fjölbreytt landslag, litbrigði í svörtum sandi, grónum hólmum og spegilsléttum tjörnum, auðugt fuglalíf og fullt af sögu. Þar er einnig mjög fagurt útsýni til fjalla og hafs. Hefja má gönguna með því að ganga frá byggðinni á Djúpavogi í austur með viðkomu á Bóndavörðu. Þaðan er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Til landsins eru margir áberandi tindar og fjöll og er Búlandstindur einna fegurstur og nafnkunnastur, hár og brattur píramídi við sunnanverðan Berufjörð. Út til hafsins blasa við eyjar og sker eins og perlur á bandi og er Papey þeirra stærst og kunnust. Í umhverfi Djúpavogs vekja sérstaka athygli áberandi kambar eða háar og þunnar klettabríkur, tröllahlöð, sem standa samsíða og setja ævintýralegan svip á umhverfið. Þetta eru berggangar, löngu storknuð hraun sem fylltu sprungur í eldsumbrotum fyrir milljónum ára. Vegna þess hve bergið í þessum berggöngum er hart hefur ísaldarjökullinn ekki náð að jafna þessa kamba við jörðu.   Halda má göngunni áfram frá Bóndavörðu í norðaustur eftir Langatanga eða fara beint til austurs niður að ströndinni og svo áfram til suðurs að Grunnasundi og yfir það út á sandinn. Grunnasund gæti þurft að vaða eða taka krók inn með því og fara fyrir enda þess. Einnig er hægt að ganga beint út á sandinn til suðurs veginn sem liggur að flugbrautinniog þá leið má einnig aka áleiðis. Umhverfið á Búlandsnesinu er mjög breytt frá því sem var á fyrri tímum þegar hólmarnir á sandinum sem enn bera eyjanöfn t.d. Úlfsey, Hvaley, Sandey og Hrísey og fleiri voru raunverulegar eyjar með bátgengum sundum á milli. Vötnin sem bera enn nöfn voga svo sem Breiðivogur og Fýluvogur voru þá raunverulegir vogar eða víkur. Eyjarnar eru nú landfastar og sundin orðin að sandbreiðum eða votlendi en landris og mikill sandburður hefur valdið því. Ætla má að gróðurfar hafi einnig tekið breytingum þegar sandurinn sótti á.    Sunnan Grunnasunds liggur leiðin áfram í Úlfsey. Áður fyrr þegar sund var milli hennar og meginlandsins var róið þar í gegn á bátum. Smátt og smátt grynntist sundið og heimildir segja að það hafi verið orðið fullt af sandi fyrir meira en 100 árum eða nokkru eftir 1880. Á Úlfsey er sagður vera fornmanns haugur, sem líklega hefur heitið Úlfur. “Enginn maður má þar svo fæti á land stíga, að hann syngi ekki eitt vers við hauginn, gjöri þar bæn sína eða leggi stein í hauginn,” segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Haugur sá sem talinn er vera Úlfshaugur er hálfgróin grjótþúst norðaustast á Úlfsey.   Frá Úlfsey er hægt að ganga til suðausturs í Hvaley. Á innanverðri Hvaley var kallað Lundabakkar. Syðst í klettunum upp af Lundabökkum er Hellir, talinn náttúrumyndun en hann hefur fyllst af sandi. Hann var að hluta grafinn út fyrir nokkrum árum síðan en hefur aftur fyllst af sandi. Talið er að fólk sem nytjaði eyjuna hafi hafst við i hellinum. Í eyunni voru slægjur og eggjatekja auk þess sem að þar var fjárhús.     Áfram er haldið göngu með viðkomu í Kálki þar sem eru hústóftir og síðan út í Sandey. Mögulegt er að klöngrast ofan í fjöruna í Sandey ef það er fjara og skoða helli sem þar er að finna. Til að loka hringnum er hægt að ganga meðfram flugvellinum upp að vötnunum Fýluvogi og Breiðavogi en fyrst má taka krók til vesturs yfir sandinn í Hrísey og Kiðhólma. Samkvæmt heimildum var búið í Hrísey fyrr á tímum og sjást þar tóftir. Heimildir eru um að á árabilinu 1500 fram undir 1600 hafi verið verslunarhöfn í Fýluvogi sem þá var skipgengur vogur. Þar hafi þá verið aðalhöfnin við Berufjörð en áður hafði höfnin verið í Gautavík á norðurströnd fjarðarins. Það voru þýskir kaupmenn frá Bremen, Brimarkaupmenn, sem versluðu við Fýluvog en Hamborgarkaupmenn versluðu við Djúpavog hinum megin á nesinu. Með tilkomu einokunarverslunarinnar árið 1602 lagðist verslun Þjóðverja af og eftir það voru Danir með verslun við Djúpavog. Talið er sennilegt að vörum hafi verið skipað upp á svonefnda Selaklöpp eða Selabryggjur sem eru klappir við Fýluvog. Sandburðurinn hefur gerbreytt aðstæðum og allar minjar sem eru sýnilegar við voginn núna eru taldar mun yngri en frá tíma hafnarinnar en frekari fornleifarannsókn gæti mögulega varpað ljósi á þetta. Fýluvogur hefur verið kallaður ýmsum nöfnum Fýluvogur, Fýluvík og Fúlivogur og Fúlavík. Einhverjir hafa velt fyrir sér hvort þarna hafi raunverulega verið daunillt t.d vegna rotnandi þangs. En aðrir telja að nafnið komi frá Dönum og hafi upphaflega verið kennt við fugla þ.e framburðinn á dönsku.     Við Fýluvog standa nú fuglaskoðunarhús til að auðvelda fólki að fylgjast með fjölbreyttu og iðandi fuglalífi þar. Votlendi,tjarnir og fjörur á Búlandsnesi eru afar áhugaverð fuglasvæði og því tilvalin til fuglaskoðunar einkum á vorin þegar farfuglar koma og fuglavarp stendur yfir en einnig er umferð farfugla um svæðið á haustin. Þarna er fjöldinn allur af vaðfuglum og mjög fjölbreytt andavarp t.d. brandönd og skeiðönd. Einnig hefur flórgoði verpt við tjarnirnar. Fyrir utan fjölda varpfugla hafa margir vaðfuglar og endur viðkomu á svæðinu vor og haust m.a. áhugaverðir flækingsfuglar. Aukvotlendisfugla sem eru áberandi á Búlandsnesinu má sjá sjófugla við ströndina, mófugla á holtum og móum og sé farið upp í Hálsaskóg, skógarreit innan við Djúpavog má rekast á glókollinn minnsta fugl Evrópu og fleiri skógarfugla. Hálsar eru annars einnig tilvalið svæði til gönguferða og náttúruskoðunar. þar er fjölbreytilegt og óvenjulegt landslag með sérkennilegum berggöngum.   
Þvottaá
Þvottá er syðsti bær í Álftafirði. Hallur Þorsteinsson, Síðu-Hallur, sem var meðal kunnustu landsmanna á söguöld, bjó þar í kringum aldamótin 1000. Hann tók við Þangbrandi presti og kristniboða einn vetur og tók skírn ásamt heimafólki sínu í ánni við bæinn og síðan var hún kölluð Þvottá. Neysluvatn bæjarins kemur úr Þangbrandsbrunni, þar sem Þangbrandur er sagður hafa haldið tíðir í tjaldi sínu á Mikjálsmessu. Þar hlýddi heimafólk Síðu-Halls á messu og skírðist síðan daginn eftir. Við brunninn er Þangbrandstótt, sem er friðlýst. Þvottá var kirkjustaður fram á árið 1754 og prestsetur um skeið. Þar sést ennþá móta fyrir kirkjugarði. Mælifell (487m) er niðri við sjó og Sellönd eru nokkru norðar. Þetta svæði er prýtt litskrúðugu ríólíti og tröllahlöðum. Á þessum slóðum fann Björn Kristjánsson merki um ýmsa málma, s.s. gull, platínu o.fl., einkum í Geitursgili. Þessar bergmyndanir eru tengdar Álftafjarðareldstöðinni fornu, sem er að mestu horfin undir Álftafjörð.  Við Þvottá er minnisvarði um kristnitökuna og þar er skemmtilegt útivistarsvæði.
Æðarsteinsviti
Æðarsteinsviti stendur á Æðarsteinstanga. Hann dregur nafn sitt af fallegum kletti sem rís uppúr sjónum fyrir utan tangann og heitir Æðarsteinn. Vitinn er innan við Gleðivík og var byggður 1922. Þægileg ganga (1 km) er að Æðarsteinsvita út frá Tankinum á Djúpavogi.
Bóndavarðan
Austan við kauptúnið á Djúpavogi er allshár ás sem heitir Bóndavörðuhraun og efst á honum Bóndavarða. Þar er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Frá Bóndavörðunni er hægt að ganga "út á land" í átt að svörtu söndunum.
Tankurinn
Tankurinn er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslaln á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík á Djúpavogi en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými. Með uppbyggingu á aðstöðunni fjölgar tækifærum fyrir gesti að upplifa menningu á svæðinu sem og aukið tækifæri fyrir listamenn af svæðinu að koma verkum sínum á framfæri. Sýnendur á sýningunni Rúllandi sjóbolta hafa sýnt verk sín í sýningarrýminu. Einnig eru fjölmargir listamenn sem hafa sett upp sjálfstæð verk sín í Tankinum allan ársins hring. Ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði með þessum hætti og er Tankurinn á Djúpavogi því einn sinnar tegundar á landinu. Tankurinn er dæmi um birtingarmynd hugmyndarfræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja og endurnýtingu gamalla auðlinda í nýjar.
Sveinsstekksfoss
Sveinstekksfoss, Fossárfoss eða Nykurhylsfoss Nykurhylsfoss er neðsti fossinn í Fossá. Fossinn er um 15 metra hár og fellur hann niður um þröngt gljúfur þar sem áin kastast til, skiptist í flúðir og hyli og endar að lokum í Nykurhyl sem er um 9 metra djúpur þar sem mest er.  Vatnssvið Fossár er um það bil 113 km2. Aðalupptökin eru í Líkárvatni, þaðan fellur áin um 20 km leið í yfir 30 fossum út Fossárdal til sjávar í Berufirði. Rennsli árinnar er ákaflega misjafnt eftir árferði og tíðarfari og getur hún á skömmum tíma breyst úr litlum og sakleysislegum læk í hina mestu forynju sem engu eirir. Mælingar hafa verið gerðar á vatnsrennsli Fossár í yfir 50 ár. Nykurhylur er undir neðsta fossinum. Þar var nykur (Fossbúi), sem lengi var reynt að losna við en það tókst ekki fyrr en skírnarvatni var hellt í ána eftir skírn á bæ í dalnum. Nykur var vatnavera sem birtist oft í gervi hests eða ungs manns. Nykur bjó í vatni og reyndi að draga ungar stúlkur og börn í vatnið til sín. en hann mátti ekki heyra nafnið sitt og ekki þoldi hann að gert væri krossmark. Þá hvarf hann.
Bjólfur og snjóflóðavarnargarðar Seyðisfjarðar
Bjólfur er eitt af hinum tignarlegu fjöllum Seyðisfjarðar, 1085 m. að hæð. Ofarlega í fjallinu, í um 600 m. hæð eru snjóflóðavarnargarðar, en frá þeim er stórfenglegt útsýni yfir Seyðisfjörð. Á sumrin er hægt að keyra að varnargörðunum á fjórhjóladrifnum bíl, en það er einstakt tækifæri fyrir þá sem treysta sér ekki í fjallgöngur til þess að njóta útsýnisins. Vegurinn liggur frá Fjarðarheiði og akstur að varnargörðunum tekur um 15-20 mínútur.
Brimnes
Brimnes er eyðibýli sem stendur við norðanverðan Seyðisfjörð. Það stendur undir Brimnesfjalli sem virkar sem skjólgarður fyrir norðanáttinni og er hæst upp af Brimnesbænum þar sem heitir Ytra Rjúpnafell, 771 metra hátt. Illkleif og há klettabelti eru í efri hluta fjallsins en neðar eru hlíðarnar grænar, vaxnar kjarri og lyngi. Utar á skaganum er landið bratt og þar eru urðargil sem eru slæm yfirferðar. Útnesjagróður setur þar svip sinn á landið. Gönguferðút á Brimnes í góðu veðri er ógleymanleg. Náttúran er stórbrotin og útsýni til hafs og yfir fjörðinn fagurt. Það er einnig tilvalið að hugsa til sögu búsetu á þessum afskekkta stað. Best er að hefja gönguna við Selstaði en þangað liggurvegur nr. 951 frá Seyðisfirði. Vegarslóði var ruddur út í Brimnes áður en það fór í eyði en er ekki ekinn lengur. Sjóleiðin var lengst af aðalaðdráttaleið ábúenda.   Á Brimnesi var stórbýli á fyrri tíð. Þar þóttu landgæði til búskapar ágæt og sjósókn var stunduð. Nokkur smábýli vorueinnig í nágrenni við Brimnes, m.a. Brimberg sem er nálægt því sem vitinn stendur núna og Borgarhóll um einn km innan við Brimnes. Á Brimnesi var búið fram til 1961 en þá brann íbúðarhúsið. Þar var stunduð mikil útgerð á síðustu árum 19. aldar og í upphafi 20. aldar og myndaðist hverfi (Brimnesbyggð). Brimnesbærinn sjálfur stóð upp af Brimnestanga en skammt utan hans upp af Útvogi var byggt íshús 1894, annað af tveim fyrstu íshúsum landsins. Brimnesviti var byggður 1906 og stendur nokkru utan við Brimnesbæinn. Heimafólk á Brimnesi stundaði útgerð en einnig var fjöldi aðkomubáta sem sóttu þar sjó yfir sumarið og höfðu Brimnesbændur tekjur af þjónustu við þá. Allmörghús sem tengdust útgerðinni voru byggð á þessum árum en flest voru einungis notuð yfir sumartímann. Á tímabili undir lok 19. aldar reru allt að 40 árabátar frá Brimnesbyggð yfir sumarið, stór hluti þeirra var frá Færeyjum. Þessi útgerðlagðist af eftir að vélbátar urðu almennir þar sem ekki skipti lengur jafn miklu máli að það væri stutt að sækja á miðin. Tóftir gamalla bygginga má enn sjá á svæðinu. Skammt utan við bæinn er örnefnið Klausturskemmutangi semvitnar um að Brimnes var fyrr á tímum í eigu Skriðuklausturs í Fljótsdal.   Það er ekki bara fallegt, friðsælt og búsældarlegt á Brimnesi. Þar gat náttúran og lífsbaráttan líka verið hörð. Árið 1732 hljóp snjóflóð á Brimnesbæinn og létust þar níu manns en aðrir níu björguðust. Sumar heimildir geta þess að níu dögum síðar hafi fundist fjögurra ára stúlka á lífi í rústunum. Þessi vetur hefur líklega verið snjóþungur og var kallaður Brimnesvetur eftir þetta. Árið 1740 fórst bátur sem m.a. flutti sýslumann einn sem lét þar lífið. Báturinn strandaði á skeri sem síðar va nefnt Sýslumannsnaggur og er við Sléttanesvog um 1 km utan við Brimnesvita. Síðan var það að morgni 1. maí 1922 í logni og þoku að strandferðaskipið Sterling strandaði á þessu sama skeri. Allir um borð, um 50 farþegar og 30 manna áhöfn björguðust. Fólkið komst í land á björgunarbátum og bryti skipsins bar fram veitingar á svonefndum Ostabölum sem eru þar ofan við. Síðan fengu farþegar að sækja föggur sínar í skipið áður en danska varðskipið flutti þá til hafnar á Seyðisfirði. Vörum og ýmiskonar skipsmunum var bjargað úr skipinuen það eyðilagðist á strandstað. Til eru góðar heimildir um þetta strand, listi með nöfnum farþega og áhafnar og skrá um muni sem björguðust úr skipinu og voru seldir á uppboði. Þessi atburður vakti mikla athygli enda voru sjóflutningar lífæð fyrir byggðirnar á þessum tíma, þar sem strandferðaskipin fluttu fólk, póst- og vörur um landið. Sterling var meðal fyrstu skipa sem íslenska ríkið átti og var á þessum tíma eina strandferðaskipið.                      
Brimnesviti
Brimnesviti stendur á Brimnesi sem skagar fram í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Um 10 km. akstur er frá miðbæ Seyðisfjarðar út að Selsstöðum en þaðan liggur 5,5 km. gönguleið eftir gömlum jeppaslóða út á Brimnes. Fyrr á tímum var ein öflugasta útgerð landsins á Brimnesi og þar má enn líta tóftir gamalla bygginga í einstaklega fallegu umhverfi.  
Dvergasteinn
Dvergasteinninn stendur í flæðamálinu neðan við samnefnda jörð á norðurströnd Seyðisfjarðar er fyrrum var kirkjustaður. Til er þekkt þjóðsaga um ferðalag Dvergasteins á eftir kirkjunni, þegar hún var flutt frá suðurströndinni norður yfir fjörðinn. Steinninn er sérkennilegur að lögun og stingur í stúf við umhverfið. Hann er auðfundinn og aðgengi gott.
Fjarðarselsvirkjun
Fjarðaselsvirkjun er elsta starfandi virkjunin á Íslandi, stofnsestt 1913 og lítt breytt frá upphafi. Það út af fyrir sig gerir hana mjög forvitnilega, en auk þess er hún ein af þremur til fjórum virkjunum sem mörkuðu afgerandi mest tímamót á öldinni. Meðal annars var hún fyrsta riðstraumsvirkjunin og frá henni var lagður fyrsti háspennustrengurinn. Ennfremur var hún aflstöð fyrstu bæjarveitunnar. Fyrir 90 ára afmælið 2003 ákvað RARIK að leggja áherslu á þaðö vægi sem virkjunin hefur í raforkusögu landsins og hafa hana til sýnis fyrir innlenda og erlenda gesti. Í því skyni var sett upp minjasýning í stöðvarhúsinu og stöðvarhúsið og næsta nagrenni lagfært. Nokkrum árum áður var virkjunarsvæðið endurskipulagt. Til þess að heimsækja Fjarðaselsvirkjun vinsamlegast hafið samband við Upplýsingamiðstöðina á Seyðisfirði. Nálægð virkjunarinnar við Seyðisfjörð eykur einnig gildi hennar fyrir bæjarbúa og til dæmis eru hvammurinn og gilið hluti af útivistarsvæði Seyðfirðinga. Frekari upplýsingar: Sími: +354 472 1122 / +354 472 1551 Netfang: info@sfk.is www.fjardasel.is
Gufufoss
Gufufoss er fallegur foss innarlega í Seyðisfirði. Nafnið er tilkomið vegna mikillar gufu sem fossinn gefur frá sér og sveipar hann ákveðinni dulúð. Vegurinn yfir Fjarðaheiði liggur rétt við fossinn og er aðgengi að honum mjög gott.
Seyðisfjarðarkirkja
Bláa Kirkjan á Seyðisfirði er orðin ein af þekktustu byggingum á Íslandi. Með hinn sérstaka bláa lit og fallega byggingarstíl hefur kirkjan skapað sér sess sem vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega eftir að gatan sem að henni liggur var máluð í regnbogalitunum. Kirkjan var upphaflega á Dvergasteini og 1882 var heimilað með lögum að flytja hana á Vestdalseyri. Fyrst var kirkjan reist á hjalla ofan við byggðina á Vestdalseyri en hún fauk um koll í ofsaveðri 1894. Kirkjan var endurreist niðri á eyrinni og stóð þar til 1920 er hún var flutt á núverandi stað í hjarta Seyðisfjarðar. 1989 skemmdist kirkjan í eldi sem kviknaði þegar unnið var að endurbótum á húsinu. Pípuorgel sem sett var upp árið 1987 gjöreyðilagðist í eldinum en í dag er í kirkjunni samskonar orgel og það sem eyðilagðist. Bláa Kirkjan er opinn fyrir gesti yfir sumartímann.
Skálanes
Skálanes er náttúruparadís við mynni Seyðisfjarðar. Fær vegur er nær alla leið en óbrúuð á er á leiðinni. Þegar að Skálanesi er komið gefst færi á að komast í kynni við náttúruna í návígi, sérstaklega fuglalífið, þar sem þúsundir fugla af um 40 mismunandi tegundum verpa á svæðinu. Í Skálanesi er náttúru- og meningarsetur og þar er starfrækt vísindaleg rannsóknarstöð á sviði náttúru- og menningar. Skálanes hefur hlutverk eftirlitsstöðvar í alþjóðlegu neti vísindarannsóknarstöðva sem kallast INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic).
Vestdalur
Gönguleiðir upp að Vestdalsvatni, að skúta Fjallkonunnar, inn Stafdal, upp á Bjólf, yfir í Loðmundarfjörð eða yfir á Hérað liggja um Vestdal. Sumar leiðanna eru stikaðar, aðrar eru merktar inn á kortið „Gönguleiðir á Víknaslóðum“ sem fæst í upplýsingamiðstöðvum. Vestdalur og Vestdalseyri eru á náttúruminjaskrá fyrir sérstæðan gróður og menningarminjar. Hluti leiðarinnar er gömul póst- og verslunarleið, ein sú fjölfarnasta á Austurlandi á árunum 1880-1910 og víða má sjá fallegar gamlar veghleðslur og vörður. Við Vestdalsvatn fundust fyrir tilviljun bein, nælur frá Víkingaöld og mikið perlusafn sumarið 2004. Við rannsókn kom í ljós að beinin og perlurnar tilheyrðu þrjátíu ára gamalli konu frá því um 940. Fundurinn telst vera með merkari fornleifafundum hérlendis.
Álfaborg
Rétt hjá þorpinu Bakkagerði á Borgarfirði eystri er tignarleg klettaborg sem kölluð er Álfaborg. Álfadrottning Íslands er sögð búa í Álfaborginni en margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn, eru til. Margir staðir eru tengdir þessum sögum um samskipti álfa og manna, t.d. er Kirkjusteinn á Krækjudal inn af Borgarfirði kirkja borgfirskra álfa.   Þægileg gönguleið liggur upp á Álfaborgina en þar er hringsjá sem útskýrir allan fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð. Auk þess er tjaldsvæðið á Borgarfirði við Álfaborgina.  
Bakkagerðiskirkja
Skammt frá Álfaborginni frægu í útjaðri þorpsins á Borgarfirði eystri stendur Bakkagerðiskirkja sem vígð var árið 1901. Altaristafla kirkjunar er verk hins kunna listmálara Jóhannesar S. Kjarvals sem ólst upp í Geitavík á Borgarfirði. Altaristaflan, sem máluð var árið 1914, var gjöf kvenfélagsins á staðnum til kirkjunnar og er fjallræða Krists viðfangsefni hennar. Umhverfið er þó borgfirskt, Dyrfjöllin í baksýn og kunn andlit heimamanna þess tíma sjást í áheyrendahópnum. Altarismyndin er ein af þekktustu verkum Kjarvals og dregur að fjölda ferðamanna á hverju ári.  
Breiðavík
Brúnavík
Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar eystri og er hluti gönguleiðakerfisins um Víknaslóðir. Gönguleiðin er alls um 12 km, þægileg og fögur dagleið. Gengið er frá bílastæði við Hafnarhólma og um Brúnavíkurskarð (360 m) austan Geitfells. Nokkuð bratt er niður að bæjarstæðinu og þarf að vaða eða stikla Víkurána ef farið er út á sandinn. Áin er oftast greiðfær niðri við sjó og vel þess virði að ganga niður í fjöru því hún er einstaklega litfögur. Til baka er gengið inn víkina, hvoru megin ár sem óskað er, inn að Brotagili en þar skammt frá er göngubrú yfir ána. Frá Brotagili er genginn vegslóði yfir Hofstrandarskarð (320 m). Gangan tekur um 5-6 klst. eftir vörðuðum leiðum og vegslóða.
Dyrfjöll
Dyrfjöll eru ein af perlum Austurlands. Fjöllin eru þekkt fyrir stórt skarð í miðju fjallgarðsins sem eru eins og risastórar dyr og draga fjöllin nafn sitt af þessu skarði. Það er erfið ganga upp á topp Dyrfjalla og ættu aðeins vanir göngumenn að leggja í ferðu upp á toppinn. Hægt er að fá leiðsagnar vanra fjallaleiðsögumanna upp á topp ef þess sé óskað. Útsýnið af toppnum er stórkostlegt og sést meðal annars mjög vel yfir hina fallegu náttúruperlu Stórurð þaðan.   Powered by Wikiloc
Húsavík
Lindarbakki
Lindarbakki er lítið fallegt torfhús í miðju Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Húsið er vinsælt myndefni ferðamanna og ómissandi viðkomustaður þegar fjörðurinn er heimsóttur. Lindarbakki er upphaflega byggður árið 1899 en hlutar hans hafa verið endurbyggðir.  Árið 1979 festi Elísabet Sveinsdóttir frá Geitavík á Borgarfirði, jafnan kölluð Stella, kaup á Lindarbakka ásamt eiginmanni sínum Skúla Ingvarssyni. Þau hjónin gerðu húsið upp og notuðu sem sumarhús og allt fram til ársins 2020 eyddi Stella sumrum sínum á Lindarbakka, þá orðin níræð.  
Loðmundarfjörður
Loðmundarfjörður er fallegur eyðifjörður norðan við Seyðisfjörð. Líklega var byggð í firðinum allt frá landnámi og vitað er að 143 einstaklingar bjuggu þar árið 1860 en þeim fór fækkandi eftir það. Loðmundarfjörður fór í eyði árið 1973. Enn má sjá heilmikla minjar um byggð á svæðinu og enn stendur lítil kirkja við Klyppstað. Í dag er Loðmundarfjörður vinsæll viðkomustaður göngufólks enda er fjörðurinn hluti af Víknaslóðum. Hægt er að keyra til Loðmundarfjarðar seinni hluta sumars, en nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. 
Njarðvíkurskriður og Naddi
Áður en vegur var lagður milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra árið 1949, var einungis hægt að fara þar á milli fótgangandi eða á hestbaki. Njarðvíkurskriður voru áður fyrr afar erfiðar yfirferðar, einkum á vetrum vegna snjóflóðahættu og hættu á aurskriðum í stórrigningum. Við slíkar aðstæður gátu vegfarendur verið þar í lífshættu. Í skriðunum eru þverhníptir klettar með sjónum en ofan við þá brattar lausaskriður, sundurgrafnar af giljum. Akfær bílvegur frá Egilsstöðum um Vantsskarð til Borgarfjarðar var opnaður 1954. Var vegurinn þá færður talsvert ofar í skriðurnar en gamli reiðvegurinn. Bundið slitlag var svo lagt á Njarðvíkurskriður árið 2019. Þjóðsagan um óvættinn Nadda er til í fleiri en einni útgáfu. Sagan segir að á dögum niðja Björns skafins hafi að mestu lagst af þjóðleiðin um Njarðvíkurskriður vegna óvættar. Var hann að hálfu í mannslíki en að hálfu í líki dýrs og hélt sig í gili sem síðan er kallað Naddagil. Sat óvættur þessi þar fyrir mönnum, einkum er dimma tók, réðist á þá og drap marga. Að endingu tókst bónda nokkrum að fyrirkoma Nadda og hindra honum í sjó fram þar sem Krassjaðar heitir. Þar í skriðunum stendur nú kross með latneskri áletrun og ártalinu 1306 sem hefur lengi verið fólki ráðgáta. Hefur margt verið skrifað um krossinn og ýmsar skoðanir komið fram um aldur hans og tilefni þess að hann var settur upp og alltaf endurnýjaður. Krossinn hefur þó alltaf verið tengdur Nadda og jafnvel stundum nefndur Naddakross, samanber þessari gömlu vísu: Nú er fallinn Naddakross. Nú er fátt er styður oss, en - þú helgi klerkakraftur krossinn láttu rísa upp aftur.
Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu. Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.    
Eiðar
Eiðar voru stórbýli til forna, höfðingjasetur og kirkjustaður. Eiða er raunar fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði. Eiðakirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar 1197. Samkvæmt samkomulagi Þorláks helga 1179 við eigendur kirkjustaða á Austurlandi var kirkjan á Eiðum bændakirkja og átti Eiðajörð að hálfu á móti staðarbónda.  Þessi kirkjuskipan á Eiðum hélst allt til 1882 er Múlasýslur keyptu Eiðastól og þar var stofnaður búnaðarskóli sem tók við hlutverki Eiðabónda um forræði kirkjunnar. Árið 1883 var stofnaður þar bændaskóli en honum var svo breytt í héraðsskóla -Alþýðuskólann á Eiðum - árið 1918 sem starfaði sleitulaust en þó með breytingum í áranna rás allt til 1995 þegar hann var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum. Allt frá lokun skólans hafa verið uppi ýmis áform um að finna þessum sögufræga stað nýtt og verðugt hlutverk.  Kirkjumiðstöð Austurlands rekur vinsælar sumarbúðir fyrir börn við Eiðavatn og ferðaþjónusta er vaxandi á staðnum en þar er rekið gistihús og tjaldsvæði auk ýmissa afþreyingarmöguleika.
Eyvindará
Eyvindará er mikil og falleg á sem sprettur af þverám sem falla frá Fagradal, Gagnheiði og Fjarðarheiði. Áin fellur í bugðum um láglendi Héraðs og sameinast loks Lagarfljóti. Munnmælasögur herma að haugur Helga Droplaugarsonar sé í landi Eyvindarár, bæ samnefndum ánni, og er hann friðlýstur. Einnig eru þar friðlýstar tóftir sem taldar eru vera af bænum hans.  Á heitum sumardögum hafa ungmenni notað Eyvindarána til sunds og dýfinga, enda er svæðið kjörið til útivistar af öllu tagi.
Gálgaás
Gálgaás var forn aftökustaður Héraðsbúa, rétt austan við kirkjuna á Egilsstöðum. Staðurinn gegnir stóru hlutverki í frægu sakamáli frá liðinni tíð, því þar var Valtýr á Eyjólfsstöðum tekinn af lífi fyrir meintan stuld og morð. Hélt hann þó fram sakleysi sínu allt til skapadægurs. 14 árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr. Mætti hann einnig örlögum sínum á Gálgaási. Lengi voru bein hans sjáanleg undir ásnum, því óðar blésu þau upp, hversu sem urðað var yfir.
Geirsstaðakirkja
Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Árið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands sem leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústir lítillar torfkirkju fundust auk langhúss og tveggja minni bygginga. Kirkjan er talin vera af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni og líklega ætluð heimilisfólki á bænum til nota. Endurbygging kirkjunnar fór fram 1999-2001 og er hún opin almenningi.
Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn og skógurinn þekur um 740 ha lands.Land og skógur hefur umsjón með skóglendi víða um land fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir skógar eru kallaðir þjóðskógar. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring. Í marga er auðvelt að komast eins og Hallormsstaðaskóg og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins og nokkrar hjólaleiðir. Allar leiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða. Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi, Atlavík og Höfðavík. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað. Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.Á gönguleiðinni milli tjaldsvæðanna er hægt að fara í fjársjóðsleit og taka þátt í Skógarævintýri sem er leikur spilaður með Turfhunt-appinu. Víða um skóginn eru áningarstaðir og góð grillaðstaða er í Stekkjarvík og leiktæki fyrir börn. Trjásafnið á Hallormsstað er einstakt á norðurhveli jarðar. 
Héraðssandur
Héraðssandur
Húsey
Náttúrufar við Héraðsflóann er einstakt og heimsókn í Húsey er hrein náttúruupplifun. Þar liggja hundruð sela á sandeyrunum við Jöklu, lómur verpir í tugatali og þar er að finna stærsta kjóavarp í heimi. Skúmurinn gerir svo reglulega loftárásir á ferðamenn! Á staðnum er rekin ferðaþjónusta og merktar gönguleiðir liggja niður á sléttuna utan við Húseyjarbæinn. Húsey er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°38.775-W14°14.670 Powered by Wikiloc
Kárahnjúkar
Kárahjúkar eru móbergshnjúkar austan Jökulsár á Brú gegnt Sauðárdal.  Hærri hnjúkurinn er 835 metrar. Jökulsá fellur að Kárahnjúkum í miklu gljúfri, Hafrahvammagljúfri sem er eitt hið dýpsta og hrikalegasta á landinu. Megingljúfrið er um 5 km. langt en allt er gilið frá Desjará að Tröllagili um 10 km. Við Kárahnjúka hefur verið reist mikil virkjun sem sér álverinu á Reyðarfirði fyrir orku. Kárahjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins. Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir. Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl.
Kárahnjúkavirkjun
Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins. Virkjunin var reist til þess að sjá álverinu á Reyðarfirði fyrir raforku. Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir. Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl. 
Kjarvalshvammur
Kjarvalshvamm er að finna við vegarbrún nr. 94 skammt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Kjarval dvaldi þarna í tjaldi í tvö ár í kringum 1948. En bóndinn gaf honum skikann og reisti kofann. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði margar af frægustu myndum sínum. Þetta er eina fasteignin sem Kjarval átti. Þarna er líka bátaskýli fyrir Mávinn, bát sem Kjarval sigldi eitt sinn niður Selfljótið til Borgarfjarðar.  
Lagarfljót og Lögurinn
Lagarfljót er stærsta vatnsfall Austurlands og eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Eyjabakkajökli til Héraðsflóa, eða um 140 km leið. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið, gjarnan kallað Lögurinn, nær frá Fljótsbotninum í Fljótsdal og út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Það er um 53 ferkílómetrar að stærð og er meðaldýpi um 51 m en mesta dýpi 112 m. Sagt er að þar séu heimkynni Lagarfljótsormsins. Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að skrímsli hafist við í Lagarfljóti, Lagarfljótsormurinn og er fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum frá 1345. Stóð mönnum mikill stuggur af ormi þessum fyrr á öldum og þótti það boða ill tíðindi ef hann sást skjóta kryppum upp úr vatninu. Hin síðari ár hefur minna borið á honum en þó eru þess dæmi að nýlega hafi náðst sæmilega skýrar ljósmyndir af honum. Áningarstaðir eru víða kringum fljótið og þar er kjörið að staldra við og líta eftir orminum.
Lagarfljótsormurinn
Lagarfljótið er eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Vatnajökli til Héraðsflóa. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið nær úr Fljótsbotninum út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Er það um 53 km2 að stærð og meðaldýpi er 51 m, en mesta dýpi 112 m. Í þessum hluta Fljótsins eru heimkynni Lagarfljótsormsins. Fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum er frá 1345. Þá sáust ýmist stórar eyjar eða upp skaut lykkjum með sundum á milli og virtist mörg hundruð faðma langt. Vissu menn ekki hvaða undur þetta voru því hvorki sást haus né sporður. Árið 1589 greinir frá því að ormurinn hafi skotið kryppunni upp úr vatninu. Var kryppan svo mikil að hraðskeitt skip með þöndum seglum gat siglt undir hana. Þegar skrímsli þetta svo slengdi sér aftur niður í Fljótið varð af svo mikill gnýr og landskjálfti að allt umhverfið nötraði. Næstu aldir voru umbrot ormsins tíð. Þótti það jafnan vita á illt ef itl hans sást. Á 20. öld sást til ormsins í ýmsum myndum vítt og breitt meðfram Fljótinu og lýsingar sjónarvotta vitnuðu um ávalar kryppur sem risu upp úr vatnsyfirborðinu og færðust óháð straumi og vindum. Einnig sást til ormsins á dýptarmæli þar sem hann kúrði langt undir vatnsyfirborðinu. Í febrúar 2012 náði bóndinn á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal myndum af torkennilegu fyrirbæri sem virtist synda upp Jökulsá í Fljótsdal sem fellur í Lagarfljót. Myndband þetta dreifðist hratt um heimsbyggðina á öldum internetsins og milljónir manna skoðuðu það. Áningarstaðir með upplýsingaskiltum um orminn eru á nokkrum stöðum við Lagarfljót. Kjörið er að staldra við á þeim og vita hvort ormurinn lætur ekki á sér kræla.
Laugavalladalur
Laugavalladalur er gróðurvin skammt vestan Jökulsár á Dal, um 20 km. norðan Kárahnjúka. Þar er unnt að lauga sig heitri laug og skola svo af sér í náttúrulegu steypibaði þar sem lækurinn fellur fram af kletti í litlum fossi. Gæta skal sérstakrar varúðar vegna ofhitnunar vatnsins á úrkomulitlum tímum.
Magnahellir
Ekið frá Kárahnjúkastíflu eftir góðri jeppaslóð að norðan út Lambafell að krossgötum við Laugavelli. Farið er niður að bílaplani við Dimmugljúfur. Þar er upplýsingaskilti og upphaf merktrar gönguleiðar, sem liggur í Hafrahvamma og Magnahelli. Hólkurinn með gestabók og stimpli er í hellinum. Það var siður Brúarbænda að fornu að hafa sauðfé sitt inni í hvömmum nokkrum við Jökulsá á vetrum í helli þeim, sem þar er og kallaður er Magnahellir. Tekur hann nafn af Magna, bónda, sem fyrrum bjó á Brú, og fann fyrstur upp á að hafa þar sauðfé á vetrum um tíma. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°99.252-W15°71.683   Powered by Wikiloc
Möðrudalur
Möðrudalur er hæsta byggða ból á Íslandi, 469 metra yfir sjávarmáli. Bæinn er að finna á hásléttunni norðan Vatnajökuls. Möðrudalur var landnámsjörð og kirkjustaður allt frá fyrstu dögum kristni. Í dag er blandaður búskapur stundaður í Möðrudal og afurðir búsins nýttar í ferðaþjónustu staðarins. Í Möðrudal er lítil snotur kirkja sem reist var af ábúandanum Jóni Stefánssyni í minningu konu sinnar. Sonur hans Stefán Jónson, Stórval, gerði seinna garðinn frægan með myndum sínum af Herðubreið. Listin blundar enn í afkomendum Jóns bónda og myndir Írisar Lindar prýða betri herbergi Fjalladýrðar. Nokkrar gönguleiðir eru í boði á svæðinu og hægt að nálgast kort í upplýsingamiðstöð. Þar er einnig hægt að sjá kvikmynd sem sýnir svipmyndir frá gosinu í Holuhrauni 2014. Úr Möðrudal er stutt í margar óviðjafnanlegar náttúruperlur eins og Herðubreiðarlindir, Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, Jökuldalsheiði Stuðlagil og Stórurð. Tjaldsvæði opin frá júní fram í miðjan september.
Rjúkandi
Rjúkandi er fallegur foss sem fellur tignarlega niður nokkra klettastalla, fram af heiðarbrún og að þjóðvegi 1. Aðgengi að fossinum er mjög gott en stutt ganga er frá bílastæði sem er við þjóðveginn þar sem hann liggur um Jökuldal. 
Skessugarður
Skessugarður er mikill ruðningshryggur gerður úr ferlegu, dílóttu stórgrýti og liggur þvert yfir Grjótgarðsháls frá vestri til austurs, vestan við Grjótgarðsvatn ytra. Garðurinn er um 300 m langur og allt að 7 m hár á kafla að utanverðu, en stórgrýtisdreif af sömu bergtegund er á hálsinum báðum megin við garðinn. Garðurinn markar stöðnunar - eða framrásarstig Brúarjökuls í lok síðasta jökulskeiðs. Skessugarður mun vera næstum einstæður meðal jökulgarða að því leyti að hann er gerður úr stórgrýti einu saman - fínefni vantar - en meðal einkenna jökulgarða er það einmitt að í þeim ægir saman misgrófu efni, frá jökulleir til stórgrýtis. Skýring þessa er sennilega sú að vatnsflóð hafi skolað burt fíngerðara efninu eftir að garðurinn myndaðist og stórgrýtið eitt orðið eftir. Þessi grjóthryggur er því merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri sem á fáa eða enga sína líka, hérlendis eða erlendis. Nafnið tengist gamalli tröllasögu; tvær skessur áttu að hafa hlaðið garðinn sem landmerki á milli sín. Sæmileg bílaslóð er af gamla Möðrudalsveginum um hálstaglið inn að vatninu og garðinum.
Sandfell Skriðdal
Sandfell er mikilfenglegt, hrygglaga líparítfjall er minnir á tjaldbúð því hlíðar þess eru með jöfnum halla, klettalausar að mestu. Á Sandfelli eru tveir toppar, dökkleitir. Gengið frá skilti við þjóðveg 1 rétt innan við Gilsá. Gengin slóð í fyrstu, inn að girðingu en síðan er gott að ganga upp með girðingunni. Því næst skal halda upp hrygginn norðan í fjallinu og áfram beint af augum upp á topp 1157 m. Sandfell er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°05.637-W14°30.298 Powered by Wikiloc
Selskógur
Selskógur er útivistarsvæði austan Egilsstaða handan við Eyvindará. Um skóginn liggja stígar í fallegu umhverfi. Hann er kjörinn til útivistar allt árið og hentar vel hvort sem þú ert á leið í göngutúr, hjólatúr eða á gönguskíði. Á veturnar er lagt gönguskíðaspor í skóginum sem er upplýst á kvöldin. Þú finnur upplýsingar hér um ástand sporsins.  Stígarnir eru flestir greiðfærir og liggja ýmist í gegnum skóglendi eða meðfram ánni. Auk þeirra eru torfærari stígar sem gaman er að kanna, fótgangandi eða á hjóli. Gönguleiðirnar um skóginn eru nokkrar og ættu allir að geta fundið leið við hæfi. Víða eru áningarstaðir með bekkjum þar sem gott er að tylla sér niður og njóta umhverfisins. Í skóginum er einnig leiksvæði þar sem er að finna leiktæki fyrir börn á öllum aldri og grillaðstöðu. Þar er einnig stór grasflöt þar sem hægt er að fara í fótbolta eða leiki.  Einnig er útileikhús í skóginum en þar eru reglulega haldinir tónleikar og leiksýningar undir berum himni.  Fáðu þitt eintak af korti af Selskógi hér. 
Sænautasel
Sænautasel á Jökuldalsheiði er einstakur staður við friðsælt fjallavatn, Sænautavatn. Sænautasel er gamalt heiðarbýli en húsið var endurbyggt 1992 fyrir tilstuðlan Jökuldalshrepps og síðan hefur verið tekið þar á móti gestum á sumrin. Í Sænautaseli er hægt að fræðast um aðbúnað og lífsbaráttu þeirra sem bjuggu í heiðinni. Boðið er upp á leiðsögn um bæinn og sagðar sögur af fólkinu og búskaparháttunum á heiðarbýlum sem voru í byggð langt fram á 20. öld. Þar er hægt að fá léttar veitingar að þjóðlegum hætti. Opið er alla daga í júní-ágúst.     Til að fara í Sænautasel er hægt að aka frá þjóðvegi nr. 1 norðan við Skjöldólfsstaði inn á Möðrudalsveg nr. 901 og beygja síðan eftir stuttan akstur inn á Brúarveg nr 907. Eða aka frá Brú á Jökuldal um Brúarveg nr. 907 til norðurs að Sænautaseli. Frá Sænautaseli er stutt í Skessugarðinn örlítið vestar á Jökuldalsheiði og einnig er stutt niður í Stuðlagil á Jökuldal.       Rétt fyrir miðja nítjándu öld hófst landnám í Jökuldalsheiði. Byggðin í heiðinni var að hluta reist á rústum fornbýla ogselja. Í heiðinni er einstaklega fallegt í sumarblíðu og erfitt að gera sér í hugarlund hvernig var að eiga þarna heima allan ársins hring. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu byggingarskeiði voru Háreksstaðir árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði, það síðasta 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og ábúðartíminn var mislangur; frá einu ári á einhverjum þeirra og upp í nærfellt heila öld í Sænautaseli. Ástæður þess að heiðarbýlin byggðust voru einkum plássleysi í sveitum þar sem allar bújarðir voru í ábúð og þéttbýlismyndun og atvinnuuppbygging við sjávarsíðuna var enn lítil. Fólk hafði því fáa valkosti aðra en að vera vinnufólk eða íhúsmennsku hjá öðrum.     Búskaparskilyrði í heiðinni voru ekki á allan hátt slæm þótt víðast væri snjóþungt, enda flest býlin í yfir 500 metra hæð.Hlunnindi eins og silungsveiði í vötnum, rjúpna-, gæsa-, anda- og álftaveiði og grasatekja voru mikil búbót. Þá voru engjalönd sums staðar ágæt a.m.k. ef vel áraði. Hreindýr gengu þarna, en stofninn var þó í sögulegu lágmarki upp úraldamótunum 1900. Um 120 manns munu hafa búið í heiðinni samtímis þegar mest var. Í Öskjugosinu 1875 varð byggðin í heiðinni fyrir miklu áfalli og lagðist af tímabundið á öllum bæjum nema þeim nyrstu. Margir sem fluttust burtfóru síðar til Ameríku. Nokkrum árum síðar byggðust nokkur býlanna að nýju og hélst byggð fram á fyrstu tugi 20. aldar. Síðasta býlið fór í eyði 1946.    Sænautasel byggðist fyrst 1843 og þar var búið til 1943 að undanskildum 5 árum eftir Öskjugosið. Þar var lengst búið allra býla í heiðinni eða samtals í 95 ár. Búskapur á heiðum við erfiðar aðstæður og mikla einangrun hefur orðið íslenskum rithöfundum innblástur að skáldverkum. Margir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu Sjálfstætt fólk. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratug 20. aldar. Heiðabúskapur var einnig viðfangsefni rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Jóns Trausta.  Gamlar sagnir sögðu að sést hefði sænaut í Sænautavatni og fylgdi jafnvel sögunni að það væru undirgöng úr vatninu til sjávar sem sænautin notuðu.    
Unaós
Unaós er kenndur við Una Garðarsson landnámsmann, en Landnáma segir hann hafa tekið land í ósnum. Landnám hans náði alla leið að Unalæk.  Uni lagði skipi sínu að hamri sem er innar við Selfljót og heitir Knörr.  Við ströndina við ósa Selfljóts er Krosshöfði og við hann Óshöfn sem varð löggild höfn  árið 1902.  Var vörum skipað þar upp uns bílfær vegur var lagður til Borgarfjarðar eystri árið 1950.  Þurfti ládauðan sjó og háflæði til að uppskipun væri kleif. Fróðlegt er að koma að Unaósi og skoða sig um. Góðar gönguleiðir eru í nágrenninu t.d. merkt gönguleið í Stapavík. 
Vallanes
Vallanes er kirkjustaður frá fornu fari og margir þjóðþekktir einstaklingar hafa gengið þar um götu.  Þar er stunduð lífræn ræktun undir vörumerkinu "Móðir Jörð". Grænmeti og korn er ræktað og úr því unnin matvæli og hvers kyns olíur.  Í jaðri jarðarinnar eru "Iðavellir" sem státa af góðri aðstöðu til hestamennsku og litlu félagsheimili samnefndu. 
Þerribjarg og Múlahöfn
Nokkuð brött og erfið ganga. Ekið er upp á Hellisheiði, beygt til hægri (ef komið er að austan) og ekið eftir vegarslóða þar til komið er efst í Kattárdalsdrög. Vegarslóðinn liggur niður í Kattárdal. Þar er skilti þar sem bílum er lagt og gangan hefst. Stikað er frá skiltinu fram á brún ofan við Múlahöfnina. Þaðan (65°45.144-W14°21.964) liggur kindagata niður fyrir brúnina niður skriðuhrygg og niður í Múlahöfn. Höfnin er frábær náttúrusmíð gerð af meistarans höndum, umgirt bríkum og dröngum á tvo vegu. Múlahöfn var gerð löggilt verslunarhöfn 1890 en aðeins var skipað þar upp einu sinni þar sem erfitt var að koma vörum til byggða. Frá Múlahöfninni er síðan gengið meðfram sjónum í norður út á ytri tangann. Þar blasir við Þerribjarg og þar undir Langisandur. Hólkurinn með gestabók og stimpli er við stíginn niður á sandinn. Allir ættu að ganga sandinn undir Þerribjargi áður en haldið er til baka. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. Powered by Wikiloc