Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vitar eru forvitnilegar og myndrænar byggingar sem gaman getur verið að skoða. Hlutverks síns vegna eru þeir áberandi og standa þannig að þeir sjást vel af sjó. Vitar eru tákn um öryggi og von enda jókst öryggi sjómanna fyrr á tímum til muna þar sem þeir voru byggðir. Það má því segja að vitar tengist sögu Austurlands sterkari böndum en aðrar tegundir bygginga þar sem byggð á Austurlandi myndaðist í kringum fiskveiðar og útgerðir.

Kolbeinstangaviti
Kolbeinstangaviti er tæpir 20 metrar á hæð og stendur á glæsilegum stað í landi Leiðarhafnar í Vopnafirði. Vitinn var byggður árið 1942 en ekki tekinn í notkun fyrr en tveimur árum síðar þegar ljóstæki fengust loksins í hann frá Englandi. Vitinn er húðaður með ljósu kvarsi og hrafntinnumulningur er á dökku flötunum. Kolbeinstangaviti er eini vitinn sem hefur haldið þessu útliti, þ.e. hann hefur ekki verið kústaður með þéttiefni. Gönguleiðin frá þorpinu að vitanum er falleg og létt, þar sem hún liggur eftir malarveginum út í Leiðarhöfn og að vitanum. Þaðan er fallegt útsýni yfir þorpið og út fjörðinn. Gamall námuvegur sem liggur af veginum út í Leiðarhöfn er skemmtileg gönguleið út á Kolbeinstangann. Tangasporðurinn býður upp á glæsilegt landslag sem er kjörið til útivistar og er mjög vinsælt á meðal heimamanna.
Streitisviti
Fyrst var reistur viti á Streitishorni árið 1922 er þar var settur upp járngrindarviti sem smíðaður hafði verið á járnsmíðaverkstæði ríkisins í Reykjavík. Þessi viti var starfræktur fram til ársins 1958 en var þá fjarlægður þar sem byggður hafði verið viti á Hlöðu, skeri í sunnanverðu mynni Breiðdalsvíkur. Hlöðuvitinn féll um koll í miklu óveðri og sjógangi í janúar 1984 og var núverandi Streitisviti byggður í staðinn það ár. Á Streitishvarfi er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Þar er stutt en falleg gönguleið sem gefur innsýn í jarðsögu Austfjarða og sýnir mjög vel berggangana sem eru einkennandi fyrir svæðið. Þó gönguleiðin sé stutt er vel hægt stoppa í nokkra klukkutíma, leika sér og njóta náttúrunnar sem svæðið hefur upp á að bjóða.
Hafnarnesviti
Vitinn á Hafnarnesi lætur ekki mikið yfir sér en gönguferð þangað er vel þess virði að fara. Á Hafnarnesi eru heilmiklar minjar um byggð sem lagðist að mestu af á ofan verðri 20. öld en fór alveg í eyði um 1970. Flestir urðu íbúarnir um 100 talsins. Árið 1939 var Franski spítalinn fluttur út á Hafnarnes og stóð þar um 70 ára skeið. Vegleg byggingin myndar nú kjarnann í frönsku húsaþyrpingunni á Fáskrúðsfirði.
Dalatangaviti
Á Dalatanga eru tveir vitar. Þann eldri lét útgerðarmaðurinn Ottó Wathne byggja árið 1895. Hann kostaði sjálfur byggingu vitahússins sem er hlaðið úr blágrýti með steinlími á milli. Danska vitamálastofnunin lagði svo til ljóstæki, steinolíulampa og spegil til að magna ljósið. Að byggingu lokinni tók landssjóður rekstur vitans að sér. Yngri vitinn var reistur árið 1908 og er enn í notkun. Ekið er út á Dalatanga úr Mjóafirði. Þegar Dalatangi birtist er því líkast sem maður sé staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Á Dalatanga er verðurathugunarstöð og hafa þar farið fram reglubundnar veðurmælingar frá árinu 1938.
Æðarsteinsviti
Æðarsteinsviti stendur á Æðarsteinstanga. Hann dregur nafn sitt af fallegum kletti sem rís uppúr sjónum fyrir utan tangann og heitir Æðarsteinn. Vitinn er innan við Gleðivík og var byggður 1922. Þægileg ganga (1 km) er að Æðarsteinsvita út frá Tankinum á Djúpavogi.
Brimnesviti
Brimnesviti stendur á Brimnesi sem skagar fram í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Um 10 km. akstur er frá miðbæ Seyðisfjarðar út að Selsstöðum en þaðan liggur 5,5 km. gönguleið eftir gömlum jeppaslóða út á Brimnes. Fyrr á tímum var ein öflugasta útgerð landsins á Brimnesi og þar má enn líta tóftir gamalla bygginga í einstaklega fallegu umhverfi.  
Vattarnesviti
Á Vattarnesi stendur Vattarnesviti en það hefur verið viti á Vattarnesi frá árinu 1912. Appelsínuguli vitinn sem þar stendur í dag var byggður árið 1957. Þægilegar göngueiðir liggja um nesið svo það hentar einstaklega vel til útivistar.   Vattarnes skagar út í mynni Reyðarfjarðar, sunnan megin og á þvi stendur Vattarnesviti. Fyrir tíma Fáskrúðsfjarðarganga lá leiðin á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar um Vattarnes en leiðin þykir einstaklega falleg. Á góðum degi er það vel þess virði að velja lengri leiðina fram yfir göngin.