Regnbogagatan á Seyðisfirði
Regnbogagatan á Seyðisfirði er sennilega eitt þekktasta kennileiti Austurlands og sagan að baki því hvernig hún varð til er ekki síður skemmtileg.
Á sólríkum degi sumarið 2016 varð eitt fallegasta samfélagsverkefni sem við vitum um að veruleika, Regnbogagatan á Seyðisfirði. Íbúar voru farnir að bíða óþreyjufullir eftir að Norðurgata, sem segja má að sé Laugavegur þeirra Seyðfirðinga, yrði löguð og hresst við. Aðdragandinn var ekki langur því sama dag og hugmyndin fæddist komu bæjarbúar og bæjarstarfsmenn saman og máluðu hellulagða hluta götunnar í litum regnbogans og sköpuðu með því, óafvitandi, eitt mest heimsótta kennileiti á Austurlandi – Regnbogagötuna. Árið um kring heimsækja gestir alls staðar að úr heiminum Regnbogagötuna með það að markmiði að taka af sér „sjálfur“ í þessu skemmtilega umhverfi regnbogastrætisins og sögulegu aldamótahúsanna sem við hana standa. Við enda regnbogans trónir svo Seyðisfjarðarkirkja, sem er einnig gjarnan kölluð Bláa kirkjan. Íbúar koma reglulega saman yfir sumartímann til að endurmála regnbogann og er það gert í góðu samstarfi við sveitarfélagið. Öllum er velkomið að taka þátt í málningarvinnunni.
Regnbogagatan er staðsett í miðbæ Seyðisfjarðar og mælum við eindregið með því að gestir heimsæki veitingahús, bari og verslanir sem staðsett eru við götuna. Má þar nefna hönnunarverslunina Blóðberg og Handverksmarkaðinn þar sem hægt er að kaupa seyðfirskt handverk. NorðAustur, einn vinsælasti sushi veitingastaður landsins er staðsettur á annarri hæð Hótel Öldunnar og á jarðhæðinni er veitingastaður hótelsins, sem framreiðir dýrindis mat og drykki. Handan götunnar er Café Lára , fullkominn staður ef þú ert í stuði fyrir „juicy“ borgara, steik eða fisk dagsins og mögulega einn eða tvo kalda með.
Á hverju sumri fer fram Tónleikaröð Bláu kirkjunnar, sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austurlands. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem gefst færi á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarflytjendum landsins.
Seyðisfjörður er hluti af ferðaleiðinni Flakkað um firði. Ef þú ert á ferðalagi um Austurland eða að skipuleggja næstu ferð mælum við hiklaust með því að þú kynnir þér sérsniðnar ferðaleiðir okkar um landshlutann. Góða ferð!