Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands
Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, var stofnað 1998 af hópi áhugamanna um menningu og listir sem kallaði sig Skaftfellshópinn. Stofnár listamiðstöðvarinnar er einnig dánarár myndlistarmannsins Dieters Roth (1930-1998) en hann gegndi stóru hlutverki í menningarflóru Seyðfirðinga allt frá því að hann hóf að venja komur sínar í fjörðinn upp úr 1990. Skaftfellshópurinn samanstendur að miklu leyti af fólki sem naut mikilla og góðra samvista við Dieter og er tilurð miðstöðvarinnar sprottin úr þeim frjóa jarðvegi er hann átti þátt í að skapa á Seyðisfirði.
Starfsemin er staðsett í gömlu og glæsilegu timburhúsi að Austurvegi 42 á Seyðisfirði og var gjöf frá hjónunum Karólínu Þorsteinsdóttur og Garðari Eymundssyni. Í dag má þar finna sýningarsal og litla verslun á annarri hæð, gestavinnustofu fyrir listamenn á þriðju hæð og bistró á jarðhæð sem einnig geymir bókasafn bókverka og listaverkabóka.
Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu. Miðstöðin þjónar jafnframt sem vettvangur fyrir listamenn og áhugafólk um listir til að skiptast á hugmyndum, taka þátt í skapandi samræðum og verða fyrir áhrifum hvert af öðru í umhverfinu. Í miðstöðinni er öflug sýninga- og viðburðadagskrá, starfræktar gestavinnustofur fyrir listamenn og boðið upp á fjölþætt fræðslustarf. Jafnframt er hægt er að skoða verk eftir alþýðulistamanninn Ásgeir Jón Emilsson (1931-1999) sem er að finna í Geirahúsi og er í eigu og umsjá Skaftfells. Hægt er að skoða húsið eftir samkomulagi. Einnig er hægt að skoða útilistaverkið Tvísöngur sem er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en verkið vann hann í samvinnu með Skaftfelli árið 2012.
Skaftfell hlaut Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni árið 2013.
Nánari upplýsingar um sýningarhald, aðra starfsemi Skaftfells og opnunartíma má finna á skaftfell.is
Einnig er hægt að senda fyrirspurn á skaftfell@skaftfell.is
View
Sláturhúsið
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs var stofnuð árið 2005 og er hlutverk hennar að ýta undir skapandi starfsemi,hvetja til þátttöku almennings og efla lista- og menningarstarf á Austurlandi. Menningarmiðstöðin er lykilstofnun við framkvæmd menningarstefnu sveitarfélagsins og leggur sérstaka áherslu á sviðslistir (performing arts).
Önnur áhersla miðstöðvarinnar er lista og menningaruppeldi barna og ungmenna og því er áhersla á að sem flest verkefni hafi fræðslugildi auk hins listræna og menningarlega gildis.
Þó áhersla sé lögð á sviðslistir þá sinnir MMF / Sláturhús einnig öðrum listgreinum, meðal annars með myndlistarsýningum, kvikmyndasýningum, tónleikum auk annarra menningarviðburða.
Í Sláturhúsinu er einnig gestaíbúð og vinnuaðstaða fyrir listafólk.
MMF er til húsa í Sláturhúsinu við Kaupvang.
View
Menningarstofa Fjarðabyggðar
Menningarstofa Fjarðabyggðar starfar í Fjarðabyggð og undir henni Tónlistarmiðstöð Austurlands, en hún er miðstöð tónlistar á Austurlandi og er leiðandi í fræðslu og framþróun listgreinarinnar í landshlutanum.
Menningarstofa Fjarðabyggðar var sett á laggirnar árið 2017 og hlutverk hennar er að styðja við og efla menningarstarf í Fjarðabyggð á breiðum grundvelli. Öflugt og fjölbreytt menningarlíf er grundvallarþáttur í að gera Fjarðabyggð að góðum stað til að búa á, og þar leikur Menningarstofa lykilhlutverk.
Menningarstofa er vöktunaraðili menningarumhverfis í Fjarðabyggð sem felst í að greina þarfir ólíkra hópa samfélagsins og koma til móts við þarfir og langanir sem flestra. Menningarstofa starfar með fjölbreyttum aðilum í menningar- og listalífinu og styður þá og eflir til góðra verka. Menningarstofa leggur áherslu á að tryggja aðgengi allra íbúa svæðisins að menningu og listum, óháð búsetu, uppruna og þjóðfélagsstöðu. Menningarstofa Fjarðabyggðar er tengiliður við grasrótarsamtök á sviði menningar, svo sem áhugaleikfélög og kóra og stuðlar að góðu aðgengi til viðburðarhalds í húsnæði á vegum sveitarfélagsins.
Menningarstofa er tengiliður leik,- grunn- og tónlistarskóla, safna og annarra stofnana sveitarfélagsins við fagaðila úr skapandi greinum. Menningarstofa vinnur markvisst að auknu aðgengi að skapandi námi og starfi í samstarfi við fræðslustjóra, íþrótta- og tómstundarfulltrúa og Safnastofnun Fjarðabyggðar. Menningarstofa er vakandi fyrir því að draga svið og stofnanir að borðinu, leiða samstarf og leggja til samstarfsverkefni þar sem við á.
Tónlistarmiðstöð Austurlands var stofnuð 2001 og starfar samkvæmt samþykkt frá 2018 en í dag fer Menningarstofa Fjarðabyggðar fyrir starfseminni.
Tónlistarmiðstöð/Menningarstofa er samstarfsaðili annarra menningarmiðstöðva á Austurlandi varðandi stefnumótun í málefnum tónlistar fyrir landshlutann og samstarfsverkefna á breiðum grunni.
Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar Austurlands er að:
a) Standa vörð um tónlistarstarf, tónlistarfólk og tónlistarskóla. Hlúa að vaxtarsprotum á sviði tónlistar, svo sem starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Austurlands.
b) Vinna að þróunarstarfi og fræðslu á sviði tónlistar.
c) Vinna að eflingu samstarfs á sviði tónlistar og halda úti fjölbreyttum samstarfsverkefnum með stofnunum innan Austurlands, sem utan.
d) Standa fyrir tónleikahaldi sem eflir menningarlæsi í samfélaginu og eykur þekkingu á fjölbreyttum straumum og stefnum í tónlist.
Markmiðið með fræðsluverkefnum Tónlistarmiðstöðvar er að stuðla að sjálfstæði og sjálfsöryggi barna til að iðka tónlist í sínu daglega lífi, í leik og starfi. Fræðsluverkefnin eru byggð uppá mismunandi aðferðum til að miðla þessari hugmyndafræði til barna og ungmenna, t.d. með fyrirlestrum, vinnustofum og viðburðum á sviði tónlistar. Lagt er upp með að börn tileinki sér aðferðir til tjáningar og miðlunar á hugmyndaheimi sínum en um leið að gefa þeim innsýn í fjölbreytt tækifæri hvað varðar nám og starf til framtíðar.
Fræðsluverkefni Tónlistarmiðstöðvar stuðla að auknu menningarlæsi barna og ungmenna, þá einkum sem snýr að tónlist, en það er eitt af markmiðum Sóknaráætlunar Austurlands.
View