Jurtadís
Konan að baki Jurtadís húðsnyrtivörum er Sabina Helvida. Sabina er fædd og uppalin í Bosníu og Hersegóvínu en flutti til Íslands árið 2005, þá einstæð móðir með tvær dætur, fjögra og átta ára gamlar.Sabina hefur haft áhuga á jurtum og einstökum eiginleikum þeirra frá bernsku. Foreldrar Sabinu lögðu hart að sér við að byggja hús og heimili fyrir fjölskylduna og þá var Sabina svo lánsöm að fá að vera hjá ömmu sinni á þeim dögum þegar annir foreldranna voru of miklar. Allskyns jurtir uxu allt um kring í því umhverfi sem Sabina ólst upp í og snemma fór foreldrar hennar og amma hennar að segja henni frá mætti einstakra jurta og kenna henni að nota þær. Fyrsta jurtin sem Sabina lærði að þekkja var kamillu jurt, en hún var mikið notuð á æskuheimili Sabinu, t.a.m. í te, til þess að þvo andlit, setja yfir bólgin augu og síðast en ekki síst til þess að búa til afar græðandi jurtaolíu. Allar götur síðan hefur kamillu jurtin verið töfra jurt í augum Sabinu.Amma Sabinu var einstök kona og þegar Sabina var lítil stúlka hélt hún að amma hennar væri galdrakona sem gæti notað jurtir úr náttúrunni til að leysa öll vandamál líkt og hún gerði þegar Sabina fékk skeinu á hné eftir fall, þá tók amma upp stein, stappaði með honum vallhumalslaufblöð og setti beint á sárið. Þá hætti strax að blæða og sárið tók að gróa.Hvít lilja er uppáhaldsblómi Sabinu og er hvíta liljan einkennismerki Jurtadís Sabina húðsnyrtivörur. Liljan hefur yndislegan ilm og mjög mikla virkni og liljunni fylgja einnig dýrmætar minningar æskunnar þegar Sabina og móðir hennar tíndu saman blóm og jurtir og bjuggu síðan til úr þeim olíur. Móðir Sabinu átti ávallt til olíu úr liljum sem gripið var til þegar þurfti að bregðast við húðvandamálum líkt og bruna, sárum eða þurrkublettum. Hvíta liljan er því táknræn í huga og hjarta Sabinu þar sem hennar hvítu ávölu blöð og höfugur angan vísar til móður hennar og heimalandsins Bosníu og Hersegóvínu því liljan hvíta prýðir skjaldamerki landsins.Þá hefur Sabina mikið dálæti á morgunfrú sem hefur græðandi, róandi og bólgueyðandi eiginleika. Morgunfrú má finna í mörgum vörum Sabinu.Árið 2011 greindist eldri dóttir Sabinu með krabbamein og ákvað hún í kjölfarið að búa til snyrtivörur fyrir hana sem væru algerlega náttúrlegar og lausar við tilbúin efni. Á sama tíma var Sabina að glíma við alls konar ofnæmi vegna kemiskra efna sem hún notaði í starfi sínu sem hársnyrtir. Allar götur síðan hefur Sabina þróað fjöldann allan af snyrtivörum fyrir þau sem vilja algerlega náttúrulegar, hreinar og góðar vörur. Árið 2023 opnaði Sabina vinnustofu og verslun á Fáskrúðsfirði þar sem hún framleiðir allar sínar vörur sjálf. Og í þeim tilgangi að bjóða fleirum að njóta vöruúrvalsins hefur þessi vefsíða verið opnuð. Hér er hægt að panta hluta af vörunum sem framleiddar eru hjá Jurtadís Sabina húðsnyrtivörur. Jurtatínsla og notkun þeirraAllar jurtirnar sem Sabina notar í sínum vörum eru handtíndar á þeim tíma sem jurtirnar hafa mestu virknina, langt frá mengun og mannabyggð. Vörurnar eru síðan unnar úr þessum jurtum, bæði íslenskum og bosnískum. Sabina velur sérstaklega jurtir sem eru þekktar fyrir lækningamátt þeirra. Sérstaða varanna hjá Jurtadís Sabina húðsnyrtivörum felast því að miklu leyti í samruna og sögu lækningajurta í þessum tveimur löndum sem Sabina kallar „heima“.Græðandi áhrif jurtanna eru sannarlega gjafir náttúrunnar og mikilvægt að huga vel að því sem sett er á húðina, ekki síður en því sem neytt er. Húðin er eitt stærsta líffæri líkamans og því mikilvægt að bjóða henni aðeins upp á það besta. Sabina velur aðeins lífræn og náttúruleg hráefni sem eru samþykkt af ECO (Ecological Products Certification) og COSMOS (Organic and Natural Cosmetics). InnihaldÍ vörunum sem Sabina framleiðir eru eingöngu náttúruleg hráefni og lífræn innihaldsefni, t.d. Shea smjör, burðarolíur, kakósmjör o.fl. Þá eru einungis notaðar lífrænt vottaðar ilmkjarnaolíur og villtar jurtir frá Íslandi og Bosníu sem Sabina týnir með eigin höndum.UmbúðirUmbúðir á sápum eru úr pappír, olíur og smyrsl eru í glerflöskum og glerkrukkum sem hægt er að endurnýta. Flöskurnar og krukkurnar eru úr Amber gleri sem verndar innihaldið gegn skaðlegum áhrifum ljóss.