Fossastígur
Ánægjuleg og létt gönguleið frá hjarta Seyðisfjarðarkaupstaðar meðfram Fjarðará inn að Fjarðarselsvirkjun. Gönguleiðin liggur að hluta til um lítið skógræktarsvæði, neðan klettabeltis sunnan megin ár.Fjölskrúðugur gróður, lækir, fossar og fögur fjallasýn prýðir þessa notalegu gönguleið. Heimsókn í elstu starfandi riðstraumsvirkjun landsins,Fjarðarsel (1913), er góður endapunktur, en þá þarf að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina í síma 472 1551 til þess að fá hana opnaða. Aðgangur er ókeypis. Berjaland er mikið inn við Fjarðarsel, þar má finna aðalbláber, bláber og krækiber seinnihluta ágúst, allt fram til frosta. Fossafúsum göngugörpum skal ráðlagt að halda áfram frá Fjarðarseli eftir stikuðu leiðinni sem liggur meðfram ánni að sunnanverðu .Leiðin liggur upp að svonefndum Neðri-staf; að minnisvarða um ferðafrumkvöðulinn Þorbjörn Arnoddson í um 300 m. hæð. Fögur fjallasýn, fossar, gróður og saga er skemmtileg blanda sem gerir þessa gönguferð ógleymanlega.
2,5 og 4 klst. / 2 - 6 km.Auðgengið frá júní fram til hausts.