Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Á Íslandi eru mjög margar kirkjur miðað við höfðatölu og er Austurland engin undantekning. Þar eru kirkjur í hverju þorpi og hverri sveit. Kirkjur eru myndrænar og fallegar byggingar sem eru stór partur af sögu Íslendinga og byggðar í landinu.

Heydalir (Eydalir )
Kirkja hefur verið að Heydölum frá fyrstu tíð kristni. Prestsetrið hefur löngum verið með betri brauðum á Íslandi og þar hafa setið margir vel metnir prestar. Frægastur þeirra er sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626) sem kunnastur er fyrir jólasálminn Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði, en er nútímamönnum tamast sem Nóttin var sú ágæt ein. Minnisvarði um sr. Einar stendur á grunni gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum að Heydölum. Kirkjan sem nú stendur í Heydölum var vígð 13. júlí árið 1975 og var gamla kirkjan afhelguð sama dag. Gamla kirkjan var smíðuð 1856 en hún brann til kaldra kola 17. júní 1982.   Nafnið á staðnum er eitthvað á reiki, sumir tala um Heydali og Heydala er getið bæði í Landnámu og Njálu. Aðrir talra um Eydali, sérstaklega eldra heimafólk í Breiðdal, auk þess sem sr. Einar Sigurðsson er gjarnan kenndur við Eydali. Staðurinn er jöfnum höndum nefndur Heydalir og Eydalir í gjörðabók Heydalasóknar sem hefur verið í notkun frá 1909 en í dag er opinbert nafn staðarins Heydalir. 
Valþjófsstaður
Valþjófsstaður er jörð innarlega í Fljótsdal. Hún er fornt höfuðból og þar hefur verið kirkja allt frá þrettándu öld. Valþjófsstaður var eitt af höfuðbólum Svínfellinga, en nokkrir meðlimir þeirrar fjölskyldu voru fyrirferðamiklir í átökum Sturlungaaldar.  Krikjan sem nú stendur á Valþjófsstað var vígð árið 1966. Hurðin í innri dyrum kirkjunnar er eftirmynd af hinni frægu Valþjófsstaðahurð sem Halldór Sigurðsson á Miðhúsum skar út á 13. öld. Gamla hurðin á upprunalega að hafa verið skálahurð á höfðingjasetri en var síðar nýtt sem innri hurð í stafkirkju sem stóð á Valþjófsstað í margar aldir, langt fram yfir siðaskipti. Upprunalega hurðin er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.  
Hofskirkja
Prestsetrið á Hofi hefur skipað stóran sess í sögu Vopnafjarðar frá upphafi, bæði sem stórbýli og höfðingjasetur. Þar var höfuðstaður Hofverja, ættar sem fór með annað tveggja goðorða í Vopnafirði á 10. öld. Á Hofi bjó einnig eini prestvígði höfðinginn í Vopnafirði á 12. öld, Finnur Hallsson. Minnisvarði um Vopnfirðingasögu stendur við afleggjarann að Hofi.   Talið er að fyrsta kirkjan á Hofi hafi verið byggð stuttu eftir kristnitöku. Kirkjan sem nú er í notkun var byggð árið 1901 en hún tók við af torfkirkju frá miðöldum. Hönnuður hennar var Björgólfur Brynjólfsson frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal. Kirkjan stendur í Hofskirkjugarði, fallegum garði þaðan sem er gott útsýni yfir Hofsárdalinn. 
Vopnafjarðarkirkja
Vopnafjarðarkirkja var tekin í notkun árið 1903 og er nú friðuð. Fram að því var engin kirkja í þorpinu en kirkjustaðir voru á Refstað og Hofi. Hönnuður kirkjunnar var Björgólfur Brynjólfsson frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal og danska verslunarfélagið Örum og Wulf lagði til lóð undir hana.  Altaristaflan í Vopnafjarðarkirkju er eftir Jóhannes Kjarval og nefnist Frelsarinn talar til fólksins. Jón Helgason biskup á að hafa sagt, þegar hann heimsótti kirkjuna, að fólkið á myndinni væri eins og púkar í helvíti. Þó á að hafa fylgt á eftir að fólkið virtist hlusta vel á Krist þrátt fyrir það. 
Geirsstaðakirkja
Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Árið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands sem leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústir lítillar torfkirkju fundust auk langhúss og tveggja minni bygginga. Kirkjan er talin vera af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni og líklega ætluð heimilisfólki á bænum til nota. Endurbygging kirkjunnar fór fram 1999-2001 og er hún opin almenningi.
Bakkagerðiskirkja
Skammt frá Álfaborginni frægu í útjaðri þorpsins á Borgarfirði eystri stendur Bakkagerðiskirkja sem vígð var árið 1901. Altaristafla kirkjunar er verk hins kunna listmálara Jóhannesar S. Kjarvals sem ólst upp í Geitavík á Borgarfirði. Altaristaflan, sem máluð var árið 1914, var gjöf kvenfélagsins á staðnum til kirkjunnar og er fjallræða Krists viðfangsefni hennar. Umhverfið er þó borgfirskt, Dyrfjöllin í baksýn og kunn andlit heimamanna þess tíma sjást í áheyrendahópnum. Altarismyndin er ein af þekktustu verkum Kjarvals og dregur að fjölda ferðamanna á hverju ári.  
Möðrudalskirkja
Í Möðrudal á fjöllum stendur lítil og falleg kirkja sem byggð var árið 1949.Jón A. Stefánsson (1880-1971) reisti kirkjuna til minningar um konu sína, Þórunni Vilhjálmsdóttur sem lést árið 1944. Kirkjan er byggð á grunni eldri Möðrudalskirkju. Jón bæði smíðaði og skreytti kirkjuna, hann málaði meira að segja altaristöfluna, sem sýnir fjallræðuna.  Áður fyrr var prestsetur í Möðrudal, sem lagðist niður árið 1716 en þá fór staðurinn í eyði í nokkur ár. 
Kirkjubær
Kirkjubær í Hróarstungu var prestsetur til 1956.  Kirkjan var reist 1851, stór og stílhrein timburkirkja með prédikunarstól frá tíð Guðbrands Þorlákssonar biskups. Skírnarskálin er með tréumgjörð skorinni af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara og altaristaflan er frá 1894.  Gripir úr eigu kirkjunnar eru einnig í varðveislu á þjóðminjasafni. Lögferja var við Kirkjubæ.  
Seyðisfjarðarkirkja
Bláa Kirkjan á Seyðisfirði er orðin ein af þekktustu byggingum á Íslandi. Með hinn sérstaka bláa lit og fallega byggingarstíl hefur kirkjan skapað sér sess sem vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega eftir að gatan sem að henni liggur var máluð í regnbogalitunum. Kirkjan var upphaflega á Dvergasteini og 1882 var heimilað með lögum að flytja hana á Vestdalseyri. Fyrst var kirkjan reist á hjalla ofan við byggðina á Vestdalseyri en hún fauk um koll í ofsaveðri 1894. Kirkjan var endurreist niðri á eyrinni og stóð þar til 1920 er hún var flutt á núverandi stað í hjarta Seyðisfjarðar. 1989 skemmdist kirkjan í eldi sem kviknaði þegar unnið var að endurbótum á húsinu. Pípuorgel sem sett var upp árið 1987 gjöreyðilagðist í eldinum en í dag er í kirkjunni samskonar orgel og það sem eyðilagðist. Bláa Kirkjan er opinn fyrir gesti yfir sumartímann.