Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík.
Powered by Wikiloc