Seyðisfjarðarkirkja
Bláa Kirkjan á Seyðisfirði er orðin ein af þekktustu byggingum á Íslandi. Með hinn sérstaka bláa lit og fallega byggingarstíl hefur kirkjan skapað sér sess sem vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega eftir að gatan sem að henni liggur var máluð í regnbogalitunum. Kirkjan var upphaflega á Dvergasteini og 1882 var heimilað með lögum að flytja hana á Vestdalseyri. Fyrst var kirkjan reist á hjalla ofan við byggðina á Vestdalseyri en hún fauk um koll í ofsaveðri 1894. Kirkjan var endurreist niðri á eyrinni og stóð þar til 1920 er hún var flutt á núverandi stað í hjarta Seyðisfjarðar. 1989 skemmdist kirkjan í eldi sem kviknaði þegar unnið var að endurbótum á húsinu. Pípuorgel sem sett var upp árið 1987 gjöreyðilagðist í eldinum en í dag er í kirkjunni samskonar orgel og það sem eyðilagðist.
Bláa Kirkjan er opinn fyrir gesti yfir sumartímann.