Stuðlagil
Stuðlagil er einstök náttúruperla í Efri-Jökuldal á Fljótsdalshéraði sem á undanförnum árum hefur fest sig í sessi sem inn af áhugaverðustu áfangastöðum Austurlands.
Gilið var lengi lítt þekkt enda kom það ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og Hálslón var myndað en við það minnkaði vatnsmagnið í Jökulsá á Dal (Jöklu) til muna. Jökla er ein af lengstu jökulám landsins og teygir sig um 150 km leið frá Vatnajökli að sjó. Áin getur verið mjög straumhörð, jafnvel þótt ekki séu sýnilegir vatnavextir í henni. Að gefnu tilefni biðjum við alla sem heimsækja Stuðlagil að sýna varkárni og muna að þeir eru á eigin ábyrgð á svæðinu.
Stuðlagil státar af einni stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á landinu og er einstaklega myndrænt, sérstaklega þegar áin er tær. Blágræni liturinn á vatninu sem kallast á við litskrúðugt stuðlabergið gerir gesti agndofa. Þar sem um jökulvatn er ræða tekur áin breytingum milli árstíða svo í leysingum á vorin og þegar yfirfall er í Hálslóni fær hún á sig grábrúnan lit. Algengast er að yfirfall sé frá ágústbyrjun og fram í október en getur þó verið á öðrum tímum. Hægt er að fylgjast með vatnshæð lónsins hér. Gilið og áin eru þó alltaf mikilfengleg á að líta og ættu ferðamenn ekki að láta þennan einstaka stað fram hjá sér fara á ferðalagi um Austurland.
Að Stuðlagili erum 60 mín. akstur (52 km) frá Egilsstöðum og um 90 mín. akstur (112 km) frá Mývatni. Þegar beygt er af hringveginum tekur við akstur á malarvegi en hann er fær öllum bílum. Vegurinn er opinn allt árið en hafa ber í huga að akstursaðstæður geta breyst hratt yfir vetrartímann.
Hægt er að nálgast gilið úr tveimur áttum:
Útsýnispallur við Grund
Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund sem stendur norðan megin við gilið. Þar eru bílastæði, salerni og örugg aðkoma að gilinu með stigum og pöllum en það tekur einungis um 5 mínútur að ganga niður á útsýnispallinn. Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því og fjölbreytt stuðlabergið nýtur sín. Athugið að ef ætlunin er að fara ofan í gilið þarf að ganga frá bílastæði í landi Klaustursels sem er sunnan megin við gilið.
Gönguleið frá Klausturseli
Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Beygt er í átt að bænum Klausturseli og þar er að finna bílastæði á tveimur stöðum, annars vegar við brúna yfir Jöklu (um 10 km ganga báðar leiðir) og hins vegar við Stuðlafoss (um 5 km ganga báðar leiðir). Stuðlafoss er tignarlegur þar sem hann fellur fram af þverhníptu stuðlabergi og er þess virði að skoða á leiðinni niður í gilið. Það er síðan mögnuð upplifun að standa ofan í gilinu og upplifa ægifegurð íslenskrar náttúru. Hafa verður í huga að klettar og steinar geta verið blautir og þar af leiðandi sleipir svo fara þarf að öllu með gát ofan í gilinu.
Náttúran umhverfis Stuðlagil er ríkuleg en viðkvæm og eru gestir sérstaklega hvattir til að sýna svæðinu, dýralífi og náttúru virðingu og ganga snyrtilega um. Á tímabilinu 1. maí til 10. júní verpa fjölmargar heiðargæsir á svæðinu og þá er sérstaklega mikilvægt að halda sig innan merktra gönguleiða til að styggja ekki fuglana. Efri-Jökuldalur er landbúnaðarsvæði og á haustin reka bændur fé sitt ofan af fjalli og er það áhrifamikil sjón.
Yfir sumartímann er hægt aka áfram eftir vegi nr. 923 inn á hálendi Austurlands. Þar er hægt að fylgja ferðaleiðinni Um öræfi og dali sem liggur m.a. að Kárahnjúkum, Laugafelli og niður í Fljótsdal. Hluti leiðarinnar er aðeins fær vel búnum, fjórhjóladrifnum bílum.
Frekari upplýsingar um Stuðlagil og þjónustu í nágrenni þess má finna á heimasíðu Stuðlagils.