Hengifoss
Hengifoss í Fljótsdal er einn af þekktari áfangastöðum Austurlands og einn hæsti foss landsins. Fossinn er um 128 metra hár og afar tignarlegur. Góð gönguleið er að fossinum og þjónustumiðstöð við bílastæði. Nágrenni Hengifoss er þekkt fyrir fjölda náttúrudjásna og sögustaða. Í grenndinni finnurðu fjölbreytta gistimöguleika, frábæra veitingastaði og afþreyingu.
Hengifoss fellur í Hengifossgljúfur sem staðsett er í norðanverðum Fljótsdal, rétt innan við enda Lagarfljóts. Bergveggir gljúfursins sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar, blágrýti í bland við fagurrauð millilög sem gefa fossinum einstaka ásýnd og eru sívinsælt myndefni. Hengifossá á upptök sín í Hengifossárvatni á Fljótsdalsheiði og rennur í gegnum gljúfrið og ofan í Lagarfljót. Á leiðinni er annar magnaður foss sem heitir Litlanesfoss. Sá er krýndur stuðlabergi sem er með því hærra á landinu og einstaklega myndrænt.
Hvernig er best að komast að Hengifossi?
Frá Egilsstöðum er um tvær leiðir að velja. Hægt er að aka austan megin við Lagarfljótið í gegnum Hallormsstaðaskóg (vegur nr. 95 að Grímsá og þaðan yfir á veg nr. 931) eða norðan megin við Fljótið í gegnum Fellabæ (vegur nr. 931, malarvegur á stuttum kafla) en vegalengdin er svipuð, um 35 km.
Það er góð hugmynd að skoða ferðaleiðina Fljótsdalshringinn, en þar er að finna tillögur að skemmtilegum viðkomustöðum í kringum Hengifoss og Lagarfljót.
Gönguleiðin upp að Hengifossi
Frá bílastæðinu við Hengifoss liggur þægileg og vel merkt gönguleið upp að fossinum báðum megin ár. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga alla leið upp en leiðin er í heildina um 5 km.
Fyrsti áfanginn frá bílastæði og þjónustumiðstöð er upp tröppur en síðan tekur við fremur álíðandi malarstígur. Þegar þú ert u.þ.b. hálfnaður upp, um 1,2 km frá bílastæðinu sérðu Litlanesfoss með sína fallegu stuðlabergsumgjörð. Þar liggja slóðir niður í gilið neðan við fossinn en þeir eru brattir og í lausri möl svo að það er vissara að fara varlega ef þú ætlar þér niður í gilið. Alls staðar á gönguleiðinni er rétt að gæta varúðar við gilbarminn þar sem er hætta á að falla fram af og sérstaklega ef börn eru með í för. Tvær göngubrýr eru á ánni. Önnur er efst áður en gengið er inn í gljúfrið með fossinum. Hin er neðst við bílastæðið.
Upplýsingaskilti og bekkir eru á nokkrum stöðum á gönguleiðinni. Hægt er að ganga inn í gljúfrið sjálft og nær alveg að fossinum eftir uppbyggðum göngustíg. En mikilvægt er að fara varlega þar sem hætta er á grjóthruni.
Þjónusta við Hengifoss
Gönguleiðin að Hengifossi er opin allt árið. Þjónustumiðstöð er við bílastæði og þar er hægt að fá upplýsingar um svæðið frá landvörðum. Yfir vetrartímann er mikilvægt að göngufólk búi sig vel til fararinnar og skoði veðurspá og aðstæður vel áður en lagt er af stað. Nauðsynlegt getur reynst að vera með göngubrodda og ísaxir.
Áhugaverðir staðir í nágrenninu
Í Fljótsdal og í nágrenni hans er ógrynni skemmtilegra viðkomustaða sem vert er að heimsækja fyrir eða eftir göngu upp að Hengifossi. Það er til dæmis tilvalið að líta við í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem er m.a. hægt að fræðast um gróðurfar og dýralíf svæðisins. Gestastofan er staðsett á Skriðuklaustri, þar sem hægt er að skoða hið sérstæða heimili rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og rústir miðaldaklausturs. Óbyggðasetur Íslands er innst í Fljótsdal og í Hallormsstaðaskógi er fjöldi göngu- og hjólaleiða og aðrir afþreyingarmöguleikar við allra hæfi auk ljómandi góðs tjaldsvæðis.
Yfir sumartímann er hægt að aka ferðaleiðina Um öræfi og dali sem liggur upp á hálendi Austurlands og koma við í Laugarfelli, Kárahnjúkum og Stuðlagili en vegurinn er aðeins fær vel búnum fjórhjóladrifsbílum.