Borgarfjörður eystri
Þú ert í góðum félagsskap á þessum fallega stað. Í þorpinu búa um 120 manns, ferðamenn koma til þess að njóta náttúrufegurðarinnar, Íslendingar koma í sína árlegu ferð á Bræðsluna og alls kyns fuglar heimsækja fjörðinn í nokkra mánuði á ári, auk þess sem konungbornir álfar búa á svæðinu. Já, þú getur meira að segja heimsótt þá í Álfaborgina, klettaborg sem stendur rétt við þorpið, þar sem drottning íslenskra álfa er sögð búa ásamt hirð sinni.
Frá Egilsstöðum liggur 70 km. löng leiðin til Borgarfjarðar um einstaka útsýnisstaði, yfir og umhverfis fjöllin að sjarmerandi sjávarþorpi. Ef þú keyrir í gegnum þorpið og áfram í u.þ.b. 5 km. endar þú við Borgarfjarðarhöfn sem liggur við Hafnarhólma. Í Hafnarhólma er eitt besta svæði á landinu til fuglaskoðunar en þar má meðal annars komast í einstakt návígi við lunda og ritu.
Fuglalífið hefur augljóslega mikið aðdráttarafl en Borgarfjörður er einnig frægur fyrir frábærar gönguleiðir, til dæmis um Víknaslóðir og Stórurð. Víknaslóðir liggja um litskrúðug líparít fjöll í eyðifirði og víkur, alla leið til Seyðisfjarðar. Gönguleiðirnar sem liggja um Dyrfjallasvæðið, og í Stórurð, eru magnaðar. Heimamenn hafa verið duglegir að merkja leiðir sem uppfylla ólíkar þarfir göngufólks og búa til nákvæm kort yfir þær. Hægt er að fara í gönguferðir sem taka klukkutíma eða heilan dag, allt eftir því hvað hentar þér.
Áherslur:
Ganga – um ævintýralegt svæði Dyrfjallanna í hina mögnuðu Stórurð (en möguleikarnir í Borgarfirði eru næstum endalausir).
Bragð – lókal fiskur á einhverjum af veitingastöðum þorpsins, en á Borgarfirði má fá einstaklega góða fiskisúpu.
Bað – í pottunum við Blábjörg, þar sem útsýnið til fjallanna gerir stundina einstaka.
Bíltúr: um fjörðinn út í Hafnarhólma til þess að skoða ríkulegt fuglalífið.
View