Eyvindará
Eyvindará er mikil og falleg á sem sprettur af þverám sem falla frá Fagradal, Gagnheiði og Fjarðarheiði. Áin fellur í bugðum um láglendi Héraðs og sameinast loks Lagarfljóti. Munnmælasögur herma að haugur Helga Droplaugarsonar sé í landi Eyvindarár, bæ samnefndum ánni, og er hann friðlýstur. Einnig eru þar friðlýstar tóftir sem taldar eru vera af bænum hans.
Á heitum sumardögum hafa ungmenni notað Eyvindarána til sunds og dýfinga, enda er svæðið kjörið til útivistar af öllu tagi.