Njarðvíkurskriður og Naddi
Áður en vegur var lagður milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra árið 1949, var einungis hægt að fara þar á milli fótgangandi eða á hestbaki. Njarðvíkurskriður voru áður fyrr afar erfiðar yfirferðar, einkum á vetrum vegna snjóflóðahættu og hættu á aurskriðum í stórrigningum. Við slíkar aðstæður gátu vegfarendur verið þar í lífshættu. Í skriðunum eru þverhníptir klettar með sjónum en ofan við þá brattar lausaskriður, sundurgrafnar af giljum.
Akfær bílvegur frá Egilsstöðum um Vantsskarð til Borgarfjarðar var opnaður 1954. Var vegurinn þá færður talsvert ofar í skriðurnar en gamli reiðvegurinn. Bundið slitlag var svo lagt á Njarðvíkurskriður árið 2019.
Þjóðsagan um óvættinn Nadda er til í fleiri en einni útgáfu. Sagan segir að á dögum niðja Björns skafins hafi að mestu lagst af þjóðleiðin um Njarðvíkurskriður vegna óvættar. Var hann að hálfu í mannslíki en að hálfu í líki dýrs og hélt sig í gili sem síðan er kallað Naddagil. Sat óvættur þessi þar fyrir mönnum, einkum er dimma tók, réðist á þá og drap marga. Að endingu tókst bónda nokkrum að fyrirkoma Nadda og hindra honum í sjó fram þar sem Krassjaðar heitir.
Þar í skriðunum stendur nú kross með latneskri áletrun og ártalinu 1306 sem hefur lengi verið fólki ráðgáta. Hefur margt verið skrifað um krossinn og ýmsar skoðanir komið fram um aldur hans og tilefni þess að hann var settur upp og alltaf endurnýjaður. Krossinn hefur þó alltaf verið tengdur Nadda og jafnvel stundum nefndur Naddakross, samanber þessari gömlu vísu:
Nú er fallinn Naddakross. Nú er fátt er styður oss, en - þú helgi klerkakraftur krossinn láttu rísa upp aftur.