Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Austurland er líklega ekki þekktast fyrir áhugaverðan arkitektúr en á síðustu árum hafa risið perlur sem eru vel þess virði að skoða.

Tvísöngur
Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne og er hluti af listaverkaröð sem fjallar um form tónlistar. Verkið er staðsett í Þófunum ofan við Seyðisfjarðarkaupstað og var formlega opnað almenningi 5. september 2012. Verkið samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2. Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Myndlist Lukasar Kühne snýst um samspil rýmis og tíðni. Hann býr í Berlín og Montevideo, Uruguay, þar sem hann stjórnar deildinni “Form og hljóð” í myndlistarhluta Ríkisháskólans. Verkið á Seyðisfirði tengist verki hans “Cromatico” sem er útilistaverk í Tallinn í Eistlandi, byggt árið 2011. Sjá nánar: www.lukaskuehne.com Til að skoða og upplifa Tvísöng þurfa gestir að ganga upp malarveg, í 15-20 mín, sem er staðsettur beint á móti Brimberg fiskvinnslu.
Þjónustuhús við Stórurð
Þegar ráðist var í uppbyggingu á göngusvæði Stórurðar og Dyrfjalla var ákveðið að byggja um leið þjónustuhús fyrir svæðið. Þessi uppbygging svæðisins styrkir sjálfbæra ferðamennsku í formi gönguferða á ferðamannasvæði sem þolir meiri nýtingu, eykur öryggi ferðamanna, eflir lýðheilsu, stuðlar að náttúruvernd og eykur stolt heimamanna. Húsið er hannað af arkitektinum Erik Rönning Andersen. Hönnunin er frumleg og stílhrein, og greinilega innblásin af Dyrfjöllunum. Áhersla var lögð á að byggingin væri umhverfisvæn og þyrfti lítið viðhald og endurspeglast þetta í einföldu efnisvali. Byggingin er hógvær og einföld en þjónar hlutverki sínu vel í mikilli sátt við umhverfið. Húsið er samsett úr tveimur aðskildum smáhýsum; annað hýsir salerni en hitt upplýsinga- og útsýnisrými. 
Hafnarhús
Við Hafnarhólma á Borgarfirði Eystri stendur glæsilegt aðstöðuhús sem tekið var í notkun árið 2020. Þar hafði lengi vantað aðstöðu fyrir sjómenn og starfsmenn Borgarfjarðarhafnar en einnig fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína út í Hafnarhólma til að skoða lundabyggðina. Borgarfjarðarhreppur ákvað því að efla til hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um aðstöðubyggingu fyrir svæðið. Tillagan sem bar sigur úr bítum kom frá Anderson & Sigurdsson arkitektum. Húsið er er látlaust og fellur vel að umherfinu en hefur samt aðdráttarafl í sjálfu sér og fangar athygli ferðamanna.
Vök Baths
Vök Baths eru heitar náttúrulaugar við Urriðavatn, í einungis 5 mínútna fjarlægð frá Egilsstöðum. Laugarnar eru fullkominn áningarstaður allra þeirra sem vilja upplifa beina snertingu við náttúruna og næra um leið líkama og sál.