Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hálendið á Austurlandi er magnað svæði sem áhugavert er að skoða. Þar er margt að sjá og ber hæst að nefna tignarleg fjöll, glæsilega fossa og gljúfur, víðáttur, dýralíf og heiðarbýli.
Hafa ber í huga að hálendið er ekki opið nema yfir hásumarið og nauðsynlegt að fylgjast með veðurspá og færð á vegum þegar hálendisferðir eru skipulagðar.

Hvannárgil
Gengið frá skilti við Kverkfjallaveg F905. Hringleið frá Kjólsstaðaskoru um Vatnsstæði, inn í Hvannárgil neðsta og gegnum þau öll til enda. Efsta gilið er mjög stórbrotið og endar í fallegum fossi. Staukurinn er í efsta gilinu. Gengið til baka niður Slórdal. GPS: N65°16.868-W15°47.418   Powered by Wikiloc
Sænautasel
Sænautasel á Jökuldalsheiði er einstakur staður við friðsælt fjallavatn, Sænautavatn. Sænautasel er gamalt heiðarbýli en húsið var endurbyggt 1992 fyrir tilstuðlan Jökuldalshrepps og síðan hefur verið tekið þar á móti gestum á sumrin. Í Sænautaseli er hægt að fræðast um aðbúnað og lífsbaráttu þeirra sem bjuggu í heiðinni. Boðið er upp á leiðsögn um bæinn og sagðar sögur af fólkinu og búskaparháttunum á heiðarbýlum sem voru í byggð langt fram á 20. öld. Þar er hægt að fá léttar veitingar að þjóðlegum hætti. Opið er alla daga í júní-ágúst.     Til að fara í Sænautasel er hægt að aka frá þjóðvegi nr. 1 norðan við Skjöldólfsstaði inn á Möðrudalsveg nr. 901 og beygja síðan eftir stuttan akstur inn á Brúarveg nr 907. Eða aka frá Brú á Jökuldal um Brúarveg nr. 907 til norðurs að Sænautaseli. Frá Sænautaseli er stutt í Skessugarðinn örlítið vestar á Jökuldalsheiði og einnig er stutt niður í Stuðlagil á Jökuldal.       Rétt fyrir miðja nítjándu öld hófst landnám í Jökuldalsheiði. Byggðin í heiðinni var að hluta reist á rústum fornbýla ogselja. Í heiðinni er einstaklega fallegt í sumarblíðu og erfitt að gera sér í hugarlund hvernig var að eiga þarna heima allan ársins hring. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu byggingarskeiði voru Háreksstaðir árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði, það síðasta 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og ábúðartíminn var mislangur; frá einu ári á einhverjum þeirra og upp í nærfellt heila öld í Sænautaseli. Ástæður þess að heiðarbýlin byggðust voru einkum plássleysi í sveitum þar sem allar bújarðir voru í ábúð og þéttbýlismyndun og atvinnuuppbygging við sjávarsíðuna var enn lítil. Fólk hafði því fáa valkosti aðra en að vera vinnufólk eða íhúsmennsku hjá öðrum.     Búskaparskilyrði í heiðinni voru ekki á allan hátt slæm þótt víðast væri snjóþungt, enda flest býlin í yfir 500 metra hæð.Hlunnindi eins og silungsveiði í vötnum, rjúpna-, gæsa-, anda- og álftaveiði og grasatekja voru mikil búbót. Þá voru engjalönd sums staðar ágæt a.m.k. ef vel áraði. Hreindýr gengu þarna, en stofninn var þó í sögulegu lágmarki upp úraldamótunum 1900. Um 120 manns munu hafa búið í heiðinni samtímis þegar mest var. Í Öskjugosinu 1875 varð byggðin í heiðinni fyrir miklu áfalli og lagðist af tímabundið á öllum bæjum nema þeim nyrstu. Margir sem fluttust burtfóru síðar til Ameríku. Nokkrum árum síðar byggðust nokkur býlanna að nýju og hélst byggð fram á fyrstu tugi 20. aldar. Síðasta býlið fór í eyði 1946.    Sænautasel byggðist fyrst 1843 og þar var búið til 1943 að undanskildum 5 árum eftir Öskjugosið. Þar var lengst búið allra býla í heiðinni eða samtals í 95 ár. Búskapur á heiðum við erfiðar aðstæður og mikla einangrun hefur orðið íslenskum rithöfundum innblástur að skáldverkum. Margir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu Sjálfstætt fólk. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratug 20. aldar. Heiðabúskapur var einnig viðfangsefni rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Jóns Trausta.  Gamlar sagnir sögðu að sést hefði sænaut í Sænautavatni og fylgdi jafnvel sögunni að það væru undirgöng úr vatninu til sjávar sem sænautin notuðu.    
Kárahnjúkar
Kárahjúkar eru móbergshnjúkar austan Jökulsár á Brú gegnt Sauðárdal.  Hærri hnjúkurinn er 835 metrar. Jökulsá fellur að Kárahnjúkum í miklu gljúfri, Hafrahvammagljúfri sem er eitt hið dýpsta og hrikalegasta á landinu. Megingljúfrið er um 5 km. langt en allt er gilið frá Desjará að Tröllagili um 10 km. Við Kárahnjúka hefur verið reist mikil virkjun sem sér álverinu á Reyðarfirði fyrir orku. Kárahjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins. Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir. Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl.
Skessugarður
Skessugarður er mikill ruðningshryggur gerður úr ferlegu, dílóttu stórgrýti og liggur þvert yfir Grjótgarðsháls frá vestri til austurs, vestan við Grjótgarðsvatn ytra. Garðurinn er um 300 m langur og allt að 7 m hár á kafla að utanverðu, en stórgrýtisdreif af sömu bergtegund er á hálsinum báðum megin við garðinn. Garðurinn markar stöðnunar - eða framrásarstig Brúarjökuls í lok síðasta jökulskeiðs. Skessugarður mun vera næstum einstæður meðal jökulgarða að því leyti að hann er gerður úr stórgrýti einu saman - fínefni vantar - en meðal einkenna jökulgarða er það einmitt að í þeim ægir saman misgrófu efni, frá jökulleir til stórgrýtis. Skýring þessa er sennilega sú að vatnsflóð hafi skolað burt fíngerðara efninu eftir að garðurinn myndaðist og stórgrýtið eitt orðið eftir. Þessi grjóthryggur er því merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri sem á fáa eða enga sína líka, hérlendis eða erlendis. Nafnið tengist gamalli tröllasögu; tvær skessur áttu að hafa hlaðið garðinn sem landmerki á milli sín. Sæmileg bílaslóð er af gamla Möðrudalsveginum um hálstaglið inn að vatninu og garðinum.
Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu. Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.    
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður er 14.141 ferkílómetrar að flatarmáli, eða um 13,7% af Íslandi. Ríflega helmingur þjóðgarðsins er jökull og þar er að finna einstök dæmi um samspil elds og íss, landmótunar jökla og vatnsfalla. Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 9. júní 2008 en markmiðið með stofnun og rekstri þjóðgarðsins er að vernda Vatnajökul og landsvæði honum tengd. Innan austursvæðisins er að finna náttúruperlur eins og Snæfell, Eyjabakka, Lónsöræfi, Kverkfjöll, Hvannalindir, Hveragil og margt, margt fleira.
Fossahringur
Fossahringur er 8 kílómetra gönguhringur sem byrjar og endar í Laugarfelli, það tekur um 2 -3 klukkutíma að ganga þessa leið. Á gönguleiðinni má sjá 5 fossa og eitt gljúfur. Sumir þessara fossa eru meðal vatnsmestu fossa á Austurlandi og þekktastir þeirra eru Kirkjufoss og Faxi en þeir eru í Jökulsá í Fljótsdal sem rennur út í Lagarfljót.  Gangan er stikuð og nýtur sívaxandi vinsælda meðal göngufólks. Tilvalið er í lok göngu að baða sig í náttúrulaugunum í Laugarfelli.
Hafrahvammagljúfur
Hafrahvammagljúfur á Austurlandi er með stærstu og stórfenglegustu gljúfrum landsins. Þar sem gljúfrið er dýst eru um 200 metrar frá botni að brún og gljúfrið er um 8 kílómetrar að lengd. Merkt gönguleið er með fram gljúfrinu og niður að Magnahelli. Það þarf fjórhjóladrifsbíl til að keyra að upphafspunkti gönguleiðarinnar en hægt er að sjá hluta gljúfursins frá Kárahjúkum og þangað má komast á venjulegum fólksbíl.
Norðurdalur - hjólaleið
Upphaf er við Ufsárlón á Eyjabökkum, rétt austan ivð brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal. Vinsamlegast lokið hliðinu á eftir ykkur. Leiðin er mjög greinileg og liggur að mestu með girðingunni austan við Jökulsá og trackið endar við bæinn Glúmsstaðasel. Þar er hægt að fara yfir ánna á kláf og t.d. hjóla áfram út í Óbyggðasetur. Leiðin er að mestu miðlungserfið, en í henni eru mýrarkaflar sem geta verið erfiðir en eru ekki langir. Það eiga ekki að vera neinar sérstakar hættur á leiðinni, en við biðjum fólk ávallt að gæta fyllsta öryggis og sérstaklega ef farið er fram á gilbrúnina til náttúruskoðunar. Hægt er að afla frekari upplýsinga hjá Hel-Fjallahjólaleiðum í Fljótsdal (sjá hér).
Laugarfell
Laugarfell er staðsett á austanverðu hálendi Íslands, rétt norðan við fjallið Snæfell. Kárahnjúkavegur liggur nánast að Laugarfelli en afleggjarinn frá veginum að skálanum er tveir kílómetrar og er það eini staðurinn sem ekki er lagður bundnu slitlagi að skálanum. Að sumri til er vel fært að Laugarfelli fyrir allar tegundir ökutækja. Laugarfell er með gistirými fyrir 28 manneskjur. Tvær heitar náttúrulegar laugar eru við Laugarfell og eru þær samkvæmt gömlum heimildum þekktar fyrir lækningamátt sinn. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í nágrenni Laugarfells og fjöldi fallegra fossa er í þægilegri göngufjarlægð frá Laugarfelli. Miklar líkur eru á að sjá hreindýr á vappi í hágrenni Laugarfells. Laugarfellsskáli er opinn frá 1. júní - 30. september.
Sótavistir - Gönguleið
Stikuð gönguleið við rætur Snæfells þar sem Sótajökull er að hverfa úr jökulskál í fjallinu sem kallast Sótavistir. Neðst stendur stór drangur úr dökku gjallbergi sem skriðjökullinn hefur reist upp á endann svo hann líkist bautasteini. Kallast hann Sótaleiði, kenndur við jötuninn Sóta.
Magnahellir
Ekið frá Kárahnjúkastíflu eftir góðri jeppaslóð að norðan út Lambafell að krossgötum við Laugavelli. Farið er niður að bílaplani við Dimmugljúfur. Þar er upplýsingaskilti og upphaf merktrar gönguleiðar, sem liggur í Hafrahvamma og Magnahelli. Hólkurinn með gestabók og stimpli er í hellinum. Það var siður Brúarbænda að fornu að hafa sauðfé sitt inni í hvömmum nokkrum við Jökulsá á vetrum í helli þeim, sem þar er og kallaður er Magnahellir. Tekur hann nafn af Magna, bónda, sem fyrrum bjó á Brú, og fann fyrstur upp á að hafa þar sauðfé á vetrum um tíma. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°99.252-W15°71.683   Powered by Wikiloc
Sanddalur
Sanddalur er fallegur dalur sem liggur suður af Snæfelli. Dalurinn er hrjóstrugur og ægifagur með grænum mosabreiðum og sérkennilegum bergmyndunum sem sveipa dalinn ævintýraljóma. Til að fara í Sanddal þarf fjórhjóladrifinn bíl en einnig er hægt að ganga þangað frá Kárahnjúkavegi. 
Snæfell
Snæfell (1833 m) er hæsta fjall Íslands, utan jökla, og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Sumar rannsóknir benda til þess að fjallið kunni enn að vera virk eldstöð, aðrar telja svo ekki vera. Snæfell er fremur auðvelt uppgöngu, en þó ekki fyrir óvana. Þá er lagt af stað skammt sunnan við Snæfellsskála sem er undir vesturhlíð Snæfells, eða frá Sandfelli að norðanverðu. Að fjallinu liggur sumarvegur sem fær er fjórhjóladrifnum bílum og dugir dagurinn til að klífa það, sé lagt upp frá Egilsstöðum snemma að morgni. Gott er að reikna með um 7-9 tímum í göngu.