Neskaupstaður
Neskaupstaður er sá þéttbýliskjarni sem stendur austast á Íslandi. Bærinn stendur á myndrænum stað við rætur himinhárra, fagurra fjalla. Fjörðurinn og fjöllin sem umlykja hann bjóða óteljandi möguleika til afþreyingar, til dæmis fjölbreyttar gönguleiðir og hestaferðir.
Neskaupstaður komst fyrst í vegasamband við aðra þéttbýliskjarna árið 1949, með veginum um Oddsskarð sem þó var ekki fær nema hluta úr ári. Með tilkomu Norðfjarðarganga 2017 komst Neskaupstaður loksins í öruggt vegsamband við Eskifjörð. Neskaupstaður er þekktur fyrir líflega tónlistarsenu en ein af þekktari sumarhátíðum á Íslandi, þungarokkshátíðin Eistnaflug, er árlegur viðburður. Safnahúsið er líka áhugavert fyrir þá sem vilja kynna sér menningu svæðisins en þar eru þrjú flott söfn undir einu þaki; Náttúrugripasafn, Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar og Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar.
Eitt af því sem er sérstaklega heillandi við Neskaupstað er að þar hefur gömlum bryggjum verið haldið við og á sumrin getur verið mjög líflegt við sjávarsíðuna í bænum. Þaðan er hægt að fara í bátsferðir en það er magnað að sjá landslagið í Norðfirði, þ.m.t. Rauðubjörg, af sjó, og stundum sjást hvalir. Á landi er er skemmtilegt að keyra í gegnum þorpið, eins langt í austur og hægt er, til þess að skoða fólkvanginn sem er fyrir utan bæinn. Þar eru fjölmargar gönguleiðir og fjölskrúðugt fuglalíf undir bröttum hlíðum Nípunnar, auk Páskahellis sem er í fjörunni.
Neskaupstaður er með stærri byggðakjörnum á Austurlandi og þar er Umdæmissjúkrahús Austurlands. Þjónustustig bæjarins er gott, þar eru til dæmis góðir veitingastaðir og hótel.
Áherslur
Ganga – eftir stígnum sem liggur frá snjóflóðavarnargarðinum, rétt við tjaldsvæðið, en útsýnið frá honum yfir fjörðinn er magnað.
Bragð – lókal lambakjöt eða ferskt sjávarfang á einhverjum af veitingastöðum bæjarins, eða lautarferð í Lystigarðinum.
Bað – í Stefánslaug (þar er rennibraut og magnað útsýni), sem er í miklu uppáhaldi hjá heimamönnum.
Bíltúr – í gegnum bæinn, að bílastæðinu við Fólkvanginn, og skelltu þér svo í gönguferð.