Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Saga og Menning í Múlaþingi

Lindarbakki
Lindarbakki er lítið fallegt torfhús í miðju Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Húsið er vinsælt myndefni ferðamanna og ómissandi viðkomustaður þegar fjörðurinn er heimsóttur. Lindarbakki er upphaflega byggður árið 1899 en hlutar hans hafa verið endurbyggðir.  Árið 1979 festi Elísabet Sveinsdóttir frá Geitavík á Borgarfirði, jafnan kölluð Stella, kaup á Lindarbakka ásamt eiginmanni sínum Skúla Ingvarssyni. Þau hjónin gerðu húsið upp og notuðu sem sumarhús og allt fram til ársins 2020 eyddi Stella sumrum sínum á Lindarbakka, þá orðin níræð.  
Teigarhorn
Teigarhorn við Berufjörð er þekkt annars vegar fyrir merkilegar jarðmyndanir og hins vegar atvinnu- og menningarsögu. Jörðin öll var friðlýst sem fólkvangur árið 2013 og var þá friðlýst náttúruvætti innan fólkvangsins einnig stækkað. Á Teigarhorni er heilsárslandvarsla og unnið er að uppbyggingu sem raskar ekki svæðinu. Við Teigarhorn er einn merkasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heiminum og tengist myndun þeirra miklu berggangakerfi frá Álftafjarðareldstöðinni. Af geislasteinum sem þar finnast má nefna skólesít, stilbít, epistilbít, mordenít, laumontít og heulandít. Þar finnast auk þess aðrar steindir, s.s. seladónít, ópall, kalsedón, bergkristall, kalsít og silfurberg. Geislasteinar frá Teigarhorni hafa verið notaðir í ýmsar rannsóknir í meira en 200 ár. Þar á meðal eru lýsingar á kristalformum, efnasamsetningu, innri byggingu kristalla og ljósfræði, og eru sumar þeirra meðal fyrstu lýsinga á viðkomandi steindum. Sýni frá Teigarhorni voru seld til safna víða um heim á seinni hluta 18. aldar, en síðan 1976 hafa helstu fundarstaðir verið friðlýstir sem náttúruvætti. Á Teigarhorni stendur Weywadthús sem byggt var af Níels P.E. Weywadt á árunum 1880-1882, en hann var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Weywadthús hefur frá 1992 verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem hefur annast endurgerð þess. Dóttir Níels, Nicoline Weywadt, var fyrst íslenskra kvenna til að nema ljósmyndun og starfrækti ljósmyndastofu á Teigarhorni. Nicoline er auk þess talin hafa átt fyrstu saumavél á Austurlandi.
Kjarvalshvammur
Kjarvalshvamm er að finna við vegarbrún nr. 94 skammt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Kjarval dvaldi þarna í tjaldi í tvö ár í kringum 1948. En bóndinn gaf honum skikann og reisti kofann. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði margar af frægustu myndum sínum. Þetta er eina fasteignin sem Kjarval átti. Þarna er líka bátaskýli fyrir Mávinn, bát sem Kjarval sigldi eitt sinn niður Selfljótið til Borgarfjarðar.  
Njarðvíkurskriður og Naddi
Áður en vegur var lagður milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra árið 1949, var einungis hægt að fara þar á milli fótgangandi eða á hestbaki. Njarðvíkurskriður voru áður fyrr afar erfiðar yfirferðar, einkum á vetrum vegna snjóflóðahættu og hættu á aurskriðum í stórrigningum. Við slíkar aðstæður gátu vegfarendur verið þar í lífshættu. Í skriðunum eru þverhníptir klettar með sjónum en ofan við þá brattar lausaskriður, sundurgrafnar af giljum. Akfær bílvegur frá Egilsstöðum um Vantsskarð til Borgarfjarðar var opnaður 1954. Var vegurinn þá færður talsvert ofar í skriðurnar en gamli reiðvegurinn. Bundið slitlag var svo lagt á Njarðvíkurskriður árið 2019. Þjóðsagan um óvættinn Nadda er til í fleiri en einni útgáfu. Sagan segir að á dögum niðja Björns skafins hafi að mestu lagst af þjóðleiðin um Njarðvíkurskriður vegna óvættar. Var hann að hálfu í mannslíki en að hálfu í líki dýrs og hélt sig í gili sem síðan er kallað Naddagil. Sat óvættur þessi þar fyrir mönnum, einkum er dimma tók, réðist á þá og drap marga. Að endingu tókst bónda nokkrum að fyrirkoma Nadda og hindra honum í sjó fram þar sem Krassjaðar heitir. Þar í skriðunum stendur nú kross með latneskri áletrun og ártalinu 1306 sem hefur lengi verið fólki ráðgáta. Hefur margt verið skrifað um krossinn og ýmsar skoðanir komið fram um aldur hans og tilefni þess að hann var settur upp og alltaf endurnýjaður. Krossinn hefur þó alltaf verið tengdur Nadda og jafnvel stundum nefndur Naddakross, samanber þessari gömlu vísu: Nú er fallinn Naddakross. Nú er fátt er styður oss, en - þú helgi klerkakraftur krossinn láttu rísa upp aftur.
Tvísöngur
Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne og er hluti af listaverkaröð sem fjallar um form tónlistar. Verkið er staðsett í Þófunum ofan við Seyðisfjarðarkaupstað og var formlega opnað almenningi 5. september 2012. Verkið samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2. Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Myndlist Lukasar Kühne snýst um samspil rýmis og tíðni. Hann býr í Berlín og Montevideo, Uruguay, þar sem hann stjórnar deildinni “Form og hljóð” í myndlistarhluta Ríkisháskólans. Verkið á Seyðisfirði tengist verki hans “Cromatico” sem er útilistaverk í Tallinn í Eistlandi, byggt árið 2011. Sjá nánar: www.lukaskuehne.com Til að skoða og upplifa Tvísöng þurfa gestir að ganga upp malarveg, í 15-20 mín, sem er staðsettur beint á móti Brimberg fiskvinnslu.
Sænautasel
Sænautasel á Jökuldalsheiði við samnefnt vatn var endurbyggt í lok síðustu aldar sem góður fulltrúi heiðarbýlanna fyrrum tíð. Þar er tekið á móti ferðamönnum á sumrin. Í Sænautaseli er boðið upp á hina ýmsu skemmtun og léttar veitingar að þjóðlegum hætti. Opið er alla daga í júní-ágúst.
Skessugarður
Skessugarður er mikill ruðningshryggur gerður úr ferlegu, dílóttu stórgrýti og liggur þvert yfir Grjótgarðsháls frá vestri til austurs, vestan við Grjótgarðsvatn ytra. Garðurinn er um 300 m langur og allt að 7 m hár á kafla að utanverðu, en stórgrýtisdreif af sömu bergtegund er á hálsinum báðum megin við garðinn. Garðurinn markar stöðnunar - eða framrásarstig Brúarjökuls í lok síðasta jökulskeiðs. Skessugarður mun vera næstum einstæður meðal jökulgarða að því leyti að hann er gerður úr stórgrýti einu saman - fínefni vantar - en meðal einkenna jökulgarða er það einmitt að í þeim ægir saman misgrófu efni, frá jökulleir til stórgrýtis. Skýring þessa er sennilega sú að vatnsflóð hafi skolað burt fíngerðara efninu eftir að garðurinn myndaðist og stórgrýtið eitt orðið eftir. Þessi grjóthryggur er því merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri sem á fáa eða enga sína líka, hérlendis eða erlendis. Nafnið tengist gamalli tröllasögu; tvær skessur áttu að hafa hlaðið garðinn sem landmerki á milli sín. Sæmileg bílaslóð er af gamla Möðrudalsveginum um hálstaglið inn að vatninu og garðinum.
Bóndavarðan
Austan við kauptúnið á Djúpavogi er allshár ás sem heitir Bóndavörðuhraun og efst á honum Bóndavarða. Þar er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Frá Bóndavörðunni er hægt að ganga "út á land" í átt að svörtu söndunum.
Regnbogagatan á Seyðisfirði
Regnbogagatan á Seyðisfirði er sennilega eitt þekktasta kennileiti Austurlands og sagan að baki því hvernig hún varð til er ekki síður skemmtileg. Á sólríkum degi sumarið 2016 varð eitt fallegasta samfélagsverkefni sem við vitum um að veruleika, Regnbogagatan á Seyðisfirði. Íbúar voru farnir að bíða óþreyjufullir eftir að Norðurgata, sem segja má að sé Laugavegur þeirra Seyðfirðinga, yrði löguð og hresst við. Aðdragandinn var ekki langur því sama dag og hugmyndin fæddist komu bæjarbúar og bæjarstarfsmenn saman og máluðu hellulagða hluta götunnar í litum regnbogans og sköpuðu með því, óafvitandi, eitt mest heimsótta kennileiti á Austurlandi – Regnbogagötuna. Árið um kring heimsækja gestir alls staðar að úr heiminum Regnbogagötuna með það að markmiði að taka af sér „sjálfur“ í þessu skemmtilega umhverfi regnbogastrætisins og sögulegu aldamótahúsanna sem við hana standa. Við enda regnbogans trónir svo Seyðisfjarðarkirkja, sem er einnig gjarnan kölluð Bláa kirkjan. Íbúar koma reglulega saman yfir sumartímann til að endurmála regnbogann og er það gert í góðu samstarfi við sveitarfélagið. Öllum er velkomið að taka þátt í málningarvinnunni. Regnbogagatan er staðsett í miðbæ Seyðisfjarðar og mælum við eindregið með því að gestir heimsæki veitingahús, bari og verslanir sem staðsett eru við götuna. Má þar nefna hönnunarverslunina Blóðberg og Handverksmarkaðinn þar sem hægt er að kaupa seyðfirskt handverk. NorðAustur, einn vinsælasti sushi veitingastaður landsins er staðsettur á annarri hæð Hótel Öldunnar og á jarðhæðinni er veitingastaður hótelsins, sem framreiðir dýrindis mat og drykki. Handan götunnar er Café Lára , fullkominn staður ef þú ert í stuði fyrir „juicy“ borgara, steik eða fisk dagsins og mögulega einn eða tvo kalda með. Á hverju sumri fer fram Tónleikaröð Bláu kirkjunnar, sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austurlands. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem gefst færi á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarflytjendum landsins. Seyðisfjörður er hluti af ferðaleiðinni Flakkað um firði. Ef þú ert á ferðalagi um Austurland eða að skipuleggja næstu ferð mælum við hiklaust með því að þú kynnir þér sérsniðnar ferðaleiðir okkar um landshlutann. Góða ferð!
Gálgaás
Gálgaás var forn aftökustaður Héraðsbúa, rétt austan við kirkjuna á Egilsstöðum. Staðurinn gegnir stóru hlutverki í frægu sakamáli frá liðinni tíð, því þar var Valtýr á Eyjólfsstöðum tekinn af lífi fyrir meintan stuld og morð. Hélt hann þó fram sakleysi sínu allt til skapadægurs. 14 árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr. Mætti hann einnig örlögum sínum á Gálgaási. Lengi voru bein hans sjáanleg undir ásnum, því óðar blésu þau upp, hversu sem urðað var yfir.
Eggin í Gleðivík
Eggin í Gleðivík er útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson (f. 1942). Þetta eru 34 eftirmyndir eggja varpfugla sem verpa í nágrenni Djúpavogs. Verkið er sérstaklega gert fyrir staðinn og standa eggin á steyptum stöplum sem áður héldu uppi löndunarröri á milli bryggju og bræðslu. Mikið fuglalíf er á svæðinu og endurspegla eggin þá seterku tengingu sem Djúpivogur hefur við náttúruna.  Eggin í Gleðivík eru vinsæll áningarstaður ferðamanna og eru orðin eitt af kennileitum Djúpavogs.
Álfaborg
Rétt hjá þorpinu Bakkagerði á Borgarfirði eystri er tignarleg klettaborg sem kölluð er Álfaborg. Álfadrottning Íslands er sögð búa í Álfaborginni en margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn, eru til. Margir staðir eru tengdir þessum sögum um samskipti álfa og manna, t.d. er Kirkjusteinn á Krækjudal inn af Borgarfirði kirkja borgfirskra álfa.   Þægileg gönguleið liggur upp á Álfaborgina en þar er hringsjá sem útskýrir allan fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð. Auk þess er tjaldsvæðið á Borgarfirði við Álfaborgina.  
Lagarfljótsormurinn
Lagarfljótið er eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Vatnajökli til Héraðsflóa. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið nær úr Fljótsbotninum út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Er það um 53 km2 að stærð og meðaldýpi er 51 m, en mesta dýpi 112 m. Í þessum hluta Fljótsins eru heimkynni Lagarfljótsormsins. Fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum er frá 1345. Þá sáust ýmist stórar eyjar eða upp skaut lykkjum með sundum á milli og virtist mörg hundruð faðma langt. Vissu menn ekki hvaða undur þetta voru því hvorki sást haus né sporður. Árið 1589 greinir frá því að ormurinn hafi skotið kryppunni upp úr vatninu. Var kryppan svo mikil að hraðskeitt skip með þöndum seglum gat siglt undir hana. Þegar skrímsli þetta svo slengdi sér aftur niður í Fljótið varð af svo mikill gnýr og landskjálfti að allt umhverfið nötraði. Næstu aldir voru umbrot ormsins tíð. Þótti það jafnan vita á illt ef itl hans sást. Á 20. öld sást til ormsins í ýmsum myndum vítt og breitt meðfram Fljótinu og lýsingar sjónarvotta vitnuðu um ávalar kryppur sem risu upp úr vatnsyfirborðinu og færðust óháð straumi og vindum. Einnig sást til ormsins á dýptarmæli þar sem hann kúrði langt undir vatnsyfirborðinu. Í febrúar 2012 náði bóndinn á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal myndum af torkennilegu fyrirbæri sem virtist synda upp Jökulsá í Fljótsdal sem fellur í Lagarfljót. Myndband þetta dreifðist hratt um heimsbyggðina á öldum internetsins og milljónir manna skoðuðu það. Áningarstaðir með upplýsingaskiltum um orminn eru á nokkrum stöðum við Lagarfljót. Kjörið er að staldra við á þeim og vita hvort ormurinn lætur ekki á sér kræla.
Þvottaá
Þvottá er syðsti bær í Álftafirði. Hallur Þorsteinsson, Síðu-Hallur, sem var meðal kunnustu landsmanna á söguöld, bjó þar í kringum aldamótin 1000. Hann tók við Þangbrandi presti og kristniboða einn vetur og tók skírn ásamt heimafólki sínu í ánni við bæinn og síðan var hún kölluð Þvottá. Neysluvatn bæjarins kemur úr Þangbrandsbrunni, þar sem Þangbrandur er sagður hafa haldið tíðir í tjaldi sínu á Mikjálsmessu. Þar hlýddi heimafólk Síðu-Halls á messu og skírðist síðan daginn eftir. Við brunninn er Þangbrandstótt, sem er friðlýst. Þvottá var kirkjustaður fram á árið 1754 og prestsetur um skeið. Þar sést ennþá móta fyrir kirkjugarði. Mælifell (487m) er niðri við sjó og Sellönd eru nokkru norðar. Þetta svæði er prýtt litskrúðugu ríólíti og tröllahlöðum. Á þessum slóðum fann Björn Kristjánsson merki um ýmsa málma, s.s. gull, platínu o.fl., einkum í Geitursgili. Þessar bergmyndanir eru tengdar Álftafjarðareldstöðinni fornu, sem er að mestu horfin undir Álftafjörð.  Við Þvottá er minnisvarði um kristnitökuna og þar er skemmtilegt útivistarsvæði.
Tankurinn
Tankurinn er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslaln á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík á Djúpavogi en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými. Með uppbyggingu á aðstöðunni fjölgar tækifærum fyrir gesti að upplifa menningu á svæðinu sem og aukið tækifæri fyrir listamenn af svæðinu að koma verkum sínum á framfæri. Sýnendur á sýningunni Rúllandi sjóbolta hafa sýnt verk sín í sýningarrýminu. Einnig eru fjölmargir listamenn sem hafa sett upp sjálfstæð verk sín í Tankinum allan ársins hring. Ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði með þessum hætti og er Tankurinn á Djúpavogi því einn sinnar tegundar á landinu. Tankurinn er dæmi um birtingarmynd hugmyndarfræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja og endurnýtingu gamalla auðlinda í nýjar.
FRELSI og Hans Jónatan
Hans Jónatan (1784-1827) var fæddur í ánauð á St. Croix í jómfrúareyjum í Karíbahafi. Móðir hans, Emilía Regína, var ambátt ættuð frá Vestur-Afríku; faðirinn var hvítur, liklega danskur. Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigienda sinna, Schimmelmannhjóna. Hann gat sér gott orð í orrustunni um Kaupmannahöfn árið 1801 en það dugði honum ekki til að leysa sig úr ánauð. Ekkjufrú Schimmelmann höfðaði sögulegt dómsmál til að staðfesta eignarhald sitt á Hans Jónatan og vann það mál. Hans Jónatan ákvað þá að taka sér frelsi og strauk til Íslands skömmu eftir að dómur féll árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum í Löngubúð og gerðist bóndi og lét gott af sér leiða. Austfirðingar tóku leysingjanum Hans Jónatan vel og ekkert bendir til þess að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit sinn á Íslandi eða uppruna í þrældómi. Hann kvæntist stúlku úr næstu sveit, Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, og eignuðust þau tvö börn. Afkomendur þeirra eru nú um eitt þúsund. Hans Jónatan var fyrsti blökkumaðurinn sem settist að á Íslandi. Ævisagan Hans Jónatan: Maðurin sem stal sjálfum sér (höf. Gísli Pálsson) kom út árið 2014. Minnisvarði hefur verið reistur við hlið Löngubúðar á Djúpavogi til heiðurs honum og þeim alþjóðlegu viðhorfum sem krefjast þess að hörundslitur ráði ekki rétti manna. Minnisvarðinn ber nafnið FRELSI og er verk hins kunna listamanns Sigurðar Guðmundssonar. Ríkisstjórn Íslands, íbúar Djúpavogs, Fiskeldi Austurlands og fjölmargir einstaklingar stóðu rausnarlega straum af kostnaði við gerð verksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði það við hátíðlega athöfn 10. júlí 2021.
Seyðisfjarðarkirkja
Bláa Kirkjan á Seyðisfirði er orðin ein af þekktustu byggingum á Íslandi. Með hinn sérstaka bláa lit og fallega byggingarstíl hefur kirkjan skapað sér sess sem vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega eftir að gatan sem að henni liggur var máluð í regnbogalitunum. Kirkjan var upphaflega á Dvergasteini og 1882 var heimilað með lögum að flytja hana á Vestdalseyri. Fyrst var kirkjan reist á hjalla ofan við byggðina á Vestdalseyri en hún fauk um koll í ofsaveðri 1894. Kirkjan var endurreist niðri á eyrinni og stóð þar til 1920 er hún var flutt á núverandi stað í hjarta Seyðisfjarðar. 1989 skemmdist kirkjan í eldi sem kviknaði þegar unnið var að endurbótum á húsinu. Pípuorgel sem sett var upp árið 1987 gjöreyðilagðist í eldinum en í dag er í kirkjunni samskonar orgel og það sem eyðilagðist. Bláa Kirkjan er opinn fyrir gesti yfir sumartímann.
Fjallkonustígur
Gönguferð um Vestdal í Seyðisfirði að Vestdalsvatni og að skúta ?"fjallkonunnar"?. Vestdalur og Vestdalseyri eru á náttúruminjaskrá sökum sérstæðs gróðurfars og menningarminja. Hluti leiðarinnar er gömul póst- og verslunarleið er var ein sú fjölfarnasta austanlands á nítjándu öld og fram á hina tuttugustu. Má sjá fallegar gamlar veghleðslur og vörður. Sumarið 2004 fundust fyrir tilviljun bein, nælur frá Víkingaöld og mikið perlusafn  nokkru ofan við Vestdalsvatn, þar sem heitir Vatnsdalur. Rannsókn leiddi í ljós að beinin voru úr konu um þrítugsalldur frá því um 940. Telst beina- og perlufundurinn með merkari fornleifa-uppgötvunum hérlendis. Gönguleiðir upp að Vestdalsvatni, að skúta ?"fjallkonunnar" inn Stafdal, upp á Bjólf, yfir í Loðmundarfjörð eða yfir á Hérað liggja um dalinn. Sumar leiðanna eru stikaðar, aðrar eru merktar inn á kortið ?"Gönguleiðir á Víknaslóðum?" sem fæst í upplýsingamiðstöðvum. 3,5 klst / 6 km Göngufæri frá júní og frameftir hausti. 
Fjarðarselsvirkjun
Fjarðaselsvirkjun er elsta starfandi virkjunin á Íslandi, stofnsestt 1913 og lítt breytt frá upphafi. Það út af fyrir sig gerir hana mjög forvitnilega, en auk þess er hún ein af þremur til fjórum virkjunum sem mörkuðu afgerandi mest tímamót á öldinni. Meðal annars var hún fyrsta riðstraumsvirkjunin og frá henni var lagður fyrsti háspennustrengurinn. Ennfremur var hún aflstöð fyrstu bæjarveitunnar. Fyrir 90 ára afmælið 2003 ákvað RARIK að leggja áherslu á þaðö vægi sem virkjunin hefur í raforkusögu landsins og hafa hana til sýnis fyrir innlenda og erlenda gesti. Í því skyni var sett upp minjasýning í stöðvarhúsinu og stöðvarhúsið og næsta nagrenni lagfært. Nokkrum árum áður var virkjunarsvæðið endurskipulagt. Til þess að heimsækja Fjarðaselsvirkjun vinsamlegast hafið samband við Upplýsingamiðstöðina á Seyðisfirði. Nálægð virkjunarinnar við Seyðisfjörð eykur einnig gildi hennar fyrir bæjarbúa og til dæmis eru hvammurinn og gilið hluti af útivistarsvæði Seyðfirðinga. Frekari upplýsingar: Sími: +354 472 1122 / +354 472 1551 Netfang: info@sfk.is www.fjardasel.is
Djáknadys
Djáknadys er laus grafhýsi (dys) norðan megin við Hamarsfjörð. Sagan segir að á þessum stað hafi presturinn á Hálsi og djákninn á Hamri hist og þeir barist til dauða. Voru þeir báðir dysjaðir á staðnum og er nafn Djáknadysjar þannig tilkomið. Sagt er að sú kvöð hvíli á vegfarendum sem fara fram hjá dysinni í fyrsta sinn að þeir verði að kasta steinvölu í dysina, einni fyrir sig og einnig einni fyrir hvorn, hund og hest, ef með eru, annars muni þeir lenda í ógöngum. Aðrar sögur segja að leggja skuli þrjá steina í dysina. Um þetta er gamla vísan: Að flýta sér að fara af baki og fleygja steini yfir djákna aldurhniginn er það gæfa á ferðastiginn. Það skal tekið fram að í dag er dysin friðuð svo það er bæði bannað að bæta steinum við dysina og taka steina úr henni. 
Bakkagerðiskirkja
Skammt frá Álfaborginni frægu í útjaðri þorpsins á Borgarfirði eystri stendur Bakkagerðiskirkja sem vígð var árið 1901. Altaristafla kirkjunar er verk hins kunna listmálara Jóhannesar S. Kjarvals sem ólst upp í Geitavík á Borgarfirði. Altaristaflan, sem máluð var árið 1914, var gjöf kvenfélagsins á staðnum til kirkjunnar og er fjallræða Krists viðfangsefni hennar. Umhverfið er þó borgfirskt, Dyrfjöllin í baksýn og kunn andlit heimamanna þess tíma sjást í áheyrendahópnum. Altarismyndin er ein af þekktustu verkum Kjarvals og dregur að fjölda ferðamanna á hverju ári.  
Hafnarhús
Við Hafnarhólma á Borgarfirði Eystri stendur glæsilegt aðstöðuhús sem tekið var í notkun árið 2020. Þar hafði lengi vantað aðstöðu fyrir sjómenn og starfsmenn Borgarfjarðarhafnar en einnig fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína út í Hafnarhólma til að skoða lundabyggðina. Borgarfjarðarhreppur ákvað því að efla til hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um aðstöðubyggingu fyrir svæðið. Tillagan sem bar sigur úr bítum kom frá Anderson & Sigurdsson arkitektum. Húsið er er látlaust og fellur vel að umherfinu en hefur samt aðdráttarafl í sjálfu sér og fangar athygli ferðamanna.
Geirsstaðakirkja
Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Árið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands sem leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústir lítillar torfkirkju fundust auk langhúss og tveggja minni bygginga. Kirkjan er talin vera af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni og líklega ætluð heimilisfólki á bænum til nota. Endurbygging kirkjunnar fór fram 1999-2001 og er hún opin almenningi.
Kirkjubær
Kirkjubær í Hróarstungu var prestsetur til 1956.  Kirkjan var reist 1851, stór og stílhrein timburkirkja með prédikunarstól frá tíð Guðbrands Þorlákssonar biskups. Skírnarskálin er með tréumgjörð skorinni af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara og altaristaflan er frá 1894.  Gripir úr eigu kirkjunnar eru einnig í varðveislu á þjóðminjasafni. Lögferja var við Kirkjubæ.  
Kóreksstaðavígi
Kóreksstaðavígi er fallegur stuðlabergsstapi. Þar á Kórekur að hafa varist óvinum sínum um stund áður en hann féll. Hann var heygður við Vígið. Ekið er framhjá félagsheimilinu Hjaltalundi og síðan afleggjarann að Kóreksstöðum. Stoppað við bílastæði og skilti rétt hjá hliðinu heim að Kóreksstöðum. Gengið út eftir að Kóreksstaðavígi. Hólkur með gestabók og stimpli blasir við þegar komið er gangandi að Víginu. Gaman er að fara upp á Kóreksstaðavígi. Kóreksstaðavígi er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°32.782-W14°10.591 Powered by Wikiloc
Miðhús
Miðhús voru áður í þjóðbraut og þar var einn fyrsti áningarstassður ferðamanna á Héraði. Verslunarleið Héraðsmanna bæði á Seyðisfjörð og Eskifjörð lá þar um garð.  Á Miðhúsum hefur verið rekið gallerí og listasmiðjan Eik s/f síðan 1975. Þar er unnið úr íslensku hráefni. Þar var skorin út eftirlíkingin af Valþjófsstaðahurðinni sem nú er fyrir kirkjunni í Fljótsdal. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari kenndi sig við Eyvindará, hið næsta Miðhúsum og er minnisvarða um hann að finna niður við þjóðveg 93. Á Miðhúsum fannst gangsilfursjóður sem talinn er frá víkingaöld og þótti merkur fornleifafundur.
Möðrudalskirkja
Í Möðrudal á fjöllum stendur lítil og falleg kirkja sem byggð var árið 1949.Jón A. Stefánsson (1880-1971) reisti kirkjuna til minningar um konu sína, Þórunni Vilhjálmsdóttur sem lést árið 1944. Kirkjan er byggð á grunni eldri Möðrudalskirkju. Jón bæði smíðaði og skreytti kirkjuna, hann málaði meira að segja altaristöfluna, sem sýnir fjallræðuna.  Áður fyrr var prestsetur í Möðrudal, sem lagðist niður árið 1716 en þá fór staðurinn í eyði í nokkur ár. 
Möðrudalur
Möðrudalur er hæsta byggða ból á Íslandi, 469 metra yfir sjávarmáli. Bæinn er að finna á hásléttunni norðan Vatnajökuls. Möðrudalur var landnámsjörð og kirkjustaður allt frá fyrstu dögum kristni. Í dag er blandaður búskapur stundaður í Möðrudal og afurðir búsins nýttar í ferðaþjónustu staðarins. Í Möðrudal er lítil snotur kirkja sem reist var af ábúandanum Jóni Stefánssyni í minningu konu sinnar. Sonur hans Stefán Jónson, Stórval, gerði seinna garðinn frægan með myndum sínum af Herðubreið. Listin blundar enn í afkomendum Jóns bónda og myndir Írisar Lindar prýða betri herbergi Fjalladýrðar. Nokkrar gönguleiðir eru í boði á svæðinu og hægt að nálgast kort í upplýsingamiðstöð. Þar er einnig hægt að sjá kvikmynd sem sýnir svipmyndir frá gosinu í Holuhrauni 2014. Úr Möðrudal er stutt í margar óviðjafnanlegar náttúruperlur eins og Herðubreiðarlindir, Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, Jökuldalsheiði Stuðlagil og Stórurð. Tjaldsvæði opin frá júní fram í miðjan september.
Nielsenshús
Nielsenshús varreist árið 1944 af hinum danska Oswald Nielsen og var fyrsta íbúðahúsið á Egilsstöðum. Í dag er þar húsið einstaklega snyrtilegt og fallegt og í því er rekinn veitingastaður, Nielsen restaurant. Í góðu veðri er hægt að sitja úti á veröndinni og njóta sumarblíðunnar á Egilsstöðum.    
Torfhús við Hjarðarhaga
Gömlu fjárhúisn við Hjarðarhaga eru það sem eftir stendur af sex húsa þyrpingu en hin húsin voru fjarlægð um 1970 vegna nálægðar við hringveginn. Nú hafa þessi eftirstandandi hús verið gerð upp í upprunalegri mynd og er grunnformþeirra upprunalegt.   Húsin voru í notkun fram undir 1980 og kallast Efstahús og Miðhús.   
Rauðshaugur
Rauðshaugur er áberandi brjóstlaga hóll upp af Höfða og sést víða af Héraði. Þjóðsaga segir hólinn vera grafhaug Rauðs bónda á Ketilsstöðum, sem nefndur er Ásrauður í fornsögum, og sést þaðan til tveggja annarra frægra hauga, Bessahaugs í Fljótsdal og Ormarshaugs í Fellum. Sagan segir að Rauður hafi verið heygður með öll sín auðæfi og að fólk hafi reynt að grafa í hauginn en orðið frá að hverfa þar sem bærinn á Ketilsstöðum virtist standa í ljósum logum. Frábært útsýni yfir Fljótsdalshérað. Gengið frá skilti við Fagradalsveg ( N 6 5 ° 1 4 . 5 9 0 -W 1 4 ° 2 1 . 1 5 6 ) eftir vegaslóða áleiðis inn Egilsstaðahálsinn. Rauðshaugur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°12.77-W14°23.01   Powered by Wikiloc
Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík. Powered by Wikiloc
Torfbærinn á Galtastöðum fram
Á Galtastöðum fram er uppgerður 19. aldar torfbær sem nú er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hann hefur þá sérstöðu umfram aðra torfbæi landsins að skarta fjósbaðstofu; þ.e. fjósið var undir baðstofunni til þess að ylurinn frá kúnum vermdi húsakynnin. Ferðamönnum er heimilt að skoða bæinn, að fengnu samþykki húsráðanda. Stutt er þaðan í Geirsstaði þar sem er endurgert bænahús frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Unaós
Unaós er kenndur við Una Garðarsson landnámsmann, en Landnáma segir hann hafa tekið land í ósnum. Landnám hans náði alla leið að Unalæk.  Uni lagði skipi sínu að hamri sem er innar við Selfljót og heitir Knörr.  Við ströndina við ósa Selfljóts er Krosshöfði og við hann Óshöfn sem varð löggild höfn  árið 1902.  Var vörum skipað þar upp uns bílfær vegur var lagður til Borgarfjarðar eystri árið 1950.  Þurfti ládauðan sjó og háflæði til að uppskipun væri kleif. Fróðlegt er að koma að Unaósi og skoða sig um. Góðar gönguleiðir eru í nágrenninu t.d. merkt gönguleið í Stapavík. 

Aðrir (2)

Söguslóðir Austurlands Sunnufelli 4 700 Egilsstaðir
Skálanes Náttúru- og Menningarsetur Suðurgata 2 710 Seyðisfjörður info@skala