Að flakka um firði yfir vetrarmánuðina krefst undirbúnings og skilnings á því að ferðaplön geta breyst með stuttum fyrirvara. Ferðaleiðin liggur um nokkra fjallvegi sem geta á einu augabragði lokað vegna veðurs eða slæmrar færðar. Því er mælt með að ferðalangar kynni sér veðurspár og færð á vegum áður en haldið er af stað.
Veturnir eru háannatími norðurljósa – og hvar er betra að vera enn fjarri ljósmengun þéttbýla þegar myrkrið skellur á? Það er einstök upplifun að horfa upp á grænan himininn í snæviþöktu umhverfi og sjá norðurljósin leika við tinda þeirra fjölmörgu fjarða sem ferðaleiðin liggur um. Vetrarsólstöðurnar þann 21. desember marka hámark myrkursins en þá telur dagsbirtan einungis fjórar klukkustundir á dag – jafnvel enn skemur í djúpum fjörðum eins og Seyðisfirði.
Á ferðaleiðinni eru tvö skíðasvæði, í Stafdal við Seyðisfjörð og Oddsskarð í nágrenni við Eskifjörð. Skíðasvæðin henta byrjendum jafnt sem lengra komnum og geta gestir leigt allan búnað á svæðunum. Lögð eru gönguskíðaspor á báðum svæðum en einnig er að finna skemmtileg gönguskíðaspor í Selskógi við Egilsstaði, uppi á Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða og við snjóflóðavarnagarðana í Neskaupstað. Fjallaskíðaunnendur ættu sömuleiðis ekki að vera í vandræðum með að finna sér fjöll við hæfi. Við mælum með að heyra í ferðaþjónustunni á Mjóeyri ef þið hafið áhuga á slíkum ævintýrum.
Þegar flakkað er um firði að vetri til eru góðar líkur á því að sjá hreindýr við veginn – bæði stök pör og stærri hjarðir. Þegar kólna fer á fjöllum og veturinn minnir á sig færa hreindýrin sig niður að strönd í leit að æti. Það er ekki óalgengt að þau haldi sig í mikilli nálægð við vegi og því nauðsynlegt að vera á varðbergi þegar flakkað er um firði.
Ferðaleiðin endar á Neskaupstað sem er tilvalinn áningarstaður fyrir þreytta ferðalanga. Hér gefst tækifæri til þess að snúa við og halda aftur til Egilsstaða – eða þá í suðurátt og halda vegferðinni um firði Austurlands áfram. Hægt er að tengjast beint inn á ferðaleið sem liggur um Austurströndina og er þá ekið í átt að Fáskrúðsfirði.
Við mælum með að taka góðan tíma í ferðalagið til að njóta sem best þess sem fyrir augu ber á leiðinni. Hægt er að útbúa eigin útgáfu af ferðaleiðinni með því að nota „Mitt uppáhald“ möguleikann hér á síðunni. Þannig getur þú skipulagt draumaferðalagið þitt um Austurland á þann hátt sem þér hentar best. Góða skemmtun!