Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Gönguleiðir í Hallormsstað

Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn og skógurinn þekur um 740 ha lands.Land og skógur hefur umsjón með skóglendi víða um land fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir skógar eru kallaðir þjóðskógar. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring. Í marga er auðvelt að komast eins og Hallormsstaðaskóg og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins og nokkrar hjólaleiðir. Allar leiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða. Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi, Atlavík og Höfðavík. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað. Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.Á gönguleiðinni milli tjaldsvæðanna er hægt að fara í fjársjóðsleit og taka þátt í Skógarævintýri sem er leikur spilaður með Turfhunt-appinu. Víða um skóginn eru áningarstaðir og góð grillaðstaða er í Stekkjarvík og leiktæki fyrir börn. Trjásafnið á Hallormsstað er einstakt á norðurhveli jarðar. 
Hallormsstaðahringur
Skemmtileg gönguleið fyrir alla fjölskylduna. Leiðin er óstikuð en liggur inn á þrjár stikaðar gönguleiðir. Gengið er frá Hallormsstaðaskóla (Húsó), niður að Kliftjörn, þaðan í gegnum tjaldsvæðið Höfðavík og svo niður í Trjásafn. Frá Trjásafni er gengið upp í skóg og komið niður hjá Hótel Hallormsstað og hringnum lokað hjá Hallormsstaðaskóla. Hægt er að ganga leiðina í báðar áttir. Vegalengd: 5,4 km Fjölskylduvæn skógarganga
Remba - Gönguleið
Leiðin upp Rembu er mjög skemmtileg gönguleið. Á henni er hægt að skoða Lambafoss, 21 m háan, og gilið sem Staðaráin rennur eftir. Ef gengið er alla leið upp kemur maður að gamalli stíflu fyrir 27 kW virkjun sem sá Hallormsstað fyrir rafmagni á árunum 1936 - 1955. Neðan við stíluna má enn sjá leifar timbursstokksins sem leiddi vatnið niður í virkjunarhúsið. Vegalengd: 2,8 km
Trjásafnið í Hallormsstaðaskógi
Í Hallormsstaðaskógi er trjásafn með um 80 tegundum trjáa og runna víðsvegar að úr heiminum. Trjásafnið er einstakt á landsvísu. Hefjið gönguna um trjásafnið frá bílastæðinu við þjóðveginn, þar sem einnig er salernishús, og fylgið göngustígnum. Gott er að gefa sér góðan tíma, 2 til 3 klukkustundir til að skoða og njóta útiverunnar. Tilvalið er að ganga niður að Fljótinu, snæða nestið sitt og hlusta á fuglasönginn.Skógræktarstarf á Hallormsstað hófst árið 1903 með því að girt var 12 ha svæði sem nefnist Mörk. Útbúinn var græðireitur á um hálfum hektara sem var upphaf gróðrarstöðvarinnar. Árið 1905 voru gróðursett um 50 blágrenitré efst í Mörkinni. Af þeim standa enn fimm tré og eru þau elstu grenitrén í Hallormsstaðaskógi, skammt fyrir neðan bílastæðið við trjásafnið. Í áranna rás hafa einstök tré og þyrpingar af ýmsum trjátegundum og kvæmum verið gróðursett í Mörkinni og þannig varð trjásafnið til. 
Bjargselsbotnar - gönguleið
Gengið er af stað frá skilti rétt við Hallormsstaðaskóla (gamla Hússtjórnarskólann). Leiðin er merkt með ljósgrænum stikum.Gengið er um framhlaupsurð, sem myndaðist fyrir um 10.000 árum og nefnist Hólar. Áfram er haldið upp í Bjargselsbotna, inn eftir og undir Bjarginu að Þverbjargi þar sem Illaskriða hefur fallið. Út og niður af Illuskriðu er gengið niður að Leirtjarnarhrygg. Bjargselsbotnar eru hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°05.465-W14°43.031
Strútsfoss
Gengið er frá skilti rétt hjá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er nokkuð langt inn dalinn. Þá er hægt að ganga upp með Strútsgili þar sem komið er að því. Þar uppi er hólkurinn með gestabók og stimpli. Ekki er hægt að komast alla leið að fossinum nema fara niður í gilið og vaða ána nokkrum sinnum sem getur verið varhugavert. Strútsfoss er á náttúruminjaskrá. Strútsfoss er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°54.194-W15°02.314
Hengifossárgil
Hengifossárgil er með einstökum berglögum og stuðlum. Tveir gríðarlega fallegir fossar eru á leiðinni, annars vegar Stuðlabergsfoss (Litlanesfoss) sem kumkringdur er einstaklega fallegu stuðlabergi og hins vegar Hengifoss, sem er með hæðstu fossum á landinu, um 128,5 m hár. Nokkuð brött gönguleið liggur upp með gilinu, en um tvo tíma má reikna með í göngu fram og til baka. Hækkun um 300 m. Hægt er að ganga upp fyrir Hengifossinn, vaða á og ganga niður hinum megin. Fara þar sérlega varlega yfir ánna því þar geta vatnavextir verið miklir. Nálgast má upplýsingar hjá Snæfellsstofu um gönguleiðir innan Vatnajökulþjóðgarðs. Óbyggðasetur Íslands býður uppá fjölbreytta útivist og afþreyingu. Powered by Wikiloc
Ranaskógur
Ranaskógur er einn fegursti birkiskógur landsins að margra mati með óvenju sléttum skógarbotni. Hann vex ávestari gljúfurbarmi Gilsár á gömlum hreppa- og sýslumörkum fyrir botni Lagarfljóts þar sem Hrafnkelsstaðaháls endar í svonefndum Rana. Í skóginum er víða að finna hvítstofna, beinvaxin birkitré og skógarbotn þakinn blágresi og hrútaberjalyngi. Þá er töluvert af háum reyniviði innan um birkið og hvergi á landinu jafnmörg stór reyniviðartré á jafnlitlu svæði.  Mitt í skóginum við svonefndan Kiðuhól er lítill reitur með barrtrjám sem Metúsalem J. Kerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, gróðursetti á árunum 1955 - 1961 til minningar um Pál bróður sinn. Af þeim 23 trjátegundum sem Metúsalem gróðursetti lifir 21 og eru hæstu trén að nálgast 20 metrana. Ranaskógur hefur haldist allt frá landnámi og er hans getið í heimildum frá 15. öld. Skógurinn á þessum slóðum kemur við sögu í Hrafnkels sögu Freysgoða en þar segir frá því að Hrafnkell hafi fellt mörkina á Lokhillu þegar hann flutti í Fljótsdal og byggt þar sem síðar heita Hrafnkelsstaðir. Í kjölfar deilna um skógarítök milli bænda á Hrafnkelsstöðum og Víðivöllum á 19. öld var neðri hluti skógarins að mestu felldur en hann teygði sig þá suður undir Kirkjuhamar. Af þeim hluta skógarins standa nú aðeins örfá birkitré á svonefndum Skógarbala. Fram undir miðja 20. öld var skógurinn nytjaður á hefðbundinn hátt til eldiviðar en 1951 keypti Eikríkur M. Kjerúlf skóginn og lagði hann undir nýbýlið Vallholt.  Ranaskógur er á náttúruminjaskrá ásamt Gilsárgljúfri og Gilsáreyri.
Tröllkonustígur
Tröllkonustígur heitir gönguleið á milli Skriðuklausturs og Végarðs í Fljótsdals sem liggur m.a. eftir berggangi er skásker Valþjófsstaðafjall. Þjóðsagan segir gatan í fjallinu sé tilkomin vegna ferðalaga tröllskessu forðum daga. Gönguleiðin er stikuð og liggur um skóg ofan við Snæfellsstofu og út að Bessastaðarárgljúfri. Vegalengd: 5 km.
Fossahringur
Fossahringur er 8 kílómetra gönguhringur sem byrjar og endar í Laugarfelli, það tekur um 2 -3 klukkutíma að ganga þessa leið. Á gönguleiðinni má sjá 5 fossa og eitt gljúfur. Sumir þessara fossa eru meðal vatnsmestu fossa á Austurlandi og þekktastir þeirra eru Kirkjufoss og Faxi en þeir eru í Jökulsá í Fljótsdal sem rennur út í Lagarfljót.  Gangan er stikuð og nýtur sívaxandi vinsælda meðal göngufólks. Tilvalið er í lok göngu að baða sig í náttúrulaugunum í Laugarfelli.
Fossagangan
Í Jökulsá í Fljótsdal er fjöldi fossa af ýmsum stærðum og gerðum. Þeir neðstu eru skammt fyrir innan eyðibýlið Kleif og síðan allar götur upp að Eyjabökkum. Á þeirri 20 kílómetra leið er fjöldi mikilfenglegra fossa. Fossagangan hefst við Óbyggðasetur Íslands í Norðurdal í Fljótsdal. Þaðan er um 6 klukkustunda þægileg ganga um afar fallegt svæði meðfram Jökulsá í Fljótsdal. Áin rennur víða í gljúfrum og vestan hennar er Kleifarskógur, náttúrulegur birkiskógur sem gamaner að fara um. Nokkrar l´likkur eru á að rekast á hreindýr á leiðinni. Þegar inn á hásléttuna er komið bíða göngufólks náttúrulaugar við nýjan og glæsilegan fjallaskála við Laugarfell. Fyrir þá sem vilja ganga niður í móti er ágætt að byrja við Laugarfell og ganga niður að Óbyggðasetrinu. Bæði Laugarfell og Óbyggðasetrið bjóða upp á að skutla fólki milli staðanna fyrir eða eftir göngu.
Snæfell
Snæfell (1833 m) er hæsta fjall Íslands, utan jökla, og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Sumar rannsóknir benda til þess að fjallið kunni enn að vera virk eldstöð, aðrar telja svo ekki vera. Snæfell er fremur auðvelt uppgöngu, en þó ekki fyrir óvana. Þá er lagt af stað skammt sunnan við Snæfellsskála sem er undir vesturhlíð Snæfells, eða frá Sandfelli að norðanverðu. Að fjallinu liggur sumarvegur sem fær er fjórhjóladrifnum bílum og dugir dagurinn til að klífa það, sé lagt upp frá Egilsstöðum snemma að morgni. Gott er að reikna með um 7-9 tímum í göngu.
Vatnsdalur
Falleg gönguleið norðaustan við Snæfell sem liggur um dalverpið á milli Nálhúshnjúka, Sandfells og Vatnskolls sem geymis lítið stöðuvatn sem Hölkná fellur úr til norðurs. Stikuð leið liggur á milli bílastæða vð Hölkná að norðan og á Snæfellsnesi að austan. Mikilvægt er að fylgja göngustígnum því að dýjamosinn í Vatnsdal er afar viðkvæmur. Vegalengd: 5,2 km.
Ormurinn í Vallanesi
Ævintýraleg gönguleið sem hlykkjast eins og Lagarfljótsormurinn um elsta skógarreitinn í Vallanesi frá 1989. Á leðinni eru margir stuttir og spennandi hliðarstígar (flóttaleiðir). Í miðjum skóginum er "auga ormsins", svæði með bekkjum og góðri nestisaðstöðu. Vegalengd: 1,5 km Fjölskylduvæn
Sótavistir - Gönguleið
Stikuð gönguleið við rætur Snæfells þar sem Sótajökull er að hverfa úr jökulskál í fjallinu sem kallast Sótavistir. Neðst stendur stór drangur úr dökku gjallbergi sem skriðjökullinn hefur reist upp á endann svo hann líkist bautasteini. Kallast hann Sótaleiði, kenndur við jötuninn Sóta.
Gjárhjalli
Gönguleiðin að Gjárhjalla liggur frá Glúmsstaðaseli í Norðurdal Fljótsdal og upp í vesturhlíð Múlans.  Gjárhjallinn er sérstakt náttúrufyrirbæri með sprungum og gjám, allt að 20 m djúpum. Gjárnar eru taldar hafa myndast við hægfara bergskrið (rock creep) á árþúsundum. Vegalengd: 2 km Brött og varast þarf jarðsprungur.
Bessastaðaárgil
Bessastaðaárgil er innan við Bessastaði og Eyrarland. Hægt er að ganga frá Melarétt með aðalveginum og yfir brúna. Þaðan er farið upp með gilinu að utanverðu. Stærsti fossinn í gilinu heitir Jónsfoss um 30m á hæð nálægt miðju gilinu, en neðar eru Tófufoss og Litlifoss. Þar undir er Sunnevuhylur og sést í hann frá vegi. Litrík setlög eru í gilinu frá tertíertíma og surtarbrandsvottur með fornum gróðurleifum eins og í Hengifossárgilinu. Gilið má einnig skoða frá hálendisveginum sem liggur að Snæfelli en á einum stað liggur vegurinn alveg fram að gilbarminum. Ef farið er upp með ánni að innanverðu er komið að lítilli laut neðan við Tófufoss.
Hrakstrandarkofi
Hrakstrandarkofi er nýuppgerður gangnamannakofi á gönguleiðinni á milli Norður- og Suðurdals. Hægt er að ganga inn Norðurdal fram hjá Glúmsstaðaseli og inn að Hrakströnd og svo daginn eftir yfir í Þorgerðarstaðadal og fram Suðurdal. Bókanir í kofann fara fram hjá Óbyggðarsetri Íslands.