Bessastaðaárgil
Bessastaðaárgil er innan við Bessastaði og Eyrarland. Hægt er að ganga frá Melarétt með aðalveginum og yfir brúna. Þaðan er farið upp með gilinu að utanverðu. Stærsti fossinn í gilinu heitir Jónsfoss um 30m á hæð nálægt miðju gilinu, en neðar eru Tófufoss og Litlifoss. Þar undir er Sunnevuhylur og sést í hann frá vegi. Litrík setlög eru í gilinu frá tertíertíma og surtarbrandsvottur með fornum gróðurleifum eins og í Hengifossárgilinu. Gilið má einnig skoða frá hálendisveginum sem liggur að Snæfelli en á einum stað liggur vegurinn alveg fram að gilbarminum. Ef farið er upp með ánni að innanverðu er komið að lítilli laut neðan við Tófufoss.