Gunnarsstofnun í samstarfi við HAKK Gallery opnar samsýninguna SNAGAR laugardaginn 12. aprÍl, þar sem 30 hönnuðir, listamenn, handverksfólk og arkitektar sýna veggsnaga í sinni fjölbreyttustu mynd, efni og formi. Þátttakendur eru bæði innlendir og erlendir, með margs konar bakgrunn og reynslu, nýútskrifaðir sem og landskunnir. Inntak sýningarinnar er einfalt en um leið flókið í einfaldleika sínum: Hvað er snagi?
Sýningin er afturlit til sambærilegrar sýningar sem haldin var í Gallerí Greip á Listahátíð 1996. Nokkrir þátttakenda þeirrar sýningar taka nú þátt aftur, tæpum 30 árum síðar. Sýningin á Listahátíð bar vel með sér tíðarandann í lok síðustu aldar en nú er tími kominn til að líta aftur, rýna í þær miklu breytingar sem orðið hafa á samfélaginu um leið og horft er fram á veg.
HAKK Gallery hlaut styrk úr Hönnunarsjóði Íslands haustið 2024. Handverk og Hönnun eru sérstakir samstarfsaðilar að sýningunni.
Sýningin á Skriðuklaustri stendur til 4. maí.
HAKK Gallery spratt upp úr samtali Gunnars Péturssonar myndlistarmanns, eiganda SKEKK – sýningarstýrðrar hönnunarverslunar, og Brynhildar Pálsdóttur vöruhönnuðar, um stöðu og framtíð íslenskrar hönnunar- og handverkssamfélags. HAKK gallery er þverfaglegur vettvangur íslenskrar hönnunar og er ætlað að skapa frjóan jarðveg fyrir innlent handverk og smáframleiðslu. HAKK heldur nokkrar sýningar á ári þar sem hver og ein sýning hefur skýra stefnu, áherslu á efni, aðferð og hugmyndafræði.