Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Egilsstaðir - Saga og menning

Nielsenshús
Nielsenshús varreist árið 1944 af hinum danska Oswald Nielsen og var fyrsta íbúðahúsið á Egilsstöðum. Í dag er þar húsið einstaklega snyrtilegt og fallegt og í því er rekinn veitingastaður, Nielsen restaurant. Í góðu veðri er hægt að sitja úti á veröndinni og njóta sumarblíðunnar á Egilsstöðum.    
Geirsstaðakirkja
Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Árið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands sem leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústir lítillar torfkirkju fundust auk langhúss og tveggja minni bygginga. Kirkjan er talin vera af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni og líklega ætluð heimilisfólki á bænum til nota. Endurbygging kirkjunnar fór fram 1999-2001 og er hún opin almenningi.
Kjarvalshvammur
Kjarvalshvamm er að finna við vegarbrún nr. 94 skammt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Kjarval dvaldi þarna í tjaldi í tvö ár í kringum 1948. En bóndinn gaf honum skikann og reisti kofann. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði margar af frægustu myndum sínum. Þetta er eina fasteignin sem Kjarval átti. Þarna er líka bátaskýli fyrir Mávinn, bát sem Kjarval sigldi eitt sinn niður Selfljótið til Borgarfjarðar.  
Sænautasel
Sænautasel á Jökuldalsheiði við samnefnt vatn var endurbyggt í lok síðustu aldar sem góður fulltrúi heiðarbýlanna fyrrum tíð. Þar er tekið á móti ferðamönnum á sumrin. Í Sænautaseli er boðið upp á hina ýmsu skemmtun og léttar veitingar að þjóðlegum hætti. Opið er alla daga í júní-ágúst.
Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík. Powered by Wikiloc
Lagarfljótsormurinn
Lagarfljótið er eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Vatnajökli til Héraðsflóa. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið nær úr Fljótsbotninum út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Er það um 53 km2 að stærð og meðaldýpi er 51 m, en mesta dýpi 112 m. Í þessum hluta Fljótsins eru heimkynni Lagarfljótsormsins. Fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum er frá 1345. Þá sáust ýmist stórar eyjar eða upp skaut lykkjum með sundum á milli og virtist mörg hundruð faðma langt. Vissu menn ekki hvaða undur þetta voru því hvorki sást haus né sporður. Árið 1589 greinir frá því að ormurinn hafi skotið kryppunni upp úr vatninu. Var kryppan svo mikil að hraðskeitt skip með þöndum seglum gat siglt undir hana. Þegar skrímsli þetta svo slengdi sér aftur niður í Fljótið varð af svo mikill gnýr og landskjálfti að allt umhverfið nötraði. Næstu aldir voru umbrot ormsins tíð. Þótti það jafnan vita á illt ef itl hans sást. Á 20. öld sást til ormsins í ýmsum myndum vítt og breitt meðfram Fljótinu og lýsingar sjónarvotta vitnuðu um ávalar kryppur sem risu upp úr vatnsyfirborðinu og færðust óháð straumi og vindum. Einnig sást til ormsins á dýptarmæli þar sem hann kúrði langt undir vatnsyfirborðinu. Í febrúar 2012 náði bóndinn á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal myndum af torkennilegu fyrirbæri sem virtist synda upp Jökulsá í Fljótsdal sem fellur í Lagarfljót. Myndband þetta dreifðist hratt um heimsbyggðina á öldum internetsins og milljónir manna skoðuðu það. Áningarstaðir með upplýsingaskiltum um orminn eru á nokkrum stöðum við Lagarfljót. Kjörið er að staldra við á þeim og vita hvort ormurinn lætur ekki á sér kræla.
Sláturhúsið
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs var stofnuð árið 2005 og er hlutverk hennar að ýta undir skapandi starfsemi,hvetja til þátttöku almennings og efla lista- og menningarstarf á Austurlandi. Menningarmiðstöðin er lykilstofnun við framkvæmd menningarstefnu sveitarfélagsins og leggur sérstaka áherslu á sviðslistir (performing arts). Önnur áhersla miðstöðvarinnar er lista og menningaruppeldi barna og ungmenna og því er áhersla á að sem flest verkefni hafi fræðslugildi auk hins listræna og menningarlega gildis.  Þó áhersla sé lögð á sviðslistir þá sinnir MMF / Sláturhús einnig öðrum listgreinum, meðal annars með myndlistarsýningum, kvikmyndasýningum, tónleikum auk annarra menningarviðburða.  Í Sláturhúsinu er einnig gestaíbúð og vinnuaðstaða fyrir listafólk.  MMF er til húsa í Sláturhúsinu við Kaupvang.
Minjasafn Austurlands
Minjasafn Austurlands varðveitir minjar um sögu, menningu og samfélag fjórðungsins. Á safninu eru tvær grunnsýningar, annars vegar sýningin Hreindýrin á Austurlandi og hins vegar sýningin Sjálfbær eining. Þar fyrir utan eru settar upp margvíslegar smærri sýningar yfir árið. Hreindýrin á AusturlandiÁ sýningunni er fjallað um lífshætti og lífsbaráttu hreindýranna, hætturnar sem þau búa við af völdum náttúru og mannsins, um rannsóknir á þeim, sögu hreindýraveiða og hvernig afurðir dýranna hafa verið nýttar til matar og í handverk. Á sýningunni er meðal annars hægt að horfa á kvikmyndina Á hreindýraslóðum eftir Eðvarð Sigurgeirsson frá fimmta áratug 20. aldar, hlusta á frásagnir hreindýraveiðimanna og virða fyrir sér fjölda ljósmynda og muna sem tengjast hreindýrum og hreindýraveiðum. Sjálfbær einingYfirskrift sýningarinnar vísar til þess að áður fyrr þurfti hvert íslenskt sveitaheimili að vera sjálfu sér nægt um brýnustu lífsnauðsynjar, s.s. fæði, klæði, áhöld, verkfæri og húsaskjól. Til sýnis eru ýmsir gripir sem tilheyra sögu gamla sveitasamfélagsins á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Með þess sýningargripa er baðstofa frá bænum Brekku í Hróarstungu. Upplýsingar um yfirstandandi sérsýningar og aðra viðburði má finna á heimasíðu safnsins. Opunartímar: September-maí: Þriðjudaga – föstudaga, 11:00-16:00 Júní – ágúst: Opið alla daga frá 10:00-18:00 Hægt að semja um opnun utan auglýsts opnunartíma. Upplýsingar um aðgangseyri má finna á heimasíðu safnsins.
Gálgaás
Gálgaás var forn aftökustaður Héraðsbúa, rétt austan við kirkjuna á Egilsstöðum. Staðurinn gegnir stóru hlutverki í frægu sakamáli frá liðinni tíð, því þar var Valtýr á Eyjólfsstöðum tekinn af lífi fyrir meintan stuld og morð. Hélt hann þó fram sakleysi sínu allt til skapadægurs. 14 árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr. Mætti hann einnig örlögum sínum á Gálgaási. Lengi voru bein hans sjáanleg undir ásnum, því óðar blésu þau upp, hversu sem urðað var yfir.
Kirkjubær
Kirkjubær í Hróarstungu var prestsetur til 1956.  Kirkjan var reist 1851, stór og stílhrein timburkirkja með prédikunarstól frá tíð Guðbrands Þorlákssonar biskups. Skírnarskálin er með tréumgjörð skorinni af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara og altaristaflan er frá 1894.  Gripir úr eigu kirkjunnar eru einnig í varðveislu á þjóðminjasafni. Lögferja var við Kirkjubæ.  
Kóreksstaðavígi
Kóreksstaðavígi er fallegur stuðlabergsstapi. Þar á Kórekur að hafa varist óvinum sínum um stund áður en hann féll. Hann var heygður við Vígið. Ekið er framhjá félagsheimilinu Hjaltalundi og síðan afleggjarann að Kóreksstöðum. Stoppað við bílastæði og skilti rétt hjá hliðinu heim að Kóreksstöðum. Gengið út eftir að Kóreksstaðavígi. Hólkur með gestabók og stimpli blasir við þegar komið er gangandi að Víginu. Gaman er að fara upp á Kóreksstaðavígi. Kóreksstaðavígi er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°32.782-W14°10.591 Powered by Wikiloc
Miðhús
Miðhús voru áður í þjóðbraut og þar var einn fyrsti áningarstassður ferðamanna á Héraði. Verslunarleið Héraðsmanna bæði á Seyðisfjörð og Eskifjörð lá þar um garð.  Á Miðhúsum hefur verið rekið gallerí og listasmiðjan Eik s/f síðan 1975. Þar er unnið úr íslensku hráefni. Þar var skorin út eftirlíkingin af Valþjófsstaðahurðinni sem nú er fyrir kirkjunni í Fljótsdal. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari kenndi sig við Eyvindará, hið næsta Miðhúsum og er minnisvarða um hann að finna niður við þjóðveg 93. Á Miðhúsum fannst gangsilfursjóður sem talinn er frá víkingaöld og þótti merkur fornleifafundur.
Möðrudalskirkja
Í Möðrudal á fjöllum stendur lítil og falleg kirkja sem byggð var árið 1949.Jón A. Stefánsson (1880-1971) reisti kirkjuna til minningar um konu sína, Þórunni Vilhjálmsdóttur sem lést árið 1944. Kirkjan er byggð á grunni eldri Möðrudalskirkju. Jón bæði smíðaði og skreytti kirkjuna, hann málaði meira að segja altaristöfluna, sem sýnir fjallræðuna.  Áður fyrr var prestsetur í Möðrudal, sem lagðist niður árið 1716 en þá fór staðurinn í eyði í nokkur ár. 
Möðrudalur
Möðrudalur er hæsta byggða ból á Íslandi, 469 metra yfir sjávarmáli. Bæinn er að finna á hásléttunni norðan Vatnajökuls. Möðrudalur var landnámsjörð og kirkjustaður allt frá fyrstu dögum kristni. Í dag er blandaður búskapur stundaður í Möðrudal og afurðir búsins nýttar í ferðaþjónustu staðarins. Í Möðrudal er lítil snotur kirkja sem reist var af ábúandanum Jóni Stefánssyni í minningu konu sinnar. Sonur hans Stefán Jónson, Stórval, gerði seinna garðinn frægan með myndum sínum af Herðubreið. Listin blundar enn í afkomendum Jóns bónda og myndir Írisar Lindar prýða betri herbergi Fjalladýrðar. Nokkrar gönguleiðir eru í boði á svæðinu og hægt að nálgast kort í upplýsingamiðstöð. Þar er einnig hægt að sjá kvikmynd sem sýnir svipmyndir frá gosinu í Holuhrauni 2014. Úr Möðrudal er stutt í margar óviðjafnanlegar náttúruperlur eins og Herðubreiðarlindir, Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, Jökuldalsheiði Stuðlagil og Stórurð. Tjaldsvæði opin frá júní fram í miðjan september.
Rauðshaugur
Rauðshaugur er áberandi brjóstlaga hóll upp af Höfða og sést víða af Héraði. Þjóðsaga segir hólinn vera grafhaug Rauðs bónda á Ketilsstöðum, sem nefndur er Ásrauður í fornsögum, og sést þaðan til tveggja annarra frægra hauga, Bessahaugs í Fljótsdal og Ormarshaugs í Fellum. Sagan segir að Rauður hafi verið heygður með öll sín auðæfi og að fólk hafi reynt að grafa í hauginn en orðið frá að hverfa þar sem bærinn á Ketilsstöðum virtist standa í ljósum logum. Frábært útsýni yfir Fljótsdalshérað. Gengið frá skilti við Fagradalsveg ( N 6 5 ° 1 4 . 5 9 0 -W 1 4 ° 2 1 . 1 5 6 ) eftir vegaslóða áleiðis inn Egilsstaðahálsinn. Rauðshaugur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°12.77-W14°23.01   Powered by Wikiloc
Skessugarður
Skessugarður er mikill ruðningshryggur gerður úr ferlegu, dílóttu stórgrýti og liggur þvert yfir Grjótgarðsháls frá vestri til austurs, vestan við Grjótgarðsvatn ytra. Garðurinn er um 300 m langur og allt að 7 m hár á kafla að utanverðu, en stórgrýtisdreif af sömu bergtegund er á hálsinum báðum megin við garðinn. Garðurinn markar stöðnunar - eða framrásarstig Brúarjökuls í lok síðasta jökulskeiðs. Skessugarður mun vera næstum einstæður meðal jökulgarða að því leyti að hann er gerður úr stórgrýti einu saman - fínefni vantar - en meðal einkenna jökulgarða er það einmitt að í þeim ægir saman misgrófu efni, frá jökulleir til stórgrýtis. Skýring þessa er sennilega sú að vatnsflóð hafi skolað burt fíngerðara efninu eftir að garðurinn myndaðist og stórgrýtið eitt orðið eftir. Þessi grjóthryggur er því merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri sem á fáa eða enga sína líka, hérlendis eða erlendis. Nafnið tengist gamalli tröllasögu; tvær skessur áttu að hafa hlaðið garðinn sem landmerki á milli sín. Sæmileg bílaslóð er af gamla Möðrudalsveginum um hálstaglið inn að vatninu og garðinum.
Torfhús við Hjarðarhaga
Gömlu fjárhúisn við Hjarðarhaga eru það sem eftir stendur af sex húsa þyrpingu en hin húsin voru fjarlægð um 1970 vegna nálægðar við hringveginn. Nú hafa þessi eftirstandandi hús verið gerð upp í upprunalegri mynd og er grunnformþeirra upprunalegt.   Húsin voru í notkun fram undir 1980 og kallast Efstahús og Miðhús.   
Torfbærinn á Galtastöðum fram
Á Galtastöðum fram er uppgerður 19. aldar torfbær sem nú er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hann hefur þá sérstöðu umfram aðra torfbæi landsins að skarta fjósbaðstofu; þ.e. fjósið var undir baðstofunni til þess að ylurinn frá kúnum vermdi húsakynnin. Ferðamönnum er heimilt að skoða bæinn, að fengnu samþykki húsráðanda. Stutt er þaðan í Geirsstaði þar sem er endurgert bænahús frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Unaós
Unaós er kenndur við Una Garðarsson landnámsmann, en Landnáma segir hann hafa tekið land í ósnum. Landnám hans náði alla leið að Unalæk.  Uni lagði skipi sínu að hamri sem er innar við Selfljót og heitir Knörr.  Við ströndina við ósa Selfljóts er Krosshöfði og við hann Óshöfn sem varð löggild höfn  árið 1902.  Var vörum skipað þar upp uns bílfær vegur var lagður til Borgarfjarðar eystri árið 1950.  Þurfti ládauðan sjó og háflæði til að uppskipun væri kleif. Fróðlegt er að koma að Unaósi og skoða sig um. Góðar gönguleiðir eru í nágrenninu t.d. merkt gönguleið í Stapavík. 
Vallanes
Vallanes er kirkjustaður frá fornu fari og margir þjóðþekktir einstaklingar hafa gengið þar um götu.  Þar er stunduð lífræn ræktun undir vörumerkinu "Móðir Jörð". Grænmeti og korn er ræktað og úr því unnin matvæli og hvers kyns olíur.  Í jaðri jarðarinnar eru "Iðavellir" sem státa af góðri aðstöðu til hestamennsku og litlu félagsheimili samnefndu.