Búðarárgil og Búðarárfoss
Falleg gönguleið frá miðbæ Reyðarfjarðar.
Búarárfoss er að finna ofan við Reyðarfjörð. Fossinn er vatnsmikill og fellur niður Búðarkletta, áin rennur niður með miðju þéttbýli Reyðarfjarðar.
Skemmtilegur göngustígur upp Búðarárgil, frá miðbænum upp með Búðaránni. Leiðin liggur m.a. framhjá Íslenska stríðsárasafninu. Búðarklettarnir eru mjög tignarlegir þar sem staðið er undir þeim, þar hafa bjargdúfur (Colombia livia) sinn dvalarstað, jafnframt er þar hrafnslaupur (Corvus corax) og niður í urðinni er talsvert af steindepli (Oenanathe oenanthe), músarindli (Troglodyted troglodytes) og snjótittlingi (Plectrophenaxnivalis).
Skömmu síðar er komið að Búðarárfossi og fyrir ofan hann er stífla Rafveitu Reyðarfjarðar. Rafveitan var stofnuð með sameiginlegu átaki bæjarbúa árið 1930. Enn ofar er svo Svínadalur.