Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Flögufoss
Flögufoss er glæsilegur foss í Breiðdal. Fossinn er nokkuð hár, um 60 metrar, og er staðsettur í einstaklega fallegu og jarðfræðilega merkilegu umhverfi en Breiðdalurinn er hluti af hinni fornu megineldstöð Austurlands. Rétt fyrir ofan Flögufoss er annar lítill foss sem fellur niður á stall en þaðan rennur fossinn undir lítinn steinboga. Athyglivert er að þó áin hafi verið til staðar í þúsundir ára þá breytti hún leið sinni til þess að fossinn rynni undir steinbogann ekki fyrr en um aldamótin. Þetta gerði fossinn enn glæsilegri en hann þegar var.  Þægileg gönguleið liggur frá þjóðveginum að fossinum. 
Einbúi í Jafnadal
Jafnadalur gengur inn úr Stöðvafirði að norðan. Um dalinn liggur gönguleið yfir Stöðvarskarð. Innst í Jafnadal er að finna klettaborgina Einbúa, sem samanstendur af nokkrum sérstæðum stórum steinum sem teygja sig stakir upp úr  flatendinu umhverfis. Í Jafnadal er einnig að finna allstóran steinboga, er gnæfir austan í Álftafelli og er um 6m. að ummáli. Svæðið er áhugavert og fallið til lengri og skemmri gönguferða.   Powered by Wikiloc
Vöðlavík gönguleiðir
Vöðlavík, sem stundum er kölluð Vaðlavík, er eyðivík sunnan Gerpis en þar voru áður nokkrir sveitabæir. Vegarslóði liggur til Vöðlavíkur, sem er einungis opinn á sumrin og er þá fær er fjórhjóladrifnum bílum.  Tvær stikaðar gönguleiðir liggja til Vöðlavíkur frá Eskifirði /Reyðarfirði, annars vegar yfir Karlsskálastað og hins vegar fyrir krossanes. Frá Vöðlavík liggur gönguleið yfir í Sandvík. Það er um fimm klukkustunda ganga um Gerpisskarð, sem fer hæst í um 700 m.y.s.  Úr víkinni og heiðinni, Vöðlavíkurheiði, eru tveir fjallstindar einna mest áberandi: Snæfugl og Hestshaus. Hörmuleg sjóslys hafa orðið við Vöðlavík á liðnum árum. Til dæmis strandaði skipið Bergvík SU í Vöðlavík í desember 1993. Mörgum er enn í minni að við tilraun til þess að ná skipinu á flot strandaði björgunarskipið Goðinn í víkinni þann 10. janúar 1994. Einn fórst við strandið en þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli bjargaði öðrum skipverjum. Um þessa atburði er fjallað í heimildarmyndinni Háski í Vöðlvík.
Búðarárgil og Búðarárfoss
Falleg gönguleið frá miðbæ Reyðarfjarðar. Búarárfoss er að finna ofan við Reyðarfjörð. Fossinn er vatnsmikill og fellur niður Búðarkletta, áin rennur niður með miðju þéttbýli Reyðarfjarðar. Skemmtilegur göngustígur upp Búðarárgil, frá miðbænum upp með Búðaránni. Leiðin liggur m.a. framhjá Íslenska stríðsárasafninu. Búðarklettarnir eru mjög tignarlegir þar sem staðið er undir þeim, þar hafa bjargdúfur (Colombia livia) sinn dvalarstað, jafnframt er þar hrafnslaupur (Corvus corax) og niður í urðinni er talsvert af steindepli (Oenanathe oenanthe), músarindli (Troglodyted troglodytes) og snjótittlingi (Plectrophenaxnivalis). Skömmu síðar er komið að Búðarárfossi og fyrir ofan hann er stífla Rafveitu Reyðarfjarðar. Rafveitan var stofnuð með sameiginlegu átaki bæjarbúa árið 1930. Enn ofar er svo Svínadalur.
Gerpir
Gerpir er austasti höfði landsins, snarbrattur og hömróttur sjávarmegin, 661 m. hár. Talið er að eitt elsta berg landsins, um 12 milljóna ára gamalt, sé að finna í Gerpi. Gerpissvæðið er sannkölluð paradís fyrir göngufólk. Hefur Ferðafélag Fjarðamanna gefið út göngukort af svæðinu er fæst í upplýsingamiðstöðvum og verslunum víða í Fjarðabyggð Ástæða er til að mæla með heimsókn á Gerpissvæðið við alla sem hafa áhuga á útivist.     Powered by Wikiloc
Helgustaðanáma gönguleið
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni.  Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er kennt við Ísland á fjölörgum tungumálum, til dæmis er enska heitið Iceland spar. Mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim kemur úr Helgustaðanámu en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Í dag er silfurbergið friðlýst og stranglega bannað er að nema það brott. 
Hólmatindur gönguleið
Hólmatindur, 985 metra hár, er stolt Eskfirðinga en glæsilegur tindurinn stendur austan megin í firðinum, gengt þorpinu. Krefjandi gönguleið liggur á fjallið en á toppnum geta göngugarpar kvittað í gestabók.  Hólmatindur er eitt af „Fjöllunum fimm í Fjarðabyggð “ en það er verkefni sem skólabörn fundu upp en Ferðafélag Fjarðamanna hrinti í framkvæmd.    Powered by Wikiloc
Grænafell
Skjólsælt og vinalegt svæði undir kjarrivöxnum hlíðum Grænafells skammt vestan við þéttbýlið Reyðarfjörð. Auðfær, stikuð gönguleið liggur upp á fellið frá Fagradal. Á Grænafelli er lítið stöðuvatn. Síðan er unnt að fylgja stórfenglegri gönguleið meðfram undurfögru gili Geithúsaár. Stórir steinar í kjarrinu minna á álfaborgir en eru í raun framburður snjóflóða og skriða úr fjallinu.  Áratugum saman var hefð að unglingar gróðusettu hver sitt tré í Grænafellinu og eru stór grenitré dæmi um það. Í Grænafelli var löngum samkomustaður Reyðfirðinga og háðu þeir íþróttamót sín þar.  Nú er þetta vinsælasta göngusvæði þorpsbúa.
Steinboginn í Jafnadal
Einstaklega heillegur og fagur steinbogi Í hlíðum Álftafells er einstæður steinbogi sem gaman er að skoða. Boginn er afar heillegur og þykir með þeim flottari á landinu. Álftafell gengur upp af Jafnadal, sem gengur inn af Stöðvarfirði. Á leðinni er klettaþyrpingin Einbúi, sem samanstendur af stóru sérstæðu bjargi. 
Fjöllin á Stöðvarfirði
Súlur - Fremstar meðal jafningja. Fyrir áhugamenn um fjallgöngur er fjallahringurinn í Stöðvarfirði með áhugaverðari stöðum til slíkrar iðju. Ber þar fremstan að telja meðal jafningja Súlur, einkennisfjöll staðarins sem er mjög krefjandi gönguleið og aðeins á færi reyndra klifurkappa. Einnig má nefna Kumlafell, en þar getur að líta gat efst í fjallinu og sést í gegnum það til Fáskrúðsfjarðar. Beint fyrir ofan þorpið er fjallið Steðji. Við rætur þess eru Steðjatjarnir en ofar Stórakerald og Tyrkjaurð, svo eitthvað sé nefnt.
Hafnarnesviti
Vitinn á Hafnarnesi lætur ekki mikið yfir sér en gönguferð þangað er vel þess virði að fara. Á Hafnarnesi eru heilmiklar minjar um byggð sem lagðist að mestu af á ofan verðri 20. öld en fór alveg í eyði um 1970. Flestir urðu íbúarnir um 100 talsins. Árið 1939 var Franski spítalinn fluttur út á Hafnarnes og stóð þar um 70 ára skeið. Vegleg byggingin myndar nú kjarnann í frönsku húsaþyrpingunni á Fáskrúðsfirði.
Asknes gönguleið
Að Asknesi í Mjóafirði má sjá leifar af gamalli hvalstöð, sem reist var af Norðmönnum um aldamótin 1900. Var hún sú stærsta í heiminum á þeim tíma. Þegar umsvif stöðvarinnar voru í hámarki unnu þar um 200 manns en í dag búa aðeins um 40 manns í Mjóafirði öllum. Það liggur enginn vegur út á Asknes en þangað er skemmtilegt að ganga frá veginum innst í firðinum.
Sandfell
Sandfell (743 m) er fallegt líparítfjall sunnan Fáskrúðsfjarðar og er það dæmigerður bergeitil. Í suðurhlíðum fjallsins má sjá hvernig bergeitillinn hefur lyft upp basaltþekju. Bergeitillinn er talinn vera 600 m þykkur og eitt besta sýnishorn frá tertíertíma á norðurhveli jarðar. Mjög skemmtileg og falleg gönguleið er upp á Sandfellið. Powered by Wikiloc
Gilsárfoss
Skemmtileg gönguleið liggur frá Vattarnesvegi, austanmegin við þéttbýlið á Fáskrúðsfirði upp með Gilsá. Fjölmargir fallegir fossar eru á leiðinni og ganga má á bak við einn þeirra. Sá foss nefnist Gilsárfoss.  Um 15 mínútur tekur að ganga að fossinum frá veginum. Powered by Wikiloc
Búðará
Búðará rennur þvert í gegnum byggðina á Reyðarfirði. Í miðbæ Reyðarfjarðar er að finna upphaf fallegrar gönguleiðar sem að liggur meðfram ánni í gegnum skógi vöxnum árbökkunum. Þegar komið er að Stríðsárasafninu er hægt að velja hvort gengið er eftir skógi vöxnum hálsinum austur af Stríðsárasafninu eða upp að Búðarárfossi.
Oddsskarð
Það var ekki fyrr en árið 1949 að Norðfjörður komst fyrst í vegasamband við nágrannabyggðirnar. Leiðin lá um Oddsskarð, einn hæsta fjallveg á landinu, sem jafnan var erfiður yfirferðar vegna snjóþyngsla. Var því hafist handa við gerð jarðganga undir Oddsskarð á árunum 1974-1977. Göngin eru 626 m löng í 632 m h.y.s.  Við Oddsskarð er miðstöð vetraríþrótta. Þar er frábært skíðasvæði og skemmtilegar gönguleiðir. Þar hafa verið haldnar Týrólahátíðar um páska síðustu ár. Margháttuð fjölskylduskemmtun er í boði á skíðasvæðinu.
Viðfjörður
Einn eyðifjarðanna við Norðfjarðarflóa. Viðfjörður er syðstur fjarðanna þriggja við Norðfjarðarflóa. Þórbergur Þórðarson skrifaði bókina Viðfjarðarundrin, um mikinn draugagang sem átti sér stað í Viðfirði. Allt fram á síðustu ár hafa menn orðið vrir við undarlegar uppákomur í þessum ævintýralega firði. Margar fallegar gönguleiðir eru á þessu fallega svæði. Um þriggja klukkustunda stikuð og þægileg gönguleið liggur um Viðfjörð, Stuðla og Barðsnes meðfram sjó. Viðfjarðará er brúuð. Gönguleiðin fylgir að mestu gömlum ófærum vegaslóða. Þá er á þessari leið oft mikið af svartsnigli.
Fólkvangur Neskaupstaðar
Sannkölluð útivistarparadís við bæjarvegginn. Fólkvangur Neskaupstaðar tekur við þar sem þéttbýlið endar á eystri mörkum Neskaupstaðar. Fáir þéttbýlisstaðir á Íslandi eiga sér jafn ákjósanlegt friðland við bæjarvegginn. Landslag er tignarlegt, útsýni fagurt, auðugt lífríki og fjölbreyttar jarðmyndanir. Svæðið er því kjörið til útivistar, náttúruskoðunar og náttúrufræðslu. Margar og skemmtilegar gönguleiðir eru í friðlandinu, s.s. Páskahellir og Urðum. Þar er einnig fræðslustígur með ábendingum um ýmis náttúrufyrirbæri. Fólkvangur Neskaupstaðar er sá fyrsti sem settur var á fót hér á landi. Vorið 1971 lagði náttúruverndarnefnd Neskaupstaðar fram tillögu um stofnun fólkvangs utan Stóralækjar. Tillagan var samþykkt af Náttúruverndarráði og ráðuneyti og tók friðlýsingin formlega gildi 29. nóvember 1972. Nánar um fólkvanginn á vef Náttúrustofu Austurlands.
Hellisfjörður
Skemmtileg gönguleið í fallegan eyðifjörð. Fallegur og gróðursæll eyðifjörður, sem gengur inn úr Norðfjarðarflóa. Þar má enn sjá leifar gamallar hvalstöðvar sem starfrækt var í byrjun 20. aldar. Um þriggja klukkustundar gönguleið liggur í Hellisfjörð um Götuhjalla og er hluti hennar stikaður. Ekið er frá aðalvegi sunnan Norðfjarðarár út undir Grænanes. Þaðan liggur stikuð leið út Búlandið, upp á Götuhjalla og þaðan inn í Hellisfjörð. Hestfær leið, fyrrum aðalgönguleið milli staðanna og um hana var fjársafnið rekið frá Sandvík, Suðurbæjum, Viðfirði og Hellisfirði, meðan fjárbúskapur stóð í blóma á Norðfirði Powered by Wikiloc
Snjóflóðagarðurinn
Útsýnis- og útivistarsvæði í Neskaupstað. Ofan byggðarinnar í Neskaupstað eru risin mikil mannvirki til varnar ofanflóðum. Búið er að koma fyrir gönguleiðum í kring um mannvirkin og hægt er að ganga uppi á þeim og njóta útsýnisins yfir Norðfjörð. Svæðið er skammt frá tjaldsvæðinu í Neskaupstað.
Sandvík
Heimkynni draugsins Glæsis. Eyðivík norðan við Gerpi, þar sem áður var austasta byggða ból á landinu. Við sandvík er kenndur draugurinn Glæsir, sem fylgir gjarnan Sandvíkingum og tekur ofan höfuðið þegar hann heilsar fólki. Stikuð leið liggur frá Stuðlum til Sandvíkur um Sandvíkurskarð. Gangan tekur um þrjár klukkustundir og fer hæst í um 500 m.y.s. Þá er hún brött en þokkalega greiðsfær. Var áður aðalleið Sandvíkinga á landi og þótti erfið hestleið. Útsýni úr Sandvíkurskarði er stórkostlegt. Í Sandvík er björgunarskýli, en þar er ekki nein ferðamannaaðstaða. Þangað þurfa ferðalangar að bera með sér allt viðurværi.
Völvuleiði
Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð frá utanaðkomandi árásum um aldir.  Sagnir segja að svo lengi sem enn sé steini bætt í leiðið og því við haldið muni ekkert illt henda firðina.  Þegar Tyrkir sigldu að Austfjarðaströndum gerði völvan sér lítið fyrir og huldi fjörðinn slíkri þoku að ræningjarnir sáu sitt óvænna og snéru við.  Er völvuþokunni léttir er þó frábært útsýni út Reyðarfjörðinn.
Rauðubjörg
Falleg líparítbjörg á Barðsnesi við Norðfjarðarflóa. Norðfirðingar hafa löngum sagt að ef sólin glampar á Rauðubjörg að kvöldi, þá viti það á gott veður næsta dag.