Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Stuðlagil
Stuðlagil er einstök náttúruperla í Efri-Jökuldal á Fljótsdalshéraði sem á undanförnum árum hefur fest sig í sessi sem inn af áhugaverðustu áfangastöðum Austurlands.  Gilið var lengi lítt þekkt enda kom það ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og Hálslón var myndað en við það minnkaði vatnsmagnið í Jökulsá á Dal (Jöklu) til muna. Jökla er ein af lengstu jökulám landsins og teygir sig um 150 km leið frá Vatnajökli að sjó. Áin getur verið mjög straumhörð, jafnvel þótt ekki séu sýnilegir vatnavextir í henni. Að gefnu tilefni biðjum við alla sem heimsækja Stuðlagil að sýna varkárni og muna að þeir eru á eigin ábyrgð á svæðinu.  Stuðlagil státar af einni stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á landinu og er einstaklega myndrænt, sérstaklega þegar áin er tær. Blágræni liturinn á vatninu sem kallast á við litskrúðugt stuðlabergið gerir gesti agndofa. Þar sem um jökulvatn er ræða tekur áin breytingum milli árstíða svo í leysingum á vorin og þegar yfirfall er í Hálslóni fær hún á sig grábrúnan lit. Algengast er að yfirfall sé frá ágústbyrjun og fram í október en getur þó verið á öðrum tímum. Hægt er að fylgjast með vatnshæð lónsins hér. Gilið og áin eru þó alltaf mikilfengleg á að líta og ættu ferðamenn ekki að láta þennan einstaka stað fram hjá sér fara á ferðalagi um Austurland.  Að Stuðlagili erum 60 mín. akstur (52 km) frá Egilsstöðum og um 90 mín. akstur (112 km) frá Mývatni. Þegar beygt er af hringveginum tekur við akstur á malarvegi en hann er fær öllum bílum. Vegurinn er opinn allt árið en hafa ber í huga að akstursaðstæður geta breyst hratt yfir vetrartímann.  Hægt er að nálgast gilið úr tveimur áttum:  Útsýnispallur við Grund Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund sem stendur norðan megin við gilið. Þar eru bílastæði, salerni og örugg aðkoma að gilinu með stigum og pöllum en það tekur einungis um 5 mínútur að ganga niður á útsýnispallinn. Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því og fjölbreytt stuðlabergið nýtur sín. Athugið að ef ætlunin er að fara ofan í gilið þarf að ganga frá bílastæði í landi Klaustursels sem er sunnan megin við gilið.  Gönguleið frá Klausturseli Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Beygt er í átt að bænum Klausturseli og þar er að finna bílastæði á tveimur stöðum, annars vegar við brúna yfir Jöklu (um 10 km ganga báðar leiðir) og hins vegar við Stuðlafoss (um 5 km ganga báðar leiðir). Stuðlafoss er tignarlegur þar sem hann fellur fram af þverhníptu stuðlabergi og er þess virði að skoða á leiðinni niður í gilið. Það er síðan mögnuð upplifun að standa ofan í gilinu og upplifa ægifegurð íslenskrar náttúru. Hafa verður í huga að klettar og steinar geta verið blautir og þar af leiðandi sleipir svo fara þarf að öllu með gát ofan í gilinu.  Náttúran umhverfis Stuðlagil er ríkuleg en viðkvæm og eru gestir sérstaklega hvattir til að sýna svæðinu, dýralífi og náttúru virðingu og ganga snyrtilega um. Á tímabilinu 1. maí til 10. júní verpa fjölmargar heiðargæsir á svæðinu og þá er sérstaklega mikilvægt að halda sig innan merktra gönguleiða til að styggja ekki fuglana. Efri-Jökuldalur er landbúnaðarsvæði og á haustin reka bændur fé sitt ofan af fjalli og er það áhrifamikil sjón.   Yfir sumartímann er hægt aka áfram eftir vegi nr. 923 inn á hálendi Austurlands. Þar er hægt að fylgja ferðaleiðinni Um öræfi og dali sem liggur m.a. að Kárahnjúkum, Laugafelli og niður í Fljótsdal. Hluti leiðarinnar er aðeins fær vel búnum, fjórhjóladrifnum bílum.  Frekari upplýsingar um Stuðlagil og þjónustu í nágrenni þess má finna á heimasíðu Stuðlagils.  
Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík. Powered by Wikiloc
Hafrahvammagljúfur
Hafrahvammagljúfur á Austurlandi er með stærstu og stórfenglegustu gljúfrum landsins. Þar sem gljúfrið er dýst eru um 200 metrar frá botni að brún og gljúfrið er um 8 kílómetrar að lengd. Merkt gönguleið er með fram gljúfrinu og niður að Magnahelli. Það þarf fjórhjóladrifsbíl til að keyra að upphafspunkti gönguleiðarinnar en hægt er að sjá hluta gljúfursins frá Kárahjúkum og þangað má komast á venjulegum fólksbíl.
Eiðar
Eiðar voru stórbýli til forna, höfðingjasetur og kirkjustaður. Eiða er raunar fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði. Eiðakirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar 1197. Samkvæmt samkomulagi Þorláks helga 1179 við eigendur kirkjustaða á Austurlandi var kirkjan á Eiðum bændakirkja og átti Eiðajörð að hálfu á móti staðarbónda.  Þessi kirkjuskipan á Eiðum hélst allt til 1882 er Múlasýslur keyptu Eiðastól og þar var stofnaður búnaðarskóli sem tók við hlutverki Eiðabónda um forræði kirkjunnar. Árið 1883 var stofnaður þar bændaskóli en honum var svo breytt í héraðsskóla -Alþýðuskólann á Eiðum - árið 1918 sem starfaði sleitulaust en þó með breytingum í áranna rás allt til 1995 þegar hann var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum. Allt frá lokun skólans hafa verið uppi ýmis áform um að finna þessum sögufræga stað nýtt og verðugt hlutverk.  Kirkjumiðstöð Austurlands rekur vinsælar sumarbúðir fyrir börn við Eiðavatn og ferðaþjónusta er vaxandi á staðnum en þar er rekið gistihús og tjaldsvæði auk ýmissa afþreyingarmöguleika.
Eyvindará
Eyvindará er mikil og falleg á sem sprettur af þverám sem falla frá Fagradal, Gagnheiði og Fjarðarheiði. Áin fellur í bugðum um láglendi Héraðs og sameinast loks Lagarfljóti. Munnmælasögur herma að haugur Helga Droplaugarsonar sé í landi Eyvindarár, bæ samnefndum ánni, og er hann friðlýstur. Einnig eru þar friðlýstar tóftir sem taldar eru vera af bænum hans.  Á heitum sumardögum hafa ungmenni notað Eyvindarána til sunds og dýfinga, enda er svæðið kjörið til útivistar af öllu tagi.
Lagarfljót og Lögurinn
Lagarfljót er stærsta vatnsfall Austurlands og eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Eyjabakkajökli til Héraðsflóa, eða um 140 km leið. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið, gjarnan kallað Lögurinn, nær frá Fljótsbotninum í Fljótsdal og út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Það er um 53 ferkílómetrar að stærð og er meðaldýpi um 51 m en mesta dýpi 112 m. Sagt er að þar séu heimkynni Lagarfljótsormsins. Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að skrímsli hafist við í Lagarfljóti, Lagarfljótsormurinn og er fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum frá 1345. Stóð mönnum mikill stuggur af ormi þessum fyrr á öldum og þótti það boða ill tíðindi ef hann sást skjóta kryppum upp úr vatninu. Hin síðari ár hefur minna borið á honum en þó eru þess dæmi að nýlega hafi náðst sæmilega skýrar ljósmyndir af honum. Áningarstaðir eru víða kringum fljótið og þar er kjörið að staldra við og líta eftir orminum.
Gálgaás
Gálgaás var forn aftökustaður Héraðsbúa, rétt austan við kirkjuna á Egilsstöðum. Staðurinn gegnir stóru hlutverki í frægu sakamáli frá liðinni tíð, því þar var Valtýr á Eyjólfsstöðum tekinn af lífi fyrir meintan stuld og morð. Hélt hann þó fram sakleysi sínu allt til skapadægurs. 14 árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr. Mætti hann einnig örlögum sínum á Gálgaási. Lengi voru bein hans sjáanleg undir ásnum, því óðar blésu þau upp, hversu sem urðað var yfir.
Geirsstaðakirkja
Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Árið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands sem leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústir lítillar torfkirkju fundust auk langhúss og tveggja minni bygginga. Kirkjan er talin vera af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni og líklega ætluð heimilisfólki á bænum til nota. Endurbygging kirkjunnar fór fram 1999-2001 og er hún opin almenningi.
Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn og skógurinn þekur um 740 ha lands.Land og skógur hefur umsjón með skóglendi víða um land fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir skógar eru kallaðir þjóðskógar. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring. Í marga er auðvelt að komast eins og Hallormsstaðaskóg og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins og nokkrar hjólaleiðir. Allar leiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða. Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi, Atlavík og Höfðavík. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað. Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.Á gönguleiðinni milli tjaldsvæðanna er hægt að fara í fjársjóðsleit og taka þátt í Skógarævintýri sem er leikur spilaður með Turfhunt-appinu. Víða um skóginn eru áningarstaðir og góð grillaðstaða er í Stekkjarvík og leiktæki fyrir börn. Trjásafnið á Hallormsstað er einstakt á norðurhveli jarðar. 
Héraðssandur
Héraðssandur
Húsey
Náttúrufar við Héraðsflóann er einstakt og heimsókn í Húsey er hrein náttúruupplifun. Þar liggja hundruð sela á sandeyrunum við Jöklu, lómur verpir í tugatali og þar er að finna stærsta kjóavarp í heimi. Skúmurinn gerir svo reglulega loftárásir á ferðamenn! Á staðnum er rekin ferðaþjónusta og merktar gönguleiðir liggja niður á sléttuna utan við Húseyjarbæinn. Húsey er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°38.775-W14°14.670 Powered by Wikiloc
Kárahnjúkar
Kárahjúkar eru móbergshnjúkar austan Jökulsár á Brú gegnt Sauðárdal.  Hærri hnjúkurinn er 835 metrar. Jökulsá fellur að Kárahnjúkum í miklu gljúfri, Hafrahvammagljúfri sem er eitt hið dýpsta og hrikalegasta á landinu. Megingljúfrið er um 5 km. langt en allt er gilið frá Desjará að Tröllagili um 10 km. Við Kárahnjúka hefur verið reist mikil virkjun sem sér álverinu á Reyðarfirði fyrir orku. Kárahjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins. Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir. Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl.
Kárahnjúkavirkjun
Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins. Virkjunin var reist til þess að sjá álverinu á Reyðarfirði fyrir raforku. Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir. Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl. 
Kjarvalshvammur
Kjarvalshvamm er að finna við vegarbrún nr. 94 skammt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Kjarval dvaldi þarna í tjaldi í tvö ár í kringum 1948. En bóndinn gaf honum skikann og reisti kofann. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði margar af frægustu myndum sínum. Þetta er eina fasteignin sem Kjarval átti. Þarna er líka bátaskýli fyrir Mávinn, bát sem Kjarval sigldi eitt sinn niður Selfljótið til Borgarfjarðar.  
Laugavalladalur
Laugavalladalur er gróðurvin skammt vestan Jökulsár á Dal, um 20 km. norðan Kárahnjúka. Þar er unnt að lauga sig heitri laug og skola svo af sér í náttúrulegu steypibaði þar sem lækurinn fellur fram af kletti í litlum fossi. Gæta skal sérstakrar varúðar vegna ofhitnunar vatnsins á úrkomulitlum tímum.
Lagarfoss
Magnahellir
Ekið frá Kárahnjúkastíflu eftir góðri jeppaslóð að norðan út Lambafell að krossgötum við Laugavelli. Farið er niður að bílaplani við Dimmugljúfur. Þar er upplýsingaskilti og upphaf merktrar gönguleiðar, sem liggur í Hafrahvamma og Magnahelli. Hólkurinn með gestabók og stimpli er í hellinum. Það var siður Brúarbænda að fornu að hafa sauðfé sitt inni í hvömmum nokkrum við Jökulsá á vetrum í helli þeim, sem þar er og kallaður er Magnahellir. Tekur hann nafn af Magna, bónda, sem fyrrum bjó á Brú, og fann fyrstur upp á að hafa þar sauðfé á vetrum um tíma. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°99.252-W15°71.683   Powered by Wikiloc
Möðrudalur
Möðrudalur er hæsta byggða ból á Íslandi, 469 metra yfir sjávarmáli. Bæinn er að finna á hásléttunni norðan Vatnajökuls. Möðrudalur var landnámsjörð og kirkjustaður allt frá fyrstu dögum kristni. Í dag er blandaður búskapur stundaður í Möðrudal og afurðir búsins nýttar í ferðaþjónustu staðarins. Í Möðrudal er lítil snotur kirkja sem reist var af ábúandanum Jóni Stefánssyni í minningu konu sinnar. Sonur hans Stefán Jónson, Stórval, gerði seinna garðinn frægan með myndum sínum af Herðubreið. Listin blundar enn í afkomendum Jóns bónda og myndir Írisar Lindar prýða betri herbergi Fjalladýrðar. Nokkrar gönguleiðir eru í boði á svæðinu og hægt að nálgast kort í upplýsingamiðstöð. Þar er einnig hægt að sjá kvikmynd sem sýnir svipmyndir frá gosinu í Holuhrauni 2014. Úr Möðrudal er stutt í margar óviðjafnanlegar náttúruperlur eins og Herðubreiðarlindir, Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, Jökuldalsheiði Stuðlagil og Stórurð. Tjaldsvæði opin frá júní fram í miðjan september.
Rjúkandi
Rjúkandi er fallegur foss sem fellur tignarlega niður nokkra klettastalla, fram af heiðarbrún og að þjóðvegi 1. Aðgengi að fossinum er mjög gott en stutt ganga er frá bílastæði sem er við þjóðveginn þar sem hann liggur um Jökuldal. 
Skessugarður
Skessugarður er mikill ruðningshryggur gerður úr ferlegu, dílóttu stórgrýti og liggur þvert yfir Grjótgarðsháls frá vestri til austurs, vestan við Grjótgarðsvatn ytra. Garðurinn er um 300 m langur og allt að 7 m hár á kafla að utanverðu, en stórgrýtisdreif af sömu bergtegund er á hálsinum báðum megin við garðinn. Garðurinn markar stöðnunar - eða framrásarstig Brúarjökuls í lok síðasta jökulskeiðs. Skessugarður mun vera næstum einstæður meðal jökulgarða að því leyti að hann er gerður úr stórgrýti einu saman - fínefni vantar - en meðal einkenna jökulgarða er það einmitt að í þeim ægir saman misgrófu efni, frá jökulleir til stórgrýtis. Skýring þessa er sennilega sú að vatnsflóð hafi skolað burt fíngerðara efninu eftir að garðurinn myndaðist og stórgrýtið eitt orðið eftir. Þessi grjóthryggur er því merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri sem á fáa eða enga sína líka, hérlendis eða erlendis. Nafnið tengist gamalli tröllasögu; tvær skessur áttu að hafa hlaðið garðinn sem landmerki á milli sín. Sæmileg bílaslóð er af gamla Möðrudalsveginum um hálstaglið inn að vatninu og garðinum.
Sandfell Skriðdal
Sandfell er mikilfenglegt, hrygglaga líparítfjall er minnir á tjaldbúð því hlíðar þess eru með jöfnum halla, klettalausar að mestu. Á Sandfelli eru tveir toppar, dökkleitir. Gengið frá skilti við þjóðveg 1 rétt innan við Gilsá. Gengin slóð í fyrstu, inn að girðingu en síðan er gott að ganga upp með girðingunni. Því næst skal halda upp hrygginn norðan í fjallinu og áfram beint af augum upp á topp 1157 m. Sandfell er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°05.637-W14°30.298 Powered by Wikiloc
Selskógur
Selskógur er útivistarsvæði austan Egilsstaða handan við Eyvindará. Um skóginn liggja stígar í fallegu umhverfi. Hann er kjörinn til útivistar allt árið og hentar vel hvort sem þú ert á leið í göngutúr, hjólatúr eða á gönguskíði. Á veturnar er lagt gönguskíðaspor í skóginum sem er upplýst á kvöldin. Þú finnur upplýsingar hér um ástand sporsins.  Stígarnir eru flestir greiðfærir og liggja ýmist í gegnum skóglendi eða meðfram ánni. Auk þeirra eru torfærari stígar sem gaman er að kanna, fótgangandi eða á hjóli. Gönguleiðirnar um skóginn eru nokkrar og ættu allir að geta fundið leið við hæfi. Víða eru áningarstaðir með bekkjum þar sem gott er að tylla sér niður og njóta umhverfisins. Í skóginum er einnig leiksvæði þar sem er að finna leiktæki fyrir börn á öllum aldri og grillaðstöðu. Þar er einnig stór grasflöt þar sem hægt er að fara í fótbolta eða leiki.  Einnig er útileikhús í skóginum en þar eru reglulega haldinir tónleikar og leiksýningar undir berum himni.  Fáðu þitt eintak af korti af Selskógi hér. 
Sænautasel
Sænautasel á Jökuldalsheiði er einstakur staður við friðsælt fjallavatn, Sænautavatn. Sænautasel er gamalt heiðarbýli en húsið var endurbyggt 1992 fyrir tilstuðlan Jökuldalshrepps og síðan hefur verið tekið þar á móti gestum á sumrin. Í Sænautaseli er hægt að fræðast um aðbúnað og lífsbaráttu þeirra sem bjuggu í heiðinni. Boðið er upp á leiðsögn um bæinn og sagðar sögur af fólkinu og búskaparháttunum á heiðarbýlum sem voru í byggð langt fram á 20. öld. Þar er hægt að fá léttar veitingar að þjóðlegum hætti. Opið er alla daga í júní-ágúst.     Til að fara í Sænautasel er hægt að aka frá þjóðvegi nr. 1 norðan við Skjöldólfsstaði inn á Möðrudalsveg nr. 901 og beygja síðan eftir stuttan akstur inn á Brúarveg nr 907. Eða aka frá Brú á Jökuldal um Brúarveg nr. 907 til norðurs að Sænautaseli. Frá Sænautaseli er stutt í Skessugarðinn örlítið vestar á Jökuldalsheiði og einnig er stutt niður í Stuðlagil á Jökuldal.       Rétt fyrir miðja nítjándu öld hófst landnám í Jökuldalsheiði. Byggðin í heiðinni var að hluta reist á rústum fornbýla ogselja. Í heiðinni er einstaklega fallegt í sumarblíðu og erfitt að gera sér í hugarlund hvernig var að eiga þarna heima allan ársins hring. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu byggingarskeiði voru Háreksstaðir árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði, það síðasta 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og ábúðartíminn var mislangur; frá einu ári á einhverjum þeirra og upp í nærfellt heila öld í Sænautaseli. Ástæður þess að heiðarbýlin byggðust voru einkum plássleysi í sveitum þar sem allar bújarðir voru í ábúð og þéttbýlismyndun og atvinnuuppbygging við sjávarsíðuna var enn lítil. Fólk hafði því fáa valkosti aðra en að vera vinnufólk eða íhúsmennsku hjá öðrum.     Búskaparskilyrði í heiðinni voru ekki á allan hátt slæm þótt víðast væri snjóþungt, enda flest býlin í yfir 500 metra hæð.Hlunnindi eins og silungsveiði í vötnum, rjúpna-, gæsa-, anda- og álftaveiði og grasatekja voru mikil búbót. Þá voru engjalönd sums staðar ágæt a.m.k. ef vel áraði. Hreindýr gengu þarna, en stofninn var þó í sögulegu lágmarki upp úraldamótunum 1900. Um 120 manns munu hafa búið í heiðinni samtímis þegar mest var. Í Öskjugosinu 1875 varð byggðin í heiðinni fyrir miklu áfalli og lagðist af tímabundið á öllum bæjum nema þeim nyrstu. Margir sem fluttust burtfóru síðar til Ameríku. Nokkrum árum síðar byggðust nokkur býlanna að nýju og hélst byggð fram á fyrstu tugi 20. aldar. Síðasta býlið fór í eyði 1946.    Sænautasel byggðist fyrst 1843 og þar var búið til 1943 að undanskildum 5 árum eftir Öskjugosið. Þar var lengst búið allra býla í heiðinni eða samtals í 95 ár. Búskapur á heiðum við erfiðar aðstæður og mikla einangrun hefur orðið íslenskum rithöfundum innblástur að skáldverkum. Margir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna um Bjart í Sumarhúsum í skáldverkinu Sjálfstætt fólk. Hún lýsir lífsbaráttu sjálfstæðs kotbónda á afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar sé komin frá Sænautaseli, því þar átti Halldór næturstað á þriðja áratug 20. aldar. Heiðabúskapur var einnig viðfangsefni rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Jóns Trausta.  Gamlar sagnir sögðu að sést hefði sænaut í Sænautavatni og fylgdi jafnvel sögunni að það væru undirgöng úr vatninu til sjávar sem sænautin notuðu.    
Unaós
Unaós er kenndur við Una Garðarsson landnámsmann, en Landnáma segir hann hafa tekið land í ósnum. Landnám hans náði alla leið að Unalæk.  Uni lagði skipi sínu að hamri sem er innar við Selfljót og heitir Knörr.  Við ströndina við ósa Selfljóts er Krosshöfði og við hann Óshöfn sem varð löggild höfn  árið 1902.  Var vörum skipað þar upp uns bílfær vegur var lagður til Borgarfjarðar eystri árið 1950.  Þurfti ládauðan sjó og háflæði til að uppskipun væri kleif. Fróðlegt er að koma að Unaósi og skoða sig um. Góðar gönguleiðir eru í nágrenninu t.d. merkt gönguleið í Stapavík. 
Vallanes
Vallanes er kirkjustaður frá fornu fari og margir þjóðþekktir einstaklingar hafa gengið þar um götu.  Þar er stunduð lífræn ræktun undir vörumerkinu "Móðir Jörð". Grænmeti og korn er ræktað og úr því unnin matvæli og hvers kyns olíur.  Í jaðri jarðarinnar eru "Iðavellir" sem státa af góðri aðstöðu til hestamennsku og litlu félagsheimili samnefndu.