Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík. Powered by Wikiloc
Fardagafoss gönguleið
Fardagafoss fellur skammt frá Egilsstöðum, við rætur Fjarðarheiðar. Hann er efstur fossanna í Miðhúsaánni en hinir heita Gufufoss og Folaldafoss. Merkt gönguleið liggur að fossinum og er hún greiðfær fyrir utan seinasta spölinn sem er svolítið erfiður yfirferðar. Gengið er frá bílastæði við Áningatstein (við veg 93.) Á bak við fossinn er hellir en sagan segir að í honum hafi búið ferleg tröllskessa. Talið er að göngliggi í gegnum Fjarðarheiðina yfir í Gufufoss í Fjarðará í Seyðisfirði. Skessan undir Fardagafossi var fræg fyrir að eiga ketil fullan af gulli. Þegar skessan var orðin svo gömul að hún vissi dauða sinn nálægan þá renndi hún katlinum með gullinu niður í djúpan skessuketil sem er í miðjum Gufufossi, neðar í Miðhúsaánni. Sagt er að sjáist í handfangið á katlinum þegar lítið vatn er í ánni.  Powered by Wikiloc
Eiríksstaðahneflar - gönguleið
Eiríksstaðahneflar eru tvö hliðstæð fjöll á Jökuldalsheiði, einnig þekkt sem Fremri-Hnefill (947 m) og Ytri-Hnefill (922 m). Skemmtileg gönguleið liggur á Hneflana. Þá er gengið frá skilti við Þverá sem er innan við Eiríksstaði á Jökuldal. Fyrst er haldið á Fremri-Hnefil og þaðan á Ytri-Hnefil og niður í Eiríksstaði. Fyrir þá sem vilja lengja gönguna svolítið er gaman að ganga að Hneflaseli, heiðarbýli sem fór í eyði árið 1875 og þaðan til baka á milli Hneflanna nður í Jökuldal. Leiðin er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°08.617-W15°28.195  
Grjótgarður við Hjarðarhaga
Stutt ganga en nokkuð brött. Bílum er lagt við vegamótin að Hnefilsdal. Gengið frá skilti við þjóðveg 1 stikaða leið upp með Sauðá upp á brún að Grjótgarðinum. Gengið út með Grjótgarðinum uns komið er að hólknum þar sem er gestabók og stimpill. Haldið áfram í átt að Teigará út að vörðu og síðan aðeins til baka og niður stikaða reiðgötu um Hestagilið. Ekki er vitað hvaða tilgangur var með hleðslu Grjótgarðsins en sennilegt er að hann hafi verið aðhald fyrir sauðfé eða jafnvel svín. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°21.391-W15°00.061 Powered by Wikiloc
Hnjúksvatn
Gegnt Merki á Jökuldal uppi á heiðinni er Hnjúksvatn. Gengið frá skilti við veg nr. 923 upp með Hnjúksánni að Binnubúð við Hnjúksvatn. Þar er hólkurinn með gestabók og stimpli. Gaman er að ganga í kringum vatnið áður en haldið er til baka. Það var gömul kona af Jökuldalnum, Brynhildur Stefánsdóttir, ljósmóðir, sem lét reisa þetta hús á sinn kostnað fyrir fólk, sem vildi halda til við vatnið og ganga um þetta hálendi. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°14.333-W15°15.887 Powered by Wikiloc
Landsendi
Gengið frá skilti sem er við veg nr. 917 (áður en haldið er upp á Hellisheiði) við Biskupshól (N65°42.52-W14°24.41). Þaðan er svo gengið að Keri sem er forn verstöð og út á Landsendahorn. Þar er afar fallegt útsýni yfir Móvíkur, tvær víkur sem eru næst fyrir utan Landsenda og mynda stórar geilar inn í strandfjöllin. Ofan við þær eru um 2-300 m há björg og snarbrattar skriður, Móvíkurflug. Bergið í þeim er aðallega líparít sem skartar öllum regnbogans litum. Hólkur með gestabók og stimpli er á bakkanum fyrir ofan Ker. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65° 43.352-W14°23.300 Powered by Wikiloc
Magnahellir
Ekið frá Kárahnjúkastíflu eftir góðri jeppaslóð að norðan út Lambafell að krossgötum við Laugavelli. Farið er niður að bílaplani við Dimmugljúfur. Þar er upplýsingaskilti og upphaf merktrar gönguleiðar, sem liggur í Hafrahvamma og Magnahelli. Hólkurinn með gestabók og stimpli er í hellinum. Það var siður Brúarbænda að fornu að hafa sauðfé sitt inni í hvömmum nokkrum við Jökulsá á vetrum í helli þeim, sem þar er og kallaður er Magnahellir. Tekur hann nafn af Magna, bónda, sem fyrrum bjó á Brú, og fann fyrstur upp á að hafa þar sauðfé á vetrum um tíma. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°99.252-W15°71.683   Powered by Wikiloc
Húsey
Náttúrufar við Héraðsflóann er einstakt og heimsókn í Húsey er hrein náttúruupplifun. Þar liggja hundruð sela á sandeyrunum við Jöklu, lómur verpir í tugatali og þar er að finna stærsta kjóavarp í heimi. Skúmurinn gerir svo reglulega loftárásir á ferðamenn! Á staðnum er rekin ferðaþjónusta og merktar gönguleiðir liggja niður á sléttuna utan við Húseyjarbæinn. Húsey er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°38.775-W14°14.670 Powered by Wikiloc
Þerribjarg og Múlahöfn
Nokkuð brött og erfið ganga. Ekið er upp á Hellisheiði, beygt til hægri (ef komið er að austan) og ekið eftir vegarslóða þar til komið er efst í Kattárdalsdrög. Vegarslóðinn liggur niður í Kattárdal. Þar er skilti þar sem bílum er lagt og gangan hefst. Stikað er frá skiltinu fram á brún ofan við Múlahöfnina. Þaðan (65°45.144-W14°21.964) liggur kindagata niður fyrir brúnina niður skriðuhrygg og niður í Múlahöfn. Höfnin er frábær náttúrusmíð gerð af meistarans höndum, umgirt bríkum og dröngum á tvo vegu. Múlahöfn var gerð löggilt verslunarhöfn 1890 en aðeins var skipað þar upp einu sinni þar sem erfitt var að koma vörum til byggða. Frá Múlahöfninni er síðan gengið meðfram sjónum í norður út á ytri tangann. Þar blasir við Þerribjarg og þar undir Langisandur. Hólkurinn með gestabók og stimpli er við stíginn niður á sandinn. Allir ættu að ganga sandinn undir Þerribjargi áður en haldið er til baka. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. Powered by Wikiloc
Selskógur
Selskógur er útivistarsvæði austan Egilsstaða handan við Eyvindará. Um skóginn liggja stígar í fallegu umhverfi. Hann er kjörinn til útivistar allt árið og hentar vel hvort sem þú ert á leið í göngutúr, hjólatúr eða á gönguskíði. Á veturnar er lagt gönguskíðaspor í skóginum sem er upplýst á kvöldin. Þú finnur upplýsingar hér um ástand sporsins.  Stígarnir eru flestir greiðfærir og liggja ýmist í gegnum skóglendi eða meðfram ánni. Auk þeirra eru torfærari stígar sem gaman er að kanna, fótgangandi eða á hjóli. Gönguleiðirnar um skóginn eru nokkrar og ættu allir að geta fundið leið við hæfi. Víða eru áningarstaðir með bekkjum þar sem gott er að tylla sér niður og njóta umhverfisins. Í skóginum er einnig leiksvæði þar sem er að finna leiktæki fyrir börn á öllum aldri og grillaðstöðu. Þar er einnig stór grasflöt þar sem hægt er að fara í fótbolta eða leiki.  Einnig er útileikhús í skóginum en þar eru reglulega haldinir tónleikar og leiksýningar undir berum himni.  Fáðu þitt eintak af korti af Selskógi hér. 
Möðrudalur
Möðrudalur er hæsta byggða ból á Íslandi, 469 metra yfir sjávarmáli. Bæinn er að finna á hásléttunni norðan Vatnajökuls. Möðrudalur var landnámsjörð og kirkjustaður allt frá fyrstu dögum kristni. Í dag er blandaður búskapur stundaður í Möðrudal og afurðir búsins nýttar í ferðaþjónustu staðarins. Í Möðrudal er lítil snotur kirkja sem reist var af ábúandanum Jóni Stefánssyni í minningu konu sinnar. Sonur hans Stefán Jónson, Stórval, gerði seinna garðinn frægan með myndum sínum af Herðubreið. Listin blundar enn í afkomendum Jóns bónda og myndir Írisar Lindar prýða betri herbergi Fjalladýrðar. Nokkrar gönguleiðir eru í boði á svæðinu og hægt að nálgast kort í upplýsingamiðstöð. Þar er einnig hægt að sjá kvikmynd sem sýnir svipmyndir frá gosinu í Holuhrauni 2014. Úr Möðrudal er stutt í margar óviðjafnanlegar náttúruperlur eins og Herðubreiðarlindir, Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, Jökuldalsheiði Stuðlagil og Stórurð. Tjaldsvæði opin frá júní fram í miðjan september.
Hrafnafell
Ekið Fjallsselsveg upp á hæsta ás suðvestan við Hafrafell. Gengið frá skilti við veg að fjarskiptamöstrum á Hrafnafelli þar sem hólkinn með gestabók og stimpli er að finna. Upplagt að koma við í Hrafnafellsrétt (N65°18.02-W14°29.23), sem er sérstæð, hlaðin grjótrétt milli kletta skammt austan vegar. Gaman er að ganga síðan út af Hrafnafellinu og inn með því að austanverðu og koma við í Kvíahelli (N65°18,359-W14°29,063). Ef farinn er hringurinn er hann 5.8 km og rauð leið. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°18,304-W14°29,098   Powered by Wikiloc
Heiðarendi
Ekið upp fyrir Heiðarsel og beygt inn á slóð til vinstri áður en komið er að Nátthaga. Gengið frá skilti sem er við gamla veginn fyrir ofan Nátthaga. Gengið upp á brún og síðan út eftir til hægri uns komið er að hólknum þar sem er gestabók og stimpill. Gaman er að ganga út Heiðarendann, niður og inn með honum til baka eftir gamla veginum. Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°23.085-W14°33.819
Hvannárgil
Gengið frá skilti við Kverkfjallaveg F905. Hringleið frá Kjólsstaðaskoru um Vatnsstæði, inn í Hvannárgil neðsta og gegnum þau öll til enda. Efsta gilið er mjög stórbrotið og endar í fallegum fossi. Staukurinn er í efsta gilinu. Gengið til baka niður Slórdal. GPS: N65°16.868-W15°47.418   Powered by Wikiloc
Höttur
Höttur (Hátúnahöttur) er tignarlegt fjall, sem rís upp af fjallshryggnum milli AusturValla og Fagradals, og er af mörgum talinn bæjarfjall Egilsstaða. Gengið frá skilti við þjóðveg 1 austan (utan) við Gilsá (N65°08,172-W14°31.133) í átt að Grjótánni aðeins utan við Víðihjalla og upp með ánni. Áfram upp á Hattarhólana og síðan beygt inn eftir og upp á Höttinn (1106 m). Höttur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°07.63-W14°27.25 Powered by Wikiloc
Kóreksstaðavígi
Kóreksstaðavígi er fallegur stuðlabergsstapi. Þar á Kórekur að hafa varist óvinum sínum um stund áður en hann féll. Hann var heygður við Vígið. Ekið er framhjá félagsheimilinu Hjaltalundi og síðan afleggjarann að Kóreksstöðum. Stoppað við bílastæði og skilti rétt hjá hliðinu heim að Kóreksstöðum. Gengið út eftir að Kóreksstaðavígi. Hólkur með gestabók og stimpli blasir við þegar komið er gangandi að Víginu. Gaman er að fara upp á Kóreksstaðavígi. Kóreksstaðavígi er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°32.782-W14°10.591 Powered by Wikiloc
Rangárhnjúkur
Gengið frá skilti við hliðið að Fjallsseli og genginn vegarslóði fyrir ofan bæinn. Þegar upp er komið er farið út af veginum og gengið út á Rangárhnjúkinn þar sem hólkurinn með gestabók og stimpli er. Gaman er að fara niður hjá Egilsseli og ganga síðan veginn til baka í Fjallssel. Er þá gengið framhjá Dansgjá, sem er sérkennileg gjá eða sprunga í gegnum klettaás, vestur af Staffellsbjörgum rétt við veginn. Rangárhnjúkur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°19.410-W14°35.498 Powered by Wikiloc
Rauðshaugur
Rauðshaugur er áberandi brjóstlaga hóll upp af Höfða og sést víða af Héraði. Þjóðsaga segir hólinn vera grafhaug Rauðs bónda á Ketilsstöðum, sem nefndur er Ásrauður í fornsögum, og sést þaðan til tveggja annarra frægra hauga, Bessahaugs í Fljótsdal og Ormarshaugs í Fellum. Sagan segir að Rauður hafi verið heygður með öll sín auðæfi og að fólk hafi reynt að grafa í hauginn en orðið frá að hverfa þar sem bærinn á Ketilsstöðum virtist standa í ljósum logum. Frábært útsýni yfir Fljótsdalshérað. Gengið frá skilti við Fagradalsveg ( N 6 5 ° 1 4 . 5 9 0 -W 1 4 ° 2 1 . 1 5 6 ) eftir vegaslóða áleiðis inn Egilsstaðahálsinn. Rauðshaugur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°12.77-W14°23.01   Powered by Wikiloc
Skessugarður
Skessugarður er mikill ruðningshryggur gerður úr ferlegu, dílóttu stórgrýti og liggur þvert yfir Grjótgarðsháls frá vestri til austurs, vestan við Grjótgarðsvatn ytra. Garðurinn er um 300 m langur og allt að 7 m hár á kafla að utanverðu, en stórgrýtisdreif af sömu bergtegund er á hálsinum báðum megin við garðinn. Garðurinn markar stöðnunar - eða framrásarstig Brúarjökuls í lok síðasta jökulskeiðs. Skessugarður mun vera næstum einstæður meðal jökulgarða að því leyti að hann er gerður úr stórgrýti einu saman - fínefni vantar - en meðal einkenna jökulgarða er það einmitt að í þeim ægir saman misgrófu efni, frá jökulleir til stórgrýtis. Skýring þessa er sennilega sú að vatnsflóð hafi skolað burt fíngerðara efninu eftir að garðurinn myndaðist og stórgrýtið eitt orðið eftir. Þessi grjóthryggur er því merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri sem á fáa eða enga sína líka, hérlendis eða erlendis. Nafnið tengist gamalli tröllasögu; tvær skessur áttu að hafa hlaðið garðinn sem landmerki á milli sín. Sæmileg bílaslóð er af gamla Möðrudalsveginum um hálstaglið inn að vatninu og garðinum.
Sandfell Skriðdal
Sandfell er mikilfenglegt, hrygglaga líparítfjall er minnir á tjaldbúð því hlíðar þess eru með jöfnum halla, klettalausar að mestu. Á Sandfelli eru tveir toppar, dökkleitir. Gengið frá skilti við þjóðveg 1 rétt innan við Gilsá. Gengin slóð í fyrstu, inn að girðingu en síðan er gott að ganga upp með girðingunni. Því næst skal halda upp hrygginn norðan í fjallinu og áfram beint af augum upp á topp 1157 m. Sandfell er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°05.637-W14°30.298 Powered by Wikiloc
Skúmhöttur
Skúmhöttur er næst hæsta fjall í fjallgarðinum milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Fjallið er að mestu úr líparíti en sjálfur tindurinn er úr dekkra bergi. Ekinn þjóðvegur 1 framhjá bænum Litla Sandfelli, beygt til vinstri inn um hlið og ekið þar til komið er að gamalli brú yfir Þórisá. Þar er bílastæði. Gengið frá skilti við Þórisá og síðan eftir hryggnum framan í fjallinu alla leið upp á topp 1229 m. Skemmtileg fjallganga á áhugavert fjall. Skúmhöttur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°05.637-W14°30.298 Powered by Wikiloc
Spanarhóll
Spanarhóll er í norðurenda Fjórðungsháls 591 m. Ekið inn Fellin að Refsmýri. Gengið frá skilti utan við Refsmýri upp með Þorleifará ca 0.5 km en síðan sveigt frá ánni og tekin stefna á Hlíðarsel og áfram upp gilið fyrir ofan rústirnar upp á Fjórðung á Fellaheiðinni. Þaðan er greið leið að Spanarhóli. Hólarnir eru fjórir og ætti fólk endilega að ganga að þeim öllum. Einnig er hægt að fara á Spanarhól með því að ganga upp með Ormarsstaðaánni eða frá Fjallsseli upp á brún og svo inn eftir. Hólkurinn er á stærsta hólnum. Spanarhóll er vel þekktur huldufólksstaður en nafnið er líklega dregið af líkingu stuðlanna við tréspæni. Spanarhóll er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N65°15.588-W14°41.446 Powered by Wikiloc
Stuttidalur
Gengið frá skilti, rétt við þjóðveg 1 í átt að Haugaánni. Farið í gegnum gönguhlið og síðan gengið upp með girðingu ca 600 m. Haldið áfram eftir stikaðri leið. Stuttidalur liggur í austur á milli Hallbjarnarstaðatinds og Haugafjalls. Hólkurinn með gestabók og stimpli er við tjörnina skammt innan við Sjónarhraunið. Upplagt að fara yfir ána og ganga um Haugahólana til baka niður að þjóðvegi. Haugahólar eru geysimikið berghlaup, eitt hið stærsta á Íslandi, sem fallið hefur úr Haugafjalli milli Stuttadals og Vatnsdals. Stuttidalur er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N64°59.173-W14°35.217   Powered by Wikiloc
Valtýshellir
Gengið frá skilti við þjóðveg 1 austan (utan) við Gilsá (N65°08,172-W14°31.133). Farið er framhjá rústum Hátúna en þar var myndarbýli í árdaga Íslandsbyggðar og er sagt að þar hafi verið 18 hurðir á járnum. Sjást þar enn merki um hlaðna grjótgarða. Á 19. öld fannst þar fornt sverð, sem var brætt upp og úr því smíðaðar skaflaskeifur og aðrir þarfir hlutir. Áfram er gengið og komið að sléttum grasvelli, sem kallast Kálfavellir. Valtýshellir er lítill skúti innan við urðarrana skammt innan og norðan af Hjálpleysuvatni. Gangan í heild er um 8,4 km. Hólkurinn með gestabók og stimpli er rétt innan við skútann. Valtýshellir er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°06.410-W14°28.517 Powered by Wikiloc
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs var stofnað árið 1969 og er deild í Ferðafélagi Íslands. Félagið skipuleggur á hverju ári gönguferðir á mismunandi erfiðleikastigi og birtist áætlun yfir þær í ferðaáætlun Ferðafélags Íslands og á heimasíðunni www.ferdaf.is. Eins stendur ferðafélagið fyrir gönguferðum annan hvern sunnudag allan ársins hring. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs á og rekur sex gönguskála. Þrír þeirra eru á Víknaslóðum við Borgarfjörð eystri; Í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Tveir eru við gönguleiðina á Lónsöræfum; Geldingafell og Egilssel við Kollumúlavatn og einnig á Ferðafélag Fljótsdalshéraðs ásamt Ferðafélagi Húsavíkur, Sigurðarskála.