Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Svörtu sandarnir við Djúpavog
Svæðið á Búlandsnesinu utan við byggðina á Djúpavogi er kjörið til gönguferða, til að upplifa fegurð og ævintýri, leika sér, fræðast og njóta fjarri erli hversdagsins í anda hæglætisstefnunnar cittaslow. Þar er einstaklega fallegt og fjölbreytt landslag, litbrigði í svörtum sandi, grónum hólmum og spegilsléttum tjörnum, auðugt fuglalíf og fullt af sögu. Þar er einnig mjög fagurt útsýni til fjalla og hafs. Hefja má gönguna með því að ganga frá byggðinni á Djúpavogi í austur með viðkomu á Bóndavörðu. Þaðan er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Til landsins eru margir áberandi tindar og fjöll og er Búlandstindur einna fegurstur og nafnkunnastur, hár og brattur píramídi við sunnanverðan Berufjörð. Út til hafsins blasa við eyjar og sker eins og perlur á bandi og er Papey þeirra stærst og kunnust. Í umhverfi Djúpavogs vekja sérstaka athygli áberandi kambar eða háar og þunnar klettabríkur, tröllahlöð, sem standa samsíða og setja ævintýralegan svip á umhverfið. Þetta eru berggangar, löngu storknuð hraun sem fylltu sprungur í eldsumbrotum fyrir milljónum ára. Vegna þess hve bergið í þessum berggöngum er hart hefur ísaldarjökullinn ekki náð að jafna þessa kamba við jörðu.   Halda má göngunni áfram frá Bóndavörðu í norðaustur eftir Langatanga eða fara beint til austurs niður að ströndinni og svo áfram til suðurs að Grunnasundi og yfir það út á sandinn. Grunnasund gæti þurft að vaða eða taka krók inn með því og fara fyrir enda þess. Einnig er hægt að ganga beint út á sandinn til suðurs veginn sem liggur að flugbrautinniog þá leið má einnig aka áleiðis. Umhverfið á Búlandsnesinu er mjög breytt frá því sem var á fyrri tímum þegar hólmarnir á sandinum sem enn bera eyjanöfn t.d. Úlfsey, Hvaley, Sandey og Hrísey og fleiri voru raunverulegar eyjar með bátgengum sundum á milli. Vötnin sem bera enn nöfn voga svo sem Breiðivogur og Fýluvogur voru þá raunverulegir vogar eða víkur. Eyjarnar eru nú landfastar og sundin orðin að sandbreiðum eða votlendi en landris og mikill sandburður hefur valdið því. Ætla má að gróðurfar hafi einnig tekið breytingum þegar sandurinn sótti á.    Sunnan Grunnasunds liggur leiðin áfram í Úlfsey. Áður fyrr þegar sund var milli hennar og meginlandsins var róið þar í gegn á bátum. Smátt og smátt grynntist sundið og heimildir segja að það hafi verið orðið fullt af sandi fyrir meira en 100 árum eða nokkru eftir 1880. Á Úlfsey er sagður vera fornmanns haugur, sem líklega hefur heitið Úlfur. “Enginn maður má þar svo fæti á land stíga, að hann syngi ekki eitt vers við hauginn, gjöri þar bæn sína eða leggi stein í hauginn,” segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Haugur sá sem talinn er vera Úlfshaugur er hálfgróin grjótþúst norðaustast á Úlfsey.   Frá Úlfsey er hægt að ganga til suðausturs í Hvaley. Á innanverðri Hvaley var kallað Lundabakkar. Syðst í klettunum upp af Lundabökkum er Hellir, talinn náttúrumyndun en hann hefur fyllst af sandi. Hann var að hluta grafinn út fyrir nokkrum árum síðan en hefur aftur fyllst af sandi. Talið er að fólk sem nytjaði eyjuna hafi hafst við i hellinum. Í eyunni voru slægjur og eggjatekja auk þess sem að þar var fjárhús.     Áfram er haldið göngu með viðkomu í Kálki þar sem eru hústóftir og síðan út í Sandey. Mögulegt er að klöngrast ofan í fjöruna í Sandey ef það er fjara og skoða helli sem þar er að finna. Til að loka hringnum er hægt að ganga meðfram flugvellinum upp að vötnunum Fýluvogi og Breiðavogi en fyrst má taka krók til vesturs yfir sandinn í Hrísey og Kiðhólma. Samkvæmt heimildum var búið í Hrísey fyrr á tímum og sjást þar tóftir. Heimildir eru um að á árabilinu 1500 fram undir 1600 hafi verið verslunarhöfn í Fýluvogi sem þá var skipgengur vogur. Þar hafi þá verið aðalhöfnin við Berufjörð en áður hafði höfnin verið í Gautavík á norðurströnd fjarðarins. Það voru þýskir kaupmenn frá Bremen, Brimarkaupmenn, sem versluðu við Fýluvog en Hamborgarkaupmenn versluðu við Djúpavog hinum megin á nesinu. Með tilkomu einokunarverslunarinnar árið 1602 lagðist verslun Þjóðverja af og eftir það voru Danir með verslun við Djúpavog. Talið er sennilegt að vörum hafi verið skipað upp á svonefnda Selaklöpp eða Selabryggjur sem eru klappir við Fýluvog. Sandburðurinn hefur gerbreytt aðstæðum og allar minjar sem eru sýnilegar við voginn núna eru taldar mun yngri en frá tíma hafnarinnar en frekari fornleifarannsókn gæti mögulega varpað ljósi á þetta. Fýluvogur hefur verið kallaður ýmsum nöfnum Fýluvogur, Fýluvík og Fúlivogur og Fúlavík. Einhverjir hafa velt fyrir sér hvort þarna hafi raunverulega verið daunillt t.d vegna rotnandi þangs. En aðrir telja að nafnið komi frá Dönum og hafi upphaflega verið kennt við fugla þ.e framburðinn á dönsku.     Við Fýluvog standa nú fuglaskoðunarhús til að auðvelda fólki að fylgjast með fjölbreyttu og iðandi fuglalífi þar. Votlendi,tjarnir og fjörur á Búlandsnesi eru afar áhugaverð fuglasvæði og því tilvalin til fuglaskoðunar einkum á vorin þegar farfuglar koma og fuglavarp stendur yfir en einnig er umferð farfugla um svæðið á haustin. Þarna er fjöldinn allur af vaðfuglum og mjög fjölbreytt andavarp t.d. brandönd og skeiðönd. Einnig hefur flórgoði verpt við tjarnirnar. Fyrir utan fjölda varpfugla hafa margir vaðfuglar og endur viðkomu á svæðinu vor og haust m.a. áhugaverðir flækingsfuglar. Aukvotlendisfugla sem eru áberandi á Búlandsnesinu má sjá sjófugla við ströndina, mófugla á holtum og móum og sé farið upp í Hálsaskóg, skógarreit innan við Djúpavog má rekast á glókollinn minnsta fugl Evrópu og fleiri skógarfugla. Hálsar eru annars einnig tilvalið svæði til gönguferða og náttúruskoðunar. þar er fjölbreytilegt og óvenjulegt landslag með sérkennilegum berggöngum.   
Búlandstindur
Búlandstindur er 1069 metra hátt basaltfjall í Djúpavogshreppi og er talinn vera um 8 milljón ára gamall. Búlandstindur er tákn Djúpavogs enda þykir fjallið almennt vera í hópi formfegurstu fjalla á Íslandi. Í austur af Búlandstindi gengur fjallsraninn Goðaborg sem er um 700 m yfir sjávarmáli og er sagt að þangað upp hafi menn burðast með goð sín strax eftir kristnitökuna til þess að steypa þeim fram af fjallsgnípunni. Aðrar heimildir segja Goðaborg sé hamrastallur hátt uppi í Búlandstindi, breiður og sléttur að ofan. Bratt og harðsótt er þar upp en sumir segja að í vatni sem er þar uppi hafi verið þvegin innylfi þeirra dýra sem þar var fórnað goðunum til árs og friðar.  Fjöldi fólks leggur leið sína á tindinn á hverju ári. Best er að fara eftir vegarslóða sem liggur meðfram Búlandsá sunnanverðri og alveg inn að stíflu sem er innarlega á dalnum. Þaðan er gengið beint upp grasi grónar brekkur og skriður innan við Stóruskriðugil í stefnu á skarð fyrir innan Búlandstind. Þar á eftir rekur leiðin sig sjálf þar til efsta tindi er náð. skoða má loftmynd með af stikaðri leið upp aá tindinn á heimasíðu Teigarhorns . Hátindurinn er mjór og brattur klettarimi og þar er útsýni feyki gott. Mjög mikilvægt er að gæta þess að ganga ekki of langt til austurs ef eitthvað er að skyggni eða ef hált er, því að austurhlíð fjallsins er þverhnípt og hömrótt. Gott GSM samband er á tindinum.
Stapinn í Stapavík
Í Stapavík, á milli Álftafjarðar og Hafnar, rís um 20 metra úr sjó tignarlegur stapi. Hann er landfastur og stendur rétt örlítið frá bjarginu. Þykir mörgum gaman að koma þarna að og er mál manna að stapinn og ströndin sunnan Álftafjarðar séu einstakar náttúruperlur og því ómissandi viðkomustaðir þegar farið er um svæðið.
Eggin í Gleðivík
Eggin í Gleðivík er útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson (f. 1942). Þetta eru 34 eftirmyndir eggja varpfugla sem verpa í nágrenni Djúpavogs. Verkið er sérstaklega gert fyrir staðinn og standa eggin á steyptum stöplum sem áður héldu uppi löndunarröri á milli bryggju og bræðslu. Mikið fuglalíf er á svæðinu og endurspegla eggin þá seterku tengingu sem Djúpivogur hefur við náttúruna.  Eggin í Gleðivík eru vinsæll áningarstaður ferðamanna og eru orðin eitt af kennileitum Djúpavogs.
Teigarhorn
Teigarhorn við Berufjörð er þekkt annars vegar fyrir merkilegar jarðmyndanir og hins vegar atvinnu- og menningarsögu. Jörðin öll var friðlýst sem fólkvangur árið 2013 og var þá friðlýst náttúruvætti innan fólkvangsins einnig stækkað. Á Teigarhorni er heilsárslandvarsla og unnið er að uppbyggingu sem raskar ekki svæðinu. Við Teigarhorn er einn merkasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heiminum og tengist myndun þeirra miklu berggangakerfi frá Álftafjarðareldstöðinni. Af geislasteinum sem þar finnast má nefna skólesít, stilbít, epistilbít, mordenít, laumontít og heulandít. Þar finnast auk þess aðrar steindir, s.s. seladónít, ópall, kalsedón, bergkristall, kalsít og silfurberg. Geislasteinar frá Teigarhorni hafa verið notaðir í ýmsar rannsóknir í meira en 200 ár. Þar á meðal eru lýsingar á kristalformum, efnasamsetningu, innri byggingu kristalla og ljósfræði, og eru sumar þeirra meðal fyrstu lýsinga á viðkomandi steindum. Sýni frá Teigarhorni voru seld til safna víða um heim á seinni hluta 18. aldar, en síðan 1976 hafa helstu fundarstaðir verið friðlýstir sem náttúruvætti. Á Teigarhorni stendur Weywadthús sem byggt var af Níels P.E. Weywadt á árunum 1880-1882, en hann var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Weywadthús hefur frá 1992 verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem hefur annast endurgerð þess. Dóttir Níels, Nicoline Weywadt, var fyrst íslenskra kvenna til að nema ljósmyndun og starfrækti ljósmyndastofu á Teigarhorni. Nicoline er auk þess talin hafa átt fyrstu saumavél á Austurlandi.
Hálsaskógur
Hálsaskógur er á Búlandsnesi, skammt vestan við Djúpavog. Skógurinn er afar skemmtilegur en hann hefur verið grisjaður og þar settar upp trjátegundamerkingar og upplýsingaskilti, borð og bekkir. Í skógræktinni eru kurli lagðir göngustígar og svæðið hentar því einkar vel fyrir þá sem kjósa léttar gönguferðir.
Tankurinn
Tankurinn er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslaln á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík á Djúpavogi en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými. Með uppbyggingu á aðstöðunni fjölgar tækifærum fyrir gesti að upplifa menningu á svæðinu sem og aukið tækifæri fyrir listamenn af svæðinu að koma verkum sínum á framfæri. Sýnendur á sýningunni Rúllandi sjóbolta hafa sýnt verk sín í sýningarrýminu. Einnig eru fjölmargir listamenn sem hafa sett upp sjálfstæð verk sín í Tankinum allan ársins hring. Ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði með þessum hætti og er Tankurinn á Djúpavogi því einn sinnar tegundar á landinu. Tankurinn er dæmi um birtingarmynd hugmyndarfræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja og endurnýtingu gamalla auðlinda í nýjar.
Æðarsteinsviti
Æðarsteinsviti stendur á Æðarsteinstanga. Hann dregur nafn sitt af fallegum kletti sem rís uppúr sjónum fyrir utan tangann og heitir Æðarsteinn. Vitinn er innan við Gleðivík og var byggður 1922. Þægileg ganga (1 km) er að Æðarsteinsvita út frá Tankinum á Djúpavogi.
FRELSI og Hans Jónatan
Hans Jónatan (1784-1827) var fæddur í ánauð á St. Croix í jómfrúareyjum í Karíbahafi. Móðir hans, Emilía Regína, var ambátt ættuð frá Vestur-Afríku; faðirinn var hvítur, liklega danskur. Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigienda sinna, Schimmelmannhjóna. Hann gat sér gott orð í orrustunni um Kaupmannahöfn árið 1801 en það dugði honum ekki til að leysa sig úr ánauð. Ekkjufrú Schimmelmann höfðaði sögulegt dómsmál til að staðfesta eignarhald sitt á Hans Jónatan og vann það mál. Hans Jónatan ákvað þá að taka sér frelsi og strauk til Íslands skömmu eftir að dómur féll árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum í Löngubúð og gerðist bóndi og lét gott af sér leiða. Austfirðingar tóku leysingjanum Hans Jónatan vel og ekkert bendir til þess að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit sinn á Íslandi eða uppruna í þrældómi. Hann kvæntist stúlku úr næstu sveit, Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, og eignuðust þau tvö börn. Afkomendur þeirra eru nú um eitt þúsund. Hans Jónatan var fyrsti blökkumaðurinn sem settist að á Íslandi. Ævisagan Hans Jónatan: Maðurin sem stal sjálfum sér (höf. Gísli Pálsson) kom út árið 2014. Minnisvarði hefur verið reistur við hlið Löngubúðar á Djúpavogi til heiðurs honum og þeim alþjóðlegu viðhorfum sem krefjast þess að hörundslitur ráði ekki rétti manna. Minnisvarðinn ber nafnið FRELSI og er verk hins kunna listamanns Sigurðar Guðmundssonar. Ríkisstjórn Íslands, íbúar Djúpavogs, Fiskeldi Austurlands og fjölmargir einstaklingar stóðu rausnarlega straum af kostnaði við gerð verksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði það við hátíðlega athöfn 10. júlí 2021.
Bóndavarðan
Austan við kauptúnið á Djúpavogi er allshár ás sem heitir Bóndavörðuhraun og efst á honum Bóndavarða. Þar er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Frá Bóndavörðunni er hægt að ganga "út á land" í átt að svörtu söndunum.
Álftafjörður
Álftafjörður er nokkurs konar sjávarlón en Starmýrarfjörur, sem eru ekki breiðari en svo að stórbrim ganga yfir þær, skilja á milli lóns og hafs. Fjörðurinn er allmikill um sig, en tiltölulega grunnur og þorna stór svæði hans á fjöru. Nokkrar eyjar eru í honum og er Brimilsnes þeirra stærst. Fyrir sunnan fjörðinn rís Krossanesfjall, rúmlega 700 m hátt beint upp úr sjó en þar fyrir norðan er Mælifell og Sellönd. Þegar þessu sleppir taka við fjórir dalir sem ganga upp af Álftafirði, til vesturs. Þeirra syðstur er Starmýrardalur. Mynni dalsins er þröngt, en þegar innar kemur opnast hann lítillega en há fjöllm, Flötufjöll og Miðfell að sunnan og Selfjall að norðan, rísa hratt upp. Um dalinn liggur Selá og á hún upptök sín efst í Starmýrardal. Í dalsmynninu fellur áin um Sjónarhraun og þaðan í sveig til norðvesturst yfir Stekkjartún þar sem hún sameinast Starmýrará, sem á upptök sín í Hæðum. Þaðan fellur Selá í Krossavík við sunnanveðan Álftafjörð. Norðan Selfjalls liggur Flugustaðadalur, um 14 km. langur. Líkt og Starmýrardalur er hann þröngur og undirlendi lítið. Til austurs um dalinn fellur Suðurá / Flugustaðaá, sem á upptök sín í Bláskriðum í botni dalsins, undir Tungutindum og Flugustaðatindum. Undir Tungutindum við Tungusporð sameinast áin Hofsá, sem kemur ofan úr Hofsvötnum austan Hofsjökuls og saman falla þær til austurs um Hofshólma í vestanverðan Álftafjörð. Mynni Flugustaðadals er sunnanvert við árnar en mynni Hofsdals að norðanverðu, helst skipting þannig uns Tungutindar taka við og skilja dalina að, þannig að Flugustaðadalur teygir sig áfram í vestur en Hofsdalur sveigir sig til norðvesturs. Báðir dalirnir eru nokkuð vel grónir og er þar talsvert birkikjarr. Þegar upp dalina er komið blasa Jökulsgilsgrindur, Grísatungur og Hofsjökull (1280 m). Við norðanverðan Hofsdal taka við snarbrattar fjallshlíðar og er Selfjall (950 m) hæst tinda og handan fjallgarðsins er Geithelladalur, um 18 km langur. Há fjöll eru bejja vegna dalsins allt vestur fyrir Þrándarjökul (1248 m) að sunnanverðu, en þegar í dalbotninn er komið rís land hratt og hásléttan norðaustur af Vatnajökli, svokölluð Hraun, blasa við. Dalurinn er grösugur og töluverður skógur er þar. Um dalinn rennur Geithellaá, sem er talsvert vatnsfall og hefur meginupptök sín í stóru vatni inn á hrauni.. Fellur hún um Geithelladal í fossum og gljúfrum uns niður á láglendi er komið. Þaðan rennur hún um malareyrar og fellur í kvíslum í vestanverðan Álftafjörð. Mælt er með því að taka góðan tíma á ferð um Álftafjörð og Hamarsfjörð, til þess að njóta alls sem svæðið hefur upp á að bjóða. 
Hamarsfjörður
Hamarsfjörður, sem liggur á milli Berufjarðar og Álftafjarðar, er algjör náttúruparadís. Fjörðurinn er einstaklega fallegur og býður upp á marga möguleika til útvistar. Melrakkanes skilur á milli Álftafjarðar og Hamarfjarðar og út af því er Melrakkanesós sem er þröngt sund á milli Stapaeyjar á Starmýrarfjörum og Þvottáreyja sem eru í mynni Hamarsfjarðar, en um ósinn falla firðirnir til hafs. Annað þröngt sund, Holusund, er austan megin Þvottáreyja og liggur þar að Búlandsnesinu. Við norðanverðan Hamarfjörð er Hálsfjall, en upp af firðinum til vestur gengur Hamarsdalur og eru efstu drög hans við rætur Þrándarjökuls. Í dalnum er að finna grösuga staði en þó er hann víða nokkuð uppblásinn. Um dalinn fellur Hamarsá, sem hefur meginupptök uppi á Hraunum og Hamarsdalsdrögum. Í hana blandast jökulvatn frá Þrándarjökli og getur hún oft verið æði vatnsmikil. Áin rennur fram af mörgum klettabríkum á leið sinni niður framdalinn og myndar fallega fossa. Þegar í dalbotninn er komið fer áin um eyrar, þar til hún rennur til sjávar í botni Hamarsfjarðar. Úti fyrir Hamarsfirði og Búlandsnesi á Papagrunni er stærsta eyja Austfjarða, Papey, um 2 ferkílómetrar að stærð. Á Búlandsnesi við sunnanverðan Berufjörð er kauptúnið Djúpivogur. Mælt er með því að taka góðan tíma á ferð um Hamarsfjörð og Álftafjörð, til þess að njóta alls sem svæðið hefur upp á að bjóða. 
Sveinsstekksfoss
Sveinstekksfoss, Fossárfoss eða Nykurhylsfoss Nykurhylsfoss er neðsti fossinn í Fossá. Fossinn er um 15 metra hár og fellur hann niður um þröngt gljúfur þar sem áin kastast til, skiptist í flúðir og hyli og endar að lokum í Nykurhyl sem er um 9 metra djúpur þar sem mest er.  Vatnssvið Fossár er um það bil 113 km2. Aðalupptökin eru í Líkárvatni, þaðan fellur áin um 20 km leið í yfir 30 fossum út Fossárdal til sjávar í Berufirði. Rennsli árinnar er ákaflega misjafnt eftir árferði og tíðarfari og getur hún á skömmum tíma breyst úr litlum og sakleysislegum læk í hina mestu forynju sem engu eirir. Mælingar hafa verið gerðar á vatnsrennsli Fossár í yfir 50 ár. Nykurhylur er undir neðsta fossinum. Þar var nykur (Fossbúi), sem lengi var reynt að losna við en það tókst ekki fyrr en skírnarvatni var hellt í ána eftir skírn á bæ í dalnum. Nykur var vatnavera sem birtist oft í gervi hests eða ungs manns. Nykur bjó í vatni og reyndi að draga ungar stúlkur og börn í vatnið til sín. en hann mátti ekki heyra nafnið sitt og ekki þoldi hann að gert væri krossmark. Þá hvarf hann.
Blábjörg í Berufirði
Norðan megin í Berufirði er áhugavert náttúrufyrirbæri í fjöruborðinu. Skammt austan við bæinn Fagrahvamm, rís sérkennilegur klettahamar sem er ólíkur öllu öðru bergi þar um slóðir, bæði að lit og áferð. Klettahamarinn nefnist Blábjörg enda er á honum blá slikja. Hér er um að ræða flikruberg, um það bil 9 milljón ára gamalt. Klettahamarinn er vitnisburður um stórkostlegan atburð í jarðsögu Íslands en flikruberg myndast við gjóskuhlaup í miklum sprengigosum. Þegar gosmökkurinn verður þyngri en andrúmsloftið fellur hann saman svo úr verður gjóskuhlaup þar sem brennheit gjóskan þeytist á ógnarhraða niður hlíðar eldfjalla. Er hraðinn slíkur að ekki er á færi nokkurs manns að forða sér undan slíku. 
Djáknadys
Djáknadys er laus grafhýsi (dys) norðan megin við Hamarsfjörð. Sagan segir að á þessum stað hafi presturinn á Hálsi og djákninn á Hamri hist og þeir barist til dauða. Voru þeir báðir dysjaðir á staðnum og er nafn Djáknadysjar þannig tilkomið. Sagt er að sú kvöð hvíli á vegfarendum sem fara fram hjá dysinni í fyrsta sinn að þeir verði að kasta steinvölu í dysina, einni fyrir sig og einnig einni fyrir hvorn, hund og hest, ef með eru, annars muni þeir lenda í ógöngum. Aðrar sögur segja að leggja skuli þrjá steina í dysina. Um þetta er gamla vísan: Að flýta sér að fara af baki og fleygja steini yfir djákna aldurhniginn er það gæfa á ferðastiginn. Það skal tekið fram að í dag er dysin friðuð svo það er bæði bannað að bæta steinum við dysina og taka steina úr henni. 
Þvottaá
Þvottá er syðsti bær í Álftafirði. Hallur Þorsteinsson, Síðu-Hallur, sem var meðal kunnustu landsmanna á söguöld, bjó þar í kringum aldamótin 1000. Hann tók við Þangbrandi presti og kristniboða einn vetur og tók skírn ásamt heimafólki sínu í ánni við bæinn og síðan var hún kölluð Þvottá. Neysluvatn bæjarins kemur úr Þangbrandsbrunni, þar sem Þangbrandur er sagður hafa haldið tíðir í tjaldi sínu á Mikjálsmessu. Þar hlýddi heimafólk Síðu-Halls á messu og skírðist síðan daginn eftir. Við brunninn er Þangbrandstótt, sem er friðlýst. Þvottá var kirkjustaður fram á árið 1754 og prestsetur um skeið. Þar sést ennþá móta fyrir kirkjugarði. Mælifell (487m) er niðri við sjó og Sellönd eru nokkru norðar. Þetta svæði er prýtt litskrúðugu ríólíti og tröllahlöðum. Á þessum slóðum fann Björn Kristjánsson merki um ýmsa málma, s.s. gull, platínu o.fl., einkum í Geitursgili. Þessar bergmyndanir eru tengdar Álftafjarðareldstöðinni fornu, sem er að mestu horfin undir Álftafjörð.  Við Þvottá er minnisvarði um kristnitökuna og þar er skemmtilegt útivistarsvæði.