Svörtu sandarnir við Djúpavog
Svæðið á Búlandsnesinu utan við byggðina á Djúpavogi er kjörið til gönguferða, til að upplifa fegurð og ævintýri, leika sér, fræðast og njóta fjarri erli hversdagsins í anda hæglætisstefnunnar cittaslow. Þar er einstaklega fallegt og fjölbreytt landslag, litbrigði í svörtum sandi, grónum hólmum og spegilsléttum tjörnum, auðugt fuglalíf og fullt af sögu. Þar er einnig mjög fagurt útsýni til fjalla og hafs. Hefja má gönguna með því að ganga frá byggðinni á Djúpavogi í austur með viðkomu á Bóndavörðu. Þaðan er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Til landsins eru margir áberandi tindar og fjöll og er Búlandstindur einna fegurstur og nafnkunnastur, hár og brattur píramídi við sunnanverðan Berufjörð. Út til hafsins blasa við eyjar og sker eins og perlur á bandi og er Papey þeirra stærst og kunnust. Í umhverfi Djúpavogs vekja sérstaka athygli áberandi kambar eða háar og þunnar klettabríkur, tröllahlöð, sem standa samsíða og setja ævintýralegan svip á umhverfið. Þetta eru berggangar, löngu storknuð hraun sem fylltu sprungur í eldsumbrotum fyrir milljónum ára. Vegna þess hve bergið í þessum berggöngum er hart hefur ísaldarjökullinn ekki náð að jafna þessa kamba við jörðu.
Halda má göngunni áfram frá Bóndavörðu í norðaustur eftir Langatanga eða fara beint til austurs niður að ströndinni og svo áfram til suðurs að Grunnasundi og yfir það út á sandinn. Grunnasund gæti þurft að vaða eða taka krók inn með því og fara fyrir enda þess. Einnig er hægt að ganga beint út á sandinn til suðurs veginn sem liggur að flugbrautinniog þá leið má einnig aka áleiðis. Umhverfið á Búlandsnesinu er mjög breytt frá því sem var á fyrri tímum þegar hólmarnir á sandinum sem enn bera eyjanöfn t.d. Úlfsey, Hvaley, Sandey og Hrísey og fleiri voru raunverulegar eyjar með bátgengum sundum á milli. Vötnin sem bera enn nöfn voga svo sem Breiðivogur og Fýluvogur voru þá raunverulegir vogar eða víkur. Eyjarnar eru nú landfastar og sundin orðin að sandbreiðum eða votlendi en landris og mikill sandburður hefur valdið því. Ætla má að gróðurfar hafi einnig tekið breytingum þegar sandurinn sótti á.
Sunnan Grunnasunds liggur leiðin áfram í Úlfsey. Áður fyrr þegar sund var milli hennar og meginlandsins var róið þar í gegn á bátum. Smátt og smátt grynntist sundið og heimildir segja að það hafi verið orðið fullt af sandi fyrir meira en 100 árum eða nokkru eftir 1880. Á Úlfsey er sagður vera fornmanns haugur, sem líklega hefur heitið Úlfur. “Enginn maður má þar svo fæti á land stíga, að hann syngi ekki eitt vers við hauginn, gjöri þar bæn sína eða leggi stein í hauginn,” segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Haugur sá sem talinn er vera Úlfshaugur er hálfgróin grjótþúst norðaustast á Úlfsey.
Frá Úlfsey er hægt að ganga til suðausturs í Hvaley. Á innanverðri Hvaley var kallað Lundabakkar. Syðst í klettunum upp af Lundabökkum er Hellir, talinn náttúrumyndun en hann hefur fyllst af sandi. Hann var að hluta grafinn út fyrir nokkrum árum síðan en hefur aftur fyllst af sandi. Talið er að fólk sem nytjaði eyjuna hafi hafst við i hellinum. Í eyunni voru slægjur og eggjatekja auk þess sem að þar var fjárhús.
Áfram er haldið göngu með viðkomu í Kálki þar sem eru hústóftir og síðan út í Sandey. Mögulegt er að klöngrast ofan í fjöruna í Sandey ef það er fjara og skoða helli sem þar er að finna. Til að loka hringnum er hægt að ganga meðfram flugvellinum upp að vötnunum Fýluvogi og Breiðavogi en fyrst má taka krók til vesturs yfir sandinn í Hrísey og Kiðhólma. Samkvæmt heimildum var búið í Hrísey fyrr á tímum og sjást þar tóftir. Heimildir eru um að á árabilinu 1500 fram undir 1600 hafi verið verslunarhöfn í Fýluvogi sem þá var skipgengur vogur. Þar hafi þá verið aðalhöfnin við Berufjörð en áður hafði höfnin verið í Gautavík á norðurströnd fjarðarins. Það voru þýskir kaupmenn frá Bremen, Brimarkaupmenn, sem versluðu við Fýluvog en Hamborgarkaupmenn versluðu við Djúpavog hinum megin á nesinu. Með tilkomu einokunarverslunarinnar árið 1602 lagðist verslun Þjóðverja af og eftir það voru Danir með verslun við Djúpavog. Talið er sennilegt að vörum hafi verið skipað upp á svonefnda Selaklöpp eða Selabryggjur sem eru klappir við Fýluvog. Sandburðurinn hefur gerbreytt aðstæðum og allar minjar sem eru sýnilegar við voginn núna eru taldar mun yngri en frá tíma hafnarinnar en frekari fornleifarannsókn gæti mögulega varpað ljósi á þetta. Fýluvogur hefur verið kallaður ýmsum nöfnum Fýluvogur, Fýluvík og Fúlivogur og Fúlavík. Einhverjir hafa velt fyrir sér hvort þarna hafi raunverulega verið daunillt t.d vegna rotnandi þangs. En aðrir telja að nafnið komi frá Dönum og hafi upphaflega verið kennt við fugla þ.e framburðinn á dönsku.
Við Fýluvog standa nú fuglaskoðunarhús til að auðvelda fólki að fylgjast með fjölbreyttu og iðandi fuglalífi þar. Votlendi,tjarnir og fjörur á Búlandsnesi eru afar áhugaverð fuglasvæði og því tilvalin til fuglaskoðunar einkum á vorin þegar farfuglar koma og fuglavarp stendur yfir en einnig er umferð farfugla um svæðið á haustin. Þarna er fjöldinn allur af vaðfuglum og mjög fjölbreytt andavarp t.d. brandönd og skeiðönd. Einnig hefur flórgoði verpt við tjarnirnar. Fyrir utan fjölda varpfugla hafa margir vaðfuglar og endur viðkomu á svæðinu vor og haust m.a. áhugaverðir flækingsfuglar. Aukvotlendisfugla sem eru áberandi á Búlandsnesinu má sjá sjófugla við ströndina, mófugla á holtum og móum og sé farið upp í Hálsaskóg, skógarreit innan við Djúpavog má rekast á glókollinn minnsta fugl Evrópu og fleiri skógarfugla. Hálsar eru annars einnig tilvalið svæði til gönguferða og náttúruskoðunar. þar er fjölbreytilegt og óvenjulegt landslag með sérkennilegum berggöngum.