Teigarhorn
Teigarhorn við Berufjörð er þekkt annars vegar fyrir merkilegar jarðmyndanir og hins vegar atvinnu- og menningarsögu. Jörðin öll var friðlýst sem fólkvangur árið 2013 og var þá friðlýst náttúruvætti innan fólkvangsins einnig stækkað. Á Teigarhorni er heilsárslandvarsla og unnið er að uppbyggingu sem raskar ekki svæðinu.
Við Teigarhorn er einn merkasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heiminum og tengist myndun þeirra miklu berggangakerfi frá Álftafjarðareldstöðinni. Af geislasteinum sem þar finnast má nefna skólesít, stilbít, epistilbít, mordenít, laumontít og heulandít. Þar finnast auk þess aðrar steindir, s.s. seladónít, ópall, kalsedón, bergkristall, kalsít og silfurberg. Geislasteinar frá Teigarhorni hafa verið notaðir í ýmsar rannsóknir í meira en 200 ár. Þar á meðal eru lýsingar á kristalformum, efnasamsetningu, innri byggingu kristalla og ljósfræði, og eru sumar þeirra meðal fyrstu lýsinga á viðkomandi steindum. Sýni frá Teigarhorni voru seld til safna víða um heim á seinni hluta 18. aldar, en síðan 1976 hafa helstu fundarstaðir verið friðlýstir sem náttúruvætti.
Á Teigarhorni stendur Weywadthús sem byggt var af Níels P.E. Weywadt á árunum 1880-1882, en hann var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Weywadthús hefur frá 1992 verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem hefur annast endurgerð þess. Dóttir Níels, Nicoline Weywadt, var fyrst íslenskra kvenna til að nema ljósmyndun og starfrækti ljósmyndastofu á Teigarhorni. Nicoline er auk þess talin hafa átt fyrstu saumavél á Austurlandi.