Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Saga og menning á Djúpavogi

Langabúð-Byggðasafn - Ríkarðssafn
Langabúð er reist á grunni eldra húss og þar sem Langabúð stendur hefur verið verslun frá árinu 1589 er Þýskir kaupmenn frá Hamborg hófu verslunarrekstur á Djúpavogi. Langabúð hýsir safn Ríkarðs Jónssonar, ráðherrastofu Eisteins Jónssonar og minjasafn. Þar er einnig rekið yndælis kaffihús ásamt minjagripasölu.
Teigarhorn
Teigarhorn við Berufjörð er þekkt annars vegar fyrir merkilegar jarðmyndanir og hins vegar atvinnu- og menningarsögu. Jörðin öll var friðlýst sem fólkvangur árið 2013 og var þá friðlýst náttúruvætti innan fólkvangsins einnig stækkað. Á Teigarhorni er heilsárslandvarsla og unnið er að uppbyggingu sem raskar ekki svæðinu. Við Teigarhorn er einn merkasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heiminum og tengist myndun þeirra miklu berggangakerfi frá Álftafjarðareldstöðinni. Af geislasteinum sem þar finnast má nefna skólesít, stilbít, epistilbít, mordenít, laumontít og heulandít. Þar finnast auk þess aðrar steindir, s.s. seladónít, ópall, kalsedón, bergkristall, kalsít og silfurberg. Geislasteinar frá Teigarhorni hafa verið notaðir í ýmsar rannsóknir í meira en 200 ár. Þar á meðal eru lýsingar á kristalformum, efnasamsetningu, innri byggingu kristalla og ljósfræði, og eru sumar þeirra meðal fyrstu lýsinga á viðkomandi steindum. Sýni frá Teigarhorni voru seld til safna víða um heim á seinni hluta 18. aldar, en síðan 1976 hafa helstu fundarstaðir verið friðlýstir sem náttúruvætti. Á Teigarhorni stendur Weywadthús sem byggt var af Níels P.E. Weywadt á árunum 1880-1882, en hann var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Weywadthús hefur frá 1992 verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem hefur annast endurgerð þess. Dóttir Níels, Nicoline Weywadt, var fyrst íslenskra kvenna til að nema ljósmyndun og starfrækti ljósmyndastofu á Teigarhorni. Nicoline er auk þess talin hafa átt fyrstu saumavél á Austurlandi.
Tankurinn
Tankurinn er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslaln á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík á Djúpavogi en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými. Með uppbyggingu á aðstöðunni fjölgar tækifærum fyrir gesti að upplifa menningu á svæðinu sem og aukið tækifæri fyrir listamenn af svæðinu að koma verkum sínum á framfæri. Sýnendur á sýningunni Rúllandi sjóbolta hafa sýnt verk sín í sýningarrýminu. Einnig eru fjölmargir listamenn sem hafa sett upp sjálfstæð verk sín í Tankinum allan ársins hring. Ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði með þessum hætti og er Tankurinn á Djúpavogi því einn sinnar tegundar á landinu. Tankurinn er dæmi um birtingarmynd hugmyndarfræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja og endurnýtingu gamalla auðlinda í nýjar.
FRELSI og Hans Jónatan
Hans Jónatan (1784-1827) var fæddur í ánauð á St. Croix í jómfrúareyjum í Karíbahafi. Móðir hans, Emilía Regína, var ambátt ættuð frá Vestur-Afríku; faðirinn var hvítur, liklega danskur. Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigienda sinna, Schimmelmannhjóna. Hann gat sér gott orð í orrustunni um Kaupmannahöfn árið 1801 en það dugði honum ekki til að leysa sig úr ánauð. Ekkjufrú Schimmelmann höfðaði sögulegt dómsmál til að staðfesta eignarhald sitt á Hans Jónatan og vann það mál. Hans Jónatan ákvað þá að taka sér frelsi og strauk til Íslands skömmu eftir að dómur féll árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum í Löngubúð og gerðist bóndi og lét gott af sér leiða. Austfirðingar tóku leysingjanum Hans Jónatan vel og ekkert bendir til þess að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit sinn á Íslandi eða uppruna í þrældómi. Hann kvæntist stúlku úr næstu sveit, Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, og eignuðust þau tvö börn. Afkomendur þeirra eru nú um eitt þúsund. Hans Jónatan var fyrsti blökkumaðurinn sem settist að á Íslandi. Ævisagan Hans Jónatan: Maðurin sem stal sjálfum sér (höf. Gísli Pálsson) kom út árið 2014. Minnisvarði hefur verið reistur við hlið Löngubúðar á Djúpavogi til heiðurs honum og þeim alþjóðlegu viðhorfum sem krefjast þess að hörundslitur ráði ekki rétti manna. Minnisvarðinn ber nafnið FRELSI og er verk hins kunna listamanns Sigurðar Guðmundssonar. Ríkisstjórn Íslands, íbúar Djúpavogs, Fiskeldi Austurlands og fjölmargir einstaklingar stóðu rausnarlega straum af kostnaði við gerð verksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði það við hátíðlega athöfn 10. júlí 2021.
Eggin í Gleðivík
Eggin í Gleðivík er útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson (f. 1942). Þetta eru 34 eftirmyndir eggja varpfugla sem verpa í nágrenni Djúpavogs. Verkið er sérstaklega gert fyrir staðinn og standa eggin á steyptum stöplum sem áður héldu uppi löndunarröri á milli bryggju og bræðslu. Mikið fuglalíf er á svæðinu og endurspegla eggin þá seterku tengingu sem Djúpivogur hefur við náttúruna.  Eggin í Gleðivík eru vinsæll áningarstaður ferðamanna og eru orðin eitt af kennileitum Djúpavogs.
Bóndavarðan
Austan við kauptúnið á Djúpavogi er allshár ás sem heitir Bóndavörðuhraun og efst á honum Bóndavarða. Þar er frábært útsýni til allra átta og útsýnisskífa sem sýnir helstu örnefni. Frá Bóndavörðunni er hægt að ganga "út á land" í átt að svörtu söndunum.
Djáknadys
Djáknadys er laus grafhýsi (dys) norðan megin við Hamarsfjörð. Sagan segir að á þessum stað hafi presturinn á Hálsi og djákninn á Hamri hist og þeir barist til dauða. Voru þeir báðir dysjaðir á staðnum og er nafn Djáknadysjar þannig tilkomið. Sagt er að sú kvöð hvíli á vegfarendum sem fara fram hjá dysinni í fyrsta sinn að þeir verði að kasta steinvölu í dysina, einni fyrir sig og einnig einni fyrir hvorn, hund og hest, ef með eru, annars muni þeir lenda í ógöngum. Aðrar sögur segja að leggja skuli þrjá steina í dysina. Um þetta er gamla vísan: Að flýta sér að fara af baki og fleygja steini yfir djákna aldurhniginn er það gæfa á ferðastiginn. Það skal tekið fram að í dag er dysin friðuð svo það er bæði bannað að bæta steinum við dysina og taka steina úr henni. 
Þvottaá
Þvottá er syðsti bær í Álftafirði. Hallur Þorsteinsson, Síðu-Hallur, sem var meðal kunnustu landsmanna á söguöld, bjó þar í kringum aldamótin 1000. Hann tók við Þangbrandi presti og kristniboða einn vetur og tók skírn ásamt heimafólki sínu í ánni við bæinn og síðan var hún kölluð Þvottá. Neysluvatn bæjarins kemur úr Þangbrandsbrunni, þar sem Þangbrandur er sagður hafa haldið tíðir í tjaldi sínu á Mikjálsmessu. Þar hlýddi heimafólk Síðu-Halls á messu og skírðist síðan daginn eftir. Við brunninn er Þangbrandstótt, sem er friðlýst. Þvottá var kirkjustaður fram á árið 1754 og prestsetur um skeið. Þar sést ennþá móta fyrir kirkjugarði. Mælifell (487m) er niðri við sjó og Sellönd eru nokkru norðar. Þetta svæði er prýtt litskrúðugu ríólíti og tröllahlöðum. Á þessum slóðum fann Björn Kristjánsson merki um ýmsa málma, s.s. gull, platínu o.fl., einkum í Geitursgili. Þessar bergmyndanir eru tengdar Álftafjarðareldstöðinni fornu, sem er að mestu horfin undir Álftafjörð.  Við Þvottá er minnisvarði um kristnitökuna og þar er skemmtilegt útivistarsvæði.

Aðrir (1)

Nönnusafn Berufjörður 1 765 Djúpivogur 478-8977