Vopnafjarðarkirkja
Vopnafjarðarkirkja var tekin í notkun árið 1903 og er nú friðuð. Fram að því var engin kirkja í þorpinu en kirkjustaðir voru á Refstað og Hofi. Hönnuður kirkjunnar var Björgólfur Brynjólfsson frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal og danska verslunarfélagið Örum og Wulf lagði til lóð undir hana.
Altaristaflan í Vopnafjarðarkirkju er eftir Jóhannes Kjarval og nefnist Frelsarinn talar til fólksins. Jón Helgason biskup á að hafa sagt, þegar hann heimsótti kirkjuna, að fólkið á myndinni væri eins og púkar í helvíti. Þó á að hafa fylgt á eftir að fólkið virtist hlusta vel á Krist þrátt fyrir það.