Upplýsingar um verð
Sérfræðingur: Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur
Í þessari vinnustofu fá þátttakendur að kynnast fjölbreytileika mjólkur og mjólkurafurða. Farið verður yfir helstu hugtök mjólkurfræða, efnafræðilega eiginleika mjólkur og fjölbreytt úrval mjólkurvara sem hægt er að framleiða. Þátttakendur læra grunnatriði ostagerðar og einfaldar aðferðir við gerð ferskra og súrra mjólkurafurða.
Við veitum innsýn í hinn smásæja heim gerla og hvata, notkun þeirra í framleiðslu og hvernig greina má á milli góðra og skaðlegra gerla – hvað ber að forðast og hvernig hægt er að kalla fram æskilegar aðstæður. Einnig verður fjallað um tæki, tól og aðstöðu sem þarf til heimavinnslu mjólkurafurða.
Ostasmakk verður á dagskrá þar sem bragðað verður á innlendum og erlendum ostum undir leiðsögn sérfræðings sem mun greina eiginleika þeirra. Þátttakendur framleiða 2–3 tegundir mjólkurvara sem hægt er að fullgera á tveimur dögum, svo sem skyr, jógúrt, ferskost og fetaost.
Kennsla fer fram á bæði íslensku og ensku.
Kennsla og fræðsluefni frá sérfræðingi.
Kannaðu þinn rétt á ferða-, námskeiðs- og tómstundastyrk verkalýðsfélaga og fyrirtækja. Stéttarfélög geta beðið um staðfestingu á þátttöku.
Nánari upplýsingar eru í síma 471 1761 eða skrifið til hskolinn@hskolinn.is