Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Þverárgil
Þverárgil í Vopnafirði er einstaklega fallegt gil þar sem sjá má litríkt líparít, súrt innskotsberg frá gamalli megineldstöð, sem stingur skemmtilega í stúf við annars dökkt basískt umhverfi Smjörfjallanna fyrir ofan gilið. Fuglalíf á þessu svæði er líflegt, en þar er sérstaklega mikið um íslenska mófugla. Útsýnið yfir Hofsárdalinn, og út á haf, er stórfengilegt . Gönguleiðin er miðlungs erfið, um tveggja klukkustunda löng og liggur aðeins upp á við.  Upphafsreitur göngunnar er við veg 919, Sunnudalsveg.
Skjólfjörur
Skjólfjörur er staður sem ekki ætti að missa af ef leiðin liggur um Vopnafjörð. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjörurnar. Þar er stórfenglegt útsýni yfir opið Atlantshafið og hver veit nema hvalur blási áhorfendum til skemmtunar. Litadýrð fjörusteinanna gleður augað og rekaviður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þann kraft sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjörunni. Eitt af einkennum Vopnafjarðar eru ótrúlegir klettadrangar sem taka á sig ýmsar kynjamyndir. Ljósastapi er glæsilegur klettur sem stendur í sjónum rétt undan Skjólfjara og heima menn kalla „Fílinn“ vegna þess hvernig lögun klettarins minnir á fíl. Ljósastapi er einstaklega myndrænn og er vel þess virði að stoppa til þess að taka skemmtilegar myndir.    Til hægri við Fílinn má sjá Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og þar er elsta megineldstöð á Austurlandi. Í þeim fjallgarði má finna litfagurt líparít sem svo sannarlega setur svip sinn á umhverfið. Merkt gönguleið er niður í Múlahöfn og að Þerribjargi, austan megin í Hellisheiði eystri, þar sem líparítið skartar sínu fegursta. 
Kolbeinstangaviti
Kolbeinstangaviti er tæpir 20 metrar á hæð og stendur á glæsilegum stað í landi Leiðarhafnar í Vopnafirði. Vitinn var byggður árið 1942 en ekki tekinn í notkun fyrr en tveimur árum síðar þegar ljóstæki fengust loksins í hann frá Englandi. Vitinn er húðaður með ljósu kvarsi og hrafntinnumulningur er á dökku flötunum. Kolbeinstangaviti er eini vitinn sem hefur haldið þessu útliti, þ.e. hann hefur ekki verið kústaður með þéttiefni. Gönguleiðin frá þorpinu að vitanum er falleg og létt, þar sem hún liggur eftir malarveginum út í Leiðarhöfn og að vitanum. Þaðan er fallegt útsýni yfir þorpið og út fjörðinn. Gamall námuvegur sem liggur af veginum út í Leiðarhöfn er skemmtileg gönguleið út á Kolbeinstangann. Tangasporðurinn býður upp á glæsilegt landslag sem er kjörið til útivistar og er mjög vinsælt á meðal heimamanna.
Sandvík í Vopnafirði
Sandvík er mikil og svört sandströnd innst í Vopnafirði. Svæðið er fjölskyldupardís af náttúrunnar hendi. Þar má tína skeljar, fá sér göngutúr, skoða fuglana, byggja sandkastala eða hvað sem hugurinn girnist.  Fyrir miðri ströndinni strandaði flutningaskipið Mávurinn 2. október 1981. Mannbjörg varð en enn má sjá glitta í skipsflakið þegar sjávarborðið er lægst.  Aðgengi að Sandvík er við vegslóða sem liggur niður að víkinni innan við golfvöllinn .  Fólk er hvatt til þess að fara varlega í fjörunni. Á vorin á Hofsá það til að flæða yfir en þá geta myndast kviksyndi.    
Gljúfursárfoss
Gjúfursárfoss í sunnanverðum Vopnafirði fellur fram í litfögru gljúfri rétt fyrir neðan bílastæðið. Fossinn er glæsilegur er hann fellur um 45 metra ofan í gilið.   Gljúfursá var á fyrri tíð mikill farartálmi þegar ferðast þurfti austur fyrir Hellisheiði eystri. Mörg slys urðu þegar fólk var að reyna að þvera hana fótgangandi eða á hestum. Ef gengið er frá bílastæði upp með ánni er komið að gömlu brúnni yfir Gljúfursá. Þar má sjá hleðslur frá fyrstu brúnni sem var byggð yfir ána rétt um aldamótin 1900 og þótti þá mikið mannvirki.  Sagt er að fyrsta brúin yfir ána hafi verið byggð í kjölfar banaslyss sem þar átti sér stað þegar maður á hesti freistaði þess að komast yfir ána að vetri til.   Frá bílastæðinu liggur einnig merkt gönguleið niður með Gljúfursánni og um Drangsnes.  
Minjasafnið á Bustarfelli
Minjasafnið á Bustarfelli - Lifandi safn  Allt frá árinu 1982 hefur Minjasafnið á Bustarfelli í Vopnafirði verið rekið sem sjálfseignarstofnun en þá gaf Elín Methúsalemsdóttir Vopnfirðingum safnið sem fram að þeim tíma hafði verið sýnt sem einkasafn. Minjasafninu tilheyra allir munir bæjarins og kaffihúsið Hjáleigan. Bæinn sjálfan sér Þjóðminjasafn Íslands um fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Aðstandendur safnsins hafa lagt metnað sinn í að sýning gripa safnsins sé sett upp á sem raunverulegastan hátt, rétt eins og íbúar hússins hafi brugðið sér frá stundarkorn. Enn fremur er mikið lagt upp úr miðlun gamallar verkþekkingar og sagna með lifandi uppákomum, viðburðum og námskeiðum. Sérstaða safnsins felst þó að miklu leyti í því hversu glöggt það miðlar breyttum búskapar- og lifnaðarháttum fólks allt frá því fyrir 1770 til þess er hætt var að búa í bænum árið 1966. Til að mynda eru þrjú eldhús í bænum sem öll segja sína sögu og tilheyra sínu tímabili. Eins er um muni safnsins, að þeir tilheyra mismunandi tímabilum. Gaman er að ganga um og sjá hvernig einn hlutur hefur tekið við af öðrum í áranna rás. Stór hluti muna safnsins er kominn úr búi Methúsalems Methúsalmessonar. Hann hafði snemma áhuga á því að varðveita gamla muni og hóf að safna þeim víðsvegar úr sveitarfélaginu og varðveitti heima á Bustarfelli.  Afraksturs þeirrar forsjálni fáum við öll að njóta góðs af í dag.  Því starfi sem hann hóf hefur Minjasafnið reynt að halda áfram og með velvilja og gjafmildi íbúa sveitarfélagsins berast safninu árlega gjafir sem hafa mikið gildi fyrir þekkingu okkar á arfleifðinni, rótum okkar allra. Kunnum við öllu þessu gjafmilda fólki okkar bestu þakkir fyrir. Í safninu eru nú yfir eitt þúsund munir sem hver og einn á sína sögu og sína "sál" sem gerir safnið að þeim einstaka fróðleiks- og afþreyingarbrunni sem það er. Opnunartími: 10 – 17 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst. Verið ávallt velkomin í heimsókn.  
Smjörfjöll
Fjallgarðurinn á milli Vopnafjarðar og Jökulsárhlíðar nefnist Smjörfjöll. Fjallgarðurinn samanstendur af háum og bröttum fjöllum en þau hæstu er um 1.250 metra há. Norðan við fjallgarðinn er Hellisheiði eystri en um hana liggur einn hæsti fjallvegur á landinu, í um 655 metra hæð og var sú leið lengi helsta tenging Vopnafjarðar við Hérað.  Vegna þess hve hátt vegurinn liggur var aldrei hægt að halda veginum opnum yfir háveturinn og í dag er leiðin einungis opin á sumrin. Það er skemmtilegt að taka rúnt yfir Hellisheiðina í góðu veðri en útsýnið er stórkostlegt, bæði yfir Vopnafjörðinn norðan megin og Héraðsflóa austan megin. 
Álfkonusteinn gönguleið
Töluverðan spöl fyrir ofan bæinn Bustarfell í Vopnafirði stendur stór steinn sem kallast Álfkonusteinn. Tiltölulega létt er að ganga frá Bustarfelli að steininum en honum tengist skemmtileg þjóðsaga. Sagan segir að sýslumannsfrú á Bustarfelli hafi í draumi verið leidd inn í steininn. Þar kom hún til hjálpar álfkonu í barnsnauð, sem launaði fyrir sig með fallegum gullofnum vef eða klæði. Klæðið er haganlega gert, framandi og einsdæmi hér á landi, og er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands. 
Drangsnes
Frá Gljúf­ursár­fossi sem stendur sunnanmegin í Vopnafirði er merkt gönguleið niður með Gljúfursánni og niður að sjó um Drangsnes.  Að ganga meðfram þver­hníptum klett­unum er mikil upplifun og lætur fáa ósnortna. Göngu­leiðin nær að Krumms­holti. þar se, eru vel sjáan­legar ævafornar tóftir frá víkingaöld, að því að talið er. Þar á Þorsteinn uxafótur að hafa búið.  Handan fjarð­arins má sjá kauptún Vopn­fjarðar sem stendur á tanga sem skagar út í fjörðinn. Tanginn er kall­aður Kolbein­stangi. 
Fuglabjarganes
Fuglabjarganes er hluti af strandlengju Vopnafjarðar, norðan megin í firðinum.  Fuglabjarganes er á Náttúruminjaskrá Íslands vegna fagurrar og fjölbreyttrar strandar og mikils fuglalífs. Gengið er í fjörunni niður á nesið þar sem taka við þverhnípt björg beint niður í sjó, klettadrangar sem gnæfa upp úr sjónum innan við nesið, gróðursæl víðátta og víðsýni yfir opið hafið. 
Hofskirkja
Prestsetrið á Hofi hefur skipað stóran sess í sögu Vopnafjarðar frá upphafi, bæði sem stórbýli og höfðingjasetur. Þar var höfuðstaður Hofverja, ættar sem fór með annað tveggja goðorða í Vopnafirði á 10. öld. Á Hofi bjó einnig eini prestvígði höfðinginn í Vopnafirði á 12. öld, Finnur Hallsson. Minnisvarði um Vopnfirðingasögu stendur við afleggjarann að Hofi.   Talið er að fyrsta kirkjan á Hofi hafi verið byggð stuttu eftir kristnitöku. Kirkjan sem nú er í notkun var byggð árið 1901 en hún tók við af torfkirkju frá miðöldum. Hönnuður hennar var Björgólfur Brynjólfsson frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal. Kirkjan stendur í Hofskirkjugarði, fallegum garði þaðan sem er gott útsýni yfir Hofsárdalinn. 
Hraunlína
Frá útsýnisstaðnum er horft yfir Lónin, Skógarlón innar og Nýpslón utar. Lónin eru friðlýst vegna þess hve fjölskrúðugt dýralíf þrífst þar við sérstæð skilyrði. Fundist hafa yfir 40 tegundir smádýra í lónunum auk fiska og fugla. Skemmtilegt og fallegt er að ganga í fjöruborði Lónanna og fuglalíf er þar mjög mikið. Á útsýnisstaðnum eru skilti sem lýsa staðarháttum og segja frá áhugaverðum hlutum um Vopnafjörð.
Ljósastapi
Skjólfjörur er staður sem ekki ætti að missa af ef leiðin liggur um Vopnafjörð. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjörurnar. Þar er stórfenglegt útsýni yfir opið Atlantshafið og hver veit nema hvalur blási áhorfendum til skemmtunar. Litadýrð fjörusteinanna gleður augað og rekaviður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þann kraft sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjörunni. Eitt af einkennum Vopnafjarðar eru ótrúlegir klettadrangar sem taka á sig ýmsar kynjamyndir. Ljósastapi er glæsilegur klettur sem stendur í sjónum rétt undan Skjólfjara og heima menn kalla „Fílinn“ vegna þess hvernig lögun klettarins minnir á fíl. Ljósastapi er einstaklega myndrænn og er vel þess virði að stoppa til þess að taka skemmtilegar myndir.    Til hægri við „Fílinn“ má sjá Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og þar er elsta megineldstöð á Austurlandi. Í þeim fjallgarði má finna litfagurt líparít sem svo sannarlega setur svip sinn á umhverfið. Merkt gönguleið er niður í Múlahöfn og að Þerribjargi, austan megin í Hellisheiði eystri, þar sem líparítið skartar sínu fegursta. 
Minnisvarði um Vopnfirðingasögu
Vopnfirðingasaga er ein af bókum Íslendingasagnanna. Talið er að hún hafi verið rituð á fyrri hluta 13. aldar (1225-1250) og gerist hugsanlega á tímabilinu 960-990. Söguslóðir eru í Vopnafirði og í raun á mjög afmörkuðu svæði, að mestu í austanverðum Hofsárdal, frá Böðvarsdal við sjó og inn til dala og heiða. Í dag er auðvelt að komast að og/eða sjá flesta staði sem getið er í sögunni. Vopnfirðingasaga lýsir átökum tveggja höfðingjaætta sem snúast um ágirnd, græðgi, valdabaráttu og vináttu, auk þess sem fjölbreyttar persónu- og mannlífslýsingar einkenna söguna.  Í fornleifarannsóknum árið 2006 fannst skálatóft frá tímum hinna fornu Hofverja rétt við kirkjuna á Hofi. Ein aðalpersóna sögunnar, Helgi Þorgilsson, sem síðar fékk viðurnefnið Brodd-Helgi, var alinn upp á Hofi og varð síðar bóndi og goðorðsmaður á Hofi. Þegar Helgi var ungur batt hann mannbrodd á enni griðungs þannig að honum gengi betur í baráttu við önnur naut og kemur viðurnefnið þaðan. Á unglingsárum blandaði Brodd-Helgi sér í deilur bændanna Svarts og Skíða og fékk Svart dæmdan sekan. Svartur flúði upp á Smjörvatnsheiði. Brodd-Helgi sótti þar að honum vígalegur mjög með skjöld og steinhellu sem hann girti í brók sína neðan við skjöldinn. Felldi hann Svart og varð af því frægur. Frá barnæsku var mikið vinfengi með Brodd-Helga og Geiti í Krossavík. Brodd-Helgi átti Höllu, systur Geitis, og sonur þeirra Bjarni Brodd-Helgason var fóstraður upp í Krossavík. En afskipti þeirra vina af örlögum og eigum Hrafns Austmanns sem hafði vetursetu í Krossavík og hvarf þegar setið var að vetrarblóti í Haga varð til þess að vinátta þeirra kólnaði. Brodd-Helgi skildi við Höllu og kvæntist Þorgerði silfru úr Fljótsdal. Deilumál þeirra fyrrum vinanna mögnuðust og urðu að fullum fjandskap. Þingmenn þeirra Geitis og Brodd-Helga lentu í deilum og allt varð til að slíta vinfengi þeirra. Jókst ójöfnuður Brodd-Helga svo að bændum þótti nóg komið. Talið er að Geitir hafi fellt Brodd-Helga á vorþingi í Sunnudal. Fyrir áeggjan Þorgerðar stjúpu sinnar vó Bjarni Geiti fóstra sinn og frænda. En sagan var ekki öll. Þorkell sonur Geitis tók við goðorði föður síns en Bjarni Brodd-Helgason við goðorði að Hofi. Höfðu þeir alist upp saman í Krossavík og voru systkinasynir. Bjarni reyndi að sættast við Þorkell en tókst ekki og Þorkatli mistókst í þrígang að hefna. Lokaátökin urðu svo á orrustuvelli við Eyvindarstaði. Bjarni fór með sigur af hólmi, sættist hann síðar við Þorkell og bauð honum að Hofi til dvalar. Þriggja áratuga hefndum var þar með lokið.
Tangasporður
Vopnafjarðarkauptún stendur á Kolbeinstanga og tala íbúar í sveitinni gjarnan um að fara út á Tanga þegar farið er í kaupstað. Ysti hluti tangans nefnist Tangasporður. Þar er engin byggð en landslagið er mjög sérstakt með óvenjulegum klettamyndunum og ljósum sandfjörum. Á Tangasporði eru þrjú fell, Fagrafjall fremst, Miðfell og Taflan yst.  Skemmtilegt er að ganga út á Tangasporðinn eftir vegarslóða sem liggur frá vegamótunum, þar sem vegur 85 og 917 skarast, fyrir ofan þorpið. Þá er gengið eftir svokölluðum námuvegi í gegnum lítinn skógarlund og þaðan út á Tangann. Mikið fulgalíf er á Tangasporðinum, sérstaklega austan megin, og í fjörunni yst á Tanganum má oft sjá seli slaka á í fjöruborðinu.  Einnig er hægt að ganga eftir vegarslóða sem liggur frá veginum sem liggur að Leiðarhöfn, austan megin á Tanganum. Þessar leiðir tengjast en einnig er skemmtilegt að ganga meðfram klettabrúnunum austan megin og fara þannig hring í kringum fellin þrjú á Tangasporðinum. 
Virkisvík
Virkisvíkin er undurfagur staður en litadýrð setlaga víkurinnar blasir þar við ásamt stuðlabergi og foss steypist fram af þverhníptum björgunum. Elsta þekkta ofansjávarberg á Íslandi er á Austfjörðum og Vestfjörðum. Það er 15-16 milljóna ára og því frá míósentíma á tertíer. Jarðlagastaflinn frá tertíer er myndaður úr hraunlagasyrpum með stöku setlögum á milli. Slík setlög, í þykkari kantinum, hafa löngum verið viðfangsefni rannsókna, enda finnast oft í þeim gróður- eða dýraleifar sem geta gefið töluverðar upplýsingar um loftslag á þeim tíma sem setið settist. Í Vopnafirði eru tvö slík setlög, allþykk. Annað er í Virkisvík en hitt er í Bustarfelli í Hofsárdal.
Vopnafjarðarkirkja
Vopnafjarðarkirkja var tekin í notkun árið 1903 og er nú friðuð. Fram að því var engin kirkja í þorpinu en kirkjustaðir voru á Refstað og Hofi. Hönnuður kirkjunnar var Björgólfur Brynjólfsson frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal og danska verslunarfélagið Örum og Wulf lagði til lóð undir hana.  Altaristaflan í Vopnafjarðarkirkju er eftir Jóhannes Kjarval og nefnist Frelsarinn talar til fólksins. Jón Helgason biskup á að hafa sagt, þegar hann heimsótti kirkjuna, að fólkið á myndinni væri eins og púkar í helvíti. Þó á að hafa fylgt á eftir að fólkið virtist hlusta vel á Krist þrátt fyrir það. 
Hellisheiði eystri
Hellisheiði eystri liggur milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs. Þegar komið er frá Vopnafirði er ekið um Hlíðarveg nr. 917 fyrir fjarðarbotninn og svo út með suðurströnd Vopnafjarðar út í Böðvarsdal um 20 km leið. Þar liggur vegurinn áfram upp snarbrattar brekkur upp á Hellisheiði. Það eru um 14 km yfir heiðina. Þegar komið er frá Fljótsdalshéraði er ekið frá þjóðvegi 1 skammt norðan við brúna yfir Jökulsá á Dal inn á veg nr. 917 og áfram um 33 km leið út Jökulsárhlíð. þar til komið er út undir Héraðsflóa. Þar liggur leiðin uppá heiðina upp með Hellisá en vegurinn er hluti af ferðaleiðinni Við ysta haf.    Það er ævintýri að fara yfir Hellisheiði, vegurinn er einn brattasti og hæsti fjallvegur landsins og fer hæst í um 665 m hæð. Hann er þó vel fær öllum bílum yfir sumarið en lokaður og ekki ruddur yfir veturinn. Þar sem vegurinn liggur hátt leggur vetur að snemma á haustin og vorar að sama skapi seint. Gróðurinn uppi á heiðinni ber þess merki og má þar t.d. finna jöklasóley og fleiri fjallaplöntur og vorblómin sjást gjarnan þar þegar komið er vel fram á sumar. Umferð er að jafnaði ekki mikil um heiðina svo hægt er að fara sér rólega og njóta náttúru, friðsældar og útsýnis. Vopnafjarðarmegin, áður en komið er í drög Fagradals, er brekka sem heitir Fönn, enda leysir þar sjaldnast snjó með öllu á sumrin. Sagt er að þegar það gerist, boði þau náttúruundur mjög harðan vetur. Á björtum degi er útsýnið af austurbrún heiðarinnar stórfenglegt allt frá óravíddum hafsins til víðáttumikils láglendis og fjalla Fljótsdalshéraðs. Við ströndina erHéraðssandurinn, kolsvartur og oft brimkögraður fjalla á milli. Inn frá honum er víðlent, flatt og mikið gróið láglendi. Handan við flatlendið er tignarlegur fjallgarðurinn milli Héraðs og fjarða þar sem hin tilkomumiklu Dyrfjöll draga einkum að sér athyglina. Inn til landsins sér til dala Fljótsdalshéraðs og hálendis. Jökulsá á Dal og Lagarfljót hafa mótað flatlendið með framburði á jökulaur og sandi og með því að flæmast um flatlendið og finna sér mismunandi farvegi á leið sinni til sjávar og skera þannig landið sundur í eyjar. Mörg örnefni svæðinu bera eyjanöfn sem vísa til þess. Heimildir og rannsóknir benda til að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi bæði Jökulsá á Dal og Lagarfljót, að minnsta kosti að hluta, runnið til austurs yfir í farveg Selfljóts, sem rennur um Hjaltastaðaþinghá, og þá hafi öll fljótin runnið tilsjávar við Unaós við austurenda Héraðssands. Ósinn hafi þá verið skipgengur. Eftir að Kárahnjúkavirkjun reis fer jökulvatn að mestu um Lagarfljót og var ós þess grafinn út þar sem hentugt þótti að festa hann.    Útskaginn milli Héraðsflóa og Vopnafjarðar hefur ekki heildarheiti en stundum er talað um Kollumúla eða Múla. Kattárdalur og Fagridalur eru allmiklir dalir sem ganga inn í skagann norðanverðan, utan við Böðvarsdal. Milli þeirra er Dýjafjall, skærgrænt af dýjamosa og áberandi séð frá veginum um heiðina,. Utarlega á skaganum er miðja fornrarmegineldstöðvar sem kennd hefur verið við Fagradal og kölluð Fagradalseldstöð. Þessi eldstöð var virk fyrir um 14,5 milljónum ára og er elsta þekkta megineldstöðin á Austurlandi. Aðeins hluti eldstöðvarinnar er sýnilegur ofan sjávarmáls og einungis það sem hefur orðið eftir þegar ísaldarjökullinn rauf og mótaði svæðið. Afurðir eldstöðvarinnar sjást í fjölbreyttum gerðum bergs á stóru svæði kringum hana t.d. litríkt berg svo sem ljóst líparít. Vegurinn um Hellisheiði liggur innan áhrifasvæðis þessarar eldstöðvar þótt ummerkin um hana séu sýnilegri utar á skaganum. Það var lengi búið í Fagradal og þótti það góð hlunnindajörð með selveiði, reka, æðarvarpi og útræði. Þar var um tíma rekinnsérstæður skóli þar sem nemendur lærðu hljóðfæraleik, söng og hannyrðir auk bóklegra greina. Fagridalur fór í eyði 1964.   Fyrir tíma bílvega var Hellisheiðin ein af þeim leiðum sem farin var milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar. Hún var kaupstaðarleið þeirra sem bjuggu í Jökulsárhlíð en þeir sóttu verslun til Vopnafjarðar. Einnig var póstleið um Hellisheiði. Árið 1959 var rudd slóð yfir heiðina og um 1965 var opnað þar fyrir almennri umferð. Vegurinn var í fyrstu frumstæður og torfær en hefur mikið verið endurbættur. Það er um 40 km styttra að fara um Hellisheiði milli Vopnafjarðar og Egilsstaða miðað við að fara þjóðveginn um Háreksstaðaleið og Vesturárdal.    Af Hellisheiði er leið í Þerribjarg og Múlahöfn. Frá veginum yfir Hellisheiði neðarlega í Köldukinn liggur vegslóði til norðausturs yfir Dýjafjall til Kattárdals. Hann er ekinn þar til komið er að bílastæði og upplýsingaskilti í Kattárdalsdrögum. Þar hefst gönguleiðin niður í Múlahöfn og Þerribjarg. Leiðin er brött og nokkuð erfið og ætti helst einungis að fara í góðu skyggni. Stikað er frá skiltinu fram á brún ofan við Múlahöfn. Þaðan liggur kindagata niður fyrir brúnina niður skriðuhrygg og niður að Múlahöfn. Höfnin er náttúrusmíð gerð af meistarans höndum, umgirt bríkum og dröngum á tvo vegu. Múlahöfn er náttúruleg höfn en erfitt var að koma vörum sem þar var skipað upp til byggða. Frá Múlahöfninni er gengið meðfram sjónum í norður út á ytri tangann. Þar blasir Þerribjarg við og þar undir Langisandur. Þerribjarg og umhverfið má kalla meistarastykki í náttúrusmíð í hjarta hinnar fornu Fagradalseldstöðvar. Gulir, gulbleikir og svartir klettar með fjölbreyttum myndunum, toppum, dröngum og skriðum standa frá heiðarbrún og niður í fjöruna ofan við grænbláan sjóinn. Útsýnið yfir Héraðsflóann og út á opið haf er stórfenglegt.   Það eru margir áhugaverðir áningarstaðir aðgengilegir rétt við veg nr. 917 sitt hvoru megin Hellisheiðar sem tilvalið erað taka tíma í að skoða. Austanmegin má nefna gönguleið sem liggur út á Landsenda rétt áður en beygt er upp á Hellisheiði. Vopnafjarðarmegin má nefna, Skjólfjörur og Ljósastapa rétt innan við Böðvarsdal og nokkru innar eru Virkisvík, Gljúfursárfoss og Drangsnes.