Hellisheiði eystri
Hellisheiði eystri liggur milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs. Þegar komið er frá Vopnafirði er ekið um Hlíðarveg nr. 917 fyrir fjarðarbotninn og svo út með suðurströnd Vopnafjarðar út í Böðvarsdal um 20 km leið. Þar liggur vegurinn áfram upp snarbrattar brekkur upp á Hellisheiði. Það eru um 14 km yfir heiðina. Þegar komið er frá Fljótsdalshéraði er ekið frá þjóðvegi 1 skammt norðan við brúna yfir Jökulsá á Dal inn á veg nr. 917 og áfram um 33 km leið út Jökulsárhlíð. þar til komið er út undir Héraðsflóa. Þar liggur leiðin uppá heiðina upp með Hellisá en vegurinn er hluti af ferðaleiðinni Við ysta haf.
Það er ævintýri að fara yfir Hellisheiði, vegurinn er einn brattasti og hæsti fjallvegur landsins og fer hæst í um 665 m hæð. Hann er þó vel fær öllum bílum yfir sumarið en lokaður og ekki ruddur yfir veturinn. Þar sem vegurinn liggur hátt leggur vetur að snemma á haustin og vorar að sama skapi seint. Gróðurinn uppi á heiðinni ber þess merki og má þar t.d. finna jöklasóley og fleiri fjallaplöntur og vorblómin sjást gjarnan þar þegar komið er vel fram á sumar. Umferð er að jafnaði ekki mikil um heiðina svo hægt er að fara sér rólega og njóta náttúru, friðsældar og útsýnis. Vopnafjarðarmegin, áður en komið er í drög Fagradals, er brekka sem heitir Fönn, enda leysir þar sjaldnast snjó með öllu á sumrin. Sagt er að þegar það gerist, boði þau náttúruundur mjög harðan vetur. Á björtum degi er útsýnið af austurbrún heiðarinnar stórfenglegt allt frá óravíddum hafsins til víðáttumikils láglendis og fjalla Fljótsdalshéraðs. Við ströndina erHéraðssandurinn, kolsvartur og oft brimkögraður fjalla á milli. Inn frá honum er víðlent, flatt og mikið gróið láglendi. Handan við flatlendið er tignarlegur fjallgarðurinn milli Héraðs og fjarða þar sem hin tilkomumiklu Dyrfjöll draga einkum að sér athyglina. Inn til landsins sér til dala Fljótsdalshéraðs og hálendis. Jökulsá á Dal og Lagarfljót hafa mótað flatlendið með framburði á jökulaur og sandi og með því að flæmast um flatlendið og finna sér mismunandi farvegi á leið sinni til sjávar og skera þannig landið sundur í eyjar. Mörg örnefni svæðinu bera eyjanöfn sem vísa til þess. Heimildir og rannsóknir benda til að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi bæði Jökulsá á Dal og Lagarfljót, að minnsta kosti að hluta, runnið til austurs yfir í farveg Selfljóts, sem rennur um Hjaltastaðaþinghá, og þá hafi öll fljótin runnið tilsjávar við Unaós við austurenda Héraðssands. Ósinn hafi þá verið skipgengur. Eftir að Kárahnjúkavirkjun reis fer jökulvatn að mestu um Lagarfljót og var ós þess grafinn út þar sem hentugt þótti að festa hann.
Útskaginn milli Héraðsflóa og Vopnafjarðar hefur ekki heildarheiti en stundum er talað um Kollumúla eða Múla. Kattárdalur og Fagridalur eru allmiklir dalir sem ganga inn í skagann norðanverðan, utan við Böðvarsdal. Milli þeirra er Dýjafjall, skærgrænt af dýjamosa og áberandi séð frá veginum um heiðina,. Utarlega á skaganum er miðja fornrarmegineldstöðvar sem kennd hefur verið við Fagradal og kölluð Fagradalseldstöð. Þessi eldstöð var virk fyrir um 14,5 milljónum ára og er elsta þekkta megineldstöðin á Austurlandi. Aðeins hluti eldstöðvarinnar er sýnilegur ofan sjávarmáls og einungis það sem hefur orðið eftir þegar ísaldarjökullinn rauf og mótaði svæðið. Afurðir eldstöðvarinnar sjást í fjölbreyttum gerðum bergs á stóru svæði kringum hana t.d. litríkt berg svo sem ljóst líparít. Vegurinn um Hellisheiði liggur innan áhrifasvæðis þessarar eldstöðvar þótt ummerkin um hana séu sýnilegri utar á skaganum. Það var lengi búið í Fagradal og þótti það góð hlunnindajörð með selveiði, reka, æðarvarpi og útræði. Þar var um tíma rekinnsérstæður skóli þar sem nemendur lærðu hljóðfæraleik, söng og hannyrðir auk bóklegra greina. Fagridalur fór í eyði 1964.
Fyrir tíma bílvega var Hellisheiðin ein af þeim leiðum sem farin var milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar. Hún var kaupstaðarleið þeirra sem bjuggu í Jökulsárhlíð en þeir sóttu verslun til Vopnafjarðar. Einnig var póstleið um Hellisheiði. Árið 1959 var rudd slóð yfir heiðina og um 1965 var opnað þar fyrir almennri umferð. Vegurinn var í fyrstu frumstæður og torfær en hefur mikið verið endurbættur. Það er um 40 km styttra að fara um Hellisheiði milli Vopnafjarðar og Egilsstaða miðað við að fara þjóðveginn um Háreksstaðaleið og Vesturárdal.
Af Hellisheiði er leið í Þerribjarg og Múlahöfn. Frá veginum yfir Hellisheiði neðarlega í Köldukinn liggur vegslóði til norðausturs yfir Dýjafjall til Kattárdals. Hann er ekinn þar til komið er að bílastæði og upplýsingaskilti í Kattárdalsdrögum. Þar hefst gönguleiðin niður í Múlahöfn og Þerribjarg. Leiðin er brött og nokkuð erfið og ætti helst einungis að fara í góðu skyggni. Stikað er frá skiltinu fram á brún ofan við Múlahöfn. Þaðan liggur kindagata niður fyrir brúnina niður skriðuhrygg og niður að Múlahöfn. Höfnin er náttúrusmíð gerð af meistarans höndum, umgirt bríkum og dröngum á tvo vegu. Múlahöfn er náttúruleg höfn en erfitt var að koma vörum sem þar var skipað upp til byggða. Frá Múlahöfninni er gengið meðfram sjónum í norður út á ytri tangann. Þar blasir Þerribjarg við og þar undir Langisandur. Þerribjarg og umhverfið má kalla meistarastykki í náttúrusmíð í hjarta hinnar fornu Fagradalseldstöðvar. Gulir, gulbleikir og svartir klettar með fjölbreyttum myndunum, toppum, dröngum og skriðum standa frá heiðarbrún og niður í fjöruna ofan við grænbláan sjóinn. Útsýnið yfir Héraðsflóann og út á opið haf er stórfenglegt.
Það eru margir áhugaverðir áningarstaðir aðgengilegir rétt við veg nr. 917 sitt hvoru megin Hellisheiðar sem tilvalið erað taka tíma í að skoða. Austanmegin má nefna gönguleið sem liggur út á Landsenda rétt áður en beygt er upp á Hellisheiði. Vopnafjarðarmegin má nefna, Skjólfjörur og Ljósastapa rétt innan við Böðvarsdal og nokkru innar eru Virkisvík, Gljúfursárfoss og Drangsnes.