Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Söfn og sýningar í Fjarðabyggð

Breiðdalssetur
Í húsnæði setursins er sýning um notkun borkjarna til að varpa ljósi á leyndardóma íslenskrar jarðfræði, þar á meðal eldgosin í Surtsey og hraunstaflann mikla sem myndar Austurland. Einnig getur þar að líta upplýsingar um fræðimennina George Walker og Stefán Einarsson og muni úr þeirra fórum. George Walker var einn fremsti eldfjallafræðingur 20. aldarinnar. Hann vann brautryðjendarannsóknir á jarðsögu Íslands á Austurlandi, kortlagði meðal annars hina fornu Breiðdalseldstöð og renndi stoðum undir flekakenninguna. Breiðdælingurinn Stefán Einarsson var prófessor í málvísindum við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum. Hann var afkastamikill og fjölhæfur fræðimaður, einkum á sviði hljóðfræði og bókmenntafræði, og sennilega hefur enginn fyrr og síðar kynnt Ísland og íslenskar bókmenntir jafn ítarlega fyrir enskumælandi heimi. Opnunartími safnsins Sumaropnun (1. júní til 31. ágúst): Sunnudaga - fimmtudaga kl. 12:00-16:00 Lokað er á föstu- og laugardögum. Aðgangur ókeypis. Vetraropnun (1. september - 31. maí) Engir fastir opnunartímar eru á veturna. Starfsfólk er yfirleitt á staðnum milli 10:00- 16:00 á virkum dögum og gestum er velkomið að líta við. Einnig er hægt að bóka heimsóknir fyrirfram á netfangið mariahg@hi.is. Verið velkomin!
Steinasafn Petru
Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir hafði  áhuga á fallegum steinum alla ævi, en byrjaði að safna þeim fyrir alvöru 1946. Steinarnir hennar eru langflestir úr Stöðvarfirði og af Austurlandi því Petra leitaði ekki mikið að steinum í öðrum landsfjórðungum. Árið 1974 ákvað Petra að opna heimili sitt fyrir öllum þeim sem vildu skoða steinana hennar. Fjölmargir sækja safnið heim á hverju ári og er Steinasafn Petru einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi. Það fer ekki fram hjá neinum þeim sem sækir safnið heim að Petra var afkastamikill steinasafnari. Færri vita að söfnunaráhugi hennar einskorðaðist ekki bara við steinasöfnun. Petra safnaði merktum pennum, bollum og fleiri smáhlutum auk þess sem hún hefur safnað hverskonar náttúrugripum svo sem eggjum, skeljum og kuðungum í marga áratugi. Vissulega hefur hús Petru tekið á sig svipmót safns en það er þó fyrst og síðast heimili. Opið frá 1. maí til 15. október, 09:00 - 17:00 alla daga vikunnar. Kaffi Sunnó Árið 2015 varð gamall draumur að veruleika þegar Kaffi Sunnó var opnað. Þar gefst gestum kostur á að kaupa sér matarmiklar súpur og brauð, heita og kalda drykki og gómsætt bakkelsi. Opið frá 1. maí til 15. október, 09:00 - 17:00 alla daga vikunnar.
Fransmenn á Íslandi
Frakkar á Íslandsmiðum er nýjasta perlan á safnastreng Fjarðabyggðar. Safnið er til húsa í tveimur reisulegum byggingum sem Frakkar reistu upp úr aldamótunum 1900 eða Læknishúsinu og Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði.  Meginsýning safnsins er þó í hvorugu húsanna, heldur  í undirgöngum sem tengja þau saman. Frakkar á Íslandsmiðum er án efa eitt athyglisverðasta safn landsins. Ekki aðeins fyrir hönnun þess og nálgun við viðfangsefnið, heldur einnig vegna andrúmsloftsins sem tekist hefur að skapa. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og skynjar áhorfandinn glöggt aðstæður þeirra og daglegt líf. Þá veitir safnið einnig glögga innsýn í starfsemi Franska spítalans og merka starfsemi hans upp úr aldamótunum 1900. Endurgerð Minjaverndar á Frönsku húsunum á Fáskrúðsfirði lauk sumarið 2014. Húsin eru alls fimm og eru auk Læknishússins og Franska spítalans, Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið.  Endurreisnarsaga húsanna er með merkari framkvæmdum Minjaverndar og sú viðamesta utan höfuðborgarsvæðisins. Frönsku húsin gegna á ný mikilvægu hlutverki fyrir bæjarlíf Fáskrúðsfjarðar, en nú sem Fosshótel Austfirðir, sælkerastaðurinn l'Abri og safnahús Fransmanna á Íslandi. Litla kapellan hlaut blessun 26. júlí 2014 og er eina byggingin sem heldur upprunalegu hlutverki sínu.  Safnið er opið alla daga kl. 10:00-18:00 (15.maí - 30.september) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.  Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna hér
Íslenska stríðsárasafnið
Andi stríðsáranna endurvakinn Gestir Íslenska stríðsárasafnsins hverfa rúm 70 ár aftur í tímann, allt aftur til 5. áratugarins þegar heimsstyrjöldin síðari geisaði. Sýningar safnsins gera þessu tímabili vönduð skil, bæði út frá sjónarhóli hins almenna hermanns í setuliði bandamanna og íbúa Reyðarfjarðar. Safnið er staðsett við bragga sem voru hluti af stórum spítalakampi. Sjá má líkan af kampnum ásamt aðstöðu óbreyttra hermanna og yfirmanna. Fjöldi upprunalegra muna glæða safnið lífi og veita óvenjulega innsýn í þessa löngu liðnu tíma, þá ógn sem stöðugt vofði yfir en einnig hversdagslegar aðstæður og tískustrauma. Íslenska stríðsárasafnið geymir óvenjulega tíma í lífi íslensku þjóðarinnar og skapar ógleymanlegar stundir þeim sem það heimsækja.  
Safnahúsið á Norðfirði
Húsið sem á sér merka sögu hefur að geyma þrjú glæsileg söfn undir sama þaki. Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar Tryggvi Ólafsson er fæddur árið 1940 á Norðfirði. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Tryggvi er meðal þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslendinga. Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar Á safninu eru áhugaverðir hlutir sem tengjast sjávarútvegi, bátasmíði, járn- og eldsmíði og einnig gömlum atvinnuháttum á Íslandi. Þarna er að finna eftirlíkingu af eldsmiðju föður Jósafats þar sem Jósafat lærði og byrjaði starfsferil sinn. Náttúrugripasafnið í Neskaupstað Safnið var stofnað 1965.  Fyrsta sýning þess var opnuð sumarið 1970 í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað,  en árið 1971 var sýningarsalur safnsins opnaður að Mýrargötu 37.  Var Hjörleifur Guttormsson fyrsti forstöðumaður safnsins og aðalhvatamaður þess.  Árið 1989 flutti safnið að Miðstræti 1,  þar sem það var til húsa til ársins 2006, en þá var það flutt í Safnahúsið á Norðfirði, Egilsbraut 2. Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga ásamt ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskar plöntuvísindasafn og skordýrasafn. Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga ásamt ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskar plöntuvísindasafn og skordýrasafn. Safnahúsið er opið alla daga vikunnar frá 1. júní - 31. ágúst frá kl. 13:00 - 17:00
Norðurljósahús Íslands
Í smábæ austur á fjörðum er að finna Norðurljósahús Íslands. Þar er boðið upp á norðurljósasýningu  í  Wathneshúsinu  en  þar  verður  sýningin  staðsett  þangað  til Norðurljósahús Íslands  opnar  í  endanlegri  mynd  í  Bryggjuhúsinu  árið  2018.  Sýningin  byggir á  mögnuðum  myndum  þeirra  Jónínu  og  Jóhönnu  og  ber  heitið “Dansað við fjöllin”. Myndirnar eru teknar í Fáskrúðsfirði þar sem hinn tignarlegi og  fagri  fjallahringur  umlykur  fjörðinn  og  gerir  því  norðurljósaupplifunina einstaka. 
Náttúrugripasafnið á Norðfirði
Íslensk náttúra í nærmynd í Safnahúsinu. Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga og ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskt plöntuvísindasafn og skordýrasafn.  Náttúrugripasafnið í Neskaupstað var stofnað 1965. Upphafsmaður að stofnun safnsins var Bjarni Þórðarson þáverandi bæjarstjóri. Hjörleifur Guttormsson líffræðingur var fyrsti forstöðumaður safnsins og vann að uppsetningu þess. Fyrsta sýningin var opnuð í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað sumarið 1970. Unnið hefur verið að umhverfisrannsóknum á vegum Náttúrustofu Austurlands, m.a. á hálendinu Norðaustan Vatnajökuls vegna virkjanaframkvæmda og annast stofan eftirlit og ráðgjöf vegna mannvirkjagerðar fyrir Náttúruvernd ríkisins. Á árinu 2002 tók Náttúrustofa Austurlands við rekstri safnsins af Fjarðabyggð. Safnið er eitt af þremur söfnum Safnahússins á Norðfirði og er á þriðju og efstu hæð hússins. Safnið er opið alla daga kl. 13:00-21:00 (maí-ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.
Menningarstofa Fjarðabyggðar
Menningarstofa Fjarðabyggðar starfar í Fjarðabyggð og undir henni Tónlistarmiðstöð Austurlands, en hún er miðstöð tónlistar á Austurlandi og er leiðandi í fræðslu og framþróun listgreinarinnar í landshlutanum. Menningarstofa Fjarðabyggðar var sett á laggirnar árið 2017 og hlutverk hennar er að styðja við og efla menningarstarf í Fjarðabyggð á breiðum grundvelli. Öflugt og fjölbreytt menningarlíf er grundvallarþáttur í að gera Fjarðabyggð að góðum stað til að búa á, og þar leikur Menningarstofa lykilhlutverk. Menningarstofa er vöktunaraðili menningarumhverfis í Fjarðabyggð sem felst í að greina þarfir ólíkra hópa samfélagsins og koma til móts við þarfir og langanir sem flestra. Menningarstofa starfar með fjölbreyttum aðilum í menningar- og listalífinu og styður þá og eflir til góðra verka. Menningarstofa leggur áherslu á að tryggja aðgengi allra íbúa svæðisins að menningu og listum, óháð búsetu, uppruna og þjóðfélagsstöðu. Menningarstofa Fjarðabyggðar er tengiliður við grasrótarsamtök á sviði menningar, svo sem áhugaleikfélög og kóra og stuðlar að góðu aðgengi til viðburðarhalds í húsnæði á vegum sveitarfélagsins. Menningarstofa er tengiliður leik,- grunn- og tónlistarskóla, safna og annarra stofnana sveitarfélagsins við fagaðila úr skapandi greinum. Menningarstofa vinnur markvisst að auknu aðgengi að skapandi námi og starfi í samstarfi við fræðslustjóra, íþrótta- og tómstundarfulltrúa og Safnastofnun Fjarðabyggðar. Menningarstofa er vakandi fyrir því að draga svið og stofnanir að borðinu, leiða samstarf og leggja til samstarfsverkefni þar sem við á. Tónlistarmiðstöð Austurlands var stofnuð 2001 og starfar samkvæmt samþykkt frá 2018 en í dag fer Menningarstofa Fjarðabyggðar fyrir starfseminni. Tónlistarmiðstöð/Menningarstofa er samstarfsaðili annarra menningarmiðstöðva á Austurlandi varðandi stefnumótun í málefnum tónlistar fyrir landshlutann og samstarfsverkefna á breiðum grunni. Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar Austurlands er að:  a) Standa vörð um tónlistarstarf, tónlistarfólk og tónlistarskóla. Hlúa að vaxtarsprotum á sviði tónlistar, svo sem starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Austurlands. b) Vinna að þróunarstarfi og fræðslu á sviði tónlistar. c) Vinna að eflingu samstarfs á sviði tónlistar og halda úti fjölbreyttum samstarfsverkefnum með stofnunum innan Austurlands, sem utan. d) Standa fyrir tónleikahaldi sem eflir menningarlæsi í samfélaginu og eykur þekkingu á fjölbreyttum straumum og stefnum í tónlist. Markmiðið með fræðsluverkefnum Tónlistarmiðstöðvar er að stuðla að sjálfstæði og sjálfsöryggi barna til að iðka tónlist í sínu daglega lífi, í leik og starfi. Fræðsluverkefnin eru byggð uppá mismunandi aðferðum til að miðla þessari hugmyndafræði til barna og ungmenna, t.d. með fyrirlestrum, vinnustofum og viðburðum á sviði tónlistar. Lagt er upp með að börn tileinki sér aðferðir til tjáningar og miðlunar á hugmyndaheimi sínum en um leið að gefa þeim innsýn í fjölbreytt tækifæri hvað varðar nám og starf til framtíðar. Fræðsluverkefni Tónlistarmiðstöðvar stuðla að auknu menningarlæsi barna og ungmenna, þá einkum sem snýr að tónlist, en það er eitt af markmiðum Sóknaráætlunar Austurlands.
Sjóminjasafn Austurlands
Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Sjóminjasafnið er staðsett í gömlu verslunarhúsi, Gömlu búð, sem byggt var 1816. Safnið þykir einstaklega skemmtilega framsett, fjölbreytt og fróðlegt heim að sækja. Það er á tveimur hæðum. Safnið er opið alla daga kl. 13:00-17:00 (júní-ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.
Randulffs-sjóhús
Randulffssjóhús á Eskifirði er starfrækt í samvinnu við Ferðaþjónustuna Mjóeyri og er þar rekið veitingahús yfir sumartímann þar sem boðið er upp á mat úr héraði. Randulffssjóhús er opið frá kl 12-21 alla daga sumarsins og er með matseðil bæði í hádeginu og á kvöldin og kaffimatseðil yfir daginn. Hægt er að panta fyrir hópa á öðrum tímum. Þar starfa lærðir kokkar sem leggja mikla áheyrslu á ferskan mat úr nágrenninu.  Randulffssjóhús er í eigu Sjóminjasafns Austurlands. Húsið var byggt um 1890 og var lengst notað sem síldarsjóhús en síðan Sjóminjasafnið eignaðist það hefur það tengst safnastarfi safnsins. Sjóhúsið er núna opið almenningi. Búið er að koma upp gestamóttöku í sjóhúsinu og þar er matsalur sem rúmar allt að áttatíu manns.  Auk gestamóttöku og matsölu er hluti hússins nýttur til sýningarhalds á hlutum  sem tengdir eru sjóhúsinu og þeirri starfsemi sem þar hefur verið í gegn um tíðina. Á efri hæðinni er verðbúð sjómannanna í sinni upprunalegu mynd og sýningarsalur. Húsið er tilvalið fyrir hópa sem vilja eiga glaðan dag, til dæmis ættarmót, grillveislur og annan mannfögnuð og fer vel um allt að 80 manna hópa.   Saga Randulffssjóhúss í stuttu máli  Upp úr 1870 hafði síldveiði verið stunduð í Noregi um langan tíma og voru aðferðir við veiðarnar orðnar þróaðar og voru síldveiðar norðmanna stór atvinnuvegur. En um þetta leiti hvarf síldin við Noreg og stóðu menn uppi ráðalausir.  Fréttist þá frá farmönnum sem höfðu siglt til Íslands, að þar væru mikla síld að sjá inni á Austfjörðum og einnig á Eyjafirði. Ákváðu þá nokkrir síldveiðimenn að fara til Íslands og kanna veiðiskap þar. Þá kunnu Íslendingar enga leið til þess að veiða síldina, þó að nóg væri til af henni við fjöruborðið og urðu að láta sér nægja að dorga fyrir þorsk.  Var þetta fyrir almenna fátækt og þekkingarleysi. Fluttu því nokkrir Norðmenn veiðibúnað sinn hingað, fyrst til Austfjarða og síðan til Eyjafjarðar og veiddu vel. Með þeim fyrstu sem komu til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, voru Peter Randulff, sem settist að á Hrúteyri  við Reyðarfjörð og J.E. Lehmkuhl sem byggði upp veiðistöð sína á Eskifirði, á þeim stað þar sem Jóhann Klausen byggði Netaverkstæði árið 1960  Norðmaðurinn Fredrik Klausen sá um síldveiðarnar fyrir Lehmkuhl og flutti til Eskifjarðar með sína fjölskyldu. Nokkrum árum síðar byggði Lehmkuhl aðra veiðistöð skammt innan við stöð Randulffs á Reyðarfjarðar ströndinni. Lehmkuhl og Randulff, unnu mikið saman og þegar Peter Randulff byggði Randulffssjóhúsið á Eskifirði árið 1890 þá mun sonur Fredriks, Þorgeir Klausen hafa tekið við stjórnun á síldveiðunum á nýju stöðinni. Þorgeir Klausen kvæntist dóttur Randulffs og þegar Randulff féll frá árið 1911 mun Þorgeir og bróðir hans Friðrik hafa eignast sjóhúsið, en það hefur alla tíð síðan verið kallað Randulffs-sjóhús. Þeir bræður stunduðu svo síldveiðar í botnnet og lagnet og notuðu til þess lítinn mótorbát, ásamt gömlu nótabátunum sem voru róðrarbátar.  Einnig veiddu þeir þorsk sem var saltaður og þurrkaður, eins og gert var áður en frystihúsin komu til sögunnar.  Eftir að þeir bræður Þorgeir og Friðrik féllu frá, á árunum 1955-1960 eignuðust börn þeirra húsið og var það í umsjá Thors Klausen sem var sonur Friðriks. Thor var mikill veiðimaður og veiddi hann bæði síld og þorsk og einnig veiddi hann með byssu sinni, sel og hnísu, sem er minnsti hvalur við Ísland og sjófugla á vetrum og notaði hann þá alltaf lítinn róðrarbát.  Síðari árin stundaði hann kolaveiðar í net á litlum trillubát og gaf hann safninu báða þessa báta. Sjóminjasafn Austurlands keypti helming sjóhússins og bryggjunnar af dóttur Þorgeirs, árið 1982 og nokkrum árum síðar gaf Thor safninu sinn hluta eignarinnar. Safnið hefur endurbætt húsið og bryggjuna, þannig að það er að mestu leiti eins og það var upphaflega.  Thor lést í umferðarslysi árið 2004.                    
Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar
Tryggvi Ólafsson var fæddur árið 1940 á Norðfirði. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Tryggvi Ólafsson er einn þekktasti samtíma-myndlistarmaður Íslands. Opið frá 13:00 - 17:00, alla daga, frá 1. júní til 31. ágúst.Á veturna eftir samkomulagi við forstöðumann
Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar
Safnið var stofnað af vélstjóranum og athafnamanninum Jósafat Hinrikssyni sem ættaður var frá Neskaupstað. Safnið byggir á munum sem tilheyra sjávarútvegi, járn- og eldsmíði, bátasmíði og gömlum atvinnuháttum. Einnig geymir safnið eftirlíkingu af eldsmiðju Hinriks Hjaltasonar, föður Jósafats, þar sem Jósafat lærði og hóf starfsferil sinn. Safnið er áhugaverð heimild um framkvæmdir og smíðatækni fyrri ára. Það var áður til húsa í Súðavogi 4 í Reykjavík, þar sem Vélaverkstæði J. Hinrikssonar var til húsa. Árið 2000 afhentu erfingjar Jósafats Fjarðabyggð safnið til varðveislu í Neskaupstað.  Safnið er eitt af þremur söfnum Safnahússins í Neskaupstað og er á 2. hæð hússins. Safnið er opið alla daga frá 13:00 - 17:00 (1. júní-31. ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.

Aðrir (1)

Gallerí Snærós Fjarðarbraut 42 755 Stöðvarfjörður 475-8931