Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Klifbrekkufossar
Klifbrekkufossar er stórfengleg fossasyrpa innst inn í botni Mjóafjarðar. Þar falla margir litlir fossar í röð sem mynda fallega og myndræna heild. Fossarnir blasa við hægra megin við þjóðveginn þegar ekið er niður af Mjóafjarðarheiðinni.
Dalatangi
Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir Mjóafirði. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og giljum. Er Dalatangi birtist, er því líkast sem sé maður staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka á Íslandi. Við Dalatangavia opnast mikið útsýni til norðurs, allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merka sögu, sá eldri var reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Ottos Wathne árið 1895. Hann er hlaðinn úr blágrýti með steinlími á milli. Yngri vitinn, sem nú er í notkun, var reistur 1908. Á Dalatanga er fallegt býli og túnjaðrar býlisins nema við sjávarbrúnir. Við bæjarhúsin eru skrúðgarður og gróðuhús.
Prestagil
Prestagil er lítið gil innst í Mjóafirði, sunnanmegin. Nettur en fallegur foss rennur um gilið sem dregur nafn sitt af þjóðsögu um tröllskessu sem tældi tvo presta inn í gilið. Þetta er einstaklega fallegt útivistarsvæði.
Asknes gönguleið
Að Asknesi í Mjóafirði má sjá leifar af gamalli hvalstöð, sem reist var af Norðmönnum um aldamótin 1900. Var hún sú stærsta í heiminum á þeim tíma. Þegar umsvif stöðvarinnar voru í hámarki unnu þar um 200 manns en í dag búa aðeins um 40 manns í Mjóafirði öllum. Það liggur enginn vegur út á Asknes en þangað er skemmtilegt að ganga frá veginum innst í firðinum.
Dalatangaviti
Á Dalatanga eru tveir vitar. Þann eldri lét útgerðarmaðurinn Ottó Wathne byggja árið 1895. Hann kostaði sjálfur byggingu vitahússins sem er hlaðið úr blágrýti með steinlími á milli. Danska vitamálastofnunin lagði svo til ljóstæki, steinolíulampa og spegil til að magna ljósið. Að byggingu lokinni tók landssjóður rekstur vitans að sér. Yngri vitinn var reistur árið 1908 og er enn í notkun. Ekið er út á Dalatanga úr Mjóafirði. Þegar Dalatangi birtist er því líkast sem maður sé staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Á Dalatanga er verðurathugunarstöð og hafa þar farið fram reglubundnar veðurmælingar frá árinu 1938.