Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Helgustaðanáma gönguleið
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni.  Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er kennt við Ísland á fjölörgum tungumálum, til dæmis er enska heitið Iceland spar. Mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim kemur úr Helgustaðanámu en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Í dag er silfurbergið friðlýst og stranglega bannað er að nema það brott. 
Hólmatindur gönguleið
Hólmatindur, 985 metra hár, er stolt Eskfirðinga en glæsilegur tindurinn stendur austan megin í firðinum, gengt þorpinu. Krefjandi gönguleið liggur á fjallið en á toppnum geta göngugarpar kvittað í gestabók.  Hólmatindur er eitt af „Fjöllunum fimm í Fjarðabyggð “ en það er verkefni sem skólabörn fundu upp en Ferðafélag Fjarðamanna hrinti í framkvæmd.    Powered by Wikiloc
Mjóeyri
Mjóeyri er einstaklega fallegur staður utan við þorpið í Eskifirði. Þar eru viti og fjara þar sem skemmtilegt er að leika sér. Mjóeyri var síðasti aftökustaðurinn á Austurlandi og þar er að finna upplýsingaskilti á dys síðasta mannsins sem tekinn var af lífi á staðnum. Á Mjóeyri er í dag rekin blómleg ferðaþjónusta þar sem meðal annars er hægt að fá leiðsögn um svæðið.  
Oddsskarð
Það var ekki fyrr en árið 1949 að Norðfjörður komst fyrst í vegasamband við nágrannabyggðirnar. Leiðin lá um Oddsskarð, einn hæsta fjallveg á landinu, sem jafnan var erfiður yfirferðar vegna snjóþyngsla. Var því hafist handa við gerð jarðganga undir Oddsskarð á árunum 1974-1977. Göngin eru 626 m löng í 632 m h.y.s.  Við Oddsskarð er miðstöð vetraríþrótta. Þar er frábært skíðasvæði og skemmtilegar gönguleiðir. Þar hafa verið haldnar Týrólahátíðar um páska síðustu ár. Margháttuð fjölskylduskemmtun er í boði á skíðasvæðinu.
Vöðlavík gönguleiðir
Vöðlavík, sem stundum er kölluð Vaðlavík, er eyðivík sunnan Gerpis en þar voru áður nokkrir sveitabæir. Vegarslóði liggur til Vöðlavíkur, sem er einungis opinn á sumrin og er þá fær er fjórhjóladrifnum bílum.  Tvær stikaðar gönguleiðir liggja til Vöðlavíkur frá Eskifirði /Reyðarfirði, annars vegar yfir Karlsskálastað og hins vegar fyrir krossanes. Frá Vöðlavík liggur gönguleið yfir í Sandvík. Það er um fimm klukkustunda ganga um Gerpisskarð, sem fer hæst í um 700 m.y.s.  Úr víkinni og heiðinni, Vöðlavíkurheiði, eru tveir fjallstindar einna mest áberandi: Snæfugl og Hestshaus. Hörmuleg sjóslys hafa orðið við Vöðlavík á liðnum árum. Til dæmis strandaði skipið Bergvík SU í Vöðlavík í desember 1993. Mörgum er enn í minni að við tilraun til þess að ná skipinu á flot strandaði björgunarskipið Goðinn í víkinni þann 10. janúar 1994. Einn fórst við strandið en þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli bjargaði öðrum skipverjum. Um þessa atburði er fjallað í heimildarmyndinni Háski í Vöðlvík.
Völvuleiði
Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð frá utanaðkomandi árásum um aldir.  Sagnir segja að svo lengi sem enn sé steini bætt í leiðið og því við haldið muni ekkert illt henda firðina.  Þegar Tyrkir sigldu að Austfjarðaströndum gerði völvan sér lítið fyrir og huldi fjörðinn slíkri þoku að ræningjarnir sáu sitt óvænna og snéru við.  Er völvuþokunni léttir er þó frábært útsýni út Reyðarfjörðinn.
Hólmanes
Hólmanes milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir. Hólmanes er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru.  Á leið út í nesið frá Eskifirði má líta útlínur hvals sem skólabörn mynduðu í fjörunni.  Auðvelt aðgengi er að bjarginu og tilvalinn staður til fuglaskoðunar.  Mikilfengleg urð verður á vegi göngugarpa Reyðafjarðarmegin. Powered by Wikiloc
Bleiksárfoss
Bleiksá og fossar hennar er það fyrsta sem fangar augað þegar beygt er af þjóðveginum inn til Eskifjarðar. Hæsti fossinn í fossaröð Bleiksár er nefndur Bleiksárfoss. Búið er að beina ljóskösturum upp að Bleiksárfossi og er það oft mikið sjónarspil að sjá hann á myrkrum vetrarkvöldum, hvort sem hann rennur niður hlíðina eða er í klakaböndum. Bleiksáin getur verið mjög mikil um sig í haust- og vorrigningum. Slíkar aðstæður gera Bleiksána og fossa hennar ekki síður áhugaverða.