Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Gönguleiðir á Borgarfirðir eystri

Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu. Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.    
Stórurð
Stórurð er ein mesta náttúruperla Íslands og nýtur vaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjalla í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má enn sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Í urðinni er einstök náttúra; sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, blágrænar tjarnir og sérstakur gróður. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn. Fimm merktar gönguleiðir liggja að Stórurð. Sú mest gengna er frá Vatnsskarði en einnig liggur leið frá Héraði, úr Njarðvík og tvær frá Borgarfirði eystri. Ekki er ráðlegt að ganga í Stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr en orðið er snjólétt. Gera þarf ráð fyrir í það minnsta sex klukkustundum í ferðina.   Powered by Wikiloc
Álfaborg
Rétt hjá þorpinu Bakkagerði á Borgarfirði eystri er tignarleg klettaborg sem kölluð er Álfaborg. Álfadrottning Íslands er sögð búa í Álfaborginni en margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn, eru til. Margir staðir eru tengdir þessum sögum um samskipti álfa og manna, t.d. er Kirkjusteinn á Krækjudal inn af Borgarfirði kirkja borgfirskra álfa.   Þægileg gönguleið liggur upp á Álfaborgina en þar er hringsjá sem útskýrir allan fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð. Auk þess er tjaldsvæðið á Borgarfirði við Álfaborgina.  
Innra Hvannagil
Innra Hvannagil er í Njarðvík við Borgarfjörð eystri. Frá bílastæði er gengið um 100 m upp með ánni, upp fyrir berggang sem byrgir útsýn inn í gilið. Þar opnast ævintýraheimur. Fallegar bergmyndanir eru í gilbörmunum og botn árinnar er mjög sérstakur á flúðum skammt uppi í gilinu.
Kúahjalli og Hrafnatindur
Margar merktar gönguleiðir liggja frá- og í kringum þorpið Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Ein þeirra liggur upp á Kúahjalla og Hrafnatind ofan við þorpið. Gengið er upp með Bakkaá og þaðan á Hrafnatind en frá honum er einstakt útsýni yfir þorpið og Borgarfjörð allan. Áfram er gengið út Kúahjalla og niður að minnisvarða um listmálarann Jóhannes S. Kjarval við Geitavík þar sem hann ólst upp.  Gangan tekur um þrjár klukkustundir og liggur hæst í 350 m hæð. Skammt ofan við minnisvarðann er stígur að rústum smalakofa Kjarvals undir Kúahjalla.
Loðmundarfjörður
Loðmundarfjörður er fallegur eyðifjörður norðan við Seyðisfjörð. Líklega var byggð í firðinum allt frá landnámi og vitað er að 143 einstaklingar bjuggu þar árið 1860 en þeim fór fækkandi eftir það. Loðmundarfjörður fór í eyði árið 1973. Enn má sjá heilmikla minjar um byggð á svæðinu og enn stendur lítil kirkja við Klyppstað. Í dag er Loðmundarfjörður vinsæll viðkomustaður göngufólks enda er fjörðurinn hluti af Víknaslóðum. Hægt er að keyra til Loðmundarfjarðar seinni hluta sumars, en nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. 
Urðarhólar
Í Afrétt, innst í Borgarfirði Eystri, er fallegt framhlaup. Þangað liggur stikuð, um 3 km. létt gönguleið. Gengið er framhjá fallegu vatni, Urðarhólavatni. Ánægjulegt er að ganga um framhlaupið, þar sem skiptast á hólar og tjarnir, og lengja þannig gönguna að vild.
Brúnavík
Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar eystri og er hluti gönguleiðakerfisins um Víknaslóðir. Gönguleiðin er alls um 12 km, þægileg og fögur dagleið. Gengið er frá bílastæði við Hafnarhólma og um Brúnavíkurskarð (360 m) austan Geitfells. Nokkuð bratt er niður að bæjarstæðinu og þarf að vaða eða stikla Víkurána ef farið er út á sandinn. Áin er oftast greiðfær niðri við sjó og vel þess virði að ganga niður í fjöru því hún er einstaklega litfögur. Til baka er gengið inn víkina, hvoru megin ár sem óskað er, inn að Brotagili en þar skammt frá er göngubrú yfir ána. Frá Brotagili er genginn vegslóði yfir Hofstrandarskarð (320 m). Gangan tekur um 5-6 klst. eftir vörðuðum leiðum og vegslóða.
Breiðavík
Húsavík
Gönguskarð