Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fjallahjól í Hallormsstaðarskógi

Solla Sveinbjörns, Local Icelander segir frá fjallahjólaferð í Hallormsstðarskógi:"Það að hjóla umkringdur skógi gefur svolítið nýja upplifun, lyktin setur punktinn yfir i-ið. Hallormsstaðarskógur er svo sannarlega skemmtilegur áfangastaður til að hjóla."

Ef þú ert einn af þeim sem ferðast með hjól á toppnum, þá ætti Austurland að vera á listanum yfir áfangastaði fyrir þig.

Það að hjóla umkringdur skógi gefur svolítið nýja upplifun, lyktin setur punktinn yfir i-ið. Hallormsstaðarskógur er svo sannarlega skemmtilegur áfangastaður til að hjóla.

Hér eru tvær leiðir sem ég mæli með að skoða á því svæði.

Fyrst er það 10km hringur í skóginu sem hefur fengið nafnið Hallormur. Þessi hjólaleið er mjög einföld og skemmtileg t.d. fyrir fjölskyldur eða fyrir fólk sem vill fara og njóta og skoða skóginn, mjög skemmtilegir kaflar inn á milli. Það eru góð svæði sem hægt er að stoppa, borð og stólar á leiðinni þar sem útsýni er yfir Lagarfljótið og einnig litlar lautir sem hægt er að leggjast útaf eða borða nestið.

Það er auðveldlega hægt að hjóla nokkra útgáfur af þessari leið og stytta sér leið ef fólk vill ekki hjóla alla 10 km sérstaklega ef fólk er með ung börn. Ferðin hefst við Hótel Hallormsstað og þarf að fara yfir smá lækjarsprænu í upphafi ferðarinnar en það er bara skemmtilegt á heitum degi. Síðan liggur leiðin í gegnum skóginn upp og niður smá brekkur og er heildarhækkun leiðarinnar innan við 200 metrar.

Ég mæli með að hlaða GPX skrá af leiðinni í síma eða úr og fylgja eftir þegar hjólað er í gegnum skóginn, það er auðveldara en maður heldur að villast af leið og í gleðinni á leið niður þá tókum við til dæmis vitlausa beygju og enduðum óvart á að fara 7 kílómetra útgáfu af leiðinni í staðinn fyrir 10. En það kom ekki að sök og var leiðin hin skemmtilegasta þrátt fyrir vitlausa beygju.

Hér má finna link á leiðina á síðu hengifoss.is sem að býr yfir upplýsingum um hjólaleiðir á svæðinu https://www.hengifoss.is/is/utivist/hallormur-fyrir-hjol, mæli með að kíkja á það.Hin leiðin sem ég mælið með er aðeins meira strembin og hægt að velja mismunandi útgáfu eftir því hvað leið er farin. Þá hefst ferðin við Hallormsstaðarskóla og farið er upp í Bjargselsbotna. Leiðin er í kringum 5 km og tæplega 300 metra hækkun. Ef fólk vill fara hring er best að byrja austar og vinna sig upp þá leið, þar þarf að bera hjólin smá spöl af leiðinni þar sem eru frekar brattir stigar. Það er skemmtilegra að fara niður þeim megin til að sleppa við stigana á niðurleiðinni.

Einnig er hægt að fara sömu leið upp og niður sem er þá vestan megin, þá er hægt að hjóla nánást alla leið upp og niður. Mæli mikið með að fara niður að vatninu ef ákveðið er að fara vestari leiðina. Vatnið í Bjargselsbotnum er einkar fagurt og mjög gaman að stoppa þar og njóta.

Síðan er hægt að gera aðeins meira úr leiðinni fara upp línuveg sem framhald af vestari leiðinni og svo aftur niður sömu leið. Þá er rúmlega 13km og 550m hækkun.

Þessi leið er að hluta „single track“ sem er mjög skemmtilegt að hjóla. Leiðin er bæði í gegnum skóg og líka í opnara landslagi þar sem útsýni er mjög gott. Mæli einnig með að setja track af þessari leið inn áður en farið er af stað en það er mjög auðvelt að taka vitlausa beygju í skóginum.


Vona að þessar tvær hjólaleiðir kom einhverjum að góðum notum og þið eigið eftir að njóta í hjólaferð í Hallormsstaðarskógi. Það er einnig fullt af fleiri skemmtilegum leiðum á Austurlandi og einnig fyrirtæki sem bjóða uppá hjóla til leigu og ferðir svo eitthvað sé nefnt.

Góða skemmtun að hjóla á Austurlandi, ef þú hefur áhuga á að fylgjast með ævintýrum mínum og hjólaferðum getur þú fylgst með á instagram @localicelander

Höfundur
Solla Sveinbjörns
Local Icelander