Fréttatilkynning - Breytingar á Gistihúsi Egilsstaða
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstaðir, býður þér að líta við fimmtudaginn 5. nóvember nk. kl. 17 og skoða innviði hótelsins, nú þegar einhverjum mestu breytingum frá upphafi rekstrar í Gistihúsinu er að ljúka. Verið velkomin!
Fréttatilkynning frá Gistihúsi Egilsstaða:
Gistiþjónustu á Egilsstaðabýlinu má rekja allt aftur til ársins 1884. Gistihúsið sjálft var reist í tveimur áföngum á árunum 1903-4 og 1947. Hjónin Hulda Elisabeth Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónasson keyptu Gistihúsið árið 1997 og gerðu á rúmlega áratug umfangsmiklar endurbætur á húsinu. Á fyrstu árum nýrrar aldar fóru þau að velta fyrir sér hvort stækka bæri hótelið og í október 2013 var tekin skóflustunga að nýrri 1500 m2 byggingu sunnan við gamla húsið. Tekið var á móti gestum í nýrri gestamóttöku og gistiálmu hálfu ári síðar.
Auk móttökunnar í tveggja hæða byggingu voru byggðir tveir lyftuturnar og fjögurra hæða hús með 32 herbergjum. Fjögur þeirra eru lúxusherbergi og 6 eru hönnuð sérstaklega með þarfir fatlaðra í huga. Á neðri hæð móttökuhússins er heilsulindin Baðhúsið - Spa, með heitri smálaug, köldum potti, sánu og hvíldaraðstöðu með útsýn yfir Lagarfljót. Að auki eru í nýbyggingunni þvottahús, starfsmannaaðstaða, snyrtingar, geymslu- og skrifstofurými.
Eldri byggingin hefur einnig tekið lítilsháttar stakkaskiptum, og má þar helst nefna metnaðarfullan og framsækinn veitingastað hótelsins; Eldhúsið – Restaurant.
Nú renna fallega saman eldri byggingin frá árinu 1903 og sú yngri frá 2014 og mætast í rauninni gömul öld og ný. Er það samdóma álit þeirra sem til þekkja að í húsakynnum hótelsins gæti mikillar smekkvísi og jafnframt frumlegrar og virðingarverðrar nálgunar við gamla muni í nútímasamhengi.
- - - - -
Nánar um hótelið:
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir
Gistihúsið Egilsstöðum er rómað, fjölskyldurekið hótel sem hvílir á gömlum merg íslenskrar bændamenningar. Hótelið mætir ströngustu nútímakröfum um gæði, glæsileik og aðbúnað um leið og það varðveitir uppruna sinn sem nær aftur til ársins 1903 og ljær því einstakan blæ. Gestir geta valið um velbúin og rómantísk antík-herbergi í eldri hluta hótelsins eða nútímaleg herbergi yngri byggingar. Glæsileg heilsulind, Baðhúsið - Spa, er á jarðhæð.
Hjarta Austurlands
Gistihúsið stendur á bökkum hins mikla og fagra Lagarfljóts við Egilsstaði og er þannig miðsvæðis á Austurlandi. Hótelið liggur vel við samgöngum í lofti, á láði og legi og er t.d. aðeins klukkustundarlöng ferð flugleiðis milli Reykjavíkur og Egilsstaðaflugvallar, en hótelið er þar skammt frá. Það er einnig upplagt sem miðpunktur ferða um austurhluta Íslands, allt frá hálendi til strandar. Fjölbreytt afþreying er í boði á svæðinu.
Rómaður veitingastaður
Veitingastaður Gistihússins, Eldhúsið - Restaurant, hefur getið sér orðs og eru metnaður og alúð þar allsráðandi. Matargerðin er sprottin úr traustum hefðum, en hráefnin gjarnan sett í nýtt og framsækið samhengi. Hráefni er ætíð fyrsta flokks, að mestu íslenskt, gjarnan lífrænt og oft fengið úr næsta nágrenni, enda er leitast við að nýta og kynna afurðir úr héraði. Þriggja rétta kvöldverðurinn Beint frá býli er stolt eldhússins. Veitingastaðurinn er opinn bæði hótelgestum og almenningi.
Gistihúsið er svipmikið hótel með öllum nútímaþægindum en um leið er það hlýlegt og umvefjandi. Hótelið er innan vébanda félagsins Ferðaþjónustu bænda. Starfsfólk er um 40 manns; einvalalið sem hefur vellíðan og ánægju gestanna í fyrirrúmi.
Verið velkomin að njóta gestristni og góðs aðbúnaðar í fögru umhverfi við Lagarfljót.
Nánari upplýsingar veitir Hulda Daníelsdóttir í síma 471-1114.