Menningarsumarið á Austurlandi
Það er ekki bara miðnætursólin, hærra hitastig og tækifærið til að komast út og gleyma sér í náttúrunni heldur er sumarið líka árstíð hátíða og menningar á Austurlandi!
Þegar sumarfríin hefjast viljum við gjarnan hittast og gera okkur glaðan dag. Það eru alltaf nægar ástæður til að hitta vini og fjölskyldu en fyrir austan eru þessar ástæður m.a. tónlist, menning og matur. Söfnin okkar og menningarmiðstöðvar eru þess vegna opin upp á gátt á sumrin.
Hér að neðan geturðu fræðst um helstu menningarviðburði sem verða á dagskrá menningarsumarsins á Austurlandi. Athugaðu samt að þetta er fyrir utan stórfenglegar gönguleiðir, lundabyggðir, myndræn gljúfur, magnaða fossa og allt annað sem náttúran á Austurlandi hefur upp á að bjóða á sumrin þegar allt er í blóma!
Það eru ótal ástæður til að ferðast austur á sumrin! Við lofum að taka vel á móti þér!
Hátíðir á sumrin
Settu þessar í dagatalið:
20. júní – Sumarsólstöður
Lengsti dagur ársins. Á þessum degi er sólarupprás á Egilsstöðum klukkan 01:46 og sólsetur er 22 klukkustundum síðar eða klukkan 12:10. Jafnvel þegar sólin hefur sest (þessar tvær klukkustundir) situr hún rétt fyrir neðan sjóndeildarhringinn og gefur nóg af náttúrulegu ljósi. Þú getur skoðað sólarupprásar- og sólarlagstíma, og lengd daga, fyrir Egilsstaði og hvaða áfangastað sem er á netinu á timeanddate.com.
Hallormsstaðaskógur. Ljósmynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer
22. júní – Skógardagurinn mikli í Hallormsstaðaskógi
Á þessum degi heiðrum við stærsta skóg landsins, Hallormsstaðaskógi. Skógardagurinn mikli haldin á flötinni í Mörkinni á Hallormsstað. Á þessum degi er boðið upp á ýmsa afþreyingu fyrir fjölskylduna, skógarhlaup (styttri og lengri vegalengdir). Þá má nefna líka landsmótið í skógarhöggi, grillveislu, tónlist og dans!
15. júní - 20. júlí - Innsævi
Lista- og menningarhátíðin Innsævi er nú haldin í þriðja sinn en hún fer fram annað hvert ár. Hátíðin stendur yfir í mánuð og eru viðburðunum dreift um alla Fjarðabyggð, allt frá Breiðdalsvík til Mjóafjarðar. Framundan eru rúmlega 30 viðburðir; listasýningar, tónleikar, götuleikhús, safnaopnanir jóga og íhugun og margt fleira.
12. - 14. júlí - Vopnaskak
Sumarhátíðin Vopnaskak er haldin árlega á Vopnafirði en yfir helgina eru fjölbreyttir og fjölskylduvænir viðburðir hafðir í fyrirrúmi. Sundlaugapartý í mögnuðu umhverfi Selárlaugar, tónleikar og íþróttaviðburðir, að ógleymdum Bustarfellsdeginum.
15. - 21. júlí – LungA, Seyðisfjörður
Listahátíðin LungA var haldin í fyrsta skipti árið 2000 en hátíðarhaldarar hafa tilkynnt að í ár verði hún haldin í síðasta sinn. Á hátíðinni er listum og menningu fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og fleiri viðburðum. Hátíðin endar með uppskeruhelgi, sýningum og tónleikum. Ljóst er að fjöldi fólks á eftir að sakna LungA hátíðarinnar en einnig minnast hennar með hlýju. Ekki missa af þessum síðasta sjens til að taka þátt í þessari mögnuðu hátíð!
24.– 28. júlí – Franskir dagar á Fáskrúðsfirði
Frá síðari hluta 19. aldar til ársins 1935 var Fáskrúðsfjörður aðalmiðstöð franskra sjómanna við austurströnd Íslands. Í dag er þessi arfleifð bæjarins lofsungin með vegskiltum á frönsku og alveg einstöku safni sem sýnir þetta tímabil með lifandi hætti og hátíð með frönsku þema í lok júlí, hátíð sem ber heitið Franskir dagar.
27. júlí – Bræðslan á Borgarfirði eystri
Þessa ástsælu tónlistarhátíð er að finna á Borgarfirði eystri. Hún sló strax í gegn hjá ferðalöngum sem halda austur á bóginn enda boðið upp á frábæra tónlist og umgjörðin einstök því tónleikarnir fara fram í gamalli síldarbræðslu. Í vikunni fyrir hátíðina er svo tónleikaröð í Fjarðarborg, félagsheimili Borgarfirðinga, og stemmningin þar engu minni en á Bræðslunni sjálfri.
1. – 4. ágúst – Neistaflug
Þessi þrjátíu ára gamla fjölskylduhátíð, Neistaflug í Neskaupstað er fastur punktur í verslunarmannahelgarplönum margra þar sem heimamenn og gestir geta skemmt sér saman. Tónlist spilar stórt hlutverk í hátíðarhöldunum enda er Neskaupstaður mikill tónlistarbær sem og fjölskylduvænir viðburðir af fjölbreyttum toga.
Nóg af tónleikum
Fyrir utan tónlistina á sumarhátíðunum sem hér hefur verið minnst á eru hér nokkrar tónleikaraðir til við hvetjum alla gesti okkar til að kynna sér:
Tónlistarmiðstöð Austurlands í Eskifjarðarkirkju stendur fyrir reglulegum tónleikaupplifunum á sumrin.
Við mælum með því að þú spyrjist einfaldlega fyrir á kaffihúsinu, gistihúsinu, sundlauginni eða, skoðir samfélagsmiðla, heimasíður sveitarfélaga og VisitAusturland. Það er aldrei að vita hvað þú rekur augun í!
Menningarmiðstöðvar og sýningar
Það er fyrirhafnarinnar virði að athuga hvað menningarmiðstöðvarnar á hverjum stað bjóða upp á yfir sumartímann. Það gætu verið myndlistarsýningar, tónleikar, leiksýningar fyrir utan matinn, kaffið og andrúmsloftið sem þær bjóða upp á. Það margborgar sig að skoða Facebook-síður menningarmiðstöðvanna en þar má finna uppfærðar upplýsingar um það helsta sem er á dagskránni.
Langabúð á Djúpavogi er elsta bygging Djúpavogs (byggð árið 1790). Í dag er hún einn af hornsteinum bæjarfélagsins og þar má finna höggmyndir, minjasafn og notalegt kaffihús. Í Löngubúð eru haldnir viðburðir allt árið; tónleikar, Pup Quiz, upplestrar úr bókum og ýmis konar menningaruppákomur.
The Arctic Creatures revisited. Sumarsýning Skaftfells á Seyðisfirði. Ljósmnyd: Pari Stave.
Í Skaftfelli - Listamiðstöð Austurlands á Seyðisfirði er sumarsýningin Sjávarblámi, opin frá 21. júní til 27. september. Þar rannsaka listamennirnir Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson menningarlegar hugsmíðar og klisjur, ásamt mannlegri hegðun í tenglum við vistfræði, útrýmingu, varðveislu og umhverfi.
Á neðri hæð Skaftfells er svo notalegur og svolítið „artí“ bistró sem býður upp á spennandi matargerð þar sem tekið er mið af árstíðunum og þess sem þær hafa upp á að bjóða. Á sumrin er síðan oft tónlist þegar líður á kvöldið, ýmist lifandi flutningur eða í boði plötusnúðar.
Skaftfell Bistro. Ljósmynd: Michael Novotny.
Skriðuklaustur í Fljótsdal Það er alltaf þess virði að heimsækja hið „fótógeníska“ Skriðuklaustur. Þar má finna safn tileinkað Gunnari Gunnarssyni rithöfundi (1889-1975), rústir 16. aldar klausturs, sýningar og uppákomur. Í Skriðuklaustri er líka þekkt kaffihús sem býður upp á hlaðborð, dýrindis kökur og ljúfflengur matur, með staðbundnu yfirbragði!
Sláturhúsið á Egilsstöðum Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs gengur daglega undir nafninu Sláturhúsið þar sem hún er einmitt til húsa. Þar starfa listamenn, innblásnir af innviðum hússins, og skapa, deila, kenna og lífga þannig upp samfélagið sitt. Sviðslistir eru megináherslan en í Sláturhúsinu er reglulega annars konar viðburðir s.s. myndlistarsýningar og leiksýningar.
Hápunktur sumarsins er sýningin RASK, þar sem mætast ljósmyndarinn Agnieszka Sosnowsla og ljóðskáldið Ingunn Snædal. Samspil ljósmynda og ljóða birtist sem vitnisburður um þróun lands og eyðingu. Þessar ólíku listakonur bregðast á næman hátt við list hvor annarrar og því sem þær skynja og upplifa í röskuðu og rofnu umhverfi. Sýningin er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.
Nágranni Sláturhússins er Tehúsið sem er farfuglaheimili en líka vinalegur kaffibar og tónleikastaður.
Söfn og sýningar
Söfnin á Austurlandi sýna sögu og náttúru svæðisins auk þess að vera vitnisburður um sköpunarkraft fólks sem hefur fundið innblástur í landshlutanum.
Það er tilvalið að heimsækja söfnin á milli atriða í ferðalaginu um Austurland. Á þeim er hægt að öðlast dýpri skilning á lífinu fyrir austan og kafa ofan í liðna tíð.
Bustarfell. Ljósmynd: Jessica Auer
Bustarfell við Vopnafjörð – Inni í fallegu bæjarhúsunum við Bustarfell er frábært safn þar sem hægt er að fræðast um hvernig Ísland varð að nútímasamfélagi með allri þeirri tækni sem einkennir það í dag.
Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum – Í Minjasafninu er ætíð tvær fastar sýningar í gangi: Önnur fjallar um sögu hreindýra á Austurlandi og í hinni er gamalt sveitaheimili til sýnis og tilgangurinn að varpa ljósi á lifnaðarhætti fyrri tíma þar sem hvert heimili þurfti að vera sjálfbært með helstu nauðsynjar.
Franska safnið á Fáskrúðsfirði – Á þessu glæsilega safni má kynna sér magnaða sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur.
Sjóminjasafn Austurlands, Eskifirði. Ljósmynd: Pétur Sörensson
Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði gerir hafinu og þýðingu þess fyrir landshlutann góð skil. Bátar og skip hafa alltaf skipt Íslendinga máli, við höfum notað þau til fiskveiða, verslunar og viðskipta og auðvitað til að ferðast. Ef þú vilt skilja betur tengsl Austurlands við sjóinn er heimsókn á safnið nauðsynleg!
Steinasafn Petru, Stöðvarfirði. Ljósmynd: Jessica Auer
Steinasafn Petru á Stöðvarfirði – Gleymið ykkur í glitrandi safni jarðfræðilegra gimsteina sem heimakonan Petra Sveinsdóttir safnaði á langri ævi sinni.
Safnahúsið á Norðfirði – Þrjú söfn á einum stað! Í safnahúsinu finnur þú náttúrugripasafn, sjóminja- og smiðjusafn og listaverkasafn Tryggva Ólafssonar málara.
Snæfellsstofa, Fljótsdal. Ljósmynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer
Gestastofa Snæfellsstofu – Upplýsingamiðstöð um austursvæði hins stóra og merka Vatnajökulsþjóðgarðs. Þarna má finna fróðlegar og skemmtilegar sýningar sem varpa ljósi á gróður- og dýralíf þjóðgarðsins.
Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði. Það gengur vel að byggja safnið upp eftir skriðuföllin í desember 2020.
Óbyggðasetur Íslands – Innst í fallegum dal finnurðu þennan einstaka viðkomustað. Þarna má gista og prófa alla skapaða hluti. Njóttu íslenskrar fortíðar með lifandi hætti og sökktu þér í sögur Íslendinga á hjara veraldar!
Innsýn í fortíðina
Lindarbakki á Borgarfirði eystri – Þetta litla torfhús er frá 1899 en hlutar þess voru endurbyggðir upp úr 1930. Húsið er vinsælt myndefni ferðamanna enda grasi vaxið þakið og rauðir útveggirnir afar myndrænir. Inni er notalegt og tilvalið að gripa tækifærið og heimsækja fyrri tíð. Ómissandi viðkomustaður á Borgarfirði eystri!
Lindarbakki. Ljósmynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer
Randulffssjóhús á Eskifirði – Veiðiskúrarnir sem liggja við strandlengju Eskifjarðar eru einstaklega sjarmerandi. Þeir eru flestir enn í notkun en á sumrin opnar Randulffssjóhús sem veitingastaður og safn. Njóttu þess að borða ferskan fisk í andrúmslofti fortíðarinnar.
Sænautasel – Dreifbýlislegra verður það ekki á Austurlandi! Gamla Ísland finnur þú í Sænautaseli, þangað skaltu kíkja í heimsókn, gæða þér á pönnukökum og kaffi í torfbyggingingunni. Nú eða tjalda við vatnið í kyrrlátri náttúrunni. Snænautasel er á veginum F907 sem er nær alltaf er greiðfær á sumrin venjulegum ökutækjum
Frekari upplýsingar um áhugaverða viðburði og uppákomur á Austurlandi má finna á viðburðadagatalinu okkar og í Austurlands appinu.
Höfundur: Carolyn Bain
Íslensk þýðing: Jón Knútur Ásmundsson