Mannamót markaðsstofanna 2015
Markaðsstofur landshlutanna standa fyrir viðburðinum Mannamót 2015 sem fer fram fimmtudaginn 22. janúar. Mannamótum er ætlað að mynda og efla tengsl á milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi og auka dreifingu ferðamanna um landið allt.
Það eru markaðstofur landshlutanna sem setja upp viðburðinn fyrir samstarfsfyrirtæki sín en reikna má með að um 150 ferðaþjónustuaðilar kynni starfsemi sína fyrir gestum. Tilgangur Mannamóta er að kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni fyrir ferðaþjónustuaðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði m.a. að vinna að dreifingu ferðamanna um landið allt og efla uppbyggingu heilsársferðaþjónustu.
Reikna má með ríflega fimm hundruð gestum á viðburðinn sem haldinn verður í flugskýli flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) milli kl. 11 og 16, fimmtudaginn 22. janúar.
Ekkert skráningargjald er fyrir gesti af höfuðborgarsvæðinu en þeir eru beðnir um að staðfesta þátttöku fyrir 20. janúar.
Sjá nánar á www.naturaliceland.is