Fljúga beint til Egilsstaða með breska skólakrakka
Þó ekki verði framhald á áætlunarflugi Discover the World milli Lundúna og Egilsstaða næsta sumar þá ætla forsvarsmenn þessarar bresku ferðaskrifstofu að bjóða skólahópum, þar í landi, upp á beint flug á Austfirði. Fyrsta ferðin verður farin í október og að sögn Clive Stacey, forstjóra og stofnanda Discover the World, er nú þegar uppselt í hana.
Hann segir að fleiri brottförum verði bætt við ef eftirspurn reynist næg og er ætlunin að starfrækja þessar ferðir í tengslum við árleg skólafrí í Bretlandi sem haldin eru í febrúar, yfir páska og svo í október.
Of margir á suðvesturhornið
Discover the World hefur um langt skeið skipulagt ferðir fyrir breska skólahópa og segir Stacey að frumkvæðið að þessu flugi til Egilsstaða hafi meðal annars komið frá þeim kennurum sem fylgt hafi nemendum sínum til Íslands um árabil en finnist núna suðvesturhornið orðið of þéttsetið af ferðamönnum. „Við erum því mjög ánægð að geta boðið þessu fólki upp á nýjan valkost því annars er allt eins líklegt að þau hefðu hætt að leggja leið sína til Íslands með nemendur sína.”