Fjörðurinn og leðrið
Eistnaflug hefur á síðustu árum orðið ein athyglisverðasta tónlistarhátíð landsins og á síðasta ári hlaut hún bæði Eyrarrósina og Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarhátíð ársins. Á þriðja þúsund gestir leggja leið sína austur aðra helgi í júlí og aðstandendur Eistnaflugs vilja efla hátíðina með hjálp heimamanna þannig að upplifun tónleikagesta verði sem eftirminnilegust.
Haldinn verður vinnufundur 8. febrúar á Hótel Hildibrand í Neskaupstað sem allir eru velkomnir á en fulltrúar frá ferðaþjónustunni eru sérstaklega hvattir til að mæta.
En hvað er svona merkilegt við Eistnaflug? Hvað dregur fólk alla leið austur og hvað finnst heimamönnum um þetta allt saman?
„Það er eitthvað sem gerist hérna í firðinum þegar Eistnaflug nálgast,“ segir Friðrik Kristinsson eða „Fiddi rokk“ eins og hann er kallaður í Neskaupstað. Hann flutti til bæjarins árið 2005 og fór á sitt fyrsta Eistnaflug árið 2007. „Það koma gámar með græjum sem plantað er fyrir utan íþróttahúsið og það kraumar eitthvað innra með mér. Svo fer maður að sjá þetta fólk hérna, síðhært og leðurklætt – karlarnir skeggjaðir; allir með eitt markmið í huga: Að fara á tónleika og njóta tónlistar. Og þetta gerir mig svo hamingjusaman.“
Fyrir Friðrik er Eistnaflug hin eina sanna árshátíð:
„Það var upplifun og frelsun að fara á Eistnaflug í fyrsta skipti. Ég hafði alltaf haft gaman af rokktónlist en þarna varð ég bara ástfanginn af henni og kom útúr skápnum sem rokkari, með sítt skegg, tattú og pinna. Eistnaflug leyfði mér að verða að því sem mig langaði alltaf innst inni að verða. Ég fann sjálfan mig,“ segir Fiddi og hlær en er samt grafalvara.
„Fiddi rokk“ er ekki einn um þessa upplifun.
Sumartáknin geta jú verið svo margskonar; fyrir suma er það mildur þytur í laufi, fyrir aðra er það ískaldur bjór úti á palli og snarkið í grillinu. En fyrir enn aðra er það koma gesta á Eistnaflug, aðra helgina í júlí ár hvert síðan árið 2005, sem fjölmenna á tjaldsvæðið og í sameiningu halda gestir og heimamenn eitt stærsta rokkpartí ársins.
Leður og skegg
Heimamenn höfðu vissulega séð einn og einn þungarokkara um tíðina en þegar þeir voru komnir nokkrir saman og jafnvel búnir að taka yfir heita pottinn í sundlauginni, tattúveraðir, skeggjaðir og síðhærðir, varð fyrirferðin slík að ekki var annað hægt en að taka eftir þeim.
En þetta má ekki misskiljast:
Þetta var alls ekki fjandsamleg yfirtaka og heimamenn hafa ætíð látið bæinn sinn eftir í þessa fáeinu daga meira en viljugir. Og hátíðin hefur reyndar með tímanum orðið að einskonar „bæjarhátíð“ í þeim skilningi að á henni skemmta heimamenn sér með gestum. Það hefur vakið athygli hversu vel fer á með gestum og þorpurum og það tók síðarnefnda hópinn nokkur ár að komast yfir þá staðreynd hversu vinsamlegir rokkararnir voru. Aldrei með neitt múður, kurteisir og lausir við slagsmálaþörf sem grípur oft gesti úti- og bæjarhátíða. Þetta tengist örugglega þeirri möntru sem kyrjuð hefur verið fyrir hvert einasta Eistnaflug seinni árin:
„Það er bannað að vera fáviti“!
En skýringin er kannski líka sú að Eistnaflug er hvorki bæjar- né útihátíð. Eistnaflug er tónlistarhátíð – menningarhátíð ef við viljum nota enn stærra orð – og hefur hlotið viðurkenningar sem slík. Í fyrra hlaut hún bæði Eyrarrósina, sem er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar, og þá hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarhátíð ársins.
Á hátíðina flykkjast unnendur tónlistar sem eru fyrst og fremst komnir austur til að hlusta á tónlist en auðvitað líka til að drekka bjór í góðra vina hópi. Þó það nú væri.
Fjarðaumhverfið hluti af „sjarmanum“
Saga hátíðarinnar hefur oft verið rakin í fjölmiðlum. Hún var stofnuð af Stefáni Magnússyni, íþróttakennara, sem um skeið var búsettur í Neskaupstað. Hann átti rætur í harðkjarnarokksenunni og í gegnum vinskap gat hann fengið félaga sína úr bænum til að leggja leið sína austur og troða upp í félagsheimili staðarins, Hótel Egilsbúð.
Fyrsta hátíðin gekk vel og Stefán ákvað að halda áfram. Hægt en örugglega gat Eistnaflug sér orðstír fyrir að vera ein skemmtilegasta tónlistarhátíð landsins. Vöxtur hennar varð hraður og á hátíðinni hafa allar helstu rokksveitir landsins komið fram og margar heimsþekktar erlendar hljómsveitir líka s.s. Opeth, Meshuggah, Napalm Death, The Dillinger Escape Plan svo einhverjar séu nefndar og í ár mun hin goðsagnakennda hljómsveit Kreator frá Þýskalandi leika á hátíðinni. Þessi nöfn hafa ef til vill ekki mikla þýðingu fyrir marga en fyrir þá sem þekkja „senuna“ eru þetta bönd sem spila í fyrstu deild, í það minnsta ofarlega í annarri deild.
En stærri hljómsveitir hafa þýtt aukið umfang. Fyrir þremur árum var tekin sú ákvörðun að flytja hátíðina í íþróttahús Neskaupstaðar. Félagsheimilið var hætt að bera þann fjölda sem mætti á tónleika Eistnaflugs en rúmlega tvö þúsund gestir hafa verið á Eistnaflugi undanfarin ár.
Aukið umfang hefur líka þýtt nánara og meira samstarf við sveitarfélagið Fjarðabyggð:
„Fyrir utan íþróttahúsið þarf hátíðin tjaldsvæði, það þarf að tryggja gæslu og alla þessa hluti sem fylgja svona hátíðum,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð. „Samstarfið við Eistnaflug er alveg einstaklega gott og það er gaman að segja frá því að aðstandendur hátíðarinnar koma á „Kommablótið“ í Neskaupstað og þá notum við tækifærið, hittumst, göngum frá samningum og neglum niður hlutverk hvers og eins í framkvæmd tónleikanna síðar um árið,“ segir hann og bætir við að hátíðin hafi mikla þýðingu fyrir sveitarfélagið:
„Í fyrsta lagi er bara gaman að halda svona hátíð, gott fyrir andann í bænum og gott fyrir tónlistarlífið sem er mjög líflegt í Neskaupstað eins og margir vita. Eistnaflug á því vel heima hérna, kynnir bæinn vel og hefur mörg jákvæð hliðaráhrif.
Staðurinn er einstakur og það er ástæðan fyrir því að fólk kemur jafnvel aftur og aftur. Fjarðaumhverfið um hásumar er hluti af stemmningunni og það sem hefur gerst á síðustu árum er að samsetningin hefur breyst þannig að það eru fleiri útlendingar sem koma og þetta fólk dreifir sér á firðina í gistingu. Það hefur góð áhrif á aðra bæjarkjarna í sveitarfélaginu. Svo eru langtímaáhrif líka af hátíðinni. Fólk sem kemur hingað sem tónleikagestir tengist staðnum og vill koma aftur,“ segir Páll Björgvin en dæmi eru um fólk sem flutt hefur austur vegna kynna sinna af staðnum á Eistnaflugi.
Ónýtt tækifæri
Karl Óttar Pétursson, framkvæmdastjóri Eistnaflugs, tekur undir að staðurinn sé hluti af sjarmanum við Eistnaflug og þessa staðreynd hyggjast þeir vinna enn betur með á næstu árum. Nýverið gerði Eistnaflug samstarfssamning við Austurbrú og tilgangur samstarfsins er m.a. sá að komast í betra samband við grasrót ferðaþjónustu á svæðinu: „Margir gestir vilja gjarnan nýta afþreyingarkosti á svæðinu,“ segir hann. „Ég held að það séu mörg spennandi tækifæri fólgin í nánari samvinnu Eistnaflugs og ferðaþjónustunnar á svæðinu og ég er ekkert endilega að tala bara um Neskaupstað. Ný Norðfjarðargöng gera það að verkum að staðurinn er ekki eins einangraður og verið hefur og það þýðir að fólk getur t.d. gist utan Neskaupstaðar eða þess vegna Fjarðabyggðar. Það getur notið alls þess sem Austurland hefur upp á að bjóða og sótt tónleika í Neskaupstað síðdegis eða um kvöldið.“
María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri Austurbrúar, tekur í sama streng og Karl:
„Það eru miklir möguleikar fólgnir í samstarfi við hátíð eins og Eistnaflug sem trekkir mikinn fjölda gesta austur, bæði innlenda og erlenda,“ segir hún. „Ég er sannfærð um að hátíð eins og Eistnaflug mun vaxa enn frekar ef Austfirðingar vinna saman að því að gera hana enn betri. Ein helsta sérstaða hátíðarinnar er staðsetning hennar austur á landi og ég er sannfærð um að í sameiningu getum við skapað ógleymanlega upplifun fyrir tónleikagesti þar sem blandað er saman einstakri náttúru, afþreyingu og vitaskuld frábærri tónlist.“
Samstarfs- og vinnufundurinn verður haldin á Hótel Hildibrand í Neskaupstað þann 8. febrúar. Hann er opin öllum en fulltrúar frá ferðaþjónustunni eru sérstaklega hvattir til að mæta.
Skráning er nauðsynleg og eru áhugasamir beðnir um að senda póst á jonknutur@austurbru.is eigi síðar en 6. febrúar.
Texti: Jón Knútur Ásmundsson.
Mynd: Rhombie Sandoval.