Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Austurland Freeride Festival - Skemmtilegt og ósvikið

Austurland Freeride Festival er einstök fjallaskíða- og snjóbrettahátíð á Austurlandi sem sameinar ævintýri, menningu og samfélag. Þar sem hátíðin hefst á morgun, 7. mars, ræddum við við Steve Wall, ástralskan fjallaskíðakappa sem fann bæði ævintýrið – og ástina – á Íslandi.

Það var ekkert sérstakt plan þegar Steve Wall, kvikmyndatökumaður og brimbrettaiðkandi frá Ástralíu, hélt til Íslands í leit að nýjum ævintýrum. Hann dreymdi um að sameina tvær stærstu ástríður sínar – brimbretti og fjallaskíði – á þessari afskekktu en heillandi eyju. En þegar hann heyrði af Austurland Freeride Festival, lítilli en mögnuðum skíða- og snjóbrettaviðburði á Austfjörðum, tók ferðin óvænta stefnu. Það sem átti að vera stutt ævintýri breytti lífi hans varanlega. 

„Mig dreymdi um daga þar sem ég gæti surfað á morgnana og rennt mér á fjallaskíðum síðdegis,“ segir Steve. Sem fyrr segir voru hann og vinur hans á leið til Íslands án þess að hafa neitt plan en þegar þeir lentu í Keflavík fréttu þeir af Austurland Freeride Festival, lítilli en magnaðri skíða- og snjóbrettahátíð sem haldin er í og í kringum skíðasvæðið í Oddsskarði sem gjarnan eru kallaðir Austfirsku alparnir.

„Ég sendi skilaboð á skipuleggjanda hátíðarinnar og spurði út í aðstæður fyrir skíði og brimbretti. Ég fékk stutt svar: „Komdu bara austur, þar er bæði snjór og brim.“ Það var nóg fyrir okkur,“ segir Steve brosandi.

Ævintýrið byrjar – og lífið breytist

Steve og vinur hans tóku strax stefnuna austur og komu sér fyrir á Randulffssjóhúsi á Eskifirði, skammt frá Oddsskarði. Þar kynntist Steve hópi fólks sem nú eru meðal hans bestu vina á Íslandi. „Það var einstök stemning á hátíðinni. Hún var sett upp af fólki sem vildi deila ástríðu sinni fyrir fjöllum og sjónum. Þarna var snjóbretta- og fjallaskíðafólk alls staðar að úr heiminum en samt var þetta mjög persónulegt og afslappað.“

Þetta varð líka meira en bara ein góð helgi. Á flugvellinum í Helsinki, á heimleið, hitti Steve fyrir tilviljun íslenska ljósmyndarann Berglindi Jóhannsdóttur. Þau eyddu nokkrum dögum saman í Finnlandi og stuttu síðar flaug hún til Ástralíu þar sem þau fóru í tveggja mánaða ferðalag yfir eyðimerkur Ástralíu á Land Cruiser með þaktjald! „Ef þú getur verið með einhverjum í slíku ferðalagi, þá geturðu verið með þeim hvar sem er,“ segir Steve sposkur. Það var engin spurning í hans huga – hann ætlaði að flytja til Íslands.

Hvað gerir Austurland svona sérstakt?

Í dag býr Steve í Grímsnesi ásamt Berglindi, og saman reka þau fyrirtækið Crosswave, sem sérhæfir sig í neðansjávarkvikmyndatöku- og ljósmyndun. En Austurland á enn stóran sess í hjarta hans:

„Fjöllin, firðirnir, litlu þorpin þar sem samfélagið er byggt upp í kringum sjóinn – þetta er eins og að stíga inn í aðra vídd,“ segir hann. „Ég elska hversu hrátt og einangrað svæðið er en um leið hversu samfélögin þarna eru samheldin. Það þekkja bókstaflega allir alla.“

Það sem greinir Austurland Freeride Festival frá öðrum viðburðum, að hans mati, er sú staðreynd að hún hefur haldið sér sem „grassroots“ hátíð. „Margar skíðahátíðir vaxa það mikið að upplifunin breytist en hér eru allir á sömu bylgjulengd. Það skapar ótrúlega orku. Svo er fyrirhöfn fyrir mann að fara alla leið austur og það þéttir hópinn. Allir sem eru þarna, sem eru ekki beinlínis heimamenn, hafa þurft að hafa fyrir því að koma austur.“

Hvað er framundan?

Steve telur að það séu enn ótal möguleikar til að þróa hátíðina. „Ég vona að skipuleggjendur haldi áfram að skapa nýja upplifun í kringum svæðið. Það er ótrúlegt að geta verið á fjallaskíðum, farið á brimbretti og endað daginn í heitum potti – þetta er einstakt.“

Ógleymanleg upplifun

Steve er ekki í neinum vafa um hver sé helsti galdur hátíðarinnar: „Ævintýrið hefst áður en þú byrjar að skíða. Þú ferðast um stórbrotið landslag til að komast austur, hittir hóp af frábæru fólki, lærir á ný svæði og þú lærir að meta og elska villta fegurð Íslands. Já, og svo er maturinn þarna ótrúlegur,“ segir hann og brosir.

Þegar Steve er beðinn um að lýsa Austurlandi í þremur orðum fyrir útivistarfólk, svarar hann án þess að hika: „Skemmtilegt. Samfélagslegt. Ósvikið.“

Það sem þú þarft að vita!

Hvar: Oddsskarð og nærliggjandi fjöll, Austurland, Ísland
Hvenær: 7.–9. mars 2025
Hvað: Austurland Freeride Festival er einstök fjallaskíða- og snjóbrettahátíð sem sameinar útivist og menningu í stórbrotnu landslagi Austfjarða. Hátíðin býður upp á leiðsagðar fjallaferðir, menningarviðburði og samveru í skemmtilegri og afslappaðri stemningu þar sem allir eru velkomnir – bæði harðjaxlar og byrjendur.
Hvernig: Frítt fyrir alla! Skipulagðar fjallaferðir, menningarviðburðir, matur og skemmtun
Aðkoma: Akstur frá Reykjavík (sirka 8 klst.) eða flug til Egilsstaða + bílaleiga
Veður: Veðurútlit gott! Snjókoma í kortunum, fínt grunnlag og vonandi sól
Af hverju mæta?
Einstakt tækifæri til að skíða yfir sjó, hitta frábært fólk og upplifa ósvikið íslenskt ævintýri í fjöllunum.
Extra: Heiti potturinn á Mjóeyri eftir langan dag á fjöllum!
Nánari upplýsingar: www.austurlandfreeride.com // www.facebook.com/AusturlandFreerideFestival  // www.instagram.com/austurlandfreeride