Tangasporður
Vopnafjarðarkauptún stendur á Kolbeinstanga og tala íbúar í sveitinni gjarnan um að fara út á Tanga þegar farið er í kaupstað. Ysti hluti tangans nefnist Tangasporður. Þar er engin byggð en landslagið er mjög sérstakt með óvenjulegum klettamyndunum og ljósum sandfjörum. Á Tangasporði eru þrjú fell, Fagrafjall fremst, Miðfell og Taflan yst.
Skemmtilegt er að ganga út á Tangasporðinn eftir vegarslóða sem liggur frá vegamótunum, þar sem vegur 85 og 917 skarast, fyrir ofan þorpið. Þá er gengið eftir svokölluðum námuvegi í gegnum lítinn skógarlund og þaðan út á Tangann. Mikið fulgalíf er á Tangasporðinum, sérstaklega austan megin, og í fjörunni yst á Tanganum má oft sjá seli slaka á í fjöruborðinu.
Einnig er hægt að ganga eftir vegarslóða sem liggur frá veginum sem liggur að Leiðarhöfn, austan megin á Tanganum. Þessar leiðir tengjast en einnig er skemmtilegt að ganga meðfram klettabrúnunum austan megin og fara þannig hring í kringum fellin þrjú á Tangasporðinum.