Stórurð
Stórurð er ein mesta náttúruperla Íslands og nýtur vaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjalla í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má enn sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Í urðinni er einstök náttúra; sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, blágrænar tjarnir og sérstakur gróður. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn.
Fimm merktar gönguleiðir liggja að Stórurð. Sú mest gengna er frá Vatnsskarði en einnig liggur leið frá Héraði, úr Njarðvík og tvær frá Borgarfirði eystri. Ekki er ráðlegt að ganga í Stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr en orðið er snjólétt. Gera þarf ráð fyrir í það minnsta sex klukkustundum í ferðina.
Powered by Wikiloc