Skrúður
Úti fyrir mynni Fáskrúðsfjarðar er grasi gróna klettaeyjan Skrúður. Skrúðurinn gnæfir tignarlega úr sjó eins og nafnið vitnar um og er ekki á færi loftfælinna að klífa hana. Í eynni er Skrúðshellir, hár til lofts og víður til veggja, talinn stærstur hella á Austurlandi. Í hellinum höfðust vermenn við fyrrum þegar róðrar voru stundaðir frá eynni. Einnig höfðu bændur þar beitiland.
Vel þekktar eru sagnirnar af bóndanum í Skrúðnum, en hann var einn þriggja bræðra. Hinir risarnir höfðust við í Skrúðskambi við Streitishvarf og í Papey. En þeir bræður sáu hver til annars og gátu kallast á. Mikið fuglalíf er í eyjunni og var eggja- og fuglatekja stunduð á árum áður. Eyjan sést einnig frá Reyðarfirði. Við Fáskrúðsfjörð eru ennfremur eyjarnar Æðasker og Andey.