Kúahjalli og Hrafnatindur
Margar merktar gönguleiðir liggja frá- og í kringum þorpið Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Ein þeirra liggur upp á Kúahjalla og Hrafnatind ofan við þorpið. Gengið er upp með Bakkaá og þaðan á Hrafnatind en frá honum er einstakt útsýni yfir þorpið og Borgarfjörð allan. Áfram er gengið út Kúahjalla og niður að minnisvarða um listmálarann Jóhannes S. Kjarval við Geitavík þar sem hann ólst upp.
Gangan tekur um þrjár klukkustundir og liggur hæst í 350 m hæð. Skammt ofan við minnisvarðann er stígur að rústum smalakofa Kjarvals undir Kúahjalla.