Brimnes
Brimnes er eyðibýli sem stendur við norðanverðan Seyðisfjörð. Það stendur undir Brimnesfjalli sem virkar sem skjólgarður fyrir norðanáttinni og er hæst upp af Brimnesbænum þar sem heitir Ytra Rjúpnafell, 771 metra hátt. Illkleif og há klettabelti eru í efri hluta fjallsins en neðar eru hlíðarnar grænar, vaxnar kjarri og lyngi. Utar á skaganum er landið bratt og þar eru urðargil sem eru slæm yfirferðar. Útnesjagróður setur þar svip sinn á landið. Gönguferð
út á Brimnes í góðu veðri er ógleymanleg. Náttúran er stórbrotin og útsýni til hafs og yfir fjörðinn fagurt. Það er einnig tilvalið að hugsa til sögu búsetu á þessum afskekkta stað. Best er að hefja gönguna við Selstaði en þangað liggur
vegur nr. 951 frá Seyðisfirði. Vegarslóði var ruddur út í Brimnes áður en það fór í eyði en er ekki ekinn lengur. Sjóleiðin var lengst af aðalaðdráttaleið ábúenda.
Á Brimnesi var stórbýli á fyrri tíð. Þar þóttu landgæði til búskapar ágæt og sjósókn var stunduð. Nokkur smábýli voru
einnig í nágrenni við Brimnes, m.a. Brimberg sem er nálægt því sem vitinn stendur núna og Borgarhóll um einn km innan við Brimnes. Á Brimnesi var búið fram til 1961 en þá brann íbúðarhúsið. Þar var stunduð mikil útgerð á síðustu árum 19. aldar og í upphafi 20. aldar og myndaðist hverfi (Brimnesbyggð). Brimnesbærinn sjálfur stóð upp af Brimnestanga en skammt utan hans upp af Útvogi var byggt íshús 1894, annað af tveim fyrstu íshúsum landsins. Brimnesviti var byggður 1906 og stendur nokkru utan við Brimnesbæinn. Heimafólk á Brimnesi stundaði útgerð en einnig var fjöldi aðkomubáta sem sóttu þar sjó yfir sumarið og höfðu Brimnesbændur tekjur af þjónustu við þá. Allmörg
hús sem tengdust útgerðinni voru byggð á þessum árum en flest voru einungis notuð yfir sumartímann. Á tímabili undir lok 19. aldar reru allt að 40 árabátar frá Brimnesbyggð yfir sumarið, stór hluti þeirra var frá Færeyjum. Þessi útgerð
lagðist af eftir að vélbátar urðu almennir þar sem ekki skipti lengur jafn miklu máli að það væri stutt að sækja á miðin. Tóftir gamalla bygginga má enn sjá á svæðinu. Skammt utan við bæinn er örnefnið Klausturskemmutangi sem
vitnar um að Brimnes var fyrr á tímum í eigu Skriðuklausturs í Fljótsdal.
Það er ekki bara fallegt, friðsælt og búsældarlegt á Brimnesi. Þar gat náttúran og lífsbaráttan líka verið hörð. Árið 1732 hljóp snjóflóð á Brimnesbæinn og létust þar níu manns en aðrir níu björguðust. Sumar heimildir geta þess að níu dögum síðar hafi fundist fjögurra ára stúlka á lífi í rústunum. Þessi vetur hefur líklega verið snjóþungur og var kallaður Brimnesvetur eftir þetta. Árið 1740 fórst bátur sem m.a. flutti sýslumann einn sem lét þar lífið. Báturinn strandaði á skeri sem síðar va nefnt Sýslumannsnaggur og er við Sléttanesvog um 1 km utan við Brimnesvita. Síðan var það að morgni 1. maí 1922 í logni og þoku að strandferðaskipið Sterling strandaði á þessu sama skeri. Allir um borð, um 50 farþegar og 30 manna áhöfn björguðust. Fólkið komst í land á björgunarbátum og bryti skipsins bar fram veitingar á svonefndum Ostabölum sem eru þar ofan við. Síðan fengu farþegar að sækja föggur sínar í skipið áður en danska varðskipið flutti þá til hafnar á Seyðisfirði. Vörum og ýmiskonar skipsmunum var bjargað úr skipinu
en það eyðilagðist á strandstað. Til eru góðar heimildir um þetta strand, listi með nöfnum farþega og áhafnar og skrá um muni sem björguðust úr skipinu og voru seldir á uppboði. Þessi atburður vakti mikla athygli enda voru sjóflutningar lífæð fyrir byggðirnar á þessum tíma, þar sem strandferðaskipin fluttu fólk, póst- og vörur um landið. Sterling var meðal fyrstu skipa sem íslenska ríkið átti og var á þessum tíma eina strandferðaskipið.