Blábjörg í Berufirði
Norðan megin í Berufirði er áhugavert náttúrufyrirbæri í fjöruborðinu. Skammt austan við bæinn Fagrahvamm, rís sérkennilegur klettahamar sem er ólíkur öllu öðru bergi þar um slóðir, bæði að lit og áferð. Klettahamarinn nefnist Blábjörg enda er á honum blá slikja.
Hér er um að ræða flikruberg, um það bil 9 milljón ára gamalt. Klettahamarinn er vitnisburður um stórkostlegan atburð í jarðsögu Íslands en flikruberg myndast við gjóskuhlaup í miklum sprengigosum. Þegar gosmökkurinn verður þyngri en andrúmsloftið fellur hann saman svo úr verður gjóskuhlaup þar sem brennheit gjóskan þeytist á ógnarhraða niður hlíðar eldfjalla. Er hraðinn slíkur að ekki er á færi nokkurs manns að forða sér undan slíku.